Lífeyrissjóðir ávöxtuðu eignir sínar vel á árinu 2014. Þetta sést þegar upplýsingar frá sjóðunum eru skoðaðar. Ársfundir sjóðanna eru margir hverjir búnir eða verða haldnir á næstunni. Ávöxtunartölur liggja því fyrir í mörgum tilfellum. Samkvæmt nýlegu fréttabréfi frá Landssamtökum lífeyrissjóða kemur fram að raunávöxtun (nafnávöxtun að teknu tilliti til verðbólgu) hafi verið 7,2 prósent hjá sjóðunum öllu. Þar innifalið eru samtryggingar- og séreignarhlutar sjóðanna. Þetta telst ásættanleg ávöxtun á allan mælikvarða.
Tryggingarfræðileg staða batnar
Tryggingarfræðileg staða sjóðanna styrktist á árinu 2014 þar sem raunávöxtunin var langt umfram 3,5 prósent raunávöxtunar viðmiðið sem notað til að verðmeta eignir og skuldir í tryggingafræðilegum uppgjörum sjóðanna. Heildareignir lífeyrissjóða hækkuðu um 10 prósent á árinu 2014 og námu 2.920 milljörðum króna í lok árs 2014. Það jafngildir hálfri annarri landsframleiðslu. Síðustu fimm ár (2010-2014) hafa verið einstaklega góð hjá lífeyrissjóðunum. Meðals raunávöxtunin nemur 5,1 prósent á því tímabili. Tryggingarfræðileg staða marga af sjóðunum hefur því farið úr því að vera neikvæð í það að vera jákvæð.
Erlendu bréfin gáfu vel
Þegar rýnt er í ávöxtunartölur sjóðanna fyrir árið 2014 kemur í ljós að flestir eignaflokkar skiluðu jákvæðri raunávöxtun á árinu. Erlend hlutabréf skiluðu góðri ávöxtun á árinu 2014, t.a.m. var raunávöxtun erlendra bréfa hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna (LIVE) 11,8 prósent. Vægi erlendra bréfa er mismunandi eftir sjóðum en er í mörgum tilfellum nálægt 30 prósent af heildarstærð. Ef ekki væri fyrir gjaldeyrishöftin er líklegt að margir sjóðir myndu vilja hækka þetta hlutfall til að dreifa áhættunni betur. Raunávöxtun innlendra hlutabréfa var góð hjá sjóðunum á árinu 2014 eða um og yfir tíu prósent . Innlend skuldabréf skiluðu þokkalegri raunávöxtun en þau eru oft yfir helmingur eignasafns sjóðanna.
Sjóður | Skýring | Raunávöxtun 2014 í % |
Þrír stærstu sjóðirnir: | ||
LSR (Líf. starfsm. ríkisins), A+B deild | Samtrygging | 8,9% |
Gildi lífeyrissjóðir | Samtrygging | 8,8% |
LIVE (Líf. verslunarm) | Samtrygging + séreign | 8,7% |
Nokkrir aðrir sjóðir: | ||
Festa lífeyrissjóður | samtrygging | 6,7% |
Lífeyrissjóður verkfræðinga | samtrygging | 6,3% |
Almenni lífeyrissjóðurinn | samtrygging | 6,2% |
Stapi lífeyrissjóður | samtrygging | 6,2% |
Frjálsi lífeyrissjóðurinn | Frjálsi 1 | 5,6% |
Meðaltal allra sjóða | samtrygging + séreign | 7,2% |
Þar af samtrygging | 7,4% | |
Þar af séreign | 5,0% | |
Heimild: Landssamtök lífeyrissjóða, upplýsingar frá af heimasíðum einstakra sjóða |
Risarnir þrír báru af árið 2014
Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins eru LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður. Allir skiluðu þeir gríðarlega góðri raunávöxtun á árinu 2014. Raunávöxtunin var hæst hjá LSR (8,9 prósent) en var litlu lægri hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna (8,7 prósent) og Gildi (8,8 prósent). Athygli vekur að ávöxtun hjá flestum af minni sjóðunum var talsvert lægri en hjá stóru sjóðunum þremur. Ein skýring er sú að eignaskipting sjóða er mismunandi. Stóru sjóðirnir eru t.d. hlutfallslega fyrirferðarmiklir á innlendum hlutabréfamarkaði þar sem ávöxtunin var góð á árinu 2014. Þrátt fyrir þetta er áberandi hvað raunávöxtun stóru sjóðanna var miklu betri en þeirra minni á árinu 2014.
Mikil völd hjá stóru sjóðunum þremur
Samkvæmt heimildum Kjarnans er algengt að stór fjárfestingarverkefni lendi fyrr inná borði hjá stærstu lífeyrissjóðnum þremur heldur en minni sjóðum. Risarnir þrír eru því stundum í betri aðstöðu til að taka afstöðu til fjárfestingarverkefna í samanburði við smærri sjóðina. Þá er oft algent að litlu og millistóru sjóðirnir bíði með að taka afstöðu til verkefna þangað til stóru sjóðirnir eru búnir að ákveða sig. Stjórnendur stóru sjóðanna þriggja eru ekki síst með mikil völd í atvinnulífinu, af þessum ástæðum.
Sjóðirnir þrír raða sér á listana yfir stærstu hluthafa í skráðu fyrirtækjunum í Kauphöllinni og þá eru sjóðirnir í flestum tilfellum stærstu eigendur ýmissa sjóða sem stofnaðir hafa verið á síðustu árum til eflingar atvinnulífsins. Þessir sjóðir hafa fjárfest mikið í fasteignaverkefnum, í óskráðum fyrirtækjum í atvinnulífinu og í sprotafyrirtækjum.
Þrátt fyrir gott ár í fyrra, er margt í íslenska hagkerfinu sem er erfitt fyrir lífeyrissjóðina. Þar á meðal eru fjármagnshöftin, en þau koma í veg fyrir nýfjárfestingar erlendis og gera áhættustýringu mun erfiðari en annars væri.