Íslenska ríkið og Seðlabanki Íslands ætluðu sér alltaf að tryggja að uppskipti eigna milli nýju og gömlu bankanna myndu „ekki hafa áhrif á heimtur upp í kröfur lánadrottna“. Enn fremur viðurkenndu báðir aðilar að það væri „lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum“. Það sannvirði ætti að finna með því að meta eignirnar.
Árni M. Mathiesen, fyrrum fjármálaráðherra.
Þetta kemur fram í viljayfirlýsingu um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) sem var birt 14. nóvember 2008, sama dag og stofnefnahagsreikningar nýju viðskiptabankanna þriggja voru birtir. Undir viljayfirlýsinguna skrifuðu Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans, og Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra.
Mikil umræða í kjölfar sendinga Víglundar
Það var því alltaf stefna íslenskra stjórnvalda að greiða kröfuhöfum sannvirði fyrir þær eignir sem teknar voru úr þrotabúum Glitnis, Landsbankans og Kaupþings og færðar til nýju bankanna þriggja Íslandsbanka, nýja Landsbankans og Arion banka.
Mikil umræða hefur verið að undanförnu, í kjölfar skjalasendinga Víglundar Þorsteinssonar til þingmanna, um að íslenskur almenningur og fyrirtæki hafi verið snuðaður um 300-400 milljarða króna vegna þess að eignir voru færðar inn í nýju bankanna með afslætti. Víglundur telur að með þessu hafi stjórnmálamenn, embættismenn og eftirlitsaðilar framið umsvifamikil lögbrot og hefur farið fram á rannsókn á málinu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hafa tekið undir kröfur Víglundar um rannsókn á málinu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur boðað rannsókn á þeim ásökunum sem Víglundur Þorsteinsson hefur sett fram.
Hámarka, meta og borga
Þann 17. nóvember 2008 lagði þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fram þingsályktunartillögu um fjárhagslega fyrirgreiðslu Íslands hjá AGS. Sú tillaga var í raun undanfari þess að Ísland og AGS gerðu með sér áætlun um endurreisn íslensks efnahagslífs. Á meðal þess sem fólst í þeirri áætlun voru há lán sem AGS og ýmis þjóðríki veittu Íslandi til að takast á við þá erfiðleika sem blöstu við þjóðinni eftir hrun.
Með þingsályktunartillögunni fylgdi viljayfirlýsing um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá AGS. Í henni er meðal annars fjallað um endurskipulagningu íslenska bankakerfisins. Þar segir að ákveðnu skipulagi yrði komið á „við skil yfirteknu bankanna og leiðir til að hámarka heimtur eigna með gagnsæjum hætti. Stefna okkar að þessu leyti hefur verið útfærð nánar að undanförnu“.
Síðan segir: „Næstu skref í endurskipulagningunni er önnur umferð mats á bæði nýju og gömlu bönkunum til að tryggja að uppskiptin hafi ekki áhrif á heimtur upp í kröfur lánadrotta. Virt alþjóðlegt endurskoðunarfyrirtæki verður ráðið til að hafa yfirumsjón með framkvæmdinni og aðstoða Fjármálaeftirlitið við að móta aðferðir í samræmi við alþjóðlegar kjörvinnureglur sem beitt verður við matið. Aðferðafræðin á að liggja fyrir 15. nóvember 2008 en eftir það verða ótengd alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki ráðin til sjálfrar matsvinnunnar sem á að vera lokið fyrir lok janúar 2009. Endurskoðunarfyrirtækin sem hafa yfirumsjón með framkvæmdinni munu staðfesta ekki síðar en 15. febrúar 2009 að matið hafi farið fram í samræmi við fyrirliggjandi aðferðafræði og taka lokaákvörðun um matið. Hluti af framkvæmdinni er einnig mat á því hvort stjórnendur og helstu hluthafar hafi gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum.“
Víglundur Þorsteinsson, fyrrum eigandi BM Vallár, segir að stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum og Fjármálaeftirlitið (FME) hafi framið stórfelld og margvísleg lögbrot þegar þeir ákváðu að breyta stofnúrskurði eftirlitsins um stofnun nýrra banka á grunni þeirra þriggja sem féllu í október 2008.
Bráðabirgðatölur háðar endurmati
Viljayfirlýsingin var birt sama dag og stofnefnahagsreikningar nýju bankanna þriggja voru birtir, 14. nóvember 2008. Í fréttatilkynningu sem FME sendi frá sér vegna þeirra sagði að um væri „að ræða bráðabirgðatölur sem háðar eru endurmati sem nú er hafið.“ Í greinargerð sem Víglundur Þorsteinsson sendi þingmönnum og fjölmiðlum heldur hann því fram að bráðabirgðaáætlun FME hafi verið hinn endanlegi úrskurður um virði þeirra eigna sem færðar voru yfir í nýju bankana. Viljayfirlýsingin og tilkynning FME segja annað.
Af viljayfirlýsingunni er hins vegar ljóst að bæði Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið voru á annarri skoðun. Þvert á móti er fjallað sérstaklega um að næsta skref sé önnur umferð mats á bæði „nýju og gömlu bönkunum til að tryggja að uppskitpin hafi ekkki áhrif á heimtur upp í kröfur lánadrottna“. Síðar segir í viljayfirlýsingunni að stjórnvöld viðurkenni það enn fremur að „það sé lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum“.