Sver af sér pólitísk afskipti af sakamálum þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi haft pólitísk afskipti af sakamáli
Jón Gunnarsson segist standa við fullyrðingu sína um að meðferð tiltekinna sakamála lúti ekki pólitískum afskiptum þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi heitið sérstakri fjármögnun fyrir tveimur og hálfu ári vegna rannsóknar á Samherjamálinu. Hann segir einnig að persónulegar skoðanir Brynjars Níelssonar, aðstoðarmanns síns, á málum sem eru í virkri lögreglurannsókn séu ekki talin pólitísk afskipti valdhafa af meðferð sakamála.
Í nýlegu svari við fyrirspurn Eyjólfs Ármannssonar, þingmanns Flokks fólksins, um rannsókn héraðssaksóknara á hinu svokallaða Samherjamáli, sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að embætti sem fara með rannsókn og saksókn sakamála fái ekki auknar fjárveitingar til að sinna rannsókn tiltekins sakamáls.
Það grundvallist á því að íslenskt sakamálaréttarfar byggi á „því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma. Af þessu leiðir að dómsmálaráðuneyti og dómsmálaráðherra hafa engin afskipti af sakamálarannsóknum á Íslandi að undanskildu þröngu hlutverki ráðuneytisins í alþjóðlegri sakamálasamvinnu.“ Á þessum grundvelli taldi dómsmálaráðherra sér ekki fært að svara spurningum þingmannsins.
Þrátt fyrir þessi svör ráðherrans eru fordæmi fyrir því að ráðherra hafi heitið fjárveitingu til að sinna sérstöku sakamáli.
Á fundi ríkisstjórnar Íslands þann 19. nóvember 2019 var kynnt aðgerðaáætlun í sjö liðum til að auka traust á íslensku atvinnulífi í kjölfar þess að Samherjamálið svokallaða var opinberað viku áður. Ljóst var á þeim tíma að rannsókn málsins gæti orðið umfangsmikil, en undir eru meint mútubrot, peningaþvætti og skattasniðganga.
Segir setninguna ekki eiga uppruna í minnisblöðum frá ráðuneytinu
Í tilkynningu sem birtist á heimasíðu stjórnarráðsins á þessum tíma sagði að á ríkisstjórnarfundinum hefði þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, farið yfir löggjöf, alþjóðasamninga og þau atriði sem unnið hefur verið að og varða mútubrot og peningaþvætti. Þar sagði síðan orðrétt: „Þá verður hugað sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu.“
Tveimur dögum eftir ofangreindan ríkisstjórnarfund, 21. nóvember 2019, sendi Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari minnisblað til dómsmálaráðherra þar sem hann lagði til að starfsmönnum embættisins yrði fjölgað. Þótt Samherjamálið sé ekki sérstaklega nefnt í minnisblaðinu kemur þar fram að þáverandi starfsmannafjöldi dugi ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem embættið hafi á hendi.
Embætti héraðssaksóknara, Skatturinn og skattrannsóknarstjóri fengu svo 200 milljóna króna aukafjárveitingu á árinu 2020.
Kjarninn sendi fyrirspurn á dómsmálaráðuneytið og spurði af hverju svar Jóns við fyrirspurn Eyjólfs Ármannssonar hefði verið í andstöðu við þá framkvæmd sem fyrirrennari hans í starfi beitti á ríkisstjórnarfundi 19. nóvember 2019?
Í svari ráðuneytisins segir að Jón standi við svar sitt um að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma. Tilvitnunin í fréttatilkynningu ríkisstjórnar frá árinu 2019 breyti engu þar um. „Dómsmálaráðuneytið tengir ekki umræður um fjárheimildir og fjárþörf embætta við einstakar rannsóknir eða dómsmál, heldur almennt mat á verkefnastöðu og álagi viðkomandi embætta. Setningin sem vísað er í frá 19. nóv. 2019 á ekki uppruna sinn í minnisblöðum frá dómsmálaráðuneytinu í tengslum við þann fund.“
Aðstoðarmaðurinn sem tjáði sig sértækt um virka lögreglurannsókn
Kjarninn spurði dómsmálaráðuneytið einnig um ýmis ummæli annars aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, Brynjars Níelssonar, í ljósi þess að ráðherrann hafði sagt að í svari sínu við fyrirspurn Eyjólfs að íslenskt sakamálaréttarfar byggi á því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma.
Síðan að Brynjar tók við stöðu aðstoðarmanns dómsmálaráðherra í byrjun desember í fyrra hefur hann tjáð sig opinberlega um mál sem eru í virkri lögreglurannsókn, sérstaklega rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á meintum brotum fjögurra blaðamanna Kjarnans, Stundarinnar og RÚV á lögum um friðhelgi einkalífs. Rannsóknin snýst um meðferð gagna úr síma manns sem heitir Páll Steingrímsson, og starfar hjá Samherja.
Á samfélagsmiðlinum Twitter 16. febrúar 2022 setti Brynjar til að mynda inn eftirfarandi færslu:
Fjölmiðlamenn eru að slá í gegn sem aldrei fyrr. Nú þurfum við að verja þá gegn ofsóknum lögreglu og stjórnmálamanna. Gætum byrjað á að stofna áfallahjálparsjóð. Svo gætum við undanþegið þá frá ákvæðum hegningarlaga og laga um meðferð sakamála.
— Brynjar Níelsson (@BrynjarNielsson) February 16, 2022
Í þættinum Sprengisandi 22. febrúar síðastliðinn þráspurði Brynjar framkvæmdastjóra Stundarinnar, Jón Trausta Reynisson, hvort hann hefði gögn úr síma Páls undir höndum.
Í þættinum lýsti Brynjar ítrekað skoðunum sínum á umræddri rannsókn og því sem hann teldi að hún snerist um. Meðal annars sagði hann: „Þeim hefur ekkert sérstaklega verið borið á brýn að hafa bara nýtt þessi gögn. Þeir væru ekki sakborningar að mínu viti ef það væri eina atriðið í þessu máli.“
Undir lok þáttarins þráspurði aðstoðarmaðurinn svo framkvæmdastjóra Stundarinnar hvort miðillinn hefði gögn úr síma Páls undir höndum (alls fjórum sinnum) þrátt fyrir að 25. grein fjölmiðlalaga geri fjölmiðlafólki óheimilt að tjá sig um gögn sem það hefur undir höndum.
Aðstoðarmaður má tjá sig um virka lögreglurannsókn
Kjarninn spurði dómsmálaráðherra hvort það væri mat hans að ofangreind orð aðstoðarmanns yfirmanns lögreglumála í landinu, sem féllu á opinberum vettvangi, gangi ekki gegn því grundvallarsjónarmiði að meðferð sakamála eigi ekki að lúta pólitískum afskiptum valdhafa á hverjum tíma?
Jón telur svo ekki vera. Í svarinu segir að aðstoðarmaður ráðherra sé pólitískur og gegni fyrst og fremst því hlutverki að vera ráðherra innan handar og til ráðgjafar vegna stefnumótunar og pólitískra ákvarðana. „Aðstoðarmaður ráðherra hefur ekki aðkomu að málum sem koma til afgreiðslu hjá ráðuneytinu, hann hefur þar ekki formlegt hlutverk, ábyrgð né vald og hefur ekki aðgang að málsgögnum einstakra mála. Ráðuneyti og ráðherra hafa auk þess engin afskipti af sakamálarannsóknum á Íslandi að undanskildu þröngu hlutverki ráðuneytisins í alþjóðlegri sakamálasamvinnu.“
Auk þess að vera aðstoðarmaður ráðherra sé Brynjar líka varaþingmaður. „Persónulegar skoðanir hans á málum sem eru í samfélagsumræðunni eru ekki talin pólitísk afskipti valdhafa af meðferð sakamála og eru því ekki álitin ganga gegn nefndu grundvallarsjónarmiði.“
Tveir blaðamenn Kjarnans eru á meðal þeirra sem hafa verið boðaðir til yfirheyrslu vegna rannsóknar á meintum brotum á friðhelgi einkalífsins sem fjallað er um í þessari fréttaskýringu. Höfundur hennar er annar þeirra.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars