Sjávarútvegurinn greiddi sér 21,5 milljarða króna í arð í fyrra
Hagur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, samtala arðgreiðslna og aukins eigin fjár þeirra, hefur vænkast um meira en 500 milljarða króna frá bankahruni. Geirinn greiddi sér meira út í arð í fyrra en hann greiddi í öll opinber gjöld. Það sem útvegsfyrirtæki hafa greitt í veiðigjöld á síðustu fimm árum er um helmingur þess sem þau hafa greitt sér út í arð.
Sjávarútvegsfyrirtæki landsins greiddu sér 21,5 milljarða króna í arð á síðasta ári. Á sama tíma greiddu félögin 17,4 milljarða króna í bein opinber gjöld. Inni í þeirri tölu eru veiðigjöld (4,8 milljarðar króna), tekjuskattur (7,3 milljarðar króna) og áætlað tryggingagjald (5,3 milljarðar króna).
Þetta er í eina skiptið á síðustu fimm árum sem sjávarútvegurinn hefur greitt minna í opinber gjöld en hann tók út í arðgreiðslur. Raunar hefur geirinn einungis einu sinni greitt jafn lítið í bein opinber gjöld innan árs á því tímabili og hann gerði í fyrra, en það var árið 2017 þegar heildargreiðslur hans í opinber gjöld voru 15,8 milljarðar króna.
Sjávarútvegurinn hefur að sama skapi aldrei greitt sér jafn háa upphæð út í arð og hann gerði í fyrra. Inni í þeirri tölu, 21,5 milljarðar króna, eru um tíu milljarða króna arðgreiðslur dótturfélaga Samherja til móðurfélagsins en það greiddi sjálft ekki út arð.
Heildararðgreiðslur út úr sjávarútvegi frá byrjun árs 2016 og út síðasta ár nema 70,5 milljörðum króna. Á sama tíma hefur geirinn greitt 35,9 milljarða króna í veiðigjöld, eða rétt rúmlega 50 prósent af þeirri upphæð sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa fengið í arð.
Þetta kemur fram í Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte sem kynntur var á Sjávarútvegsdeginum 2021 sem fór fram í morgun. Gagnagrunnurinn nær utan um rekstur 90 prósent sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi en fjárhæðirnar hafa verið uppreiknaðar til að endurspegla allan geirann.
Bókfært eigið fé jókst um 28 milljarða
Bókfært eigið fé íslensks sjávarútvegs hefur aldrei verið meira en það var í lok síðasta árs, þegar það var 325 milljarðar króna. Þar er um að ræða hreinar eignir þegar búið er að greiða arð út úr geiranum og gera upp öll opinber gjöld. Alls jókst bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja um 28 milljarða króna milli ára og um 104 milljarða króna frá árinu 2014.
Hagnaður fyrirtækja í sjávarútvegi hefur enda verið 181 milljarður króna á síðustu fimm árum og það sem situr ekki inni í fyrirtækjunum sem eigið fé hefur verið greitt út sem arður til eigenda þeirra.
Frá hruni og fram að þeim tíma batnaði eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna um 404 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 124,7 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur því vænkast um 528,7 milljarða króna frá hruni.
Með tekjur og skuldir í öðrum gjaldmiðlum
Tekjur íslensks sjávarútvegs jukust um fjóra milljarða króna á síðasta ári og voru 284 milljarðar króna. Hagnaður dróst hins vegar saman um 14 milljarða króna milli ára og var 29 milljarðar króna. Þar skiptir þó nær öllu máli að gengistap var 19 milljarðar króna sem fellur til vegna þess að öll stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins gera upp í öðrum gjaldmiðlum en íslenskri krónu. Þegar hún styrkist þá myndast gengistap hjá þeim, en þegar hún veikist myndast gengishagnaður. EBIT-hagnaður – rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta – íslensks sjávarútvegs stóð nánast í stað milli ára, var 60 milljarðar króna árið 2019 (þegar gengistap var einungis þrír milljarðar) en 57 milljarðar króna í fyrra.
Sömu sögu er að segja af skuldastöðu íslensks sjávarútvegs. Heildarskuldir í íslenskum krónum hækkuðu um 46 milljarða króna í 461 milljarð króna. Ástæðan er þó fyrst og síðast gengisbreytingar enda hafa stærstu sjávarútvegsfyrirtækin tekið uppistöðu lána sinna í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu og hjá öðrum lánveitendum en íslenskum bönkum.
Veiðigjöldin lækkuðu
Veiðigjöld í fyrra voru, líkt og áður sagði, 4,8 milljarðar króna. Þau lækkuðu á milli ára um 1,8 milljarða króna og eru þau lægstu sem greidd hafa verið í ríkissjóðs síðustu árin.
Samtals frá árinu 2011, og út síðasta ár, greiddi sjávarútvegurinn 74,7 milljarða króna í veiðigjöld.
Ný lög um veiðigjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Samkvæmt þeim er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs.
Samherjar með sterka stöðu
Mikil samþjöppun hefur orðið innan kvótakerfisins á undanförnum árum sem leitt hefur til þess að eigendur örfárra sjávarútvegsfyrirtækja hafa efnast verulega. Ítök þeirra í ótengdum geirum hérlendis hafa samhliða vaxið hratt.
Miðað við síðasta birta lista Fiskistofu um þær aflaheimildir sem hvert fyrirtæki heldur á þá er Síldarvinnslan, ásamt dótturfélögum, í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta með 7,7 prósent hans. Miðað við það sem var greitt fyrir aflaheimildir Bergs ætti virði þess kvóta að vera um 92 milljarðar króna. Aflaheimildir Síldarvinnslunnar eru bókfærðar á um 30 milljarða króna. Tveir stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji og Kjálkanes.
Næst stærsta fyrirtækið á listanum yfir þær útgerðir sem erum með mestu aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu er einmitt Samherji.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,3 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,7 prósent kvótans. Samanlagt heldur Samherji því á níu prósent úthlutaðra veiðiheimilda.
Gjögur, sem er í eigu sömu aðila og eiga Kjálkanes, heldur svo á 2,3 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum, sem er 27,5 milljarða króna virði.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,3 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,7 prósent kvótans.
Samanlagt virði þessa kvóta sem Samherji heldur á, miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir, er um 107,6 milljarðar króna.
Þessir aðilar: Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, sem Samkeppniseftirlitið telur mögulegt að séu tengdir, halda því samtals á 19 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Markaðsvirði hans er um 227 milljarðar króna.
Nokkrar blokkir fyrirferðamiklar
Brim, sem er skráð á markað, er sú útgerð sem heldur beint á mestum kvóta, eða 10,41 prósent hans. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,57 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims.
Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 1,43 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög halda því á 15,51 prósent af úthlutuðum kvóta. Markaðsvirði hans er um 184,1 milljarðar króna miðað við síðustu viðskipti með kvóta.
Kaupfélag Skagfirðinga á FISK Seafood, sem heldur á 5,51 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með 4,5 prósent heildaraflahlutdeild. Þá á Vinnslustöðin 48 prósent hlut í útgerðarfélaginu Huginn í Vestmannaeyjum, sem heldur á 0,8 prósent af útgefnum kvóta.
FISK á til viðbótar allt hlutafé í Soffanías Cecilsson, en það fyrirtæki heldur á um 0,27 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja rétt yfir ellefu prósent, og er því undir 12 prósent markinu þótt þeir yrðu skilgreindir með öðrum hætti.
Markaðsvirði þess kvóta, miðað við síðustu gerðu viðskipti, er um 132,4 milljarðar króna.
Þessar þrjár blokkir, sú sem hverfist í kringum Samherja, sú sem hverfist í kringum Brim og sú sem hverfist í kringum útgerð Kaupfélags Skagfirðinga, heldur því samtals á 45,6 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Samanlagt markaðsvirði hans er um 544,8 milljarðar króna.
Alls er 67,4 prósent alls úthlutaðs afla í höndum 15 útgerða sem margar hverjar tengjast innbyrðis.
Almenningur vill breytingar
Í aðdraganda síðustu kosninga voru gerðar ýmsar kannanir á skoðun almennings á stjórn fiskveiða hérlendis. Í könnun sem MMR vann fyrir Öldu - félag um sjálfbærni og lýðræði kom meðal annars fram 66 prósent landsmanna, tveir af hverjum þremur, voru óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi. Þar af sögðust 38 prósent vera mjög óánægð með hana.
Í sömu könnun kom fram að 64 prósent landsmanna, næstum tveir af hverjum þremur, telja að núverandi útfærsla á kvótakerfinu ógni lýðræðinu.
Loks var birt niðurstaða könnunar sem Gallup gerði fyrir þrýstihópinn Þjóðareign. Í henni var fólk spurt hvort það styddi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Niðurstaðan var sú að 77 prósent aðspurðra var fylgjandi því og einungis 7,1 prósent var andvígt slíkri kerfisbreytingu. Afgerandi meirihluti kjósenda allra flokka var fylgjandi breytingunni þótt stuðningurinn væri minni hjá kjósendum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks en þeim sem ætla að kjósa aðra flokka.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði