Fjórir fyrrum stjórnarmenn í SPRON voru fyrr í vikunni ákærðir fyrir umboðssvik vegna tveggja milljarða króna láns sem SPRON veitti Exista þann 30. September 2008, deginum eftir að Glitnir var þjóðnýttur og íslenska bankakerfið allt var á heljarþröm. Hinir ákærðu eru Guðmundur Örn Hauksson, fyrrum sparisjóðsstjóri og síðar forstjóri SPRON, og stjórnarmennirnir Rannveig Rist, sem er forstjóri Rio Tinto Alcan, Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, auk Ara Bergmanns Einarssonar og Jóhanns Ásgeirs Baldurs.
Erlendur Hjaltason, sem jafnframt var annar tveggja forstjóra Exista ásamt Sigurði Valtýssyni, er ekki ákærður en hann vék af stjórnarfundi SPRON þegar lánið var samþykkt. Þetta er í fyrsta skipti sem sérstakur saksóknari ákærir stjórn fjármálafyrirtækis vegna ákvarðana í aðdraganda hrunsins.
Ákæran í málinu er hér meðfylgjandi fréttinni. Ákært er fyrir umboðssvik þar sem fyrrnefnt lán var veitt án trygginga, peningamarkaðslán með gjalddaga 31. október 2008.
Kjarninn ákvað að rekja tengsl SPRON við Exista og reyna að útskýra hvað bjó að baki lánveitingunni sem var veitt á þessum víðsjárverðu tímum, og tapaðist á endanum öll.
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, er á meðal þeirra sem eru ákærðir í málinu. Hún mun gegna starfi sínu áfram á meðan að málið stendur yfir.
Sparisjóðurinn sem varð fjárfestingafélag
SPRON tók skrefið frá sparisjóðamódelinu og í átt að hreinni fjárfestingarstarfsemi lengra en flestir aðrir sparisjóðir. Sjóðnum var meðal annars breytt í hlutafélag haustið 2007, en virði félagsins féll gratt í kjölfarið og búið var að samþykkja að láta Kaupþing taka SPRON yfir sumarið fyrir bankahrun. Af þeirri sameiningu varð þó aldrei og á endanum var SPRON tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu
„Fram að útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóði landsins, sem komu út í apríl 2014, hafði lítið lekið út um hvað gekk á innan þessa áður stærsta sparisjóðs landsins. Sú skýrsla varpaði ljósi á margt sem áður var á huldu.“og lagður niður vorið 2009. Fram að útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóði landsins, sem komu út í apríl 2014, hafði lítið lekið út um hvað gekk á innan þessa áður stærsta sparisjóðs landsins. Sú skýrsla varpaði ljósi á margt sem áður var á huldu.
Lánuðu Exista á ögurstundu
Eitt þeirra mála sem þar voru leidd fram í dagsljósið var lán sem SPRON veitti Existu þann 30. september 2008, daginn eftir að ríkið tilkynnti um þjóðnýtingu Glitnis og í miðju bankahruni, upp á tvo milljarða króna. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir: „Samdægurs [...]lagði dótturfélag Exista hf., Vátryggingafélag Íslands hf., 2 milljarða króna peningamarkaðsinnlán inn í [SPRON] með sama upphafs- og lokadag og lánið til Existu [...] Peningamarkaðsinnláni Vátryggingafélags Íslands var breytt í almennt innlán á gjalddaga þess, 31. október 2008“.
Vátryggingafélag Ísland mátti væntanlega ekki lána Existu þessa peninga beint. Því lagði félagið peninganna inn í SPRON og þeir síðan lánaðir áfram til Existu, sem var á heljarþröm á þessum tíma. Í lok október var peningamarkaðsinnláni Vátryggingafélagsins hins vegar breytt í almennt innlán og SPRON sat eftir með tapið af láninu, sem átti upphaflega að vera til 30 daga, ef það fengist ekki greitt.
Guðmundur Hauksson var sparisjóðsstjóri SPRON, og síðar forstjóri þegar sjóðurinn var gerður að hlutafélagi. Hann var einnig fyrrum forstjóri Kaupþings, sat í stjórn Exista þegar lánið umdeilda var veitt og var stjórnarmaður í Kistu.
„Óheppileg lánveiting“
Lánið sem SPRON veitti Existu í auga stormsins var auðvitað aldrei greitt til baka. Á fundi endurskoðunarnefndar SPRON í janúar 2009 kom fram að þetta hefði verið „óheppileg lánveiting“. 1,6 milljarðar króna voru færðir á afskriftarreikning í lok árs 2008 en sú upphæð var enn útistandandi í júlí 2009 og hefur þannig líkast til öll tapast.
Alls nam skuld Existu við SPRON um 2,5 milljörðum króna í lok árs 2008. Því er ljóst að þetta lán, veitt á mjög víðsjárverðum tímum, er uppistaðan í viðskiptum SPRON og Existu. Sparisjóðurinn
„Af hverju leitaði Exista, með öll sín alþjóðlegu bankatengsl, til litla SPRON til að fá fyrirgreiðslu á þessum tíma?“fyrrverandi var augljóslega ekki einn af þeim fjármálastofnunum sem Exista var að sækja fjármögnun reglulega til. Fjárfestingafélagið skuldaði enda hundruði milljarða króna sem teknar höfðu verið á láni víðsvegar um heim til að fjármagna uppkaup þess á ýmiskonar fyrirtækjum.
Af hverju leitaði Exista, með öll sín alþjóðlegu bankatengsl, til litla SPRON til að fá fyrirgreiðslu á þessum tíma?
Margrét Guðmundsdóttir, sem í dag er stjórnarformaður N1, sat í stjórn SPRON þegar lánið til Exista var veitt. Hún er á meðal ákærðu í máli sérstaks saksóknara.
Tengsl SPRON, Kaupþings og Existu mikil
Þótt SPRON hafi ekki lánað Exista mikið af peningum áður en kom að þessari tveggja milljarða króna lánveitingu í miðju hruninu var samkurl SPRON og Existu mjög víðtækt og átti sér langa sögu.
Á tíunda áratugnum áttu átta sparisjóðir í landinu, þar á meðal SPRON, eignarhaldsfélag sem hét Meiður. Félagið hélt á eignarhluti sparisjóðanna átta í þá litlu fjármálafyrirtæki sem hét Kaupþing. Forstjóri Kaupþings á þessum tíma var Guðmundur Hauksson. Hann hætti þar 1996 til að taka við stöðu sparisjóðsstjóra SPRON, sem þá þótti stærra starf en að stýra litlu fjármálafyrirtæki. Það átti hins vegar eftir að breytast.
Þegar einkavæðing Búnaðarbankans, sem síðar varð hluti af Kaupþingi, stóð sem hæst í október 2002 setti Kaupþing eign sína í sjálfu sér inn í eignarhaldsfélagið Meið. Kaupþing mátti samkvæmt lögum ekki eiga meira en tíu prósent í sjálfu sér og því var ljóst að bankinn þurfti að selja sinn hlut í Meið. Það gerði Kaupþing í lok desember 2002, skömmu áður en S-hópurinn svokallaði kláraði kaupin á Búnaðarbankanum af ríkinu. Kaupin voru fjármögnuð af Kaupþingi og kaupandinn var Bakkabraedur Holding, félag í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona. Bræðurnir höfðu verið góðir viðskiptavinir Kaupþings um skeið og sterk tengsl höfðu skapast á milli þeirra og helstu stjórnenda Kaupþings. Þeir treystu einfaldlega þessum bræðrum og á grunni þess trausts var ákveðið að fela þeim að kaupa rúmlega helminginn í Meið.
Alls eignuðust bræðurnir 55 prósent í Meið við þessi kaup. Þegar Kaupþing var sameinað Búnaðarbankanum nokkrum mánuðum eftir einkavæðingu þess síðarnefnda urðu bræðurnir síðan á meðal stærstu eigenda hins sameinaða banka, stærsta banka landsins. Þeirri stöðu héldu þeir fram að falli bankans í október 2008, en þá áttu þeir tæplega fjórðung allra hlutabréfa.
Kista sparisjóðanna
Bræðurnir breyttu nafni Meiðs í Exista vorið 2005. Helsta eign félags var stór hlutur í Kaupþingi en starfsemin var þó farin að teygja betur úr sér. Sumarið eftir keypti félagið ásamt Kaupþingi til dæmis hlut ríkisins í Símanum, langstærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, á tæpa 67 milljarða króna.
Sparisjóðirnir, þar á meðal SPRON, settu eignarhlut sinn í Existu inn í fjárfestingafélag sem fékk nafnið Kista. Í lok árs 2007 var Kista annar stærsti hluthafi Existu á eftir Bakkavararbræðrunum. Alls var hlutur Kistu í Existu metinn á 20 milljarða króna. Félagið hafði hins vegar skuldsett sig gríðarlega með lánum frá Kaupþingi, Glitni og Straumi til að eignast þessa hluti. Alls námu skuldir Kistu
„Sparisjóðirnir settu eignarhlut sinn í Existu inn í fjárfestingafélag sem fékk nafnið Kista. Í lok árs 2007 var Kista annar stærsti hluthafi Existu á eftir Bakkavararbræðrunum.“17,3 milljörðum króna á þessum tíma.
Hlutabréfaverð í Existu hafði lækkað hratt árið 2007 og Kista „tapað“ 8,5 milljörðum króna. Í stað þess að draga í land og minnka áhættuna sem þessi eina fjárfesting skapaði eigendunum var ákveðið að auka hana enn frekar. Snemma árs 2008 juku eigendur Kistu hlutafé félagsins um 7,1 milljarða króna til að koma í veg fyrir að eignir yrðu lægri en skuldir. Auk þess lögðu þeir fram auknar ábyrgðir til að ekki væri hægt að gjaldfella lánin.
Dóminó-áhrif vegna falls Kaupþings
Kista, og sparisjóðirnir sem áttu félagið, áttu því gríðarlega mikið undir því að Exista myndi lifa af. Ef Exista færi á hausinn myndu þeir líkast til gera það líka. Auk þess voru ýmisleg tengsl milli stjórnenda félaganna.
Erlendur Hjaltason, annar tveggja forstjóra Existu áður en félagið fór á hliðina, var stjórnarformaður SPRON og Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, sat í stjórn Exista. Guðmundur, sem er einn hinna ákærðu í málinu, átti auk þess hluti í Existu og hafði því mikla persónulega fjárhagslega hagsmuni af því að Exista lifði. Hann sat líka í stjórn Kistu á sínum tíma.
Ástæða þess að Erlendur Hjaltason er ekki ákærður í málinu sem sérstakur saksóknari hefur nú höfðað er sú að hann vék af fundi áður en lánið til Exista, sem veitt var 30. september 2008, var tekið til umfjöllunar.
Við bankahrunið varð eign Existu í Kaupþingi, og um leið eign Kistu í Existu, verðlaus. Á sama tíma varð ljóst að Exista myndi ekki greiða skuld sína við SPRON.
Fjárfestingafélagið Kista varð gjaldþrota eftir bankahrun. Félagið átti 1,2 milljónir króna upp í 14 milljarða króna kröfur.