Spennan var næstum áþreifanleg þegar Vladímir Pútín, forseti Rússlands, tók sér stöðu í ræðupúltinu á sjötugasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær. Hann tók til máls skömmu eftir að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, flutti rúmlega 42 mínútna langa ræðu sína þar sem hann lagði mat á stöðu mála í heiminum.
https://www.youtube.com/watch?v=AaJkTsy2SsQ
Pútín eyddi færri orðum í stöðumatið og flutti ræðu sem var rúmlega 23 mínútur að lengd.
https://www.youtube.com/watch?v=q13yzl6k6w0
Ég fylgdist með ræðunum í gær, og punktaði hjá mér það sem helst stóð upp úr, að mínu mati, og sýndi glögglega meiningarmuninn í málflutningi, mikinn persónulegan mun á þessum risavöxnu táknum austurs og vesturs, og spennuna sem nú ríkir milli ríkjanna tveggja.
Fyrir þingið var staða mála í Sýrlandi, Írak og Afganistan, og vandi flóttamanna frá þessum svæðum, helsta umræðuefnið, enda hefur ekki tekist að ná samtöðu um hvernig skuli taka á vandanum, bæði hvað varðar móttöku flóttamanna og hernaðaðgerðir. Sérstaklega er staðan alvarleg í Sýrlandi, þar sem tæplega tíu milljónir íbúa, af um 22 milljóna heildaríbúafjölda, eru á flótta, bæði utan og innan landamæra.
Obama.
- Obama lagði áherslu á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu ekki aðeins reynst gríðarlega mikilvægur vettvangur til þess að vernda heimsfrið, heldur væru þær hluti af „lausninni“ á flóknum vanda sem nú væri verið að glíma við.
- Orðið Sýrland (Syria) koma níu sinnum fyrir í ræðu Obama. Fyrst um miðbik ræðunnar.
-
Assad (Bashar al-Assad, forseti Sýrlands) kom fjórum sinnum fyrir. Hann sagði ekki hægt að vinna með manni sem varpaði „sprengjum“ á saklaus börn, af því hann teldi það rétt. Obama sagði Assad ekki geta verið hluta af „lausninni“. Hann þyrfti að víkja.
-
Orðið Rússland (Russia) kom 22 sinnum fyrir en Putin aldrei. Fá einstök málefni voru meira á vörum Obama en Rússland og samband Bandaríkjanna við Rússland. Obama talaði sértækt um sambandið við Rússland, út frá stöðu mála í Sýrlandi, og þeirri staðreynd að Rússar væru að vinna með Assad og stjórnarher Sýrlands. Hann sagðist ekki útiloka samstarf við Rússa um að stuðla að friði í Sýrlandi, en það samband þyrfti að byggjast á trausti. Þessi skilaboð voru augljóslega hápunkturinn í áhrifamætti ræðunnar. Þrátt fyrir allt, þar á meðal viðskiptaþvinganir og mikinn pólitískan ágreining um stöðu Rússlands í Úkraínu og Austur-Evrópu, þá væru Bandaríkjamenn til í að vinna með Rússum í baráttunni gegn Íslamska ríkinu. En á forsendum Bandaríkjanna.
Pútín.
-
Stöðumat Pútíns fólst öðru fremur í því, að leggja fram lausnir á stöðu mála í Sýrlandi. Hann sagði mikilvægt að horfa til vanda flóttamanna út frá rót vandans, sem væri að finna á stríðshrjáðum svæðum þar sem Íslamska ríkið og „fleiri hryðjuverkahópar“ hefðu beitt miskunnarlausu ofbeldi gegn óbreyttum borgurum. Þeim hefði vaxið ásmegin, vegna þess að þjóðir heimsins hefðu ekki viljað vinna með „lögbundnum vörnum“ á þessum stríðshrjáðu svæðum, einkum Sýrlandi.
-
Orðið Sýrland (Syria) kom sjö sinnum fyrir í ræðu Pútíns. Hann talaði um að það væru gríðarleg mistök hjá þjóðum heimsins, sem gætu lagt til hernaðargögn og hernaðaraðstoð, að vinna ekki með stórnvöldum í Sýrlandi að því að berjast við Íslamska ríkið. „Við ættum að viðurkenna það, og horfast í augu við það, að enginn annar en Assad og stórnarherinn í Sýrlandi, er að berjast við uppgang Íslamska ríkisins í landinu.“ Nauðsynlegt væri að vinna með Assad í þessari baráttu, voru meginskilaboð Pútíns í ræðunni.
-
Bandaríkin (United states) kom einu sinni fyrir í ræðunni og Obama aldrei.
-
Pútín lagði áherslu á að lausnin á stöðu mála í Sýrlandi væri sú, að viðurkenna rétt stórnarhers Sýrlands til þess að berjast við Íslamska ríkið og hefja samstarf með honum. Það væru Rússar að gera, og það skipti miklu máli að aðrar þjóðir gerðu það líka.
Undirliggandi í þessum sögulegu ræðum Obama og Pútíns er staða sem þeir, sem hluti af áhrifamiklaum þjóðarleiðtogum, geta ekki verið stoltir af. Alþjóðasamfélagið, ekki síst Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar, hafa gjörsamlega brugðist óbreyttum borgurum í Sýrlandi, Írak og Afganistan, með því að bregðast ekki fyrr við vandamáli sem upplýsingar voru komnar fram um. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur mánuðum, og raunar árum saman, bent á hratt vaxandi neyð flóttamanna frá þessum ríkjum. Samt hefur pólitískur vettvangur Sameinuðu þjóðanna ekki sýnt nægilega mikil viðbrögð. Evrópusambandið vaknaði ekki fyrr en mörg hundruð þúsund flóttamenn birtust við landamærin, eftir langa örvæntingafulla flóttaferð. Þrýstingur frá fjölmiðlum og fólki hefur vafalítið haft mikið að segja, enda ömurlegra en orð fá lýst að sjá myndir af dánum börnum. Þúsundir hafa dáið á leiðinni til betra lífs í Evrópu, og því miður er staðan ekki góð fyrir veturinn, þar sem kuldinn er versti óvinurinn á stórum svæðum.
Því miður eru þessi viðbrögð of svifasein, og ekki hefur gengið vel að stilla saman strengi og opna löndin til að bjarga sem flestum. Hugsanlega munu þessi ónægu og hægu viðbrögð fara á spjöld sögunnar sem mikil mistök, líkt og þegar alþjóðasamfélagið brást í Rúanda 1994 og einnig í stríðinu á Balkanskaga, svo dæmi séu nefnd.
Það sama má segja um sértækar hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna, Breta og Frakka. Þær hafa öðru fremur verið gegn völdum skotmörkum, og hafa margir sagt að vegameira inngrip, ekki síst á jörðu niðri, sé nauðsynlegt til að stilla til friðar. En þetta er ekki einföld staða. Stundum er segt að hernaðarpólitíkin sé mest krefjandi starf sem hægt er að sinna. Þá stendur valið um hversu mörgum mannslífum þarf að fórna, til að vernda önnur, og ná lokamarkmiði um frið. Engin leið er einföld og stjórnmálamönnum er vandi á höndum.
Þrátt fyrir áhrifamiklar ræður Obama og Pútíns, þar sem áherslupunktarnir voru fyrirsjáanlegir, þá er líklega meiri von um að tal þeirra á milli - og trúnaðarmanna þeirra - muni stuðla að lausn á þessu yfirþyrmandi vandamáli sem þeir eyddu mestu púðri í. Eftir ræðurnar áttu þeir 90 mínútna langt spjall á fundi, sem Pútín óskaði eftir áður en hann kom til borgarinnar. Kannski færði það spjall alþjóðasamfélagið nær lausn, kannski ekki.