Segja Búlandsvirkjun eiga „fullt erindi í nýtingarflokk“
Að mati HS orku ætti að endurmeta þá þætti sem taldir voru neikvæðir og urðu til þess að Búlandsvirkjun í Skaftá var sett í verndarflokk þingsályktunartillögu að rammaáætlun. Tillagan verður lögð fram á Alþingi í fjórða sinn á næstunni.
Búlandsvirkjun, ein af fáum stórum vatnsaflskostum rammaáætlunar, ætti fullt erindi í nýtingarflokk – alla vega ætti að skoða vandlega þá þætti sem taldir voru neikvæðir og meta á ný. Það eru ekki margir stórir vatnsaflskostir með góðri miðlun í rammaáætlunum og full ástæða til að meta sérstaklega stöðu þeirra.“
Þetta kemur fram í svörum HS Orku við fyrirspurn Kjarnans um þær virkjanahugmyndir fyrirtækisins sem voru til umfjöllunar í þriðja áfanga rammaáætlunar á árunum 2013-2016. Þeirri vinnu lauk með lokaskýrslu verkefnisstjórnar haustið 2016 og tillögu að flokkun virkjanakosta sem svo aftur var sett óbreytt fram í tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu sem Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, lagði fyrst fram fyrir Alþingi þetta sama haust. Ekki náðist að afgreiða hana áður en stjórnarslit urðu í janúar 2017. Nýr umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttir, lagði tillöguna fram í annað sinn en aftur urðu stjórnarslit og tillagan enn óafgreidd.
Þriðji ráðherrann sem lagði tillöguna fram var Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Hún var fyrst á dagskrá þingsins í hans tíð í umhverfisráðuneytinu vorið 2020 og svo aftur á haustþinginu það sama ár. En málið bifaðist ekki. Nú er komið að fjórða umhverfisráðherranum, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að leggja tillöguna fram og er hún á dagskrá þingsins 31. mars næstkomandi.
Það eru því liðin rúmlega fimm ár frá því að tillagan að þriðja áfanga rammaáætlunar var fyrst lögð fram á Alþingi. Núgildandi rammaáætlun, 2. áfangi, er orðin níu ára gömul, var samþykkt á Alþingi í janúar árið 2013.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan en ljóst er að rammaáætlun, sem á að greiða úr ágreiningi i samfélaginu um virkjana- og náttúruverndarmál, hefur ítrekað strandað í sölum Alþingis. Stjórnmálamönnum hefur ekki lánast að afgreiða þriðja áfanga hennar og eftir því sem árin líða vakna spurningar um hvort þeir virkjanakostir sem í henni eru flokkaðir í ýmist nýtingar-, bið- eða verndarflokk, séu yfirhöfuð fýsilegir í dag, líkt og Skipulagsstofnun benti m.a. á í umsögn sinni um tillöguna fyrir ári síðan.
Einnig má velta fyrir sér hvort forgangsröðun orkufyrirtækjanna, sem leggja flesta kostina fram til umfjöllunar, hafi breyst á þessum langa tíma. Þá má ekki gleyma að á undanförnum árum hafa náttúruverndarsjónarmið hlotið aukinn byr í seglin, ferðamönnum sem koma hingað til að njóta hinnar séríslensku náttúru fjölgaði gríðarlega hratt á árunum fyrir heimsfaraldur og loftslagsmál, angi umhverfisverndar sem fólk telur ýmist kalla á frekari virkjanir eða einmitt ekki, orðin mun fyrirferðarmeiri í allri opinberri umræðu.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem kynntur var síðla síðasta árs, er að finna loforð um að lokið verði við þriðja áfanga rammaáætlunar. Því er hins vegar bætt við, í sömu setningu, að kostum í biðflokki verði fjölgað. Frekari útskýringar hafa stjórnvöld ekki gefið á hvað standi til og spurningum Kjarnans til umhverfisráðherra hefur enn ekki verið svarað.
En að fjölga kostum í biðflokki tillögunnar getur aðeins þýtt tvennt: Að kostir verði færðir úr annað hvort verndarflokki eða nýtingarflokki í þann flokk. Nema að hvort tveggja sé. Hægt er að hreyfa við flokkuninni svo lengi sem Orkustofnun hafi ekki gefið út virkjanaleyfi fyrir kosti í nýtingarflokki eða svæði í verndarflokki hafi verið friðlýst.
Áhrifasvæði hinnar áformuðu Búlandsvirkjunar í Skaftártungu, virkjun Skaftár, hefur ekki hlotið slíka friðlýsingu. Mjög var deilt um virkjunarhugmyndina á sínum tíma og fór þar fremst í flokki Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi á Ljótarstöðum í Skaftártungu. Steinunn Sigurðardóttir skrifaði baráttusögu hennar, Heiða – fjalldalabóndinn, sem kom út árið 2016 og vakti athygli jafnt hér á landi og út fyrir landsteinana. Heiða á nú sæti í sveitarstjórn Skaftárhrepps og var á síðasta kjörtímabili varaþingmaður Vinstri grænna.
Suðurorka, félag sem var og er í helmingseigu HS Orku, stóð að baki áformunum sem miða að því að reisa 150 MW virkjun á vatnasviði Skaftár. Búlandsvirkjun myndi fylgja þrjú lón, tvö minni inntaks- og setlón og 9,3 fermetra miðlunarlón á Þorvaldsaurum. Mesta hæð á stíflum, samkvæmt framlögðum tillögum á sínum tíma, yrði 68 metrar. Mannvirki Búlandsvirkjunar yrði í jaðri miðhálendislínunnar og í nágrenni útilífsmiðstöðvarinnar Hólaskjóls.
Fyrirtækið keypti fyrir mörgum árum rannsóknargögn Landsvirkjunar á svæðinu og vatnsréttindi af mörgum landeigendum, en alls ekki öllum, líkt og greint var frá í Morgunblaðinu árið 2011. „Sumir landeigenda hafa lýst því yfir að þeir muni ekki selja þeim land sitt,“ sagði í greininni.
Verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar rökstuddi þá tillögu sína að Búlandsvirkjun í Skaftá færi í verndarflokk með eftirfarandi hætti:
Vatnasvið Skaftár er með næsthæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað var um í faghópi 1 í 3. áfanga. Þá fékk virkjunarkosturinn hæstu áhrifaeinkunn allra virkjunarkosta sem til umfjöllunar voru, bæði hjá faghópi 1 og faghópi 2. Í niðurstöðum faghóps 1 kemur fram að Búlandsvirkjun mundi hafa í för með sér rof á einstæðri jarðfræðilegri heild og spilla ummerkjum Skaftárelda sem eru einstæðar minjar á heimsvísu.
Einstök lindasvæði gætu raskast, fjölbreytt búsvæði fiska og smádýra mundu eyðileggjast og mikil óvissa er um vatnsrennsli á verðmætustu búsvæðunum. Mikið rask yrði á gróðri og jarðvegi, auk áhrifa á vistkerfi og jarðveg vegna foks úr lónstæði og farvegi Skaftár frá inntakslóni að útfalli. Menningarminjar væru í hættu, þar á meðal Granahaugur og Tólfahringur sem býður upp á mikla möguleika í rannsóknum. Einnig yrði mikil skerðing á sjónrænu gildi og fjölbreytni, auk mikilla áhrifa á fágætar landslagsgerðir. Í niðurstöðum faghóps 2 kemur fram að neikvæð áhrif Búlandsvirkjunar yrðu víðtæk. Mannvirki fyrirhugaðrar virkjunar yrðu rétt við hálendismiðstöðina Hólaskjól en þar er gjarnan upphaf eða endir gönguleiða um Fjallabakssvæðið, svo sem norður til Langasjávar, til vesturs í Þórsmörk, Heklu eða Landmannalauga og að einhverju leyti á Lakasvæðið.
Búlandsvirkjun hefur næstmest neikvæð áhrif á ferðamennsku og útivist af þeim virkjunarkostum sem til umfjöllunar eru. Einnig mundi virkjunin hafa mjög mikil neikvæð áhrif á beitarhlunnindi og umtalsverð neikvæð áhrif á veiði, einkum vegna óvissu um áhrif á rennsli um lindir til Grenlækjar, Tungulækjar og Eldvatns. Í þeim eru sérstakir stofnar sjóbirtings sem eru með þeim stærstu hér á landi og gefa umtalsverð veiðihlunnindi. Áhrif verða einnig vegna minnkaðs vatnsrennslis til Tungufljóts.
Í umsögn HS Orku um tillöguna er hún var lögð fram á Alþingi í annað sinn árið 2017, sagði að telja mætti að tillaga verkefnisstjórnar um að setja Búlandsvirkjun í verndarflokk „byggi á hlutdrægum forsendum“ faghópa. „Búlandsvirkjun var flokkuð í biðflokk í rammaáætlun 2 og margvísleg málefnaleg rök leiða til þess að í rammaáætlun 3 eigi virkjunarkosturinn að vera áfram í biðflokki.“
Þessi afstaða fyrirtækisins hefur ekki breyst.
Hin áralanga töf á afgreiðslu Alþingis á tillögu að rammaáætlun hefur að mati sumra rýrt trú á þetta stjórntæki sem átti að nýta til að ná samfélagslegri sátt um nýtingu og vernd náttúru landsins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kemur fram að lög um verndar-og orkunýtingaráætlun, þ.e. rammaáætlun, verði endurskoðuð frá grunni „til að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd orkukosta á Íslandi“.
Töfin langa og nú sú stefna ríkisstjórnarinnar að endurskoða lögin frá grunni og fjölga í biðflokki hefur opnað á margvíslegar vangaveltur um hvaða virkjanakostir í tillögunni sem nú verður lögð fram í fjórða sinn af jafnmörgum ráðherrum, gætu í meðförum þingsins færst á milli flokka. Verkefnisstjórnin lagði árið 2016 til átta nýja kosti í nýtingarflokk og hreyfði ekki við þeim tíu sem þegar höfðu farið í þann flokk í 2. áfanga. Samtals eru því átján kostir í orkunýtingarflokki tillögunnar, samtals 1.421 MW að afli.
Í verndarflokk bættust við fjögur landsvæði og ekki voru lagðar til breytingar á flokkun sextán kosta sem settir voru í þann flokk í 2. áfanga. Biðflokkurinn tillögunnar telur svo 38 virkjunarkosti.
Stríðsyfirlýsing
Stjórn Landverndar segir að um „stríðsyfirlýsingu“ sé að ræða ef ganga eigi gegn áliti fagaðila um flokkun í tillögunni. Samtökin segja að almenn samstaða hafi verið um að rammaáætlun sé forsenda víðtækari sáttar um náttúruvernd og virkjanir. „Gangi ríkisstjórnin gegn þessari sátt er sú sáttaviðleitni einskis virði,“ varaði Landvernd við í yfirlýsingu er stjórnarsáttmálinn var kynntur.
HS Orka segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að allir virkjanakostir fyrirtækisins sem finna megi í tillögunni séu enn á framtíðaráætlunum þess. Enginn sé því orðinn úreltur eða ekki fýsilegur lengur.
Verði tillaga að 3. áfanga rammaáætlunar „rifin upp“ eins og sumir velta nú fyrir sér, er það von HS Orku að jarðvarmakosturinn Austurengjar á Krýsuvíkursvæðinu haldist í nýtingarflokki enda séu mikil samlegð með því verkefni og Sveifluhálsi sem er í næsta nágrenni og var settur í nýtingarflokk 2. áfanga rammaáætlunar. „HS Orka hefði líka viljað sjá Trölladyngju í nýtingarflokki en ekki biðflokki, þar sem fyrirtækið hefur þegar borað tvær djúpar rannsóknarholur og sá fram á borun þriðju holunnar áður en verkefnið var sett í biðflokk.“
Kjarninn mun halda áfram að fjalla um rammaáætlun og þá virkjanakosti sem eru í tillögu að þriðja áfanga hennar á næstunni.