Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur fengið afhent staðfestingarbréf frá Seðlabanka Íslands þar sem fram kemur að bankinn telji það rétt að veita slitabúum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans undanþágu frá fjármagnshöftum til að ljúka gerð nauðasamninga þeirra.
Bjarni hefur lýst því yfir að hann styðji þá niðurstöðu sem Seðlabankinn hefur komist að. Bréf Seðlabankans til Bjarna voru send á mánudag. Þetta kom fram á blaðamannafundi fjármála- og efnahagsráðherra, Seðlabankans og framkvæmdanefndar um losun fjármagnshafta sem stendur nú yfir.
Í greinargerð sem Seðlabanki Íslands hefur birt á vef sínum kemur fram að : "Kaupþing hf., Glitnir hf. og LBI hf. greiða samtals 491 ma.kr. til stjórnvalda í formi stöðugleikaframlags, skattgreiðslna auk endurheimta ESÍ frá umræddum þremur aðilum. Þær endurheimtur renna að lokum til ríkissjóðs í samræmi við reglur um fjárhagsleg samskipti Seðlabanka Íslands og ríkisins". Þar segir einnig að fyrirliggjandi drög að nauðasamningum slitabúanna þriggja uppfylli kröfur laga um gjaldeyrismál um að efndir nauðasamninganna "ásamt fyrirhuguðum mótvægisráðstöfunum leiða hvorki til óstöðugleika í gengis- og peningamálum né raska fjármálastöðugleika, að mati Seðlabanka Íslands".
Beint stöðugleikaframlag verður hins vegar 379 milljarðar króna.
Slitabúin fá lengri frest
Lögð hefur verið fram lagabreytingartillaga á þingi sem veitir slitabúunum frekari frest til 15. mars til að ljúka sínum málum. Í máli fundarmanna kom fram að þetta væri til að tryggja að ekki yrði of mikið álag á dómstólum. Búin áttu upprunarlega að ljúka ferlinu fyrir árslok, annars átti að falla á þau 39 prósent stöðugleikaskattur.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í erindi sínu á fundinum að meginniðurstaða málsins væri sú að slitabúin muni reiða fram stöðugleikaframlög, lengt verði í gjaldeyrisinnlánum og lán greidd upp. Allar endurheimtir sem ríkið fær vegna þessa muna renna til Eignasafns Seðlabanka Íslands, dótturfélag Seðlabankans. Heildarumfang aðgerðanna nú er metið á um 660 milljarða króna en ef fyrri aðgerðir Seðlabankans, eins og lengin láns til Landsbankans, eru taldar með á umfang aðgerðanna að ná yfir 850 milljarða króna.
Seðlabanki Íslands hefur birt greinargerð um mat sitt á vefsíðu sinni.
Már tók sérstaklega fram í erindi sínu að skuldastaða Íslands verði það góð eftir að ferlinu lýkur að hún hafi ekki verið betri síðan á síldarævintýrisárunum á sjöunda áratugnum. Í greinargerð Seðlabankans segir: "Hrein skuldastaða Íslands batnar verulega í kjölfar uppgjörs á grundvelli stöðugleikaskilyrða. Hreinar erlendar skuldir lækka um 3.740 ma.kr. og undirliggjandi erlend staða batnar um 360 ma.kr. beint vegna slitanna en þegar tekið er tillit til annarra þátta og vaxtar nafnvirðis landsframleiðslu er gert ráð fyrir að skuldastaðan fari úr tæplega þriðjungi af landsframleiðslu á þessu ári niður fyrir 10% í lok næsta árs. Þá er ekki búið að taka með í reikninginn lækkun skuldastöðunnar sem mun verða vegna fyrirhugaðs útboðs aflandskróna en ekki er hægt nú að segja til um hversu mikil hún verður. Jafn hagstæð skuldastaða gagnvart útlöndum hefur ekki þekkst í áratugi".
Heildarumfang sagt 856 milljarðar
Sigurður Hannesson, sem fer fyrir framkvæmdanefnd um losun fjármagnshafta, opnaði kynningu sína á því að heildarumfang aðgerðanna væri 856 milljarðar króna. Alls myndu slitabúin greiða 491 milljarði króna í stöðugleikaframlag, skatta og endurgreiðslur. Á meðal annarra aðgerða sem talin eru til eru endurgreiðslur á lánafyrirgreiðslum vegna lána sem stjórnvöld veittu nýju bönkunum árið 2009 upp á 74 milljarða króna. Þá taki slitabúin á sig fjármögnun nýju bankanna til langs tíma upp á 226 milljarða króna.
Í greinargerð Seðlabankans kemur fram að stöðugleikaskattur hefði, að teknu tilliti til nýjustu uppgjöra slitabúanna og gengisbreytinga, numið 770 milljörðum króna. Bankinn telur rétt að leggja áherslu á að fjárhæðir stöðugleikaframlags og stöðugleikaskatts séu ósambærilegar.
Þar segir einnig: "Leið nauðasamninga á grundvelli stöðugleikaskilyrða er mun áhættuminni en skattaleiðin, þar sem girt er fyrir áhættu með margvíslegum ráðstöfunum og áhætta vegna dómsmála verður mun minni".