Stuðningur við ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mælist nú 44,3 prósent samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Það er minnst stuðningur sem mælst hefur við ríkisstjórn flokkanna þriggja, undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, frá því að hún var fyrst mynduð síðla árs 2017. Fyrri lágpunktur var í lok árs 2018 þegar stuðningur við hana mældist 44,8 prósent.
Þegar ríkisstjórnin var fyrst mynduð fyrir um fjóru og hálfu ári síðan þá naut hún mikils stuðnings. Í fyrsta Þjóðarpúlsinum sem birtur var eftir að samstarfið var gert formlegt sögðust 74,1 prósent landsmanna styðja hina óvenjulegu stjórn sem teygði sig frá vinstri, yfir miðjuna og til hægri. Þar spilaði stóra rullu sá pólitíski óstöðugleiki sem ríkt hafði hérlendis árin á undan en ríkisstjórn hafði ekki náð að sitja sem meirihlutastjórn út heilt kjörtímabil síðan 2007.
Það fjaraði hins vegar hratt undan vinsældum hinnar nýju ríkisstjórnar og strax á miðju ári 2018 var stuðningur við hana farin að mælast undir 50 prósent. Þannig var staðan meira og minna fram til byrjun árs 2020, en í janúar það ár mældist stuðningurinn 46,5 prósent.
Þá skall kórónuveirufaraldurinn á og stjórnmálin breyttust á einni nóttu. Hefðbundin hugmyndafræðileg átök um áherslur og málefni viku til hliðar og allt fór að snúast um viðbrögð við faraldri og þjóðin fylkti sér á bakvið ríkisstjórnina sem tók ákvarðanirnar um hvernig bregðast ætti við til að verja heilsu, efnahag og samfélag á fordæmalausum tímum. Í lok mars var stuðningur við ríkisstjórnina komin upp í tæp 60 prósent. Fram til byrjun septembermánaðar 2021, en þingkosningar fóru fram seint í mánuði, hélst stuðningurinn mikill og fór aldrei undir 55 prósent. Faraldurinn var þá enn í fullum gangi. Omikron-afbrigði átti eftir að skella á landsmönnum með tilheyrandi takmörkunum á daglegt líf, sem kynntar voru í lok árs í fyrra.
Bankasalan reyndist stórmál
Reglulegar kannanir Gallup undir hatti Þjóðarpúlsins á stuðningi við stjórnmálaflokka og ríkisstjórn eru gerðar yfir heilan mánuð. Þær endurspegla því ekki alltaf nákvæmlega hug fólks til flokka og stjórnar á nákvæmlega þeim tíma sem niðurstöður þeirra eru birtar.
Salan á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka, sem fram fór 22. mars, átti sér til að mynda stað seint á því könnunartímabili sem skilaði áðurnefndum 60,9 prósent stuðningi. Skoðun almennings á henni vigtaði ekki inn nema að hluta.
Í apríl kannaði Gallup sérstaklega hug almennings til þeirrar sölu. Niðurstaðan var að 87,2 prósent landsmanna töldu að staðið hefði verið illa að útboði og sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Kjósendur allra annarra flokka en Sjálfstæðisflokks voru nær alfarið á því að útboðið og salan hefði verið klúður, eða 89 til 97 prósent þeirra. Hjá kjósendum flokks Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, var staðan önnur. Þar töldu 26 prósent að útboðið og salan á hlutnum í Íslandsbanka hefði verið vel heppnuð en 62 prósent að illa hefði tekist til.
Kjósendur Sjálfstæðisflokks með annað viðhorf
Gallup spurði einnig að því hvort rannsóknarnefnd Alþingis ætti að gera úttekt á sölunni, líkt og þorri stjórnarandstöðunnar hafði lagt til. Niðurstaðan þar varð sú að 73,6 prósent landsmanna töldu að það eigi að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent töldu nægjanlegt að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sölunni, líkt og fjármála- og efnahagsráðherra hafði þegar falið henni að gera. Aftur skáru kjósendur Sjálfstæðisflokksins sig úr, en 74 prósent þeirra voru á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægði. Tæplega þriðjungur kjósenda hinna stjórnarflokkanna var á þeirri skoðun en um tveir þriðju á því að skipa þyrfti rannsóknarnefnd. Ekki þarf að koma á óvart að kjósendur stjórnarandstöðuflokka voru nær allir á því að rannsóknarnefnd sé nauðsynleg.
Í könnun Gallup var líka spurt hvort fólk teldi að lög hefðu verið brotin við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Mikill meirihluti landsmanna, 68,3 prósent, töldu að söluferlið hefði falið í sér lögbrot, en 31,7 prósent að svo væri ekki. Athygli vakti að 77 prósent kjósenda Vinstri grænna töldu að lög hefðu verið brotin og 67 prósent kjósenda Framsóknarflokksins. Þegar kom að kjósendum þriðja stjórnarflokksins snerist staðan að venju við, en 77 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins voru sannfærðir um að engin lög hefðu verið brotin.
Aðspurð hvort óeðlilegir viðskiptahættir hafi verið viðhafðir við söluna sögðu 88,4 prósent svarenda svo vera. Einungis 11,6 prósent töldu viðskiptahættina hafa verið eðlilega.
Nær allir kjósendur annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins (89 til 99 prósent) töldu söluna hafa verið framkvæmda með óeðlilegum viðskiptaháttum, en 41 prósent stuðningsmanna flokks fjármála- og efnahagsráðherra töldu að eðlilegum háttum hafi verið beitt.
Mesta dýfa frá því að ríkisstjórnin tók við lyklunum
Eftir bankasöluna hrundi stuðningur við ríkisstjórnina. Í Þjóðarpúlsinum sem birtur var í lok apríl mældist hann 47,4 prósent og hafði þá lækkað um 13,5 prósentustig á einum mánuði. Það er mesta dýfa sem stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur tekið á einum mánuði frá því að hún settist að völdum.
Í maí hélt stuðningurinn áfram að þokast niður, samhliða því að ríkisstjórnin þurfti meðal annars að takast á við erfiða umræðu um flóttamenn og miklar hækkanir á verðlagi og lánakjörum sem leiðir af sér kaupmáttarrýrnun. Nýverið bættist þung umræða um sprungið heilbrigðiskerfi við og miklar skeytasendingar milli ráðherra mismunandi flokka í gegnum fjölmiðla.
Þær áttu sér ekki stað með opinberum hættu sem neinu nam á síðasta kjörtímabili en eru nú nær daglegt brauð. Þar má nefna gagnrýni Lilju Alfreðsdóttur á bankasöluna og vilja hennar um að bankaskattur verði hækkaður, þvert á vilja fjármála- og efnahagsráðherra, ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að segja formann Framsóknarflokksins verða að gera það upp við sig sjálfan hvort hann ætlaði að segja af sér vegna rasískra ummæla sem hann lét falla, gagnrýni Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra vegna málefna flóttamanna og nú síðast rimmu Lilju og Bjarna vegna hækkunar á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar.
Afleiðingin er sú að stuðningur við ríkisstjórnina lækkar niður í sinn lægsta punkt frá upphafi, rúmlega 44 prósent.