Svo gæti farið að eignir slitabús Byrs, sem eru 98 prósent í íslenskum krónum, renni að öllu leyti til íslenskra kröfuhafa en að stöðugleikaskattur muni samt sem áður leggjast á eignirnar. Ástæðan er sú að útilokað er að ágreiningsmálum tengd slitabúinu ljúki fyrir áramót, þegar frestur slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja til að ljúka nauðasamningum lýkur.
Stjórnvöld kynntu fordæmalausar aðgerðir sína til að losa um fjármagnshöft mánudaginn 8. júní síðastliðinn. Þeim er meðal annars ætlað að taka á þeim mikla vanda sem 1.200 milljarða króna eignir í íslenskum krónum sem eru í eigu fallinna fjármálafyrirtækja valda íslensku hagkerfi. Þorri þeirra eigna munu renna til erlendra kröfuhafa þegar slitum á búum fjármálafyrirtækjanna lýkur en Ísland á ekki gjaldeyri til að skipta íslenskum krónum þeirra í gjaldeyri.
Þess vegna fela aðgerðir stjórnvalda í sér tvo valkosti: annað hvort mæta slitabúin ákveðnum stöðugleikaskilyrðum og gefa eftir hluta eigna sinna fyrir áramót eða íslenska ríkið leggur á þau 39 prósent stöðugleikaskatt. Stærstu kröfuhafar Kaupþings, Glitnis og Landsbankans hafa allir samþykkt að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda, en þessi þrjú slitabú eiga langstærstan hluta þess vanda sem þarf að leysa. Tilgangurinn er að vernda efnahagslegan stöðugleika Íslands.
Aðgerðirnar ná hins vegar einnig yfir minni slitabú, eins og bú Byrs, sem er dvergvaxið í samanburði við hin þrjú, og mögulegt er að allar greiðslur verði í íslenskum krónum til íslenskra aðila. Í viðbótarumsögn Byrs um frumvarp um stöðugleikaskatt segir enda að "andséð er hvernig greiðslur til íslenskra aðila ógni fjárhagslegum stöðugleika".
Allar krónurnar gætu endað hjá innlendum aðilum
Eignir slitabús Byrs nema í dag um sjö milljörðum króna. Um 98 prósent þeirra eru í íslenskum krónum. Samþykktar kröfur í búið nema um 60 milljörðum króna. Þar af eru 50 milljónir króna forgangskröfur. Um 62 prósent krafna eru í eigu erlendra kröfuhafa og 38 prósent í eigu íslenskra kröfuhafa, sem eru að stærstum hluta eftirlauna- og lífeyrissjóðir. Til samanburðar má nefna að heildareignir Kaupþings, Glitnis og Landsbankans eru um 2.200 milljarðar króna, og þar af eru um 900 milljarðar króna í íslenskum krium.
Hins vegar eru nokkur stór ágreiningsmál vegna krafna sem slitastjórn Byr hefur hafnað enn fyrir dómstólum. Á meðal þeirra er búskrafa Íslandsbanka vegna kaupa bankans á endurreistum Byr árið 2011. Íslandsbanki borgaði 6,6 milljarða króna fyrir hinn bankann en vill meina að tilteknar eignir sem fylgdu með hafi verið ofmetnar í bókhaldi og að þær hefðu átt að vera afskrifaðar að hluta eða öllu leyti. Íslandsbanki lýsti kröfu upp á 8,4 milljarða króna í bú gamla Byrs vegna þessa, sem slitastjórn Byrs hafnaði.
Í viðbótarumsögn slitastjórnar Byrs um breytingar á lögum fjármálafyrirtæki og frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt, sem skilað var inn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis 22. júní síðastliðinn, segir: „Mál vegna þessa er nú rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og er komið tiltölulega stutt á veg og langt er í að það klárist. Að sama skapi hefur Íslandsbanki hf. stefnt íslenska ríkinu til greiðslu skaðabóta vegna eignhlutar ríkisins. Framangreind málssókn Íslandsbanka hf. hefur sett öll búskipti Byrs sparisjóðs í uppnám og hefur slitastjórn enga stjórn á málshraða yfirstandandi matsmáls þar sem Íslandsbanki hf. er matsbeiðandi.“
Eva B. Helgadóttir, sem situr í slitastjórn Byrs, sagði í samtali við Kjarnann að útilokað væri að öllum ágreiningsmálum tengdum Byr sem rekin eru fyrir dómstólum ljúki fyrir áramót.
Nauðasamningur til að komast hjá stöðugleikaskatti
Því er sú staða uppi að ekki er hægt að klára nauðasamning Byrs fyrir áramót nema að hann verði skilyrtur með einhverjum hætti, enda ljóst að ágreiningsmálum sem eru fyrir dómstólum verður ekki lokið. Með öðrum orðum yrði slikur nauðasamningur til málamynda og einungis gerður til að komast hjá því að stöðugleikaskattur yrði lagður á slitabú Byrs.
Ef nauðasamningur verður ekki gerður mun 39 prósent stöðugleikaskattur falla á á slitabúið. Í viðbótarumsögn slitastjórnar Byrs segir að fari svo að „ágreiningsmál þessi falli Byr í óhag þá kann að vera komin upp sú staða að forgangskröfur nemi hærri fjárhæð en eignir Byrs. Þar sem forgangskröfur eru að fullu í eigu íslenskra aðila þá mun stöðugleikaskatturinn einungis leggjast á greiðslur til íslenskra aðila, en vandséð er hvernig greiðslur til íslenskra aðila ógni fjárhagslegum stöðugleika.
Jafnframt gerir þessi óvissa slitastjórn Byrs sparisjóð verulega erfitt um vik að gera nauðasamninga fyrir áramót þar sem hvorki eigna né skuldastaða Byrs er ljós. Slíkir samningar yrðu því háðir verulegum fyrirvörum um báða þessa þætti og myndu því ekki leysa neinn vanda annan en að komast hjá fullum stöðugleikaskatti.“
Ekkert tillit tekið til athugasemda Byrs
Að mati slitastjórnar Byr vantar því tilfinnanlega inn í frumvarpið um stöðugleikaskatt ákvæði um að uppi sé ágreiningur þess eðlis sem Byr stendur í við Íslandsbanka og að skattlagning ætti að frestast þar til að því ágreiningsmáli yrði lokið og rétt eignarstaða búsins liggi fyrir. Það væri til að mynda hægt að leysa slíkt með bráðabirgðaákvæði.
Eva segir að ekki hafi verið tillit til athugasemda slitastjórnar Byrs þegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og frumvarp um stöðugleikaskatt voru samþykktar á Alþingi í síðustu viku.