Óvægin umræða og áreitni í garð stjórnmála- og fjölmiðlafólks á netinu er eðlilegur fylgifiskur starfs þeirra að eigin mati og vísbendingar eru um að netáreitni sé mun algengari meðal kvenna en karla. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn um upplifun stjórnmála- og fjölmiðlafólks af óvæginni umræðu og áreitni á netinu.
Bríet B. Einarsdóttir, MA í fjölmiðla- og boðskiptafræði frá Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, standa að rannsókninni. Greint er frá niðurstöðum hennar í nýjustu útgáfu tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla og ber greinin yfirskriftina „Dropinn holar steininn: Upplifun stjórnmála- og fjölmiðlafólks af óvæginni umræðu og áreitni á netinu“.
Markmið rannsóknarinnar er að kanna upplifun og viðhorf stjórnmála- og fjölmiðlafólks hérlendis af óvæginni umræðu og áreitni á netinu. Rannsóknin varpar ljósi á þau áhrif sem óvægin umræða og áreitni getur haft í för með sér á fjölmiðla- og stjórnmálafólk, bæði á líf þeirra og störf, en ekki síður á lýðræðið.
„Slík umræða og áreitni hefur verið áberandi að undanförnu og er af mörgum álitin vaxandi vandamál í ört breytilegu fjölmiðla- og stjórnmálaumhverfi, sem einkennist af breyttum samskiptaháttum fólks, meðal annars á samfélagsmiðlum,“ segir í grein Bríetar og Jóns Gunnars.
Ólík reynsla og skýr kynjamunur
Framkvæmd var eigindleg rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við einstaklinga úr hópi fjölmiðla- og stjórnmálafólks, en um var að ræða áberandi persónur í þjóðfélaginu. Viðmælendur komu til jafns úr hópi fjölmiðla- og stjórnmálafólks, fjórir úr hvorum hópi fyrir sig, og voru allir starfandi í sínu fagi þegar þeir tóku þátt í rannsókninni.
Rætt var við fjórar konur og fjóra karla og var persónuleg upplifun og reynsla viðmælenda af netáreitni mjög ólík og í frásögnum þeirra kom til að mynda skýr kynjamunur í ljós. Allar konurnar töldu sig hafa upplifað slíka áreitni, í mismiklum mæli, á meðan einungis einn karlanna taldi sig hafa upplifað hana.
Tvær stjórnmálakonur, tvær fjölmiðlakonur, tveir stjórnmálamenn og tveir fjölmiðlamenn segja frá upplifun sinni á óvæginni umræðu og áreitni á netinu í rannsókninni. Aldur þeirra var á bilinu 30-56 ára og meðalaldur var 41 árs. Fjölmiðlafólkið starfaði ýmist á ljósvaka- eða prentmiðlum og vann hjá ólíkum fyrirtækjum og stjórnmálafólkið var ýmist í stjórn eða stjórnarandstöðu og starfaði ýmist á þingi eða í borgarstjórn.
Endurtekin, óæskileg hegðun í gegnum netið sem veldur skaða
Netáreitni er oftast skilgreind sem endurtekin, óæskileg hegðun í gegnum netið, sem veldur þeim sem fyrir henni verður skaða. Hún á sér margar birtingarmyndir og getur meðal annars falist í dónalegum eða óviðeigandi skilaboðum, niðrandi orðræðu, neikvæðum athugasemdum og hótunum um líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi.
Viðmælendur túlkuðu með ólíkum hætti hvað teldist vera netáreitni. Flestir töldu áreitnina felast í endurteknum og óæskilegum skilaboðum eða athugasemdum sem færu yfir mörk viðtakanda. Hún gæti falist í skilaboðum sem létu fólk upplifa ógn eða óöryggi, svo sem með hótunum um ofbeldi. Allir voru sammála um að áreitni væri gjörólíkt áreiti, þótt orðin væru svipuð, og nauðsynlegt væri að greina þar á milli.
Einstaklingar sem vinna á opinberum vettvangi, líkt og stjórnmála- og fjölmiðlafólk, eru starfs síns vegna sérstaklega útsett fyrir hvers kyns áreitni í gegnum netið og mörgum þykir það jafnvel eðlilegur fylgifiskur þess að vera opinber persóna.
„Hér á landi hefur slík áreitni ekki endilega verið álitin stórt vandamál og ríkrar tilhneigingar gætt til að gera lítið úr henni. Nýleg umræða um hótanir og hatursorðræðu í garð stjórnmálafólks ber þess til að mynda glögglega merki,“ segja Bríet og Jón Gunnar í grein sinni og vísa í því samhengi meðal annars í viðtal Kjarnans við Lenyu Rún Taha Karim, varaþingmann Pírata, í apríl á þessu ári.
Í viðtalinu sagði Lenya meðal annars frá því að hún hefði íhugað að hætta á þingi vegna persónuárása sem hún varð fyrir eftir að hún tók fyrst sæti sem varaþingmaður. Kjarninn fjarlægði frétt sem var unninn upp úr viðtalinu vegna rasískra ummæla sem skrifuð voru við deilingu fréttarinnar á Facebook-síðu Kjarnans.
Í grein Bríetar og Jóns Gunnars segir að full ástæða sé til að veita þessu viðfangsefni meiri athygli en hingað til hefur verið gert. Markmið rannsóknarinnar er að dýpka skilning á og skoða hvernig þessir tilteknu þjóðfélagshópar, stjórnmála- og fjölmiðlafólk, upplifa netáreitni og þá óvægnu umræðu sem henni tengist. Ekki einungis gagnvart sjálfum sér heldur einnig samfélaginu í heild, meðal annars hvað varðar lýðræðislega umræðu. Þetta er í fyrsta sinn sem rannsókn af þessu tagi hefur verið framkvæmd á Íslandi.
Samfélagsmiðlar: Tvíeggja sverð
Stjórnmála- og fjölmiðlafólk sem rætt var við í rannsókninni höfðu almennt sterkar skoðanir á samfélagsmiðlum og töldu þá tvíeggja sverð; þeir byggju yfir ýmsum kostum en einnig göllum. Áhrif miðlanna á samfélagsumræðuna væru bæði jákvæð og neikvæð.
Jákvæðu áhrifin voru helst að samfélagsmiðlar hefðu gefið öllum tækifæri til að láta rödd sína heyrast, skapað rými fyrir fólk til að koma saman og aukið gagnsæi í opinberri umræðu.
Á hinn bóginn töldu flestir neikvæð áhrif samfélagsmiðla vera mikil og jafnvel til þess fallin að valda samfélaginu lýðræðislegum skaða, til dæmis með því að grafa undan trúverðugleika kosninga og hefðbundinna fjölmiðla.
Upplifa verri netáreitni gagnvart konum
Persónuleg upplifun og reynsla viðmælenda af netáreitni var mjög ólík og í frásögnum þeirra kom til að mynda skýr kynjamunur í ljós. Allar konurnar töldu sig hafa upplifað slíka áreitni, í mismiklum mæli, á meðan einungis einn karlanna taldi sig hafa upplifað hana. Sumir karlkyns viðmælendurnir bentu á kvenkyns samstarfsmenn sína fyrir ítarlegri upplýsingar um málefnið og flestir þeirra töldu netáreitni vera meira vandamál gagnvart konum en körlum.
Að sama skapi bentu margar kvennanna á kvenkyns samstarfsmenn sína sem þær vissu að hefðu lent í verri atvikum en þær sjálfar og reyndu þannig að draga úr sinni eigin upplifun af áreitninni.
Bæði þau sem starfa í fjölmiðlum og við stjórnmál upplifðu almennt að netáreitni væri verri gagnvart konum sem störfuðu á opinberum vettvangi heldur en körlum og töldu hana annars eðlis en sú áreitni sem karlarnir yrðu fyrir. Margir töluðu um að netáreitni í garð kvenna væri oft grófari, svæsnari og persónulegri en í garð karla og sneri frekar að útliti þeirra, hæfni eða tilfinningum.
Þrír af fjórum kvenkyns viðmælendum töldu sig hafa upplifað ofbeldisfullar hótanir með einhverjum hætti og þar af töluðu tvær þeirra um að hafa fengið morðhótanir. Áhrif áreitninnar á viðmælendur voru margvísleg og sneru einna helst að sálrænum eða starfstengdum áhrifum.
Rannsakendur segja áhugavert að sjá hversu hár þröskuldur viðmælenda var þegar kemur að netáreitni „þar sem öfgafyllstu dæmin (t.d. morðhótanir) voru gjarnan notuð sem viðmið“.
„Þú getur ekkert verið að væla sko“
Orðræða viðmælenda einkenndist af því að óvægin umræða og áreitni í þeirra garð á netinu væri eðlilegur fylgifiskur starfs þeirra. Þau nefndu flest að því væri nauðsynlegt að hafa „þykkan skráp“ eða „brynju“ til að vernda sig.
„Þú getur ekkert verið að væla sko, þú ert bara í valdastöðu, þú ert að breyta hlutum, fólki mun finnast það alls konar og þú verður bara að þola það,“ sagði stjórnmálakona sem rætt var við í rannsókninni.
Þá notuðu sumir ýmis orð yfir áreitnina til að draga úr alvarleika hennar og mátti þar nefna orð eins og „skítastormur“, „fúkyrðaflaumur“, „hakkavél“ og „drullumaskína“.
Viðmælendur drógu þó ákveðna línu við hvers konar netáreitni færi yfir mörkin og í flestum tilvikum fól það í sér einhvers konar hótanir um ofbeldi og jafnvel morðhótanir.
Dropinn holar steininn
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að orðræða viðmælenda af báðum stéttum og kynjum einkenndist töluvert af normalíseringu á áreitninni, þar sem dregið var úr henni og hún að einhverju leyti álitin eðlilegur hluti af því að vera opinber persóna. Margir gerðu lítið úr vandanum með margvíslegum hætti og og sumir töldu ekki vænlegt að vekja athygli á áreitninni, þar sem það væri merki um veikleika. Slík umræða var sérstaklega áberandi meðal kvenkyns viðmælenda.
Viðmælendur virtust flestir í ákveðinni vörn í upphafi viðtala eftir því sem leið á viðtölin voru þeir tilbúnari til að gangast við afleiðingum áreitninnar. „Að endingu voru allir sammála um að ítrekuð áreitni í gegnum netið næði á endanum í gegn og að dropinn holaði þannig steininn,“ segir í grein Bríetar og Jóns Gunnars.
Þau benda þó á að nokkurra þversagna gætti þó hjá stjórnmála- og fjölmiðlafólki um áhrif og afleiðingar netáreitni og sköruðust frásagnir oft á við þau viðhorf sem komu fram fyrr í viðtölunum. Á meðan flestir töluðu um að hafa þykkan skráp var ljóst að áreitnin hefði sannarlega haft einhver áhrif í för með sér.
Í upphafi viðtala gerðu margir viðmælendur lítið úr áreitninni og afleiðingum hennar en þegar leið á viðtölin fóru þeir í auknum mæli að greina frá þeim áhrifum sem áreitnin hafði haft á þá. Áhrifin sem greina mátti á viðmælendum sneru helst að sálrænum áhrifum eða tengdum starfi þeirra. Sálrænu áhrifin fólust meðal annars í ótta, kvíða, smánun eða annarri vanlíðan.
Það er mat rannsakenda að niðurstöðurnar tengjast stærri umræðu um mörk samfélagsins hvað varðar netið almennt og hvernig þau mörk hafa ekki verið skilgreind.
„Líkt og niðurstöður þessarar rannsóknar hafa bersýnilega sýnt getur netáreitni í öllum sínum birtingarmyndum haft mikil og afdrifarík áhrif á þá sem fyrir henni verða og því er nauðsynlegt að rannsaka og ræða málið nánar, en meðal annars þarf að skilgreina betur þau mörk sem eðlilegt þykir að búa við á netinu til að valda ekki öðrum skaða,“ segja Bríet og Jón Gunnar.