Það styttist í seinni hálfleik kjörtímabilsins. Fyrri hálfleikurinn þróaðist á annan hátt en flestir áttu von á. Ríkisstjórn sem naut gríðarlegs stuðnings þegar hún tók við hefur náð að koma nokkrum af sínum helstu stefnumálum í gegn, en er samt sem áður að mælast með afar lítinn stuðning. Minnsti flokkurinn á þingi mælist hins vegar langstærsti flokkur landsins þrátt fyrir að stefna hans sé fyrst og síðast að breyta stjórnmálakerfinu. Frjálslyndu miðjuflokkarnir eru í sárum og upp hafa blossað blóðug innanflokksátök innan þeirra. Við þessari stöðu þurfa þeir allir að bregðast, með mismundandi hætti.
Þetta er búinn að vera mjög áhugaverður fyrri hálfleikur. En sá síðari verður líklega enn áhugaverðari. Og lokastaðan gæti leitt til þess að íslensk stjórnmál breytist umtalsvert og varanlega.
Hér að neðan verður rýnt í stöðu nýju flokkanna, Pírata og Bjartrar framtíðar, á þessum tímamótum en þeir hafa báðir verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. Annar flokkurinn vegna skyndilegrar fylgisaukningar en hinn vegna þess að fylgi hans er að mestu horfið. Síðar í dag mun svo birtast greining á stöðu hinna stjórnmálaflokkanna.
Gagnrýni fyrir að vera ekki eins og hinir
Staða Pírata samkvæmt skoðanakönnunum er farin að valda því að önnur pólitísk öfl reyna að grafa undan þeim. Þegar fylgið mælist yfir 30 prósent í fjóra mánuði í röð og engin teikn virðast á lofti um að það sé að fara að minnka þá er ljóst að það þarf að taka stöðuna alvarlega.
Vandamálið sem öfl gamla flokkakerfisins standa frammi fyrir vegna þessa er hins vegar það að þau vita ekki almennilega hvernig þau eiga að tækla afl eins og Pírata, sem stendur ekki bara fyrir aðrar skoðanir heldur vill gerbreytt pólitískt kerfi. Gagnrýnin, sem hefur að mestu verið sett fram á síðum Morgunblaðsins, hefur því fyrst og síðast snúist um að benda á mætingu Pírata á nefndarfundi, skort á fastmótuðum stefnumálum í ýmsum málaflokkum og upp á síðkastið um „veruleg átök“ vegna „alvarlegs innanmeins“ í röðum flokksmanna. Þau átök eiga sér stað, samkvæmt Morgunblaðinu, á lokaðri Facebook-síðu Pírata.
Gagnrýnin er þó miðuð út frá pólitískum veruleika sem Píratar standa ekki fyrir. Þ.e. þeir gefa sig ekki út fyrir að vera hópur sem vill móta samfélagið eftir sínu höfði og stefnu né fyrir að vera hópur fólks sem gengur að öllu leyti í takt. Í stefnu Pírata kemur til að mynda fram að þeir noti kosningakerfi á netinu til að greiða úr ágreiningsmálum og komast að niðurstöðu „samhliða reglulegum málefnafundum og framkvæmdafundum í kjötheimum.“ Þetta er, að sögn Pírata, helsti öryggisventillinn á að allir geti haft aðkomu að Píratamálum. Það er því beinleiðis innbyggt í stefnu flokksins að þar sé tekist á um ýmislegt og að niðurstaða þeirra „átaka“ móti síðan afstöðu til málefna. Lykilatriðið er að flokkurinn sé með lýðræðislegar leiðir til að komast að niðurstöðu.
Hvernig færðu fólk sem er ósammála til að vinna saman?
Þetta fyrirkomulag er þó þess eðlis að það gæti bakað Pírötum töluverð vandræði í raunveruleikanum, þótt hugmyndafræðin á bakvið það sé falleg. Píratar ræða það ekki mikið opinberlega en það yrði gríðarlega vandasamt verk að búa til starfhæfan þingflokk ef flokkurinn myndi fá það nálægt því fylgi sem hann er að mælast með í könnunum í næstu kosningum. Veruleikinn er sá að þó innan Píratahteyfingarinnar sé fólk að störfum sem er sammála um nokkur grundvallaratriði (t.d. aukið gagnsæi, beinna lýðræði og varðstaða um tjáningarfrelsi) þá er það fólk ósammála um margt annað sem stór þingflokkur þyrfti að taka afstöðu til. Sérstaklega ef hann ætti aðkomu að ríkisstjórn.
Það yrði því mjög áhugavert, að minnsta kosti fyrir óflokksbundna áhugamenn um stjórnmál, að sjá hvernig unnið yrði úr þeim ágreiningsmálum ef Píratar sætu uppi með yfir 20 þingmenn eftir næstu kosningar, líkt og kannanir gefa til kynna að flokkurinn myndi fá ef kosið væri í dag.
Morgunblaðið hefur fjallað töluvert um meintar deilur innan raða Pírata og gagnrýnt þá harðlega í ritstjórnargreinum.
Vilja vera umbótaafl en "leika leikinn"
Annað nýlegt stjórnmálaafl sem hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarna daga, en af allt öðrum og neikvæðari ástæðum en Píratar, er Björt framtíð. Uppleggið þegar sá flokkur var stofnaður er ekki fjarri því sem Píratar standa fyrir og eru að njóta góðs af í skoðanakönnunum. Tvær af lykiláherslum Bjartrar framtíðar eru „minna vesen“ og „meiri sátt“. Þótt léttúðlegur og hipsteralegur framsetningarmáti áherslnanna fari í taugarnar á mörgum þá er innihald þeirra mjög í takt við það sem fjölmargir kjósendur eru að kalla eftir.
Í þeim felst vilji til að gera umbætur á stjórnsýslunni, einfalda aðgengi að allri stjórnsýslu á netinu, efla aðgengi að upplýsingum, nýta beint lýðræði og þátttöku almennings betur, setja þjóðinni nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs, standa vörð um frelsi einstaklinga og gera fjárlagagerð gagnsærri og skynsamlegri. Með annarri hendinni er Björt framtíð að gefa sig út fyrir að standa fyrir þau nýju stjórnmál sem svo mikið ákall virðist vera eftir.
Það sem virkar fráhrindandi fyrir marga kjósendur, og hefur spilað inn í að fylgi flokksins hefur nánast horfið á örfáum mánuðum, er að Björt framtíð virðist með hinni hendinni vera að „leika leikinn“. Þ.e. haga sér eins og gamaldags stjórnmálaafl og aðlaga sig að þeim ramma sem um þau liggur, í stað þess að vera að ýta á hann. Ugglaust spilar þar inn í að í forystu flokksins eru formaður og þingflokksformaður, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall, sem hafa setið á þingi fyrir annars vegar Framsóknarflokkinn og hins vegar Samfylkinguna. Það er því mjög auðvelt fyrir gagnrýnendur flokksins að mála þá upp sem pólitíska tækifærissinna sem hafi séð betra tækifæri á nýjum vettvangi til að tryggja þingsetu sína en á gömlu stjórnmálaheimilum sínum. Þess vegna hefur Björt framtíð fengið þá ímynd á sig að vera fjórflokksafsprengi í dulbúningi umbreytingarstjórnmálaafls.
Guðmundur Steingrímsson er formaður Bjartrar framtíðar og annar stofnanda flokksins. Atlaga hefur verið gerð að stöðu hans undanfarna viku.
Öll dýrin í skóginum eru ekki alltaf vinir
Ein helsta áhersla Bjartrar framtíðar hefur líka verið á samræðustjórnmál. Að vel gefið og skynsamt fólk geti sest niður og rætt sig niður á niðurstöðu fremur en að agnúast út í hvort annað á opinberum vettvangi. Þegar flokkurinn var formlega stofnaður í febrúar 2012 sagði m.a. í fréttatilkynningu frá honum að „á meðal nýbreytni í skipulagi má nefna, að flokkurinn mun reka málefnastarf sitt á netsíðu, allan sólarhringinn, allan ársins hring, og í forystu flokksins eru tveir formenn, sem skulu starfa saman og vera sammála um stórar ákvarðanir.“
Heimasíðan sem málefnastarfið átti að rekast á, heimasidan.is, hefur verið lokað, að minnsta kosti tímabundið. Þegar farið er inn á hana blasa við skilaboð um að málefnastarfið fari nú fram á Facebook og í málefnahópum innan flokksins. Aðkoma almennings að málefnastarfi flokksins hefur því verið þrengd og það fer nú fyrst og fremst fram á vettvangi sem iðnustu flokksmenn koma að.
Það hefur síðan vart farið framhjá neinum undanfarið að samstarf upphaflegu formanna Bjartrar framtíðar hefur bersýnilega ekki verið neitt sérstaklega gott né hafi þeir verið sammála um stórar ákvarðanir.
Atlaga að formanninum
Heiða Kristín Helgadóttir, annar stofnandi flokksins sem var stjórnarformaður hans þangað til í lok síðasta árs, steig fram í vikunni og gagnrýndi formann flokksins harkalega. Í viðtali við Kjarnann fyrir sex dögum sagði hún: „Mér finnst vandi Bjartrar framtíðar vera inni í Bjartri framtíð, hann er ekki vandi kjósenda. Vandinn er ekki tilkominn vegna þess að kjósendur skilja ekki flokkinn heldur er hann vandi formannsins [Guðmundar Steingrímssonar] og þeirra sem starfa í Bjartri framtíð“.
Nokkrum dögum síðar var hún gestur í þættinum Vikulokunum á Rás 1 og sagðist treysta sér fullkomlega til að verða formaður Bjartrar framtíðar. Þar sagði hún Guðmund hafa fengið ágætis tækifæri til að sanna sig en að forysta hans væri augljóslega ekki að virka.
Það þarf ekki að vera mjög samsæriskenningalega sinnaður til að álykta að ummæli Heiðu Kristínar í vikunni sem leið hafi verið ágætlega undirbúinn pólitískur leikur. Hún er að þreifa fyrir sér hvort það sé áhugi á sér sem nýjum forystumanni Bjartrar framtíðar, bæði hjá almennum flokksmönnum og almenningi, án þess að taka afgerandi af skarið og segjast ætla gegn Guðmundi. Það verður hún hins vegar að gera á næstu vikum því að ársfundur Bjartrar framtíðar fer fram 5. september næstkomandi, eftir tæpan mánuð, og þar mun formannsslagurinn fara fram ef af honum verður.
Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrum stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, hefur sagt að hún sé tilbúin að verða foramður flokksins, sé vilji fyrir því á meðal flokksmanna.
Ljóst er á fyrstu viðbrögðum, eða skorti á þeim, að útspil Heiðu Kristínar hefur komið mörgum þeirra á óvart. Enginn þeirra vildi taka afgerandi afstöðu til þess fyrr en Róbert Marshall gerði það í dag. Hann sagðist í samtali við Bylgjuna ekki skilja gagnrýni Heiðu Kristínar og að fylgistapið væri ekki á ábyrgð Guðmundar fremur en annarra í forystu flokksins. Það væri barnaskapur að halda að einn maður geti híft fylgi flokka upp og niður.
Greining Róberts er að einhverju leyti alveg rétt. Vandamál Bjartrar framtíðar er skortur á trúverðugleika sem stjórnmálaafl, ekki bara lítið persónufylgi formannsins. Sá skortur á trúverðugleika hefur verið hægt og bítandi að aukast. Mikilvægasta „eignin“ sem lögð var inn í Bjarta framtíð á sínum tíma var Besti flokkurinn og sú gríðarlega velvild sem hann naut. Eftir að Jón Gnarr, holdgervingur Besta flokksins, afneitaði Bjartri framtíð í mars síðastliðnum og sagðist ekki einu sinni vera í flokknum þá hefur molnað undan þeirri „eign“ og hún færst að mestu yfir til Pírata.
Þótt Heiða Kristín hafi spilað lykilhlutverk í stofnun og árangri Besta flokksins þá er alls óljóst hvort henni takist að mynda þessa „eign“ á ný sem formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur bregst við
Síðdegis í dag brást Guðmundur Steingrímsson við þessari stöðu sem komin er upp. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagðist hann ekki hafa neinn áhuga á taka þátt í formannsslag. Slík átök væru meinsemd. Þess í stað styðji hann tillögu, sem likast til verður lögð fram á ársfundinum í september, um að öll embætti innan flokksins yrðu látin róterast á milli fólks. Það þýddi að hann myndi ekki lengur verða formaður, nema þegar röðin kæmi aftur að honum.
Staða Bjartrar framtíðar hefur verið mér og fleirum tilefni til mikilla og djúpra heilabrota um nokkurt skeið. Ég hef ...Posted by Guðmundur Steingrímsson on Monday, August 10, 2015
Það á eftir að koma í ljós hvort þetta útspil verði til þess að skapa sátt og róa öldur innan flokksins. Og það sem mestu skiptir, hvort hann nái aftur eyrum kjósenda.
Síðari hluti greiningar Kjarnans á landslagi íslenskra stjórnmála eins og það blasir við á miðju kjörtímabili mun birtast síðast í dag.