Ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, á flokksþingi Framsóknarmanna í dag, gæti dregið dilk á eftir sér hvað varðar stjórnarsamstarf flokksins við Sjálfstæðisflokkinn, en þar tilkynnti forsætisráðherra, öllum að óvörum að framkvæmd um losun fjármagnshafta verði hrint í framkvæmd á yfirstandandi vorþingi og að sérstakur stöðugleikaskattur muni skila ríkissjóði hundruðum milljarða króna.
Með ræðu sinni í dag tókst Sigmundi Davíð enn á ný að gera sig og Framsóknarflokkinn gildandi í helstu málum ríkisstjórnarinnar og skyggja þar með á samstarfsflokkinn og formann hans Bjarna Benediktsson. Enda kannski ekki vanþörf á í ljósi stöðu flokksins í skoðanakönnunum, sem bendir til að „Leiðréttingin“ hafi ekki skilað flokknum því fylgi sem vonast var eftir. Að minnsta kosti má ljóst vera að Bjarni sé ekki par hrifinn af útspili forsætisráðherra í dag.
Talaði eins og fjármálaráðherra sé ekki treystandi
Mikil leynd hefur hvílt yfir afnámsferlinu sem er á forræði Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, en erfitt er að túlka orð Sigmundar Davíðs öðruvísi en að hann sé að reyna með einhverjum hætti að taka málið yfir af fjármálaráðherra.
Leiða má líkur að því að ýmislegt í ræðu Sigmundar Davíðs sé óhjákvæmilega til þess fallið að hleypa illu blóði í samstarfsflokkinn. Í ræðu sinni talaði forsætisráðherra eins og Framsóknarflokkurinn væri eini útvörður íslenskra þjóðarhagsmuna sem hægt sé að treysta á, og þar með að manninum sem ber ábyrgð á málaflokknum, það er Bjarna Benediktssyni, sé ekki treystandi fyrir honum.
Ný grýla komin á stjá?
Í ræðu sinni kom forsætisráðherra inn á að fulltrúum slitabúa föllnu bankanna og helstu kröfuhafa þeirra, það er erlendum vogunarsjóðum, hafi verið tilkynnt að ekki yrði hægt að bíða lengur eftir því að þeir legðu fram raunhæfar lausnir á stöðunni sem uppi er eftir að tekið var fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Velta má fyrir sér hvort formaður Framsóknarflokksins hafi með þeim orðum verið að búa til grýlu úr slitabúunum og vogunarsjóðunum álíka þeirri sem Icesave-deilan varð að og reyndist flokknum vel til að afla honum fylgis á meðal kjósenda. Enda hefur fylgi flokksins verið í frjálsu falli að undanförnu.
Ræðu forsætisráðherra, þar sem hann stillir slitabúunum og vogunarsjóðunum upp ásamt Evrópusambandinu, sem einhverjum mestu ógnum sem nú steðja að íslenskum þjóðarhagsmunum, má auðveldlega túlka sem viðleitni hans til að sameina þá sem aðhyllast svokölluð „sjónarmið sjötugra“ þar sem hægri og vinsti menn geta sameinast gegn utanaðkomandi vá líkt og gerðist á tímum kalda stríðsins.
Í ræðu sinni sagði Sigmundur Davíð enda: „Framan af miðaði stefna kröfuhafa að því að bíða þess að Ísland gengi í Evrópusambandið. Með því hefðum við farið sömu leið og þær ólánsömu Evrópuþjóðir sem fjármögnuðuðu tap banka sinna, og afleiðingar evrukrísunnar, með lánum frá Evrópska seðlabankanum.
Markmiðið var upptaka evru með fyrirgreiðslu frá Evrópska seðlabankanum til að borga kröfuhafa út. Slíkt hefði verið efnahagslegt glapræði enda gefur evrópski seðlabankinn ekki aðildarlöndunum ókeypis peninga. Hingað hefðu sjálfsagt borist allar þær evrur sem þörf hefði verið á til að borga út alla kröfuhafa og alla snjóhengjuna ekki aðeins á fullu verði heldur á því yfirverði sem felst í því að pappírshagnaður kröfuhafa væri fjármagnaður af íslensum almenningi með lántöku.“
Gerði lítið úr samstarfsflokknum
Með því að stilla Framsóknarflokknum enn á ný gegn kröfuhöfum föllnu bankanna, sem Íslands einu von, gerir forsætisráðherra óneitanlega lítið úr samstarfsflokknum og Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur ræða Sigmundar Davíðs farið í taugarnar á Sjálfstæðisflokknum, í ljósi stöðu Framsóknarflokksins sem nú mælist með um ellefu prósenta fylgi í skoðanakönnunum. Ekki síst í ljósi þess fara stórkarlalegar yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins fyrir brjóstið á Sjálfstæðismönnum.
Þá má velta fyrir sér hvort ræða formanns Framsóknarflokksins sé ekki enn líklegri til að hækka hitastigið hjá samstarfsflokknum, í ljósi atburða í vikunni. Á þriðjudaginn sendi Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, starfsfólki fjármálaráðuneytis Bjarna Benediktssonar orkustangir til að ýta á vinnu ráðuneytisins við að meta áhrif tveggja húsnæðisfrumvarpa hennar á ríkissjóð á þjóðarbúskapinn og birti á Fésbókarsíðu sinni. Þá lét Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, í það skína á miðvikudaginn að seinagangi í þinginu væri meðal annars um að kenna að ekki hafi tekist að flytja Fiskistofu til Akureyrar. Í því felst auðvitað ákveðin gagnrýni á samstarfsflokkinn.
Hvort ræða Sigmundar Davíðs á flokksþingi Framsóknarmanna muni reynast kornið sem fyllti mælinn og draga dilk á eftir sér, er alveg ljóst að hún hefur valdið töluverðum titringi á stjórnarheimilinu.