Það styttist í seinni hálfleik kjörtímabilsins. Fyrri hálfleikurinn þróaðist á annan hátt en flestir áttu von á. Ríkisstjórn sem naut gríðarlegs stuðnings í kjölfar þess að hún tók við hefur náð að koma nokkrum af sínum helstu stefnumálum í gegn, en er samt sem áður að mælast með afar lítinn stuðning. Minnsti flokkurinn á þingi mælist hins vegar langstærsti flokkur landsins þrátt fyrir að stefna hans sé fyrst og síðast að breyta stjórnmálakerfinu. Frjálslyndu miðjuflokkarnir eru í sárum og upp hafa blossað blóðug innanflokksátök. Við þessari stöðu þurfa þeir allir að bregðast, með mismundandi hætti.
Þetta er búinn að vera mjög áhugaverður fyrri hálfleikur. En sá síðari verður líklega enn áhugaverðari. Og lokastaðan gæti leitt til þess að íslensk stjórnmál breytist umtalsvert og varanlega.
Hér að neðan verður rýnt í stöðu fjórflokksins, sem glímir við mikla tilvistarkreppu þótt eðli hennar sé mismunandi á milli flokkanna.
Persónufylgi sem skilar sér ekki til fólksins
Hin mikla athygli sem verið hefur á Bjartri framtíð og Pírötum að undanförnu hefur dregið athyglina að einhverju leyti frá þeirri stöðu sem er uppi hjá fjórflokknum, hefðbundnu stjórnmálaflokkunum á Íslandi. Sá eini þeirra sem siglir nokkuð lygnan sjó í kringum það sem mætti teljast eðlilegt fylgi í sögulegu samhengi eru Vinstri grænir.
Þar skiptir lykilmáli mikið persónufylgi Katrínar Jakobsdóttur, formanns flokksins. Ljóst má vera að þrýstingur á hana um að taka slaginn í forsetakosningunum á næsta ári mun aukast umtalsvert á næstu misserum. Nýleg könnun Gallup sýndi að 17 prósent þeirra sem tóku afstöðu til þess hvern þeir vildu sem næsta forseta nefndu Katrínu, þrátt fyrir að hún hafi gefið það út að hún sæktist ekki eftir starfinu. Það gæti orðið mikið áfall fyrir Vinstri græna ef Katrín myndi skipta um skoðun og láta slag standa. Líkast til myndi fylgið dala í kjölfarið og mögulegur eftirmaður hennar í starfi er ekki augljós. Vinstri græn nutu þess framan af líftíma sínum að vera með mjög öfluga, unga og róttæka grasrót. Minna hefur sést til hennar að undanförnu og svo virðist sem nokkur þreyta sé komin í flokksstarfið. Svo má vel færa rök fyrir því að áframhaldandi þingseta hinna mjög reyndu, en afar umdeildu, Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar, séu að standa flokknum fyrir þrifum.
Katrín Jakobsdóttir mælist með mikið persónufylgi og margir vilja sjá hana sem næsta forseta Íslands. Það fylgi skilar sér ekki til flokksins sem hún leiðir, Vinstri grænna.
Samfylkingin gæti lognast út af sem stjórnmálaafl
Sú klemma Vinstri grænna er hins vegar eins og fyrsta heims vandamál við hliðina á þeirri tilvistarkreppu sem Samfylkingin stendur frammi fyrir. Síðustu ár hafa verið ein samfelld sorgarsaga hjá flokknum á landsvísu, þótt að betur hafi gengið í borginni, og margir lykilmenn innan hans óttast raunverulega um að Samfylkingin gæti lognast út af sem stjórnmálaafl. Eftir erfiða stjórnarsetu á síðasta kjörtímabili beið flokkurinn sögulegt afhroð í þingkosningunum vorið 2013, þegar hann fékk 12,9 prósent atkvæða. Aldrei nokkru sinni í sögu íslenskra stjórnmála hefur einn flokkur tapað jafn miklu fylgi á milli kosninga og Samfylkingin gerði á milli áranna 2009 og 2013. Og honum hefur gengið mjög illa að koma erindi sínu á framfæri við kjósendur það sem af er þessu kjörtímabili.
Ótrúlegur landsfundur flokksins í mars síðastliðnum, þar sem Árni Páll Árnason formaður hélt embætti sínu með því að sigra Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur með einu atkvæði í formannskjöri, veikti stöðu Samfylkingarinnar enn frekar. Hið skyndilega mótframboð Sigríðar Ingibjargar opinberaði bersýnilega innanflokksátök um hvert flokkurinn eigi að stefna og fyrir hvað hann eigi að standa. Á þessu hefur ekki verið tekið og það endurspeglar stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum, þar sem fylgið mælist minna en það var í síðustu kosningum.
Lítið persónufylgi Árna Páls hlýtur einnig að vera mikið áhyggjuefni fyrir flokksmenn. Í könnun MMR sem birt var í lok apríl sögðu til dæmis þrjú prósent aðspurðra að hann væri fæddur leiðtogi. Engin stjórnmálaforingi mældist lægri í þeim flokki. Svo virðist sem ákvörðun Árna Páls, skömmu eftir að hann tók við sem formaður í mars 2013, að fresta afgreiðslu á nýrri stjórnarskrá fram yfir kosningar hafi verið afdrifaríkari fyrir hann en haldið var. Auðvelt er að álykta að sú ákvörðun hafi skipt meira máli í fylgisflóttanum frá Samfylkingunni og yfir til Pírata, sem vilja nýja stjórnarskrá sem endurspeglar betur þær breytingar á tilfærslu valds frá valdhöfum til almennings sem flokkurinn segist standa fyrir.
Árni Páll Árnason stóð af sér atlögu að formennsku hans í flokknum. Hann sigraði formannskjör í mars með einu atkvæði.
Helstu málin komin í gegn en samt óvinsæl
Velgengni Pírata og tilvistarkreppa Samfylkingar og Bjartrar framtíðar hafa að einhverju leyti dempað umræðu um hversu döpur staða stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, er samkvæmt könnunum. Sérstaklega í ljósi þess að íslenskt hagkerfi hefur heldur betur tekið við sér frá því að ríkisstjórnin tók við völdum, þótt vel megi færa haldbær rök fyrir að aðgerðir þeirra tveggja ríkisstjórna sem sátu á undan henni eigi þar líka stóran hlut að máli.
Til viðbótar hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar komið sínum helstu áherslumálum í gegn. Það er búið að ráðast í höfuðstólslækkun verðtryggðra skulda hluta landsmanna, skattar og gjöld hafa verið lækkaðir og áætlun um losun hafta og endalok þrotabúa gömlu bankana verið sett fram og ýtt í framkvæmd.
Samt mælist ríkisstjórnin að jafnaði með um þriðjungs fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með minna fylgi en hann fékk í verstu útreið sinni í kosningum í sögunni og Framsókn mælist með tæpan helming kjörfylgis síns á góðum degi. Á vondum degi mælist fylgið lægra en það hefur nokkru sinni mælst síðan að Sigmundur Davíð tók við flokknum.
Ástæður þessa eru fjölmargar. Erfiðar kjaraviðræður, lekamálið, varðstaða um skiptingu ágóða af nýtingu sjávarauðlindarinnar, aukin misskipting og ákaflega erfið staða á húsnæðismarkaði spila þar ugglaust stóra rullu. Framkoma og ummæli sumra ráðherra í og um fjölmiðla gera það líka og þá virðist blasa við að hluti kjósenda telji flokkanna tvo mun frekar ganga erinda sérhagsmuna en almannahagsmuna. En líkast til eru valdaflokkar eins þeir, sem hafa getað gengið að völdum og áhrifum nokkuð vísum, orðnir barn síns tíma. Ekki ósvipað og dagblöð í heimi sem gengið hefur í gegnum upplýsinga- og tæknibyltingu.
Nóg eftir af leiknum
Næstu tvö ár, síðari hluti kjörtímabilsins, verða því mjög áhugaverð. Píratar þurfa að finna leiðir til að halda í það aðdráttarafl sem þeir hafa komið sér upp og finna leiðir til að láta módelið sitt virka í stærri hópi ef ske kynni að fylgið haldist fram að næstu kosningum. Frjálslyndu miðjuflokkarnir, Samfylking og Björt framtíð, eru í raunverulegri hættu á að lognast út af og þurfa að horfa gaumgæfilega í eigin barm til að greina hvað það sé við þau sem gerir það að verkum að kjósendur vilja ekki kjósa þá. Því kjósendur ráða alltaf á endanum. Það er ekki mikill tíma fyrir þessa tvo flokka að ná vopnum sínum.
Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir vandasömu verki á síðari hluta kjörtímabilsins. Það er oft mun erfiðara að stýra í uppsveiflu en í kreppu.
Stjórnarflokkarnir eru auðvitað í þeirri stöðu að geta einfaldlega keypt sér auknar vinsældir, líkt og ráðandi valdhafar eru alltaf í aðdraganda kosningar. Það yrði þvert á ráðleggingar nánast allra sérfræðinga sem hafa bent á að ríkið eigi að halda að sér höndum í opinberum framkvæmdum næstu árin vegna þenslu í hagkerfinu. Slíkar ráðleggingar eru þó fljótar að verða aukaatriði í aðdraganda kosninga ef fylgisstaða flokka er léleg.
Það má færa sterk rök fyrir því að mun auðveldara hafi verið að stýra Íslandi á fyrri helmingi kjörtímabilsins en það verður á þeim síðari. Þá var Ísland í höftum og að jafna sig eftir kreppu. Á næstu tveimur árum verða höft losuð og ríkisstjórnin þarf að stunda þá vandasömu jafnvægislist að halda aftur að verðbólgu í uppgangi á Íslandi. Það hefur engum tekist til lengri tíma áður. Haftalosunin mun einnig gera það að verkum að hávaxtalandið Ísland verður berskjaldaðri fyrir spákaupmennskuhákörlum heimsins sem renna á blóðlykt hvar sem hana er að finna, sérstaklega í ljósi þess að það er ekki mikið spennandi æti fyrir þá á öðrum mörkuðum sem stendur.
Píratar unnu fyrri hálfleikinn. En það er nóg eftir af leiknum.
Þetta er síðari hluti greiningar Kjarnans á landslagi íslenskra stjórnmála eins og það blasir við á miðju kjörtímabili. Fyrri hlutinn birtist í dag. Hann má lesa hér.