Stuðningur við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er aðeins minni eftir að kjörtímabil hennar er hálfnað en stuðningur við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sat frá 2009 til 2013, var eftir að stjórnartími hennar var hálfnaður. Munurinn er þó ekki mikill, einungis skeikar einu prósentustigi. Alls sögðust 36 prósent landsmanna styðja ríkisstjórn Sigmundar Davíðs í júní 2015 en 37 prósent sögðust styðja ríkisstjórn Jóhönnu í sama mánuði árið 2011, þegar hún hafði setið í rúm tvö ár. Þetta kemur fram í tölum Gallup um stuðning við ríkisstjórnir.
Mikill stuðningur við ríkisstjórnir Davíðs
Þegar horft er lengra aftur í tímann er ljóst að vatnaskil urðu við stuðning við ríkisstjórnir þegar hrunið skall á haustið 2008. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs Oddssonar, sem kosin var til valda árið 1995, hafði setið í tvö ár naut hún stuðnings 65 prósent landsmanna. Næsta ríkisstjórn, sem var skipuð sömu flokkum og með sama forsætisráðherra, naut stuðnings 57 prósent kjósenda sumarið 2001, þegar kjörtímabil hennar var hálfnað sumarið 2001. Þriðja samsteypustjórn þessarra flokka, sem Davíð veitti forystu fyrsta eina og hálfa árið en en Halldór Ásgrímsson það sem eftir lifði kjörtímabilsins, var ekki jafn vinsæl en naut samt stuðnings 50 prósent landsmanna þegar stjórnartíð hennar var hálfnuð.
Í raun var eina skiptið sem stuðningur við ríkisstjórn fór niður fyrir rétt tæplega 50 prósent sumarið 2004, þegar átök um fjölmiðlafrumvarpið svokallaða, stóðu sem hæst. Þau átök náðu hámarki þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, beitti neitunarvaldi forseta í fyrsta sinn í sögunni og synjaði lögunum undirskrift.
Kúvending við hrunið
Algjör kúvending varð í langvarandi stuðningi við ríkisstjórnir landsins við bankahrunið. Sú sem sat að völdum þegar hrunið átti sér stað, samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undir forsæti Geirs H. Haarde, naut prýðilegs stuðnings sumarið 2008. Í júní það ár, rúmu ári eftir að stjórnin tók við völdum, naut hún stuðnings 52 prósent kjósenda. Sá stuðningur hrundi með bönkunum. Í nóvember var hann kominn niður í 32 prósent og í janúar 2009, þegar búsáhaldarbyltingin svokallaða stóð sem hæst, mældist stuðningur við ríkisstjórnina einungis 26 prósent. Það er minnsti stuðningur sem nokkru sinni hefur mælst við ríkisstjórn á Íslandi samkvæmt tölum Gallup, enda fór hún frá og minnihlutastjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttir, varin af Framsóknarflokknum tók við stjórnartaumunum 1. febrúar það ár.
Í apríl var svo kosið að nýju og í fyrsta sinn í Íslandssögunni var hægt að mynda hreina vinstristjórn þegar Samfylking og Vinstri grænir fengu meirihluta þingmanna. Vinsældir þeirrar ríkisstjórnar mældust geysimiklar í byrjun, en í maí 2009 mældist stuðningur við hana 61 prósent. Þær vinsældir voru þó fljótar að hverfa þegar hvert risamálið á fætur klauf þjóðina, þingið og stjórnarflokkanna í herðar niður. Ber þar helst að nefna Icesave-deilurnar, endurreisn fjármálakerfisins, skuldamál heimila, umsókn um aðild að Evrópusambandinu, ný stjórnarskrá og breytingar á fiskveiðikerfinu.
Stjórnartími ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur einkenndist af miklum átökum.
Þegar ríkisstjórnin hafði setið helming kjörtímabilsins var stuðningur við störf hennar hruninn. Einungis 37 prósent þjóðarinnar stóð með henni henni í júní 2011. Botninum náði ríkisstjórn Jóhönnu þó í mars 2012 þegar einungis rúmlega 28 prósent þjóðarinnar studdu hana. Í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2013, þegar ríkisstjórnin var í raun orðin minnihlutastjórn og verulega veðurbarin eftir átök kjörtímabilsins, jafn innan flokka og þings sem og úti i samfélaginu,hafði stuðningurinn braggast eilítið og einn af hverjum þremur sagðist styðja hana. Sá stuðningur skilaði sér alls ekki í kosningununum og flokkarnir tveir töpuðu báðir gríðarlegu fylgi.
Fengi minna fylgi en hin óvinsæla vinstristjórn
Við tók samsteypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, með Sigmund Davíð Gunnlaugsson í stóli forsætisráðherra, enda flokkur hans óumdeilanlega sigurvegari kosninganna þar sem hann fékk 24,4 prósent atkvæða og 19 þingmenn. Í fyrstu stuðningsmælingu Gallup mældist stuðningur við nýju rikisstjórnina heil 62,4 prósent.
Sá mikli stuðningur entist ekki lengi enda óhætt að fullyrða að átakapólitíkin sem var í aðalhlutverki á síðasta kjörtímabili hafi alls ekki verið lögð til hliðar á því sem nú stendur yfir. Í maí síðastliðnum, þegar nákvæmlega tvö ár voru frá því að ríkisstjórnin tók við mældist stuðningur við hana 30,9 prósent, eða litlu meiri en þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var sem óvinsælust.
Kynning á áætlun ríkisstjórnarinnar um losun hafta í síðasta mánuði virðist þó hafa aukið stuðningin við ríkisstjórnina lítillega því hann óx á milli mánaða í 36 prósent. Það er aðeins minni stuðningur en síðasta ríkisstjórn naut þegar hún var hálfnuð með sitt kjörtímabil.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er þó langt frá því sem þeir fengu í kosningunum vorið 2013, þegar þeir fengu samtals 51,1 prósent atkvæða. Í júní mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 24,5 prósent og fylgi Framsóknar 11,3 prósent. Samtals yrði fylgi stjórnarflokkanna, ef kosið yrði í dag, 35,8 prósent.
Þegar hreina vinstristjórnin hafði setið hálft kjörtímabil mældist fylgi Samfylkingar 21,5 prósent en Vinstri grænna 16,4 prósent. Samanlagt sögðust því 37,9 prósent kjósenda ætla að kjósa þá flokka á þeim tíma, eða 2,1 prósentustigum fleiri en þeir sem myndu kjósa sitjandi ríkisstjórnarflokka í dag.