Samkvæmt úrskurði Persónuverndar í Falun Gong málinu svokallaða frá árinu 2003, er lögreglu ekki skylt að afhenda ráðuneytum persónuupplýsingar. Í úrskurðinum kemur fram að ráðherra sé ekki handhafi lögregluvalds og því hafi hann ekki sömu heimild og lögregla til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga. Þá gildi einu þó ráðherra sé æðsti yfirmaður lögreglu. Úrskurðurinn stangast á við ummæli Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum og núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, í tengslum við lekamálið svokallaða.
„Ef ráðuneytið biður um eitthvað, þá fær ráðuneytið það sem það biður um“
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, sendi Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, greinargerð um málefni hælisleitandans Tony Omos í árdaga lekamálsins svokallaða, samkvæmt óformlegu símtali þeirra á milli.
Í samtali við fréttastofu RÚV á laugardaginn sagði Sigríður Björk að umbeðin greinargerð hafi verið send Gísla Frey, þar sem hann hafi verið fulltrúi innanríkisráðuneytisins og fulltrúi ráðherra. „Ef ráðuneytið biður um eitthvað þá fær ráðuneytið það sem það biður um,“ sagði Sigríður Björk í samtali við RÚV.
Hún kvaðst hafa sent upplýsingarnar á grundvelli 14. greinar laga um Stjórnarráð Íslands, en þar segir: „Ráðherra getur krafið stjórnvald, sem heyrir undir yfirstjórn hans, um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem honum er þörf á til að sinna yfirstjórnarhlutverki sínu.“ Þá sagði Sigríður Björk ennfremur í áðurnefndri frétt RÚV: „Við höfum oft sent greinargerðir um ýmis mál inn í ráðuneytið, allir í kerfinu gera það.“
Ráðherra er ekki handhafi lögregluvalds
Eins og Kjarninn hefur áður rakið var umbeðin greinargerð send Gísla Frey í trássi við reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Þar segir að persónuupplýsingum verði aðeins miðlað til annara stjórnvalda eða til einkaaðila; samkvæmt samþykki hins skráða, samkvæmt lagaheimild, samkvæmt heimild Persónuverndar eða ef miðlun upplýsinga er nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarlega og aðsteðjandi hættu.
Í úrskurði Persónuverndar í Falun Gong málinu svokallaða, frá árinu 2003, var þáverandi dómsmálaráðuneyti óheimilt að miðla upplýsingum um meðlim Falun Gong til Flugleiða og nokkurra sendiráða Íslands,þar sem ekki var gætt að því að uppfyllt væru skilyrði reglugerðar um miðlun persónuupplýsinga frá lögreglu og ráðuneytið var ekki réttur aðili til meta hvort aðstæður heimiluðu slíka miðlun. Um var að ræða lista af hálfu Ríkislögreglustjóra, yfir einstaklinga sem talið var að væru á leið til Íslands í því skyni að efna til mótmæla og trufla þannig heimsókn Kínaforseta hingað til lands.
Frá mótmælum Falun Gong vegna opinberrar heimsóknar Kínaforseta til Íslands árið 2002.
Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir: „Varðandi tengsl dómsmálaráðherra og lögreglu skal tekið fram að í 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 segir að dómsmálaráðherra sé æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu og að ríkislögreglustjóri fari með málefni lögreglu í umboði hans. Í 9. gr. laganna er hins vegar talið upp hverjir séu handhafar lögregluvalds og er dómsmálaráðherra ekki þeirra á meðal. Að mati Persónuverndar verður ákvæði 4. gr. ekki túlkað þannig að dómsmálaráðherra hafi sömu heimild og lögregla hefur til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga.“
„Vinnsla“ persónuupplýsinga er skilgreind í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. „Sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn.“ Að taka við persónuupplýsingum, vista þær, skrá þær, lesa þær eða opna tölvupóst sem þær berast í fellur þannig allt undir „vinnslu“ persónuupplýsinga, samkvæmt athugun Kjarnans.
Lög um Stjórnarráð Íslands eiga ekki við varðandi miðlun persónuupplýsinga
Úrskurður Persónuverndar í Falun Gong málinu er því athyglisverður fyrir margar sakir. Þó Ríkislögreglustjóra hafi ekki verið óheimilt að afla persónuupplýsinga um meðlimi Falun Gong, getur ráðherra ekki farið fram á að fá afhentar slíkar upplýsingar nema að skilyrðum áðurnefndar reglugerðar um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu sé uppfyllt. Í því sambandi er ekki hægt að líta til stöðu ráðherra sem yfirstjórnanda lögreglu eins og úrskurður Persónuverndar frá árinu 2003 staðfestir.
Miðað við ummæli Sigríðar Bjarkar er vandséð að hún hafi gætt þess að Gísli Freyr væri til þess bær aðili til að taka við persónuupplýsingum sem aflað var í þágu lögreglustarfa, sem henni bar að gera áður en hún miðlaði til hans gögnum. Skýringar hennar eru í raun á skjön við allar grundvallarreglur á sviði ábyrgrar stjórnsýslu og réttrar meðferðar á persónuupplýsingum.
Þá vekur sömuleiðis athygli að Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð aðstoðarríkislögreglustjóri árið 2007, og hefði því ef til vill átt að vera upplýst um lyktir Falun Gong málsins hjá Persónuvernd og hvaða lærdóm hafi mátt draga af málinu.