Sjö molar um seðlabankavexti úti í heimi
Verðbólga veldur því að vaxtalækkanir faraldursins eru að ganga til baka, víðar en hér á Íslandi. Kjarninn tók saman nokkra fróðleiksmola um þróun mála í ríkjum bæði nær og fjær.
Í opinberri umræðu um nýlegar vaxtahækkanir hérlendis hefur stundum heyrst að seðlabankar úti í heimi séu jafnvel frekar að lækka vexti en hækka þá, eða séu þá að hækka þá af mikilli varúð. Slík ummæli hafa jafnvel verið látin falla í ræðustól Alþingis í þessum mánuði.
Þrátt fyrir ummæli af þessu tagi er raunin sú að seðlabankar úti í heimi eru langflestir byrjaðir að hækka stýrivexti sína fyrir allnokkru til þess að bregðast við þeirri verðbólgu sem nú geisar.
Víða eru vextir, rétt eins og á Íslandi, orðnir hærri en þeir voru áður en heimsfaraldurinn skall á og í sumum ríkjum er nú verið að grípa til mestu vaxtahækkana sem sést hafa í áratugi. Og þetta gæti bara verið byrjunin.
Kjarninn tók saman sjö mola um stöðu seðlabankavaxta í ríkjum nær og fjæ
1. Vextir á Nýja-Sjálandi orðnir tvöfalt hærri en fyrir faraldur
Nýja-Sjáland lokaði landamærum sínum með ansi harkalegum hætti er kórónuveirufaraldurinn gekk yfir. Seðlabanki landsins greip til vaxtalækkana, úr 1 prósenti niður í 0,25 prósent, til þess að örva hagkerfið innanlands.
Segja má að það hafi tekist ágætlega, en rétt eins og hér á landi urðu áhrif vaxtalækkana þau að umsvif á fasteignamarkaði uxu verulega og verð húsnæðis snarhækkaði. Fasteignaverð í eyríkinu hækkaði að meðaltali um 42 prósent frá því í mars 2020 og þar til í janúar á þessu ári, sem er sambærileg hækkun og hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu hérlendis frá upphafi faraldurs.
Nýsjálenski seðlabankinn byrjaði að bregðast við sjóðandi heitum fasteignamarkaði síðastliðið haust og hefur síðan þá hækkað meginvexti sína úr 0,25 prósentum upp í 2 prósentur. Búist er við frekari vaxtahækkunum í júlí og bankinn sjálfur hefur gefið það út að hann sjái fyrir sér að færa meginvexti sína upp í 4 prósent á næstu misserum.
Húsnæðisverð í eyríkinu er byrjað að lækka frá því að seðlabankinn byrjaði að hækka vexti. Bankar í landinu búast við því að húsnæðisverðið muni lækka um allt að 20 prósent á næsta árinu.
2. Vextir orðnir hærri í Bretlandi en þeir hafa verið frá 2009
Seðlabanki Bretlands hefur tilkynnt um fimm vaxtahækkanir frá því í desember. Sú síðasta færði meginvexti bankans úr 1 prósenti upp í 1,25 prósent. Fyrir faraldurinn voru vextir bankans undir einu prósenti og höfðu verið það allt frá því snemma árs 2009.
Lægst fóru vextirnir í 0,1 prósent í tveimur vaxtalækkunum sem áttu sér stað í upphafi kórónuveirufaraldursins í mars 2020 og þeim var ekki haggað fyrr en í desember í fyrra.
Um nýjustu vaxtahækkun Seðlabankans
Lánveitendur í Bretlandi eru byrjaðir að bregðast við með hækkunum á vöxtum nýrra húsnæðislána. Í nýlegriumfjöllun Financial Times kom fram að meðalvextir á nýjum fasteignalánum með föstum vöxtum til tveggja ára hefðu hækkað um rúmt prósent frá því í desember, upp í 3,25 prósent.
3. Mesta vaxtahækkunin í 20 ár í Noregi
Vextir norska seðlabankans tóku að hækka á ný í september á síðasta ári, eftir að hafa verið 0 prósent allt frá því í maí árið 2020. Vextir bankans voru 1,5 prósent er heimsfaraldurinn skall á.
Bankinn kynnti sína nýjustu vaxtaákvörðun á fimmtudag. Vextir voru hækkaðir um 0,5 prósentustig upp í 1,25 prósent, sem var meiri hækkun en flestir markaðsaðilar bjuggust við og raunar stærsta stökkið sem tekið hefur verið í einni vaxtaákvörðun í Noregi allt frá árinu 2002.
Norski seðlabankinn býst við að halda áfram að hækka vexti og jafnvel hraða á hækkunartaktinum ef verðbólga vex enn frekar. Bankinn býst nú við því að vextir um mitt næsta ár verði um 3 prósent. Svo háir hafa stýrivextir í Noregi ekki verið síðan fyrir efnahagshrunið árið 2008.
4. Fyrsta vaxtahækkunin í 11 ár framundan hjá evrópska seðlabankanum
Evrópski seðlabankinn hefur ekki hreyft við sínum vöxtum síðan í september árið 2019, en þá voru vextir á innistæður frá viðskiptabönkum lækkaðir niður í -0,5 prósent. Þessir vextir evrópska seðlabankans hafa verið neikvæðir allt frá árinu 2014 og hafa ekki verið hækkaðir síðan árið 2011.
Vaxtastig evrópska seðlabankans var svo lágt er kórónuveirufaraldurinn skall á að ekki var hægt að beita vaxtatólinu til að örva efnahag álfunnar. En nú stendur til að fara að hækka vexti á ný, til að reyna að koma böndum á verðbólgu.
Fyrr í þessum mánuði tilkynnti Christine Lagarde seðlabankastjóri að í júlí yrðu vextir bankans hækkaðir um 0,25 prósentustig og að vextir yrðu sömuleiðis hækkaðir í september, jafnvel um meira en 0,25 prósentustig ef verðbólgan yrði þrálát eða færðist enn í aukana.
5. Seðlabanki Bandaríkjanna með mestu hækkunina frá 1994
Um miðjan mánuðinn hækkaði bandaríski seðlabankinn vexti um 0,75 prósentustig, og fóru virkir vextir bankans úr 0,77 prósentum upp í 1,52 prósent. Þetta var mesta hækkun vaxta sem gripið hefur verið til á einu bretti allt frá árinu 1994 og meiri hækkun en búist hafði verið við.
Vextir í Bandaríkjunum eru nú orðnir nærri jafn háir og þeir voru fyrir faraldurinn og seðlabankinn býr sig undir að hækka vextina töluvert meira – eða upp í 3,4 prósent fyrir lok ársins.
Jerome Powell seðlabankastjóri sagði í vikunni að vaxtahækkanir bankans gætu leitt til þess að bandaríska hagkerfið færðist inn í samdráttarskeið. Á móti benti hann á það, í framsögu frammi fyrir bankamálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, að hin hættan væri sú að verðstöðugleiki myndi ekki nást og verðbólga yrði viðvarandi um lengri tíma.
Hann sagði að það væri ekki í boði að misheppnast í því verkefni og að koma þyrfti verðbólgu aftur niður í 2 prósent.
6. Skyndileg vaxtahækkun í Sviss – sú fyrsta í 15 ár
Svissneski seðlabankinn hefur verið með stýrivexti sína í sögulegu lágmarki allt frá árinu 2015, en vextir bankans hafa verið neikvæðir um -0,75 prósent. Öllum að óvörum varð breyting þar á um miðjan mánuðinn, en þá kynnti bankinn 0,5 prósentustiga hækkun á stýrivöxtunum og eru þeir nú -0,25 prósent.
Þetta var fyrsta stýrivaxtahækkun svissneska seðlabankans allt frá árinu 2007, eða í 15 ár.
Í Sviss er verðbólga mun lægri en í flestum öðrum löndum Evrópu, en hefur þó farið vaxandi. Í upphafi mánaðar mældist hún 2,9 prósent og svissneski seðlabankinn beið ekki lengi með að grípa til aðgerða – og hyggst halda áfram að hækka vexti ef tilefni verður til og verðbólga helst yfir 2 prósentum.
7. Tyrkland, með 73,5 prósent verðbólgu, hyggst lækka vexti meira
Efnahagur Tyrklands er á undarlegum slóðum þessa stundina. Ársverðbólga í landinu mældist 73,5 prósent í maí og hefur ekki verið hærri í 24 ár, eða frá 1998. Samkvæmt tölunum frá því í maí hafði verðið á mat hækkað um rúmlega 91 prósent á einu ári.
Þrátt fyrir þetta er seðlabanki Tyrklands búinn að halda vöxtum sínum óbreyttum frá því í desember síðastliðnum, er vextir bankans voru lækkaðir úr 15 prósentum í 14 prósent.
Ársverðbólgan var oftast að mælast á bilinu 10-20 prósent á árunum 2021 og 2022, en á undanförnu hálfu ári hefur hún hlaupið úr böndunum og mælist nú í hæstu hæðum sem áður segir.
Recep Tayyip Erdoğan forseti Tyrklands lofaði því þó í upphafi mánaðarins að ríkisstjórn hans, sem handstýrir seðlabanka landsins, muni ekki hækka vexti til að bregðast við stöðunni. Þvert á móti mætti búast við vaxtalækkunum.
Forsetinn segist ætla sér að auka framleiðslu, útflutning og atvinnu með því að halda vaxtastiginu lágu og hefur ítrekað loforð um að ná fram jákvæðum viðskiptaafgangi við útlönd. Það segir hann að muni leiða til þess að gjaldmiðillinn, tyrkneska líran, nái stöðugleika og verðbólga dvíni.
Erdoğan segir hluta verðbólguvandans sem Tyrkir glíma nú við felast í því að sumir landsmanna kjósi að geyma sparifé sitt í erlendum gjaldeyri.
Lái þeim hver sem vill. Árið 2012 kostaði ein tyrknesk líra rúmar 70 íslenskar krónur. Í dag kostar hún um það bil 7 íslenskar krónur.
Lestu meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði