Það eru ekki alltaf jólin er stundum haft á orði þegar eitthvað gengur ekki sem best. Hjá danska Íhaldsflokknum, Det Konservative Folkeparti; hefur sannarlega verið langt á milli jólanna, ef svo mætti segja.
Í þingkosningunum 1984 fékk Íhaldsflokkurinn 42 þingmenn, fleiri en nokkru sinni fyrr og síðar. Þá var Poul Schlüter leiðtogi flokksins og forsætisráðherra. Hann hafði sest í forsætisráðherrastólinn tveimur árum fyrr, þegar stjórn Anker Jørgensen sagði af sér, án þess að boðað væri til kosninga. Poul Schlüter var forsætisráðherra til ársins 1993 en þá neyddist stjórn hans til að segja af sér vegna Tamílamálsins svokallaða, sem ekki verður nánar sagt frá hér. Stjórn sósíaldemókrata og fleiri flokka, undir forystu Poul Nyrup Rasmussen tók við, án þess að kosið væri, og stjórn undir hans forystu var við völd til ársins 2001. Í kosningum það ár tók stjórn Venstre undir forystu Anders Fogh Rasmussen við völdum og stjórn Venstre flokksins sat fram til ársins 2011, síðustu tvö árin undir forystu Lars Løkke Rasmussen. Íhaldsflokkurinn átti aðild að ríkisstjórnum Venstre á þessum árum.
Átta formenn frá 1993
Eftir afsögn Poul Schlüter 1993 tók við mikið óróleikatímabil í forystu Íhaldsflokksins. Frá 1993 hafa samtals átta manns setið á formannsstóli flokksins. Lengsta setu á formannsstólnum á þessu tímabili átti Bendt Bendtsen sem gegndi formennsku frá 1999- 2008. Ýmsar ástæður hafa legið að baki þessum tíðu formannsskiptum sem komu niður á dvínandi fylgi flokksins.
Kannanir í aðdraganda þingkosninganna 2015 bentu til að tvísýnt væri að flokkurinn næði fulltrúum á þing. Niðurstaðan var að flokkurinn fékk 6 þingmenn og 3.4.% fylgi, hið minnsta í sögu flokksins.
Søren Pape Poulsen
Í ágúst árið 2014 tilkynnti Lars Barfoed afsögn sína sem formaður Íhaldsflokksins. Hann hafði verið formaður frá 2011. Þegar Lars Barfoed sagði af sér tók við núverandi formaður, Søren Pape Poulsen. Fyrst tímabundið en á flokksþingi haustið 2014 var hann kjörinn formaður. Þá sat hann ekki á þingi. Í þingkosningunum 2015 fékk Íhaldsflokkurinn einungis 6 þingmenn kjörna, þar á meðal formanninn Søren Pape Poulsen. Útkoman sú lakasta frá stofnun flokksins, sem var stofnaður árið 1918. Eftir kosningarnar 2015 urðu stjórnarskipti og Lars Løkke Rasmussen varð forsætisráðherra í stað Helle Thorning- Schmidt. Ári síðar, í kjölfar breytinga, varð Íhaldsflokkurinn aðili að stjórninni og Søren Pape Poulsen varð dómsmálaráðherra og gegndi því embætti fram að kosningum 2019 en þá féll stjórnin. Íhaldsflokknum vegnaði vel í þessum kosningum 2019 og fékk 12 þingmenn kjörna. Útkoman var einkum þökkuð formanninum sem þótti almennt hafa staðið sig vel í dómsmálaráðuneytinu.
Blokkirnar tvær og forsætisráðherrastóllinn
Í Danmörku fara þingkosningar að jafnaði fram á fjögurra ára fresti og miðað við það hefðu kosningar átt að fara fram á fyrri hluta næsta árs.
En einn stuðningsflokka ríkisstjórnar Mette Frederiksen krafðist þess fyrr á þessu ári að forsætisráðherrann myndi tilkynna um boðun kosninga áður en þing kæmi saman 4. október síðastliðinn. Ella yrði borin fram vantrauststillaga í þinginu. Og kosningar fara fram 1. nóvember, eftir tvær vikur.
Á danska þinginu, Folketinget, eru tvær blokkir, eins og það er kallað. Önnur er rauð, hana mynda flokkar sem kenna sig við jafnaðar- og vinstri mennsku, hin er blá, þar eru miðju- og hægri flokkar.
Hefð er fyrir því að í hvorri blokk fyrir sig sé einn forsætisráðherrakandidat, leiðtogi stærsta flokksins. Rauða blokkin bendir á Mette Frederiksen. Í bláu blokkinni hefur það lengi verið leiðtogi Venstre, sem hinir flokkarnir í blokkinni hafa bent á, enda stærstur. En eftir að skoðanakannanir höfðu sýnt sífellt vaxandi fylgi Íhaldsflokksins, sem í skoðanakönnunum var kominn fram úr Venstre, lýsti Søren Pape Poulsen því yfir um miðjan ágúst að hann sæktist eftir því að verða forsætisráðherra. Jakob Ellemann- Jensen formaður Venstre hafði líka lýst yfir áhuga sínum.
Svo sló í bakseglin
Stundum er sagt að vika sé langur tími í stjórnmálum, merkingin auðskilin. Þetta á sannarlega við um Søren Pape Poulsen, þar hafa óveðursskýin hrannast upp ef svo má að orði komast. Og stuðningur við hann, og Íhaldsflokkinn snarminnkað.
Í desember 2021 gekk Søren Pape Poulsen í hjónaband. Eiginmaðurinn var Josue Medina Vasquez. Þeir höfðu þekkst síðan 2013 og trúlofuðust árið 2015.
Snemma árs 2018 var Josue tekinn ölvaður undir stýri í Viborg á Jótlandi. Hann var þá á leiðinni heim af skyndibitastað. Kærastinn Søren Pape Poulsen var þá dómsmálaráðherra. Hann sagði að kærastinn Josue yrði að taka ábyrgð á lífi sínu og axla ábyrgð. Nokkru síðar réðst slóvaskur maður á Josue fyrir utan skemmtistað, Josue hélt því fram að árásin hefði tengst kynþáttafordómum. Ákæruvaldið tók ekki undir það en Slóvakinn fékk mánaðar fangelsisdóm.
Í ágúst á þessu ári birti Ekstra Bladet frétt sem vakti mikla athygli. Í umfjöllun blaðsins kom fram að Josue væri ekki af gyðingaættum og væri ekki skyldur forseta Dóminíska lýðveldisins eins og Josue hafði haldið fram og Søren Pape Poulsen sömuleiðis staðhæft í viðtölum við fjölmiðla. Einnig hafði komið fram í fjölmiðlum að Søren Pape Poulsen hafði hitt ráðherra í Dóminíska lýðveldinu, án þess að danska utanríkisráðuneytinu væri kunnugt um, en slíkt samræmist ekki vinnureglum. Tveir aðrir danskir ráðherrar voru á fundunum, sem haldnir voru að frumkvæði Søren Pape Poulsen.
Skilnaður
Þann 1. september sl, í kjölfar mikillar umfjöllunar um einkamál Søren Pape Poulsen og Josue Medina Vasquez, greindi sá fyrrnefndi frá skilnaði þeirra. Hann hefur ekki viljað tala mikið um skilnaðinn en sagði að það hefði verið óumflýjanlegt að þeir færu hvor sína leið.
Umtalið um skilnaðinn, fundinn með ráðherrum í Dóminíska lýðveldinu og ósannindi um ættir og uppruna eiginmannsins fyrrverandi tók sinn toll. Í skoðanakönnun sem gerð var í kjölfar fréttanna um skilnaðinn hafði fylgi Søren Pape Poulsen sem hugsanlegs forsætisráðherra dalað verulega.
En vandræðalistinn var ekki tæmdur.
Líkti Grænlandi við Afríku
Eitt mál enn, og kannski það alvarlegasta, dúkkaði upp fyrir nokkrum dögum. Danskir fjölmiðlar greindu þá frá því að í febrúar í fyrra hefði Søren Pape Poulsen verið á samkomu í bandaríska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Þar hefði hann lýst Grænlandi sem Afríku á ís (Afrika på is). Søren Pape Poulsen hefur hvorki viljað játa né neita að hafa komist svona að orði en í umræðuþætti í sjónvarpinu bað hann Grændlendinga afsökunar á að hann hefði „sagt noget firkantet“ eins og hann orðaði það.
Í viðtali við dagblaðið Berlingske fyrir nokkrum dögum sagðist Søren Pape Poulsen ekki muna nákvæmlega orðalagið sem hann hefði notað. Hann sagði í þessu viðtali að Grænland væri á sumum sviðum þróunarland og nefndi í því sambandi kynferðisofbeldi, drykkjuskap og heimilisofbeldi ásamt hárri sjálfsvígstíðni. „Við verðum að tala um hlutina eins og þeir eru“ sagði Søren Pape Poulsen í viðtalinu.
Fréttir af þessum ummælum hafa vakið hörð viðbrögð. Grænlendingar eru æfir af reiði og meðal annars hefur Mute B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, sagt að hann sjái ekki fyrir sér samvinnu við mann sem hafi þessi viðhorf.
Nokkrir danskir þingmenn hafa hvatt Søren Pape Poulsen til að biðja Grænlendinga opinberlega afsökunar á ummælum sínum sem hafi „vægast sagt verið óheppileg“ eins og Lars Løkke Rasmussen komst að orði í blaðaviðtali.
Danir af afrískum uppruna hafa sömuleiðis gagnrýnt ummæli Søren Pape Poulsen. Danski ljósmyndarinn Jørn Stjerneklar sem hefur búið í Afríku um 30 ára skeið segir að maður sem vill verða forsætisráðherra geti ekki leyft sér slík ummæli um íbúa heillar heimsálfu. „Með þessum ummælum setur Søren Pape Poulsen 1,3 milljarða fólks undir einn hatt“.
Skoðanakönnun sem birt var sl. föstudag, 14. okt. sýnir umtalsvert fylgistap íhaldsflokksins frá könnun sem gerð var fyrir mánuði.
Eins og áður var getið fara þingkosningar í Danmörku fram 1. nóvember.