Skipa á starfshóp til að stöðva notkun á félögum til að lækka skattgreiðslur
Ríkisstjórnin hefur opinberað hvernig skattmatsreglur verði endurskoðaðar til að koma í „veg fyrir óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“. Fyrir liggur að hægt sé að koma sér hjá fullum skattgreiðslum með því að stofna einkahlutafélag utan um rekstur og telja fram lægri tekjur en þær eru í reynd, gjaldfæri persónuleg útgjöld á rekstur til að komast hjá skattgreiðslum og taki tekjur frekar út sem hagnað og arð þar sem samanlagður skattur á slíkt er lægri en almennur tekjuskattur.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2021 segir að skattmatsreglur verði endurskoðaðar og að komið verði í veg fyrir „óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“. Þar segir að enn fremur verði regluverk í kringum tekjutilflutning „tekið til endurskoðunar til að tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar.“
Engar frekari skýringar eru gefnar í sáttmálanum á því hvernig endurmat á skattmatsreglum eigi að fara fram, hvaða óeðlilegu og óheilbrigðu hvata eigi að koma í veg fyrir né hvernig tryggja eigi að þeir sem hafi eingöngu fjármagnstekjur verði látnir greiða útsvar og þeirra mála sem er að finna á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar bera það með sér að fjalla um ofangreind atriði.
Kjarninn spurðist fyrir um hvað fælist í þessu stefnumáli ríkisstjórnarinnar fyrr á þessu ári, en hvorki forsætis- né fjármála- og efnahagsráðuneytið gat svarað því.
Borga lægra skatthlutfall en launafólk
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði í kjölfarið fram fyrirspurn á Alþingi um sama mál, og fékk efnislegt svar við henni í gær frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.
Í því svari segir að endurskoðun skattmatsreglnanna, til að koma í veg fyrir óeðlilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga, feli í sér að skattmat á hlunnindum og reglur um reiknað endurgjald verði teknar til einhverskonar endurskoðunar.
Þeir sem eiga einkahlutafélag utan um einhverskonar rekstur eiga að reikna sér laun fyrir þá vinnu sem felst í rekstrinum, sem getur eðli málsins samkvæmt verið allskonar. Ríkisskattstjóri setur árlega reglur um hver lágmarkslaun fyrir störf eigi að vera.
Í svari Bjarna segir að gætt hafi „tilhneigingar til þess að þeir sem telja fram launatekjur á grundvelli reiknaðs endurgjalds gangi út frá lægstu viðmiðunum sem reglurnar heimila og greiði sér í ríkari mæli út hagnað eða arð af rekstri. Af því leiðir að þeir sem telja fram lægra reiknað endurgjald en rétt mætti telja að séu tekjur þeirra í reynd greiða lægri tekjuskatt til ríkissjóðs en þeir sem starfa hjá ótengdum vinnuveitendum. Lægri reiknuð laun þýða enn fremur að greitt er lægra tryggingagjald og iðgjald til lífeyrissjóðs en ella væri.“
Hæsta skattþrepið í almennum tekjuskatti er 46,25 prósent en samanlagður skattur á hagnað og arðgreiðslur er talsvert lægri, eða 37,6 prósent. Í svari Bjarna segir að þessi munur getið falið í sér hvata til að stofna félag utan um atvinnurekstur svo hagnaður skattleggist í lægra hlutfalli en efsta þrepinu. „Þessu til viðbótar er hætta á að því að lögaðilar og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur gjaldfæri útgjöld á rekstur sem rétt væri að þeir beri persónulega af launatekjum sínum. Í því felst ígildi hlunninda eða tekna sem hvorki er greiddur tekjuskattur af í ríkissjóð né launatengd gjöld. Einnig að virðisaukaskattur af einkakostnaði sé talinn fram sem innskattur þannig að skil á virðisaukaskatti í ríkissjóð verði lægri sem því nemur.“
Ætla að skipa starfshóp
Jóhann Páll spurði einnig af hverju það hafi ekki verið gripið fyrr til aðgerða til að sporna við þessum hvötum sem eru innbyggðir inn í skattmatskerfi Íslands. Í svari ráðherra er því ekki svarað beint heldur segir þar meðal annars að í öðrum löndum hafi verið farnar „ýmsar aðrar leiðir en hér á landi til að reyna að samræma skattlagningu á tekjur af mismunandi uppruna en ljóst er að það getur verið vandasamt í framkvæmd.“
Fjármála- og efnahagsráðherra segir að ríkisstjórnin ætli sér að koma í veg fyrir þessa hvata, í samræmi við fyrirheit í stjórnarsáttmála, með því að stofna sérstakan starfshóp um verkefnið. Erindi þess hóps verður skilgreint í skipunarbréfi. „Þar verður m.a. kveðið á um endurskoðun og einföldun reglna um reiknað endurgjald í eigin atvinnurekstri og samspil við skattlagningu á hagnað og arð sem og skattmat vegna hlunninda og úttekta eigenda úr félögum.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars