Á lokaspretti þingsins í síðustu viku var frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um breytingar á loftferðalögum samþykkt. Frumvarpið tók nokkrum breytingum í meðförum þingsins og meðal annars ákvæðum um skipulagsreglur flugvalla, sem einna helst höfðu vakið athygli, breytt nokkuð.
Það var gert til þess að koma til móts við gagnrýni m.a. Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar þess efnis að verið væri að svipta sveitarfélög skipulagsvaldinu í kringum flugvelli.
Í frumvarpinu, eins og Sigurður Ingi hafði lagt það fram, var gengið út frá því að ráðherra myndi fá vald til þess að setja skipulagsreglur, sem ætlað væri að ganga framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Lýsti ráðherra því þannig er hann vakti athygli á þessu atriði á samskiptamiðlinum Instagram í fyrra að frá því að skipulagsreglurnar tækju gildi væru sveitarfélög bundin af efni þeirra.
Andstaða bæði Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar við þessi áform ráðherra með frumvarpinu hafði legið ljós fyrir lengi, eða allt frá því að frumvarpið var sett fram í samráðsgátt stjórnvalda haustið 2020.
Engar breytingar voru hins vegar gerðar á þessu atriði frumvarpsins áður en það var fyrst lagt fram á þingi í upphafi árs 2021 og ekkert breyttist heldur hvað þetta varðar áður en ráðherra endurflutti málið á því þingi sem nú er lokið.
Sögðu allan rökstuðning skorta frá ráðuneytinu
Reykjavíkurborg og Samtök íslenskra sveitarfélaga gagnrýndu það í viðbótarumsögnum um frumvarpið í maí að innviðaráðuneytið hefði, þrátt fyrir beiðnir þar um, ekki enn fært fram nein rök fyrir því af hverju þörf væri á að skerða skipulagsvald sveitarfélaga með þeim hætti sem boðað var með frumvarpinu.
Í bréfi frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Ebbu Schram borgarlögmanni fyrir hönd Reykjavíkurborgar var lagt til að orðalaginu í frumvarpinu yrði breytt og að kveðið yrði á um að ráðherra yrði bundinn af skipulagsáætlunum sveitarfélaga við setningu skipulagsreglna flugvalla, og að við breytingar á svæðis-, aðal- og deiliskipulagi sveitarfélags skyldi ráðherra endurskoða skipulagsreglur flugvallar og samræma þær við gildandi skipulag sveitarfélags. Þetta væri í takt við það sem venjan hefði verið.
Sett í hendur starfshóps að móta tillögur
Það varð þó ekki niðurstaðan í meðförum þingnefndarinnar, en málamiðlun var sett fram og samþykkt á Alþingi af öllum þingmönnum sem greiddu atkvæði, en þingflokkur Pírata sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Niðurstaðan hjá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar varð sú að fela sérstökum starfshópi ráðherra, með þátttöku Samgöngustofu, rekstraraðila flugvallar og viðkomandi sveitarfélaga, að vinna tillögu að skipulagsreglum flugvallar og annast samráð vegna þeirra.
„Telur meiri hlutinn eðlilegt að í reglugerð verði kveðið nánar á um hlutverk slíkra starfshópa og að jafnræðis verði gætt við skipan þeirra þannig að í þeim eigi sæti að lágmarki einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi sem málið varðar en þó aldrei færri en tveir fulltrúar sveitarfélaga. Þá er lagt til að skýrt sé kveðið á um að markmið skipulagsreglna flugvalla sé að tryggja flugöryggi með fullnægjandi hætti með sem minnstum takmörkunum á skipulagi þeirra svæða kringum flugvöllinn sem reglurnar taka til,“ sagði um þetta atriði í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar.
Meirihlutinn taldi að með þessum hætti mætti „tryggja sveitarfélögum beina þátttöku í undirbúningi og gerð skipulagsreglnanna og að skipulagsreglurnar feli ekki í sér meiri takmarkanir á skipulagi svæða í nágrenni flugvalla en nauðsynlegt er vegna flugöryggissjónarmiða.“
Allir nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd nema Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata voru skrifaðir fyrir þessu nefndaráliti meirihlutans og því má segja að málinu hafi verið lent með nær þverpólitískri sátt í nefndinni.
Vonast til að breytingar meirihlutans nægi
Andrés Ingi sagði í minnihlutaáliti sínu um málið að það hefði verið ætlun Sigurðar Inga „að gera ákvæðið að lögum, þvert á vilja sveitarfélaganna sem átti að hrifsa skipulagsvaldið af, án þess að tilraun væri gerð til að ná fram málamiðlun með samráði í aðdraganda framlagningar málsins“ og að þetta hefði verið eitt af hinum stóru álitaefnum sem nefndin þurfti að leysa úr þegar málið var til meðferðar.
Hann sagði afstöðu meirihluta nefndarinnar byggjast á því að fundist hefði „ásættanleg lausn sem tryggir að sveitarfélög verði ekki svipt skipulagsvaldi sínu“ og bætti því við að hann vonaði að breytingar meirihlutans nægðu, þrátt fyrir að telja „ástæðu til að fylgjast áfram með framkvæmd ákvæðisins“ eftir að lögin gengju í gildi „í því skyni að leita fullvissu um að lögin séu ekki skaðleg gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaganna.“