Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) mótmæla fyrirhugaðri gjaldhækkun ríkissjóðs á þau fyrirtæki sem stunda sjókvíaeldi á þeim grunni að hún sé bæði ótímabær og óhófleg. Samtökin vísa til þess í nýrri athugasemd sinni um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp að yfir standi ýmis konar vinna og stefnumótum um fiskeldi og að afurð þeirra vinnu sé óljós á þessu stigi. „Ljóst er þó að ekki er loku fyrir það skotið að ráðist verði í viðamiklar breytingar á lagaumhverfi fiskeldis með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir rekstrarumhverfi fiskeldisfyrirtækja. Að mati samtakanna er verulega óábyrgt og ótímabært að boða áform um verulega gjaldhækkun á sama tíma og atvinnugreinin stendur frammi fyrir heildstæðri úttekt og stefnumótunarvinnu.“
Þau gera athugasemd við að ekkert samráð hafi verið haft við SFS við undirbúning skattahækkunarinnar. „Til þess að sátt geti ríkt um gjaldtöku af fiskeldi er mikilvægt að samráð sé haft við hagaðila í viðkomandi atvinnugrein áður en áform af þessu tagi eru kynnt opinberlega.“
Í athugasemd þeirra segir enn fremur að auknar álögur á fiskeldi muni mögulega auka tekjur ríkissjóðs til skamms tíma, en til lengri tíma muni að mati samtakanna hægja á vexti fyrirtækjanna og draga úr þeim tekjum sem samfélagið fær frá starfseminni. „Stjórnvöld verða að horfa til samkeppnisstöðu íslenskra fiskeldisfyrirtækja og hafa að leiðarljósi að ekki sé verið að leggja þyngri byrðar á þau en samkeppnisfyrirtæki í öðrum löndum.“
Viðmiðunartímabilinu var breytt án skýringar
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að þegar frumvarp til laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóðs var lagt fram í mars 2019 af Kristjáni Þór Júlíussyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra, var skrifað að fjárhæð gjaldsins ætti að vera 3,5 prósent af nýjasta 12 mánaða meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi fyrir ákvörðunardag.
Í nefndarálitinu er þessi breyting ekkert útskýrð, en heimsmarkaðsverð á eldisfiski er að jafnaði lágt á því tímabili sem notast var við til að ákvarða gjaldið sem greiða átti í ríkissjóð. Breytingin sem atvinnuveganefnd lagði til lækkaði því greiðslur þeirra fyrirtækja sem stunda sjókvíaeldi í ríkissjóð.
Meirihlutann í nefndinni mynduðu þingmenn stjórnarflokkanna þriggja ásamt þingmönnum Miðflokksins.
Frumvarpið var samþykkt með þessum breytingum og álagningin lagðist á frá 1. janúar 2020. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi þess árs var reiknað með að gjaldið myndi skila 134 milljónum króna í ríkissjóð á árinu 2020. Þar kom einnig fram að til stæði að leggja 175 milljónir króna í að bæta stjórnsýslu, eftirlit og heilbrigðiskröfur í fiskeldi á því ári, eða 41 milljónum króna minna en lögfest gjaldtaka vegna fiskeldis átti að skila í ríkiskassann.
Skilar 800 milljónum í viðbót á ári árið 2026
Breytingarnar á lögum um fiskeldisgjald sem SFS eru að mótmæla voru lagðar til í tekjubandormi sem fylgir fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Annars vegar er gjaldhlutfallið hækkað úr 3,5 í fimm prósent og hins vegar er viðmiðunartímabil gjaldsins fært nær í tíma. Nánar tiltekið er því breytt þannig að nú er miðað við almanaksárið, en ekki ágúst, september og október. Báðar breytingarnar munu gera það að verkum að innheimt gjald mun hækka.
Gjaldið leggst á þá rekstraraðila sem stunda sjókvíaeldi. Aðrir sem stunda fiskeldi, t.d. á landi, eru undanþegnir gjaldinu. Þegar lögin um gjaldtökuna voru sett var samþykkt að veita þessum aðilum aðlögun að því að greiða fullt gjald. Á næsta ári munu sjóeldisfyrirtækin greiða 4/7 af því hlutfalli reiknistofnsins sem þeim mun frá árinu 2026 vera gert að greiða að fullu.
Nú er búist við að gjaldið skili 1,5 milljarði króna á næsta ári. Það er um 450 milljónum krónum meira en sjóeldisfyrirtækin hefðu annars greitt í ríkissjóð á næsta ári. Tekjuauki ríkissjóðs verður 650 milljónir króna á árinu 2024 og 760 milljónir króna árið 2025. Þegar aðlögun fyrirtækjanna að gjaldtökunni verður lokið árið 2026 mun fiskeldisgjaldið verða um 800 milljónum krónum hærra en ef gjaldhlutfallið hefði ekki verið hækkað og viðmiðunartímabilinu ekki verið breytt.
Norðmenn að leggja á auðlindaskatt
Í athugasemd SFS segir að hækkun gjaldhlutfallsins úr 3,5 í fimm prósent jafngildi 43 prósent hækkun á skatti sem sé nú þegar með þeim hæstu á fiskeldi í heimi. „Samkvæmt samantekt KPMG á skattheimtu fiskeldis í 16 stærstu fiskeldislöndum heims er Ísland eitt af aðeins þremur ríkjum sem leggja sérstakan auðlindaskatt á fiskeldi, ásamt Noregi og Færeyjum. Þess má geta að Norðmenn voru búnir að stunda arðbært fiskeldi í um 40 ár áður en umræða um auðlindaskatt hófst þar í landi. Að sama skapi hófst laxeldi í Færeyjum laust fyrir árið 1980 en skattheimtu í núverandi mynd var ekki komið á fyrr en fyrir 9 árum. Færeyskum og norskum eldisfyrirtækjum var því veitt áratugalangt svigrúm til fjárfestinga, uppbyggingar og markaðssetningar áður en ráðist var í sértæka skattheimtu. Hefur sú ákvörðun verið þjóðunum til heilla og skilað sér í yfirburðastöðu þeirra í laxeldi á heimsvísu og stórauknum gjaldeyristekjum.“
Ríkisstjórn Noregs tilkynnti 28. september síðastliðinn að hún ætli að leggja auðlindaskatt á eldisfisk. Samkvæmt tillögum á hann að vera 40 prósent af tekjum að frádregnum útgjöldum við að afla teknanna, sem er til að mynda fjárfestingakostnaður. Búist er við að skatttekjur vegna þessa verði um 50 milljarðar íslenskra króna á næsta ári en um er að ræða viðbótartekjur fyrir norska ríkissjóðinn, þar sem um nýjan skattstofn er að ræða.
Á Íslandi er enginn auðlindaskattur lagður á eldi. Hér á landi kosta framleiðsluleyfi og laxeldiskvóti sem framleiðendur fá frá íslenska ríkinu ekkert. Í nýlegri umfjöllun Stundarinnar er rifjað upp að árið norsk laxeldisfyrirtæki, sem hafa framleiðsluleyfi fyrir 65 þúsund tonnum hér á landi, hefðu þurft að greiða 169 milljarða króna fyrir þau leyfi í Noregi.
Í annarri frétt Stundarinnar sem birt var í þessari viku er haft eftir Kjartan Ólafssoni, stjórnarformanni Arnarlax, að afleiðingar skattheimtu á eldislaxi í Noregi minntu á upphaf Íslandsbyggðar. Þar átti hann við að norsk laxeldisfyrirtæki séu að flýja skattheimtuna þar í landi og komi til Íslands í leit að hagstæðara skattaumhverfi fyri iðnaðinn.