Tilkynnt var um það í dag að Hótel Saga, sem er í eigu Bændasamtaka Íslands, sé til sölu og sagt að mikill áhugi fjárfesta sé á að kaupa þetta sögufræga hótel við Hagatorg. Hótelið sjálft er 209 herbergi en auk þess er ýmis önnur starfsemi í þessu 19 þúsund fermetra stóra húsi. Þar á meðal eru skrifstofur Bændasamtaka Íslands.
Í tilkynningu þeirra vegna fyrirhugaðrar sölu á hótelinu segir að „samhliða miklum vexti í ferðaþjónustu hefur rekstur Hótel Sögu gengið vel[...]Nú er rétti tíminn til að skoða hvort það geti verið hagfellt fyrir Bændasamtökin að eftirláta sérhæfðan hótelrekstur í hendur aðila sem vilja byggja sig upp á þeim vettvangi en ávaxta þess í stað eignir samtakanna með öðrum hætti“.
Eigið fé var neikvætt um 1,8 milljarða króna
Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Bændasamtaka Íslands, fyrir árið 2013, er það hins vegar ofsögum sagt að rekstur Hótel Sögu hafi gengið vel undanfarin ár. Árið 2009 var eigið fé hótelsins neikvætt um 1,8 milljarða króna og vegna mikilla skulda var virði eigin fjár Bændasamtakanna fært niður í núll á árinu 2010. Það þýðir að virði eignarhlutarins var á þeim tíma talið ekkert.
Sindri Sigurgeirsson.
Í fyrra gekk Hótel Saga í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Kjarninn greindi frá því í mars síðastliðnum að Bændasamtökin hefðu lagt Hótel Sögu til 250 milljónir króna í nýtt eigið fé gegn því að fá skuldir Hótel Sögu niðurfelldar. Þetta var á meðal samkomulagsatriða í þríhliða samkomulagi Bændasamtakanna, Arion banka og Hótel Sögu ehf. um fjárhagslega endurskipulagningu hótelsins. Sindri Sigurgeirsson, formaður stjórnar Bændasamtakanna, vildi þá ekki upplýsa um hversu miklar skuldir hefðu verið niðurfelldar. Í tilkynningu sem hann sendi í kjölfar umfjöllunar Kjarnans sagði Sindri hins vegar að hlutafjárhækkununin hafi verið fjármögnuð „að stærstum hluta með lánsfé, eða 165 milljónir króna, og að hluta með sjálfsaflafé, eða 85 milljónir króna“.
Í skýringum í ársreikningnum kemur hins vegar fram að Arion banki hafi leyst til sín allt hlutafé í Hótel Íslandi, sem var einnig í eigu Bændasamtakanna, í tengslum við uppgjörið en það hefur nú verið selt til nýrra eigenda. Tekið var fram að víkjandi lán Bændasamtakanna til Hótel Sögu hafi verið fellt niður og nýír lánasamningar gerðir við Arion banka. „Með þessum aðgerðum er sú biðstaða, sem lesa hefur mátt út úr ársreikningum Bændasamtakanna undanfarin ár um Hótel Sögu ehf., að baki.“
Bókfærðu Hótel Sögu á 410 milljónir króna
Bændasamtökin fá tekjur meðal annars af fjárlögum og fá samtals 503,5 milljónir króna samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2015. Í ár fá þau um 492 milljónir króna. Fjárframlag Bændasamtakanna til Hótel Sögu í tengslum við endurskipulagninguna nemur því ríflega helmingi fjárhæðarinnar sem samtökin fá úr ríkissjóði á þessu ári.
Fjárframlag Bændasamtakanna til Hótel Sögu í tengslum við endurskipulagninguna nemur því ríflega helmingi fjárhæðarinnar sem samtökin fá úr ríkissjóði á þessu ári.
Eignir Bændasamtakanna námu 835,8 milljónum króna í lok árs 2013 en heildarskuldbindingar, að teknu tilliti til alls geymslufjár, þar á meðal framleiðslutengdra sjóða, nema ríflega 990 milljónum.
Bókfært virði fasteigna samtakanna nam 263,3 milljónum króna í árslok 2013. Fasteignamat eignanna var nokkuð hærra eða sem nemur 346,9 milljónum króna. Eignarhlutir í tengdum félögum eru metnir á 490,3 milljónir króna samkvæmt bókfærðu verði. Þar af vegur Hótel Saga ehf. mest, eða sem nemur ríflega 410 milljónum króna, það er 160,5 milljónir að nafnvirði að viðbættri 250 milljón króna hlutafjáraukningu.
Athugasemd bætt við frétt klukkan 20:30:
Sindri Sigurgeirsson, formaður stjórnar Bændasamtaka Íslands, vill koma athugasemdum um fréttina á framfæri.
Sindri segir að eftir efnahagshrunið 2008 hafi rekstur hótelsins þyngst eins og raunin varð með mörg fyrirtæki á landinu. Í lok ársins 2013 hafi verið skrifað undir samkomulag við Arion banka um frágang skulda sem fólst í því að Bændasamtökin lögðu Hótel Sögu ehf. til nýtt hlutafé og hluti langtímaskulda voru endurfjármagnaðar. Samkomulagið fól einnig í sér að Bændasamtökin og Hótel Saga framseldu hlutabréf sín í Hótel Íslandi, sem keypt var af Búnaðarbankanum 1994 eftir að hafa rekið það fyrir bankann í tvö ár á undan. Arion banki seldi svo Hótel Ísland og runnu þeir fjármunir sem eftir stóðu til þess að lækka skuldir Hótel Sögu, þetta leiddi til þess að ekki kom til afskrifta af hálfu Arion.
Sindri gerir einnig athugasemd við eftirfarandi í frétt Kjarnans: ,,Í skýringum í ársreikningnum kemur hins vegar fram að Arion banki hafi leyst til sín allt hlutafé í Hótel Íslandi, sem var einnig í eigu Bændasamtakanna, í tengslum við uppgjörið en það hefur nú verið selt til nýrra eigenda. Tekið var fram að víkjandi lán Bændasamtakanna til Hótel Íslands hafi verið fellt niður og nýír lánasamningar gerðir við Arion banka."
Sindri segir þetta rangt. Bændasamtökin hafi einungis átt 1,25 prósent í Hótel Íslandi en Hótel Saga ehf. 98,75% . Það er mikill munur þarna á. Auk þess var víkjandi lán Bændasamtakanna til Hótels Sögu en ekki Hótels Íslands.
Að lokum gerir Sindri athugasemd við eftirfarandi: ,,Fjárframlag Bændasamtakanna til Hótel Sögu í tengslum við endurskipulagninguna nemur því ríflega helmingi fjárhæðarinnar sem samtökin fá úr ríkissjóði á þessu ári."
Sindri segir að fjarframlög frá ríkinu vegna búnaðarlagasamnings renni alls ekki til reksturs Bændasamtakanna og því enn síður til rekstur Hótel Sögu.
Athugasemdir ritstjórnar:
Ekki er talað um afskriftir á skuldum Bændasamtakanna í frétt Kjarnans. Þar er talað um niðurfelldar skuldir, líkt og var gert í frétt Kjarnans um málið frá því í mars á þessu ári. Þá gerði Sindri engar athugasemdir við það orðalag.
Ef Hótel Ísland er í eigu Hótel Sögu og Hótel Saga er í eigu Bændasamtakanna, þá voru Bændasamtökin endanlegur eigandi Hótel Íslands. Beðist er velvirðingar á því að hafa sagt að víkjandi lán hafi verið til Hótel Sögu. Það hefur verið leiðrétt.
Bændasamtökin eru á fjárlögum og hafa tekjur úr ríkissjóði, beint og óbeint. Það er staðreynd. Í frétt Kjarnans er ekki með neinum hætti fullyrt að fjárframlög frá ríkinu hafi runnið til reksturs Hótel Sögu.