Sektarheimildin sem íslensku fjarskiptafyrirtækin vildu alls ekki sjá snýr aftur
Samkvæmt nýju stjórnarfrumvarpi til fjarskiptalaga verður hægt að sekta fjarskiptafyrirtæki um allt að 4 prósent af árlegri heildarveltu fyrir brot á lögunum. Í tilfelli Símans gæti sekt af slíkri stærðargráðu numið tæpum milljarði króna.
Fjarskiptastofa mun fá heimild til þess að beita fjarskiptafyrirtæki landsins stjórnvaldssektum, sem numið geta allt að fjórum prósentum af veltu síðasta rekstrarárs, samkvæmt stjórnarfrumvarpi til nýrra fjarskiptalaga, sem lagt hefur verið fram af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Um er að ræða frumvarp sem felur í sér heildarendurskoðun fjarskiptalaga, en hinn nýi lagabálkur á að leysa af hólmi eldri fjarskiptalög frá árinu 2003. Frumvarpið er afar efnismikið og felur í sér innleiðingar á ýmsum reglum Evrópusambandsins um fjarskiptamarkaðinn – meðal annars nýjum ákvæðum um eftirlit og viðurlög.
Hvað það varðar eru áðurnefndar sektarheimildir helsta breytingin. Samkvæmt gildandi fjarskiptalögum getur Fjarskiptastofa, sem áður hét Póst- og fjarskiptastofnun, einungis lagt á dagsektir en hefur ekki almenna heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á fjarskiptalögum.
Það er því verið að skerpa á eftirlitshlutverki stofnunarinnar.
Fjarskiptafyrirtækin lögðust hart á móti
Stjórnvöld voru þegar búin að gera atlögu að því að skrifa þessar nýju sektarheimildir Fjarskiptastofu inn í aðrar og minni breytingar á fjarskiptalögum sem verið hafa til þinglegrar meðferðar.
Stærstu fjarskiptafyrirtæki landsins, Síminn, Sýn og Nova, hafa gagnrýnt þessa nýju fyrirhuguðu sektarheimild nokkuð harðlega í umsögnum sínum um það þingmál í vetur.
Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og Samtök iðnaðarins lögðust einnig gegn sektarheimildinni í sameiginlegri umsögn sinni um málið og sögðu hagsmunasamtökin þrjú að órökstutt væri af hverju miðað væri við allt að 4 prósent af heildarveltu, auk þess sem orðalag sektarákvæðisins væri óskýrt.
Frestað – en ekki lengi
Í byrjun febrúar ákvað meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar að láta ákvarðanir um umrætt sektarákvæði koma til frekari skoðunar við undirbúning framlagningar eða þinglega meðferð frumvarps til heildarlaga um fjarskipti, sem nú hefur litið dagsins ljós.
Þar eru sem áður segir skrifaðar inn stjórnvaldssektir sem geta verið allt að 4 prósent af veltu fyrirtækjanna.
Það þýðir, ef horft er til Símans, sem velti 24 milljörðum árið 2020, að Fjarskiptastofa gæti slengt á fyrirtækið 960 milljóna króna stjórnvaldssekt ef það hefði ár árinu 2021 orðið uppvíst að einhverri háttsemi sem ekki stenst hin nýju fjarskiptalög.
En það þyrfti þá að vera mjög alvarlegt brot.
Fimm ára fyrningarfrestur
Um sektarheimildina segir í frumvarpi Áslaugar Örnu að við ákvörðun á fjárhæð sekta skuli hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Einnig segir frá því að stjórnvaldssektum verði beitt „óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi“ og að ákvörðunum Fjarskiptastofu um sektir megi skjóta til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.
Lagt er upp með að heimild Fjarskiptastofu til að leggja á stjórnvaldssektir falli niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk, en þó rofnar sá frestur um leið og Fjarskiptastofa tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti.
Í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar frá því í byrjun febrúar sagði að á fundum nefndarinnar hefði verið bent á að fjárhæð stjórnvaldssektanna væri „hvergi rökstudd en ljóst væri að fjárhæð sektanna sem hlutfall af heildarveltu síðasta rekstrarárs gæti verið óhóflega há.“
Horft til persónuverndarlaga sem fyrirmyndar
Í hinu nýja frumvarpi segir að við smíði nýja viðurlagaákvæðisins hafi verið leitað fyrirmyndar í ákvæði um heimild Persónuverndar til að leggja á stjórnvaldssektir hvað fjárhæð sektanna varðar, en í lögum um persónuvernd er einmitt kveðið á um heimild til þess að sekta fyrirtæki um allt að 4 prósent af árlegri heildarveltu á heimsvísu fyrir ákveðinn flokk brota.
Einnig segir í frumvarpinu að horft hafi verið til samkeppnislaga sem fyrirmyndar hvaða framsetningu varðar, en því tengt má nefna að Samkeppniseftirlitið lýsti sig hlynnt því að sektir myndu taka við af efnahagslegum styrkleika fyrirtækja í umsögn um þingmálið þar sem þessi sektarheimild var fyrst viðruð. Samkvæmt því sem Samkeppniseftirlitið sagðist komast næst hefur hámarkssektarheimild vegna brota á fjarskiptalögum verið 10 milljónir króna.
„Sektarheimildir eftirlitsstjórnvalda sem hlutfall af veltu þess fyrirtækis er gerist brotlegt við viðkomandi lög og reglur, eru til þess fallnar að hafa almenn og sértæk varnaðaráhrif á viðkomandi markaði og auka þar með hlítingu fyrirtækja vegna viðkomandi reglna sem löggjafinn hefur ákveðið. Með sambærilegum hætti eru sektarheimildir með tiltölulega lágu hámarksþaki, eins og í tilviki Fjarskiptastofu, ekki til þess fallnar að hafa slík áhrif,“ sagði í umsögn Samkeppniseftirlitsins um hið fyrra þingmál.
Lestu meira
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta