Á næsta ári munu skuldbindingar íslenskra lífeyrissjóða aukast um 10-15 prósent þegar byrjað verður að reikna með auknum ævilíkum okkar við útreikninga á skuldbindingum þeirra. Miðað við skuldbindingar lífeyrissjóða í lok síðasta árs, sem voru 2.933 milljarðar króna, mun þetta þýða að að skuldbindingarnar muni hækka um 293,3 til 440 milljarða króna á einu bretti. Til að mæta þessum breytingum þarf að hækka eftirlaunaaldur, hækka iðgjöld og breyta dreifingu réttinda. Ákvörðun um þessar breytingar þarf að taka á næsta ári.
Þetta er meðal þess sem kom fram á málþingi á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða um breyttar lífslíkur og áhrif þess á lífeyrissjóði sem haldið var í gær.
Lifum miklu lengur
Íslendingar eru farnir að lifa miklu lengur en þeir gerðu áður, og er það auðvitað hið mesta gleðiefni. Þessi aukni líftími á sér margar ástæður. Framþróun í heilbrigðisvísindum, betra mataræði, meiri hreyfing, bætt lífsgæði og aukin vitneskja um allt sem skaðar okkur eru allt breytur sem skipta þar miklu máli.
Því fylgja þó óhjákvæmilega ákveðin samfélagsleg vandamál þegar fólk lifir alltaf lengur og lengur. Fjöldi Íslendinga sem eru yfir 67 ára aldri, sem í dag er lögbundinn eftirlaunaaldur, mun enda þrefaldast á næstu 45 árum. Hagstofa Íslands spáir því að árið 2060 verði þeir 97 þúsund. Álag mun aukast á heilbrigðiskerfið, á hjúkrunarheimilin og auðvitað þarf að greiða fólki sem lifir lengur lífeyri lengur.
Kostar okkur meira að lifa svona lengi
Þótt ævilíkur Íslendinga, sem og annarra þjóða, hafi verið að aukast jafnt og þétt í langan tíma þá hafa tryggingastærðfræðingarnir sem reikna út skuldbindingar lífeyrissjóða, það sem þeir þurfa að greiða sjóðsfélögum sínum í lífeyri, hingað til notað fortíðina sem viðmið. Síðast þegar þeir reiknuðu út ævilíkur þá var það til að mynda gert fyrir árin 2007 til 2011. Og þær ævilíkur síðan notaðar til að ákvarða hvað Íslendingar yrðu að meðaltali gamlir. Svarið var að karlar yrðu að meðaltali 79,5 ára en konur 83,6 ára. Á árunum 1966 til 1970 lifðu karlar að meðaltali í 70,8 ár en konur í 77,6 ár. Ævilíkurnar hafa því aukist gríðarlega á skömmum tíma.
Fjöldi Íslendinga sem eru yfir 67 ára aldri mun þrefaldast á næstu 45 árum. Hagstofa Íslands spáir því að árið 2060 verði þeir 97 þúsund.
Frá og með næsta ári verður breyting á. Frá þeim tíma munu tryggingastærðfræðingarnir einnig notast við spá um áframhaldandi lengri lífaldur þegar þeir reikna út hvað lífeyrissjóðirnir skulda okkur.
Niðurstaðan var kynnt á mánudag á málþingi á vegum Landssambands lífeyrissjóða. Þegar auknar lífslíkur þjóðarinnar eru teknar með í reikninginn þá kemur í ljós að skuldbindingar lífeyrissjóðanna muni hækka, á einu bretti, um 10-15 prósent.
Skuldbindingar íslenskra lífeyrissjóða voru í lok síðasta árs 2.933 milljarðar króna. Nýju útreikningarnir, sem munu gilda frá og með næsta ári, munu því hækka skuldbindingarnar strax um 293,3 til 440 milljarða króna. Eignir í samtryggingarsjóðum lífeyrissjóðanna voru 2.400 milljarðar króna í lok síðasta árs. Því eru eignirnar 826,3 til 973 milljörðum krónum frá því að standa undir áföllnum skuldbindinum.
Hafa út næsta ár til að bregðast við
Gunnar Baldvinsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að þessi niðurstaða komi sér í raun ekki á óvart, en að hún kalli á breytingar. „Við erum vel meðvituð um þá þróun sem er í gangi og umræður um að breyta um aðferðarfræði hafa verið í gangi. Við höfum því reiknað með að ævilíkur haldi áfram að hækka. Í stað þess að breyta réttindum á þriggja ára fresti þegar nýjar lífslíkur koma þá er til bóta að taka inn þessar breytingar á ævilíkum.
Gunnar Baldvinsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða.
Ef við gerum það þá erum við að lofa réttindum sem ekki breytast og það verður auðveldara að meta hver réttindin verða við starfslok. Við þurfum hins vegar tíma til að bregðast við þessu. Þetta mun að öllum líkindum hafa áhrif á eftirlaunaaldur, iðgjöld og að einhverju leyti réttindi.“
Það er því semsagt þrennt sem hægt er að gera: hækka eftirlaunaaldur, líklega í 70 ár, hækka iðgjöld sem við greiðum til lífeyrissjóðanna um hver mánaðarmót eða að skerða réttindi með einhverjum hætti, til dæmis með því að dreifa heildargreiðslum sem hver og einn fær á fleiri ár en nú er gert.
Og þetta er ekki lengur fjarlægt framtíðarvandamál. Lífeyrissjóðir landsins hafa út næsta ár til að bregðast við þessum breytta veruleika. Þetta er að gerast núna.
Nágrannalöndin hafa breytt kerfum
Það eru auðvitað ekki bara Íslendingar sem eru að lifa lengur. Það er þróun sem á sér stað allstaðar í heiminum og fleiri ríki hafa þurft að endurskoða lífeyriskerfi sín vegna þessa. Það var nefnilega mjög vinsæl leið til að ná sér í atkvæði í mörgum Evrópulöndum á árunum fyrir aldarmót að lækka eftirlaunaaldur. Slíkar aðgerðir voru oft rökstuddar með því að þá myndi skapast meira pláss fyrir ungt fólk á vinnumarkaði. Þessar aðgerðir höfðu nánast undantekningarlaust ekki þær afleiðingar.
Þvert á móti sátu mörg þessarra ríkja, sem flest eru með gegnumstreymis-lífeyriskerfi, eftir með risastórar lífeyrisskuldbindingar sem þau réðu alls ekki við að greiða til framtíðar. Þess vegna hafa þau farið skarpt í það að breyta kerfunum aftur til baka og hækka eftirlaunaaldur, þrátt fyrir litlar pólitískar vinsældir slíkra aðgerða. Þetta hefur verið gert í þrettán Evrópulöndum nú þegar: Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Hollandi, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Lúxemborg, Írlandi, Ítalíu, Króatíu, Möltu og Slóveníu.
Kjarninn mun halda áfram að fjalla um lífeyriskerfi landsmanna næstu daga.