Skuldaviðmið samstæðu Reykjavíkurborgar er áætlað á bilinu 150 til 156 prósent á árunum 2022 til 2025. Fjárhagsáætlun borgarinnar gerir svo ráð fyrir að viðmiðið fari undir 150 prósent árið 2026.
Ef einungis er horft á A-hluta borgarinnar, þann sem rekinn er fyrir skattfé, þá er skuldaviðmið hans 70 prósent í ár og mun fara upp í 92 prósent á árunum 2024 og 2025. Árið 2026 á það svo að lækka niður í 89 prósent.
Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun borgarinnar sem gildir til ársins 2026 og lögð var fram í borgarráði í lok síðasta mánaðar.
Hækkað tímabundið vegna kórónuveirufaraldurs
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarstjórn að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.
Til að fullnægja þessari skyldu er sveitarfélögum gert að fylgja ákveðnum fjármálareglum. Þær fela í fyrsta lagi í sér svokallað jafnvægisviðmið, sem segir að samanlögð heildarútgjöld samstæðu til rekstrar á hverju þriggja ára tímabili megi ekki verða hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Í öðrum lagi er svokallað skuldaviðmið, sem í felst að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu séu ekki hærri en 150 prósent af reglulegum tekjum.
Skuldaviðmið samstæðu Reykjavíkurborgar er að hækka nokkuð skarpt á skömmum tíma. Það var til að mynda 79 prósent árið 2019 og á að vera 102 prósent í lok þessa árs. Vert er þó að taka fram að stærsta ástæða þess að viðmiðið hækkar svona skarpt er að skuldir Orkuveitu Reykjavíkur telja með frá árinu 2022, en hún er næst stærsta orkufyrirtæki landsins. Aul þess ætlar borgin sér að vaxa út úr þeirri stöðu sem nú er uppi með því að ráðast í sóknaráætlun í fjárfestingum. Á meðal þess sem gert verður er að fjárfesta 25-30 milljörðum króna í viðhaldi á skóla- og frístundahúsnæði, fjármagna betur grunnsókna borgarinnar og bæta við fjármunum sem renna til velferðarsviðs til að „mæta áskorunum og aukinni þjónustu“.
Þrátt fyrir aukna skuldsetningu samstæðu borgarinnar er stefnt á að reka samstæðu borgarinnar í alls 8,6 milljarða króna afgangi strax á næsta ári og alls 66,2 milljarða króna afgangi á árunum 2023 til 2026.
Ekkert sveitarfélag að teygja sig jafn hátt og Reykjavík
Ekkert annað sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu ætlar að ráðast í sambærilega skuldsetningu og Reykjavík vegna efnahagsaðstæðna. Skuldaviðmið samstæðu Hafnarfjarðarbæjar er til að mynda áætlað 97 prósent í lok næsta árs en það hefur farið lækkandi og var 101 prósent um síðustu áramót.
Í Garðabæ var skuldaviðmiðið 73,8 prósent í lok síðasta árs en áætlanir sveitarfélagsins gera ráð fyrir að það verði búið að vaxa upp í 94,3 prósent þegar árið 2022 verður á enda runnið. Í Kópavogi verður skuldahlutfallið í lok yfirstandandi árs 113,5 prósent en áætlanir gera ráð fyrir að það lækki niður í 105,9 prósent á næsta ári.
Á Seltjarnarnesi hafa skuldir verið að aukast og skuldaviðmið samstæðu sveitarfélagsins er áætlað 86 prósent í lok yfirstandandi árs. Það mun hins vegar hækka á næstu árum samkvæmt áætlunum og fara í 113,1 prósent í árslok 2024. Skuldaviðmið A-hluta sveitarfélagsins fer úr 79 prósent 2021 í 102 prósent 2024 samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.
Samkvæmt síðustu birtu fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar, sem er að verða ársgömul, þá var stefnt að því að skuldaviðmið Mosfellsbæjar yrði 111,9 prósent í lok árs 2021 en færi síðan lækkandi.