Þegar Tal var sameinað 365 miðlum fylgdi 451 milljón króna skatteign með í kaupunum. Skatteign er innistæða sem hægt er að nýta til að greiða ekki skatta af hagnaði sem annars er skattskyldur.
Þetta kemur fram í samrunaefnahagsreikningi 365 miðla og IP Fjarskipta, sem áður áttu Tal. Reikningurinn er dagsettur 1. júlí 2014 og sýnir stöðu félaganna tveggja á þeim tímapunkti. Hægt er að lesa samrunaefnahagsreikninginn og önnur skjöl tengd samrunanum hér.
Stanslaust tap og miklar skuldir
365 miðlar og Tal sameinuðust í byrjun desember 2014 undir merkjum 365 í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið samþykkti hann með skilyrðum. Fyrrum hluthafar Tals, IP Fjarskipti, fengu hlutafé í 365 upp á 354 milljónir að nafnvirði fyrir allt hlutaféð í Tal, sem var upp á 310 milljónir króna á nafnvirði. Því fengu hluthafar Tals alls 1,145 hlut í hlutafé 365 fyrir hverja krónu sem hlutafjár í IP Fjarskiptum. Þetta skilað fyrrum eigendum Tals 19,78 prósent hlut í 365 miðlum.
Eigendur Tals voru fjárfestingasjóðurinn Auður 1, sem átti 94 prósent, og félag í eigu Kjartans Arnar Ólafssonar, sem átti sex prósent. Þegar þessir eigendur keyptu Tal árið 2010 greiddu þeir 594 milljónir króna fyrir fjarskiptafyrirtækið.
Frá þeim tíma hefur rekstur Tals gengið illa. Félagið tapaði 99 milljónum króna árið 2010, 92,9 milljónum króna árið 2011 og 197 milljónum króna árið 2012. Árið 2013 var tapið síðan 131 milljón króna og skuldir félagsins á þeim tíma voru 498 milljónir króna umfram eignir.
Frá þeim tíma hefur rekstur Tals gengið illa. Félagið tapaði 99 milljónum króna árið 2010, 92,9 milljónum króna árið 2011 og 197 milljónum króna árið 2012. Árið 2013 var tapið síðan 131 milljón króna og skuldir félagsins á þeim tíma voru 498 milljónir króna umfram eignir.
Samhliða hefur viðskiptavinafjöldi Tals hríðfallið, bæði á markaði fyrir farsímaþjónustu og í sölu á nettengingum.
Það veltu því margir fyrir sér hvað valdi því að Tal hefði verið svona hátt metið í samrunanum við 365.
Helmingur eigna óefnislegar eignir
Í samrunaefnahagsreikningi 365 og Tals kemur fram að eignir Tals hafi verið metnar á 282 milljónir króna í samrunanum. Skuldir félagsins á sama tíma voru 735 milljónir króna, 453 milljónum krónum meiri en eignir félagsins.
Við sameininguna varð hins vegar til samrunafærsla sem bjó til skatteign upp á 451 milljón króna. Eftir hana jókst skatteign hins sameinaða félags úr 80 milljónum króna í 531 milljónir króna. Til viðbótar jukust óefnislegar eignir hins sameinaða félags um 357 milljónir króna. Þær standa nú í 6.444 milljónum króna og eru 52 prósent allra eigna 365, sem metnar eru á 12,5 milljarða króna. Samtals skuldar hið sameinaða félag 365 og Tals 8,7 milljarða króna.
Eigendur Auðar 1, sem á 18,6 prósent hlut í 365, eru meðal annars helstu eigendur Virðingar, fjármálafyrirtækisins sem stýrir sjóðnum, íslenskir lífeyrissjóðir og kröfuhafar hins fallna banka Glitnis.