Vincent Tchenguiz telur að slitastjórn Kaupþings, endurskoðendafyrirtækið Grant Thornton í Bretlandi (Grant Thornton UK) og nokkrir starfsmenn þessarra aðila hafi lagt á ráðin um, haft frumkvæði að og tekið þátt í, rannsókn bresku efnahagsbrotadeildarinnar Special Fraud Office (SFO), á honum og fyrirtækjum í hans eigu. Þetta hafi leitt til þess að hann var handtekinn á heimili sínu í mars 2011 og leitað var á skrifstofu hans og í fyrirtækjum í hans eigu.
Tilgangurinn, að sögn Vincent Tchenguiz, var sá að nota rannsókn SFO á meintum glæpum hans til að knýja hann til að semja um málefni sinna félaga gagnvart Kaupþingi, afla gagna frá SFO, sem embættið gerði upptækt í húsleit hjá Vincent, sem Kaupþing hefði ella ekki getað aflað og síðan misnota þau gögn í samskiptum sínum við Vincent Tchenguiz. Hann telur að með þessu hafi Kaupþing viljað komast yfir eignir hans og fyrirtæki sem honum tengdust. Þetta átti að skila Kaupþingi auknum eignum og Grant Thornton í Bretlandi auknum greiðslum, þar sem starfsmenn fyrirtækisins myndu sjá um skipti á þeim eignum sem teknar yrðu yfir.
Þetta kemur fram í 95 blaðsíðna stefnu Vincent Tchenguiz gegn slitastjórn Kaupþings, Grant Thornton UK, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni sem situr í slitastjórn Kaupþings og tveimur starfsmönnum Grant Thornton, þeim Hossein Hamedani og Stephen John Akers. Í stefnunni fer Tchenguiz fram á um 430 milljarða króna í bætur. Kjarninn hefur stefnuna undir höndum.
Þetta kemur fram í 95 blaðsíðna stefnu Vincent Tchenguiz gegn slitastjórn Kaupþings, Grant Thornton UK, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, sem situr í slitastjórn Kaupþings, og tveimur starfsmönnum Grant Thornton UK, þeim Hossein Hamedani og Stephen John Akers. Í stefnunni fer Tchenguiz fram á um 430 milljarða króna í bætur. Kjarninn hefur stefnuna undir höndum.
Rannsókn SFO á Tchenguiz var hætt sumarið 2012, hann beðinn afsökunnar á henni og honum greiddar hundruð milljóna króna í bætur frá embættinu.
Kaupþing segir ekkert hæft í ásökununum
Tchenguiz telur að hinir stefndu hafi með athæfi sínu framið fjársvik, sýnt af sér saknæmt athæfi og komið í veg fyrir framgang réttvísinnar. Í samtali við Kjarnann segir Vincent Tchenguiz að búið sé að birta öllum hlutaðeigandi stefnu í málinu og að það hafi gerst 29. nóvember. Hinir stefndu fengu frest til 19. desember til að bregðast við. Það hafa þeir gert og slitastjórn Kaupþings og Jóhannes Rúnar Jóhannsson hafa farið fram á að málið, sem var höfðað fyrir breskum dómstólum, verði rekið fyrir íslenskum dómstólum. Skila á greinargerðum vegna deilunnar um lögsögu málsins fyrir 16. janúar næstkomandi og búist er við því að sá angi þess verði tekin fyrir síðsumars 2015. Málareksturinn allur mun væntanlega taka mörg ár.
Tchenguiz fer fram á 2,2 milljarða punda, um 430 milljarða króna, í skaðabætur vegna þess tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Í tilkynningu á heimasíðu slitastjórnar Kaupþings, sem birt var 28. nóvember síðastliðinn, höfnuðu bæði slitastjórnin og Jóhannes Rúnar þeim ásökunum sem Tchenguiz hefur borið á þau og sögðu þær með öllu haldlausar.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem situr í slitastjórn Kaupþings, segir ásakanirnar sem settar eru fram í stefnunni haldlausar.
Kjarninn leitaði eftir frekari viðbrögðum við málinu. Í svari Kaupþings segir: „Lögmenn Kaupþings hf. í Englandi hafa yfirfarið vandlega þær ásakanir sem lýst er í stefnu sem gefin hefur verið út af Vincent Tchenguiz og tengdum aðilum á hendur Kaupþingi hf. og Jóhannesi Rúnar Jóhannssyni hæstaréttarlögmanni. Jóhannes Rúnar á sæti í slitastjórn Kaupþings. Að lokinni þeirri skoðun er það ótvíræð niðurstaða lögmanna Kaupþings hf. og slitastjórnar að ekkert sé hæft í ásökunum um að Kaupþing eða Jóhannes Rúnar hafi átt þátt í meintu samsæri eða hafi hagað sér með óeðlilegum hætti að öðru leyti. Þessar ásakanir Vincent Tchenguiz og tengdra aðila eiga sér enga stoð og munu Kaupþing hf. og Jóhannes Rúnar halda uppi ítrustu vörnum vegna málsins. Þar sem málið er fyrir rétti í Englandi hyggst Kaupþing ekki tjá sig frekar að svo stöddu.”
Langur aðdragandi
Málshöfðunin á sér langan aðdraganda. Þegar Kaupþing féll í október 2008 var Robert Tchenguiz, bróðir Vincent, stærsti einstaki lántakandi bankans. Vincent hafði auk þess sjálfur fengið umtalsverða fyrirgreiðslu hjá bankanum.
Í stefnunni segir að í skilanefnd Kaupþings, sem tók við valdi hluthafa, hafi verið skipaður Theodór Sigurbergsson, sem er á meðal eigenda Grant Thornton á Íslandi. Skömmu síðar hafi Kaupþing ráðið Grant Thornton í Bretlandi til að veita sér ráðgjöf varðandi ýmsa lántaka hins fallna banka, meðal annars Tchenguiz-bræður og tengd fyrirtæki.
Tchenguiz vill meina að Grant Thornton UKhafi leikið lykilhlutverk í því að SFO hóf að rannsaka hann. Fyrirtækið hafi verið fengið til að leggja mat á hvort saknæmar aðgerðir hafi átt sér stað innan Kaupþings og til að benda á þá sem frömdu þá ef svo væri.
Tchenguiz vill meina að Grant Thornton UK hafi leikið lykilhlutverk í því að SFO hóf að rannsaka hann. Fyrirtækið hafi verið fengið til að leggja mat á hvort saknæmar aðgerðir hafi átt sér stað innan Kaupþings og til að benda á þá sem frömdu þær ef svo væri. Þau gögn sem voru grundvöllur rannsóknar SFO hafi því komið frá Grant Thornton UK. Í stefnunni segir að Grant Thorton UK starfsmennirnir tveir, sem stefnt er, hafi gert samkomulag við Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hjá slitastjórn Kaupþings, um að „þeir myndu hrinda ráðagerð sinni um að leggja fram falskar ásakanir um glæpsamlegt athæfi og önnur rangindi í framkvæmd gagnvart Robert og Vincent“.
Tchenguiz segir einnig að Grant Thornton UK og Kaupþing hafi sett sig í samband við aðra stóra lánveitendur og félög undir hans stjórn til að láta vita af þeim ásökunum um saknæmt athæfi sem SFO væri að rannsaka. Samhliða hafi þeir verið hvattir til að stíga skref til að ganga að veðum sínum. Í stefnunni segir að fundir hafi átt sér stað með HBOS, Bank of America Merril Lynch og Bayerische Landesbank.
Tilgangur samsærisins að valda álitshnekki
Í desember 2009, þegar rannsókn SFO stóð sem hæst, lýstu félög Tchenguiz bræðra 1,6 milljarða punda, um 315 milljarða króna, kröfum í bú Kaupþings. Þeirri kröfu var hafnað og málið rataði fyrir dómstóla. Um mitt ár 2010 fóru félög í eigu bræðranna í einkamál gegn Kaupþingi fyrir breskum dómstólum.
Tchenguiz telur að þessar aðgerðir séu rót þess samsæri sem hann segir Kaupþing og Grant Thornton UK hafi ráðist í gagnvart sér, og náð hafi hámarki með rannsókn SFO.
Í stefnunni segir: „Tilgangur samsærisins á þessum tíma var að valda Vincent, CBG og TFT fyrirtækjunum [í eigu Tchenguiz fjölskyldunnar], eins miklum álitshnekki og mögulegt var og að setja mikla fjárhagslega pressu á hann og aðra. Þetta átti að neyða hann til að falla frá einkamálinu í Bretlandi og kröfudeilunni fyrir íslenskum dómstólum til að skapa stöðu fyrir Kaupþing til að gera gott samkomulag fyrir sig.“
Tchenguiz-bræðurnir voru á meðal stórra lántakenda hjá Kaupþingi áður en bankinn fór á hliðina haustið 2008.
Þetta undirbyggir Tchenguiz með því að segja að Jóhannes Rúnar hafi sagt við íslenska lögmenn að Kaupþing hefði „aðrar leiðir“ til að ljúka einkamálarekstrinum en að klára hann fyrir dómstólum.
Tchenguiz telur líka að Grant Thornton UK starfsmennirnir tveir, sem stefnt er, hafi viljað koma í veg fyrir að fyrirtæki Tchenguiz-bræðra til að endurskipuleggja fjármál sín til að Kaupþing gæti gengið að þeim. Í kjölfarið vill Tchenguiz meina að starfsmenn Grant Thornton UK hafi ætlað sér að fá að sjá um skipti eða endurskipulagningu umræddra eigna og þiggja himinháar greiðslur fyrir þau skiptastörf.
Handtekinn fyrir framan sjónvarpsvélarnar
Vincent Tchenguiz var handtekinn í mars 2011. Samhliða voru framkvæmdar húsleitir á skrifstofu hans og heimili. Handtakan varð helsta fréttamál þess dags í Bretlandi, enda Tchenguiz-bræður á meðal umsvifamestu fasteignaeigenda í Bretlandi á þessum tíma. Á meðal þeirra sakarefna sem á hann voru borin voru að virði eigna sem hafi verið andlag veða sem hann setti fyrir lánum frá Kaupþingi hefði verið uppblásið, að veð hefðu verið tvíveðsett án þess að Kaupþingi hefði verið greint frá því, að Tchenguiz hafi tekið út persónulegan hagnað af umræddum lánveitingum og nýtt hann til eigin nota.
https://www.youtube.com/watch?v=9S_EEbdrPhU
Í september 2011 gerðu Tchenguiz-bræður og félög í þeirra eigu samkomulag við slitastjórn Kaupþings sem í fólst að þeir féllu frá kröfum í bú bankans og öllum einkamálum. Innihald samkomulagsins hefur aldrei verið opinberað en Kjarninn hefur það undir höndum. Fréttaskýring um samkomulagið mun birtast á morgun.
Beðnir afsökunar og fengu bætur
Rannsókn SFO á Tchenguiz var hætt í júní 2012. Tchenguiz-bræðurnir höfðuðu í kjölfarið mál á hendur SFO og kröfðust um 200 milljóna punda, tæplega 1,4 milljarða króna, í skaðabætur vegna rannsóknarinnar. Þeir komust síðar að samkomulagi um bætur.
Í þeim fólst að SFO baðst opinberlega afsökunar á rannsókninni og greiddi Vincent Tchenguiz þrjár milljónir punda í miskabætur og sömu upphæð í lögmannskostnað. Umreiknað í íslenskar krónur er sú upphæðum 1,2 milljarðar króna. Robert bróðir hans fékk auk þess 1,5 milljónir punda, um 295 milljónir króna, í miskabætur og auk þess sem lögmannskostnaður hans vegna SFO-rannsóknarinnar var greiddur.