Færeyska olíufélagið P/F Magn var selt út úr Fons, daginn áður en Fons var tekið til gjaldþrotaskipta, á 233,5 milljónir króna í apríl 2009. Nýir eigendur þess seldu P/F Magn á um fjóra milljarða króna í lok árs 2013, eða með um 3,7 milljarða króna hagnaði. Í millitíðinni reyndi skiptastjóri Fons að rifta sölunni og þrír fyrrum starfsmenn fyrirtækjaráðgjafar Glitnis fengu að eignast 66 prósent hlut í eiganda P/F Magn á 24 milljónir króna hver.
Ári síðar seldi hópurinn, sem innihélt meðal annars stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins, hluti sína í P/F Magn með 36földum hagnaði.
Keyptu daginn áður en Fons varð gjaldþrota
Færeyska félagið P/F Magn hét áður P/F Hedda. Það hélt áratugum saman utan um starfsemi undir merkjum Shell í Færeyjum. Árið 2007 seldi Shell reksturinn og Fons, einkahlutafélag Pálma Haraldssonar, eignaðist hann. Frá þeim tíma hefur þetta færeyska olíufélag heitir Magn.
Þegar Fons ákvað að losa sig við Skeljung á Íslandi í desember 2007 hélt félagið hins vegar eftir P/F Magn, eða fram til 29. apríl 2009. Þá var allt hlutaféð selt til Heddu eignarhaldsfélags. Kaupverðið var, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, um 233,5 milljónir króna. Daginn eftir, 30. apríl 2009, var Fons tekið til gjaldþrotaskipta.
Á árinu 2009 var velta P/F Magn 529 milljónir danskra króna, um ellefu milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Félagið hagnaðist um 181 milljón króna á því ári. Síðan þá hefur allt verið upp á við hjá félaginu. Veltan hefur aukist nær ár frá ári og var um 17,5 milljarðar króna í fyrra. Hagnaður Magn á tímabilinu 2010 til 2013 var samtals um 1,5 milljarðar króna.
P/F Magn var selt út úr Fons daginn áður en Fons var tekið til gjaldþrotaskipta á 233,5 milljónir króna. Í lok árs 2013 var félagið selt á fjóra milljarða króna.
Hluti af Skeljungsfléttu
Þegar Hedda keypti P/F Magn út úr Fons, daginn áður en Fons var sett í þrot, var eini skráði eigandi Heddu Guðmundur Örn Þórðarson. Hann og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, eiginkona hans, höfðu nokkru áður eignast 51 prósent hlut í Skeljungi með ótrúlegum hætti. Kjarninn greindi ítarlega frá þeim viðskiptum í fréttaskýringu í síðustu viku.
Umsjónarmaður sölunnar á Skeljungi var Einar Örn Ólafsson, þáverandi starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Glitnis, síðar Íslandsbanka. Hann var skömmu síðar ráðinn forstjóri Skeljung af þeim Guðmundi og Svanhildi Nönnu. Á meðal samstarfsfélaga Einars í fyrirtækjaráðgjöfinni á þessum tíma voru Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Þór Guðjónsson. Þremenningarnar áttu allir eftir að koma mikið við sögu síðar í þeirri fléttu sem ofin var utan um viðskipti með Skeljung og P/F Magn.
Saga Capital verðmat P/F Magn fyrir Fons
Halla Sigrún, sem er nú stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, sagði í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í síðustu viku vegna umfjallana um viðskipti hennar að Hedda ehf. hefði keypt P/F Magn af þrotabúi Fons. Það er ákveðinn hálfsannleikur.
Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons, segir nefnilega að hann hafi reynt að rifta sölunni á P/F Magn til Heddu með bréfi dagsettu 9. júní 2009.
Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons, segir nefnilega að hann hafi reynt að rifta sölunni á P/F Magn til Heddu með bréfi dagsettu 9. júní 2009. Hedda hafi mótmælt riftuninni. Óskar segir að í ljósi ágreinings aðila og hagsmuna búsins „sem og að fengnu mati Saga Capital á verðmæti félagsins og yfirvofandi uppsagnar á lánasamningum þess, þótti rétt að gera nýjan kaupsamning milli þrotabús Fons hf. og Heddu eignarhaldsfélags ehf. dags 1. ágúst 2009 um kaup þess á öllum hlutum Fons hf. í P/F Magn. Kaupsamningurinn var kynntur og samþykktur af öllum kröfuhöfum á skiptafundi 14. ágúst 2009.“
Óskar vildi ekki staðfesta söluverðið á P/F Magn. Sagði hann að trúnaðarákvæði í samningnum hindri það.
Félagið metið á 233,5 milljónir í reikningum Heddu
Þegar ársreikningar Heddu eru skoðaðir kemur í ljós að eignir félagsins voru metnar á 240 milljónir króna í lok árs 2009. Eina eign félagsins utan fjármuna var 100 prósent hlutafé í P/F Magn sem var verðmetinn á 233,5 milljónir króna. Inngreitt hlutafé í Heddu á árinu 2009 var 110,5 milljónir króna. Auk þess tók félagið lán upp á 123,5 milljónir króna. Þetta fé var notað til að greiða fyrir allt hlutafé í P/F Magn, félags með um ellefu milljarða króna veltu, á þessum tíma.
Halla Sigrún Hjaltadóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, hagnaðist um á níunda hundrað milljónir króna á viðskiptum með hlutafé í P/F Magn.
Samkvæmt ársreikningum Heddu gerðist lítið innan félagsins næstu árin. Guðmundur var áfram skráður eini eigandi þess og skuldir þess voru greiddar hratt niður. Arðgreiðslur úr P/F Magn hafa líkast til hjálpað til við þær niðurgreiðslur. Alls greiddi P/F Magn út arð til eigenda sinna upp á 216,3 milljónir króna, á gengi dagsins í dag, vegna áranna 2009 til 2012. Eini eigandinn á þessu tímabili var Hedda.
Á árinu 2013 urðu eigendabreytingar á Heddu. Samkvæmt ársreikningi félagsins það ár höfðu þrjú eignarhaldsfélög: Nolt ehf., Einarsmelur ehf. , og B 10 ehf. eignast 66 prósent hlut í Heddu. Fyrir 22 prósent hlut greiddi hvert félag 24,3 milljónir króna. Eigendur félaganna þriggja eru áðurnefnd Halla Sigrún, Einar Örn og Kári Þór. Engar rökrænar skýringar hafa fengist á því hvað olli því að eigendur Heddu ákváðu að gefa frá sér slík verðmæti fyrir jafn lítið fé og raun ber vitni.
36földuðu fjárfestingu sína
Í lok árs 2013 var P/F Magn selt til SÍA II, sjóðs sem rekinn er af sjóðsstýringafélaginu Stefni, dótturfélagi Arion banka. Söluverðið var 3,95 milljarðar króna. Samkvæmt ársreikningi Heddu fyrir árið 2013 var hagnaður af sölunni 3.718 milljónum króna.
Samhliða var Skeljungur seldur til sama sjóðs á yfir fjóra milljarða króna. Fyrrum eigendur Skeljungs, sem fengu að kaupa meirihluta í félaginu með því að greiða hrakvirði fyrir það sumarið 2008, hafa því hagnast gríðarlega á viðskiptum sínum með félagið og P/F Magn.
Það hefur þrenningin sem vann í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis þegar Skeljungur var seldur, þau Halla Sigrún, Einar Örn og Kári Þór, líka gert.
Í ársreikningum Nolt ehf., félags Kára Þórs, kemur fram að á árinu 2012 hafi það eignast hlutafjáreign sem metin er á 24,3 milljónir króna. Ári síðar hafði virði hlutafjársins hækkað úr 24,3 milljónum króna í 887,4 milljónir króna og hagnaður Nolt það árið var 860 milljónir króna.
Þremenningarnir fengu því að kaupa 22 prósent hver í P/F Magn á 24 milljónir króna, félagi sem innan við ári síðar var metið á um fjóra milljarða króna
Þremenningarnir fengu því að kaupa 22 prósent hver í P/F Magn á 24 milljónir króna, félagi sem innan við ári síðar var metið á um fjóra milljarða króna. Á þessu ári græddu þau 860 milljónir króna. Þremenningarnir 36földuðu fjárfestingu sína á einu ári.
Finnst langt seilst þegar viðskipti hennar eru gerð tortryggileg
Morgunblaðið greindi frá því í síðustu viku að Halla Sigrún, sem er stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, hafi hagnast um 830 milljónir króna á sölunni á Skeljungi og P/F Magn þegar hún fór fram í desemberlok 2013.
Hins vegar finnst mér langt til seilst þegar viðskipti mín eru gerð tortryggileg og fræjum efasemda sáð um heilindi mín.
Halla Sigrún sendi frá sér yfirlýsingu sama dag þar sem hún tiltók að hún hafi alltaf farið eftir gildandi lögum og reglum í sínum fjárfestingum. „ Mér þykir miður þegar reynt er að gera þessi persónulegu viðskipti mín tortryggileg, ekki síst þegar gefið er í skyn að ég hafi ekki gætt að hugsanlegum hagsmunaárekstrum í störfum mínum eða jafnvel sagt ósatt. Slíkar ásakanir tek ég alvarlega[...]Ég geri mér grein fyrir því að gerð er rík krafa til einstaklinga sem taka að sér störf á vegum hins opinbera. Á það ekki síst við um formennsku í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Þeir sem taka að sér slík störf þurfa að þola að um þá sé fjallað og geri ég engar athugasemdir við það. Hins vegar finnst mér langt til seilst þegar viðskipti mín eru gerð tortryggileg og fræjum efasemda sáð um heilindi mín. Þegar við bætist að fjölskylda mín er áreitt af fréttamönnum get ég ekki annað en brugðist við“.
Viðbrögð hennar voru þau að tilkynna Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að hún myndi ekki óska eftir að skipun hennar sem stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins yrði framlengd þegar hún rennur út í lok árs.
Skömmu síðar var greint frá því að Íslandsbanki hefði kært Höllu Sigrúnu til Fjármálaeftirlitsins og Sérstaks saksóknara eftir að hún hætti störfum þar og hóf störf hjá Straumi. Kærurnar voru látnar niður falla hjá báðum embættum og mun það hafa verið gert áður en Halla hóf störf hjá Straumi. Lauk málunum því fyrir áramót 2011-2012. Höllu var gefið að sök að hafa tekið með sér upplýsingar úr bankanum þegar hún skipti um vinnu.