Halla Sigrún Hjartardóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (FME), hagnaðist um liðlega 830 milljónir króna þegar gengið var frá sölu á Skeljungi og færeyska olíufélaginu P/F Magn í lok árs 2013. Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í dag. Í blaðinu kemur enn fremur fram að Halla Sigrún hafi neitað því að hafa átt í félaginu til þessa, en hún var skipuð formaður stjórnar FME í desember í fyrra.
Afhjúpun Morgunblaðsins er enn einn kaflinn í skrautlegri sögu Skeljungs undanfarin áratug. Á þeim tíma hefur fyrirtækið verið selt margsinnis fram og til baka, oft milli tengdra aðila. Miklar efasemdir hafa skapast um hvort þeir sem fóru með sölu félagsins hafi haft hagsmuni seljenda eða kaupenda að leiðarljósi og á endanum virðist lítill en tengdur hópur sem starfaði í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis/Íslandsbanka þegar Skeljungur var seldur af bankanum í tveimur skrefum sumarið 2008 og árið 2009, og nýir aðaleigendur Skeljungs, hafa hagnast um marga milljarða króna á viðskiptum með félagið og færeyska dótturfélagið P/F Magn.
Selt fram og til baka
Í febrúar 2004 keypti eignarhaldsfélag á vegum Pálma Haraldssonar, sem oftast er kenndur við Fons, og þáverandi viðskiptafélaga hans, Jóhannesar Kristinssonar, Skeljung af Kaupþingi. Tæpu ári síðar var félagið selt til Haga, sem þá voru í eigu Baugsfjölskyldunnar, en náið viðskiptasamband var á milli Pálma og hennar. Í kjölfarið var verslunarrekstur Skeljungs færður yfir til 10-11, sem þá var einnig í eigu Haga.
Ári síðar, 1. mars 2006, var Skeljungur seldur að nýju og í þetta sinn til félagsins Uppsprettu ehf., dótturfélags Fons. Rekstur bensínstöðvanna var samhliða færður aftur frá 10-11 til Skeljungs. Sömu aðilar voru því að selja félagið fram og til baka á milli sín.
Á mannamáli þýddi það að bankinn skuldbatt sig til að kaupa olíufélagið á því verði ef enginn annar væri tilbúinn til þess.
Þannig hélst eignarhaldið fram í desember 2007 þegar Glitnir ákvað að sölutryggja allt hlutafé Uppsprettu í Skeljungi fyrir 8,7 milljarða króna. Á mannamáli þýddi það að bankinn skuldbatt sig til að kaupa olíufélagið á því verði ef enginn annar væri tilbúinn til þess. Sú varð raunin og því eignaðist bankinn félagið. Í árslok þess árs námu skuldir Skeljungs rúmum tíu milljörðum króna en þorri þeirra var í erlendum gjaldeyri. Þær hækkuðu því mikið við fall krónunnar.
Borguðu með fasteignum í Danmörku
Í ágúst 2008 keypti félagið BG Partners 51 prósenta hlut í Skeljungi. Eigendur þess voru hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson og viðskiptafélagi þeirra, Birgir Þór Bieltvedt. Heildarvirði Skeljungs var í þeim viðskiptum talið vera um þrír milljarðar króna, sem er rúmur þriðjungur af sölutryggingunni sem Glitnir veitti og tapaði síðar. BG Partners greiddi samkvæmt því um 1,5 milljarð króna fyrir ráðandi hlut í Skeljungi.
Reyndar liggur ekki alveg fyrir hvert lokaverðið var því hluti kaupverðsins var greiddur með fasteignum í Danmörku sem hríðlækkuðu í verði eftir að alþjóðalega fasteignabólan sprakk með látum árið 2008. Staða Skeljungs á þessum tíma var ekki góð. Skuldir höfðu vaxið úr tíu milljörðum króna í 18 milljarða króna á einu ári og eigið fé félagsins var neikvætt um rúmlega 1,8 milljarða króna.
Glitnir sölutryggði Skeljung fyrir 8,7 milljarða króna og tapaði stórkostlega á því þegar félagið var selt.
Sá 49 prósenta hlutur sem Glitnir hélt eftir var færður yfir til Íslandsbanka eftir bankahrunið og bankinn fékk tvo menn í fimm manna stjórn. Í lok maí 2009 var Einar Örn Ólafsson ráðinn forstjóri Skeljungs. Fulltrúar Íslandsbanka í stjórn félagsins, þeir Ríkharð Ottó Ríkharðsson og Hörður Felixson, greiddu ekki atkvæði með ráðningu Einars. Einar hafði áður unnið hjá fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og var meðal annars forstöðumaður hennar frá stofnun bankans í október 2008. Einar hafði einnig séð um söluna á 51 prósenta hlut í Skeljungi frá Glitni til BG Partners, félags þeirra Svanhildar Nönnu, Guðmundar og Birgis, í ágúst 2008. Á meðal samstarfsfélaga Einars í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis, og síðar Íslandsbanka, voru Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Þór Guðjónsson. Þau áttu eftir að koma mikið við sögu Skeljungsviðskipta síðar meir.
Hætti vegna trúnaðarbrests
Þegar Einar var ráðinn forstjóri Skeljungs var það gert að tillögu stjórnar félagsins, þeirra Svanhildar Nönnu, Guðmundar og Birgis. Forsvarsmenn Íslandsbanka voru afar ósáttir við að ekkert samráð var haft við þá áður en tillagan var lögð fram, enda hafði Einar skömmu áður hætt störfum hjá bankanum.
Forsvarsmenn Íslandsbanka komust á snoðir um þetta og mátu það svo að óheppilegt væri að Einar héldi áfram að vinna þar, meðal annars vegna þess að hann hafði aðgang að trúnaðarupplýsingum í bankanum sem gætu nýst Skeljungi.
Samkvæmt frétt DV um starfslok hans urðu þau vegna trúnaðarbrests sem skapast hafði milli Einars og forsvarsmanna bankans. Einar hafði, samkvæmt fréttinni, verið að hugsa um að finna sér aðra vinnu um nokkurt skeið og var farinn að ræða við eigendur Skeljungs um að taka við félaginu á meðan hann starfaði enn í bankanum. Forsvarsmenn Íslandsbanka komust á snoðir um þetta og mátu það svo að óheppilegt væri að Einar héldi áfram að vinna þar, meðal annars vegna þess að hann hafði aðgang að trúnaðarupplýsingum í bankanum sem gætu nýst Skeljungi. Einari var því gert að hætta með skömmum fyrirvara.
Bankinn lét fara fram óháða rannsókn
Í kjölfar ráðningar Einars lét Íslandsbanki óháðan aðila rannsaka sölu bankans á ráðandi hlut í Skeljungi, sem Einar hafði séð um, því bankinn vildi ganga úr skugga um að eðlilega hefði verið staðið að sölunni. Mikið var rætt um málið í stjórn Íslandsbanka á þessum tíma og ljóst var að afstaða sumra stjórnarmanna var sú að BG Partners hefði fengið að kaupa gott rekstrarfélag fyrir alltof lágt verð og auk þess borgað fyrir það með eignum sem stjórnarmennirnir töldu fullvíst að væru minna virði en upphaflega var af látið.
Ráðning Einars til Skeljungs ýtti enn frekar undir þessa skoðun stjórnarmannanna. Eitt af því sem hinn óháði aðili var látinn rannsaka var hvort eðlilegt hefði verið að taka við greiðslu fyrir Skeljung í formi þeirra fasteigna sem notaðar voru til að greiða fyrir hlutinn.
Ráðning Einars til Skeljungs ýtti enn frekar undir þessa skoðun stjórnarmannanna. Eitt af því sem hinn óháði aðili var látinn rannsaka var hvort eðlilegt hefði verið að taka við greiðslu fyrir Skeljung í formi þeirra fasteigna sem notaðar voru til að greiða fyrir hlutinn. Þessi rannsókn virðist ekki hafa leitt neitt óeðlilegt í ljós. Bankinn greip að minnsta kosti ekki til neinna aðgerða gegn nýjum eigendum Skeljungs né Einari sjálfum. Rannsóknin hefur hins vegar aldrei verið gerð opinber.
Þrjú tilboð í hlutinn
Eftir að lægja tók var eftirstandandi eignarhlutur Íslandsbanka í Skeljungi síðan settur í formlegt söluferli í nóvember 2009. Ljóst var að það ferli yrði erfitt, enda um minnihlutaeign að ræða. BG Partners myndi alltaf ráða Skeljungi þótt einhverjir alls óskyldir fjárfestar kæmu að félaginu.
Tilboð þeirra Nönnu, Guðmundar og Birgis reyndist á endanum hagstæðast og var því tekið. Þau greiddu mun lægra verð fyrir en þegar þau keyptu upprunalega hlutinn.
Þrátt fyrir það sýndu um 20 fjárfestar hlutnum áhuga í fyrstu og þrjú tilboð bárust í hann að lokum: Frá sænska fyrirtækinu Atlantic Tank Storage, félagi í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, eiganda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og að lokum frá meirihlutaeigendunum í félaginu, sem áttu forkaupsrétt samkvæmt fyrri kaupsamningi. Tilboð þeirra Nönnu, Guðmundar og Birgis reyndist á endanum hagstæðast og var því tekið. Þau greiddu mun lægra verð fyrir en þegar þau keyptu upprunalega hlutinn.
Birgir seldi sinn hlut í Skeljungi árið 2011. Hann er í dag aðaleigandi Domino´s Pizza á Íslandi. Svanhildur Nanna og Guðmundur áttu eftir það um 92 prósenta hlut í Skeljungi.
Allt gengur upp
Á síðustu árum virðist allt hafa gengið upp hjá Skeljungi. Félagið hagnaðist um tæpan 1,5 milljarð króna á árunum 2010 og 2011. Í febrúar 2012 endurfjármagnaði Arion banki allar skuldir móðurfélags Skeljungs sem greiddi með því upp allar skuldir sínar við Íslandsbanka. Þar með var slitið á tengslin við fortíðina. Heildarskuldir voru enn háar, um 10,6 milljarðar króna í lok árs 2011, en eiginfjárstaðan var jákvæð um 3,7 milljarða króna.
Í tilkynningu frá félaginu vegna þessarar afkomu sagði að markmiðið með þessum viðskiptum hefði verið að stuðla „að vexti félagsins, auka verðgildi þess og jafnframt að gera það að áhugaverðari fjárfestingarkosti". Þar sagði ennfremur að „mikil umbreyting [hefði] átt sér stað á rekstri og efnahag Skeljungs á undanförnum árum […] Nettó vaxtaberandi skuldir þess eru kr. 4.882 millj. og hafa lækkað um kr. 6.980 millj. síðan núverandi eigendur komu að rekstrinum haustið 2008".
Skýringar á þessari lækkun á skuldum voru nokkrar. Sú sem mestu skipti var svokölluð höfuðstólsleiðrétting á skuldum sem Íslandsbanki bauð fyrirtækjum upp á. Við hana voru erlend lán Skeljungs færð yfir í krónur. Í öðru lagi hafði hagnaður félagsins verið ágætur auk þess sem það seldi höfuðstöðvar sínar árið 2011. Það gerði Skeljungi kleift að greiða hraðar niður skuldir.
Eignast 66 prósent í P/F Magn
Í frétt Morgunblaðsins í morgun kemur fram að Svanhildur og Guðmundur, í gengum eignarhaldsfélagið Heddu, hafi keypt færeyska félagið P/F Magn af þrotabúi Fons vorið 2009 og að kaupverðið hafi einungis verið á þriðja hundrað milljónir króna. Sú tala þykir mjög lág því á síðasta ári, 2013, var velta félagsins 17 milljarðar króna og hagnaður þess um 440 milljónir króna.
Morgunblaðið segir að á árinu 2011 hafi Halla Sigrún Hjartardóttir, Einar Örn Ólafsson og Kári Þór Guðjónsson, sem öllu unnu í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis/Íslandsbanka þegar Guðmundur og Nanna keyptu Skeljung, eignast 66 prósent hlut í Heddu, sem á þeim tíma átti P/F Magn að öllu leyti. Hvert og eitt þeirra átti eftir þetta 22 prósent hlut í Heddu.
Halla Sigrún Hjaltadóttir, stjórnarformaður FME og fjárfestir.
Í mars 2012, mánuði eftir að Skeljungur var endurfjármagnaður, var Skeljungur látinn kaupa 34 prósent hlut í P/F Magn af Heddu, félagi þeirra Svanhildar og Guðmundar. Í aðdraganda kaupanna var hlutafé Skeljungs aukið um 447 milljónir króna á genginu þrjár krónur á hlut. Samkvæmt því var kaupverðið á hlutnum í færeyska félaginu í kringum 1,3 milljarðar króna. Kaupverðið var greitt með nýju hlutafé í Skeljungi, og eftir viðskiptin átti Hedda 25 prósent í Skeljungi auk 66 prósent hlutar í P/F Magn. Morgunblaðið segir hins vegar að fjórðungshlutur Heddu í Skeljungi hafi áfram verið einkaeign Guðmundar og Svanhildar Nönnu. P/F Magn hafi Skeljungshjónin átt ásamt þremenningunum Höllu Sigrúnu, Einari og Kára.
Félögin seld á átta milljarða
Í ársreikningi fyrir árið 2011 hjá einu þeirra félaga sem Svanhildur Nanna og Guðmundur áttu og hélt á hlut í Skeljungi kom fram að heildarvirði Skeljungs hefði verið 6,9 milljarðar króna í lok þess árs. Það byggði á mati sem Straumur fjárfestingabanki hafði unnið fyrir félagið og var unnið út frá núvirtu sjóðstreymi þess. Miðað við það hafði virði Skeljungs, sem keypt var af Íslandsbanka á minna en þrjá milljarða króna, aukist mikið á árunum eftir bankahrun. Á sama tíma er ljóst að Íslandsbanki hafði tapað stórkostlega á félaginu, bæði vegna 8,7 milljarða króna sölutryggingarinnar sem fyrirrennari bankans veitti Pálma Haraldssyni og vegna afskrifta á skuldum sem fylgdu hinni svokölluðu höfuðstólsleiðréttingu sem félagið fékk hjá bankanum.
Árið 2013 var svo greint frá því að Svanhildur Nanna og Guðmundur hefðu ákveðið að selja allan hlut sinn í olíufélaginu Skeljungi og dótturfélaginu P/F Magn. SÍA II, sjóður sem rekinn er af sjóðsstýringafélaginu Stefni, dótturfélagi Arion banka, leiddi kaupin. Morgunblaðið segir að kaupverðið fyrir Skeljung hafi verið yfir fjórir milljarðar króna. Auk þess hafi 3,95 milljarðar króna verið greiddir fyrir færeyska félagið. Samtals var því greitt um átta milljarðar króna fyrir félögin tvö.
Neitaði að eiga í Skeljungi eða tengdum félögum
Halla Sigrún var skipuð stjórnarformaður FME í desember í fyrra af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra. Hún hafði áður starfað hjá Straumi í tvö ár en starfslok hennar þar bar skyndilega að. Fullyrt var í fjölmiðlum að starfslokin hefðu verið tilkomin vegna þess að upp komst um fjárfestingar hennar í Skeljungi og P/F Magn. Halla neitaði því í samtali við DV og sagðist aðspurð að hún ætti ekkert í Skeljungi eða félögum sem tengjast olíufélaginu. „Ég vil ekki tjá mig um fjárfestingar mínar í fjölmiðlum […] Ég hef ekki átt nein viðskipti við Skeljung umfram það að kaupa bensín.“ Hún neitar því að komið hafi upp trúnaðarbrestur á milli hennar og Straums áður en hún lét af störfum hjá bankanum. „Nei, alls ekki.“ Halla Sigrún segist kannast við þessa „leiðinlegu kjaftasögu“ en segir að hún vilji ekki ræða málið í fjölmiðlum.
Halla Sigrún Hjaltadóttir var skipuð stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins í lok árs 2013. Um svipað leyti fór fram sala á Skeljungi og P/F Magn.
Morgunblaðið greindi frá því í morgun að Halla Sigrún hefði hagnast um liðlega 830 milljónir króna þegar gengið var frá sölunni á Skeljungi og færeyska olíufélaginu P/F Magn í lok árs 2013. Samkvæmt því hefur Halla Sigrún því átt töluverð viðskipti við Skeljung umfram það að kaupa bensín.
Fréttaskýringin byggir að hluta til á kafla úr bókinni „Ísland ehf – auðmenn og áhrif eftir hrun“, eftir höfund fréttaskýringarinnar og Magnús Halldórsson.