Sam-félagið ehf, sem á og rekur Sambíóin og Samfilm, er í viðræðum við Netflix um að láta efnisveituna hafa efni sem félagið á rétt á. Samkvæmt heimildum Kjarnans er Árni Samúelsson, eigandi og stjórnarformaður Sam-félagsins, nú staddur í Los Angeles á fundum með forsvarsmönnum fyrirtækisins vegna þessa. Sam-félagið er stærsta kvikmyndafyrirtæki og og rekstraraðila kvikmyndahúsa á Íslandi, bæði í dreifingu kvikmynda í kvikmyndahúsum og útgáfu dvd diska. Fyrirtækið er því rétthafi mikils magns efnis sem myndi verða aðgengilegt hjá Netflix þegar veitan opnar hérlendis ef samningar nást. Heimildir Kjarnans herma að það muni draga til tíðinda í viðræðunum innan skamms.
Heimildir Kjarnans herma að það muni draga til tíðinda í viðræðunum innan skamms.
Netflix er streymiþjónusta þar sem hægt er að nálgast mikið magn kvikmynda, sjónvarpsþátta, barnaefnis, heimildarmynda og annars áhorfanlegs efnis. Þjónustan hefur þann augljósa kost fram yfir línulega sjónvarpsdagskrá að notendur geta horft á það efni sem þeir vilja þegar þeir vilja í nánast hvaða tæki sem þeir vilja. Áskrift að Netflix er auk þess mun ódýrari en áskrift að þeim sjónvarpsstöðum sem hægt er að gerast áskrifandi að á Íslandi.
Um 20 þúsund heimili þegar með Netflix
Nokkuð er síðan að Netflix lýsti yfir áhuga á að opna fyrir þjónustu sína á Íslandi. Viðræður við suma rétthafa íslensks efnis hafa staðið yfir í um ár. Nú virðist vera komin mjög góður gangur á þær og heimildir Kjarnans herma að vilji sé hjá fyrirtækinu til að semja við stóra rétthafa og jafnvel finna sér samstarfsaðila til að sjá um þjónustuna hérlendis. Von er á niðurstöðu í þessar viðræður mjög fljótlega.
Þrátt fyrir að þjónusta Netflix sé ekki í boði hérlendis er samt sem áður talið að um 20 þúsund íslensk heimili séu með aðgang að veitunni. Vinsældir hennar hafa farið ört vaxandi undanfarin ár, sérstaklega eftir að Netflix fór að framleiða eigin efni. Þar best hæst þáttaraðirnar House of Cards, Orange is the New Black og fjórða serían af Arrested Development. Netflix bauð upp á þá sérstöðu að setja þáttaraðirnar inn í heilu lagi og gefa notendum því fullt svigrúm til að ákveða hversu marga þætti þeir horfðu á í röð. Hjá línulegum sjónvarpsstöðvum hefur á hinn bóginn lengi tíðkast að sýna einungis einn þátt í þáttaröð í hverri viku.
House of Cards þáttaraðirnar, og leiksigur Kevin Spacey í hlutverki Frank Underwood, hefur átt mikinn hlut í velgengni Netflix.
Íslensk afþreyingarfyrirtæki, á borð við 365 miðla og Símann, hafa brugðist skarpt við hinni óformlegu innreið Netflix inn á markaðinn, meðal annars með því að setja þáttaraðir í heilu lagi inn í sambærilega þjónustu og Netflix býður upp á, sem er einungis aðgengileg þeirra áskrifendum.
Metið á tvær landsframleiðslur
Vöxtur Netflix undanfarin ár hefur verið ævintýralegur. Fyrirtækið er nú með starfsemi í yfir 40 löndum og virði þess um miðjan september síðastliðinn var um 28 milljarðar dala, rúmlega 3.400 milljarðar króna. Það eru tæplega tvær árlegar íslenskar landsframleiðslur.
Netflix er orðið einn af kyndilberum nýmiðlunar í heiminum og stefnir að því að vera komið með um 57 milljónir notendur út um allan heim í lok þessa árs.