Árið 2006 héldu Íslendingar að þeir væru að sigra heiminn. Að það væri eitthvað í genum okkar sem gerði þjóðina færari til að ná árangri í alþjóðavæddum heimi. Kjarninn í þessari útrás var bankastarfsemi. Viðskiptabankarnir þrír uxu stórkostlega ár frá ári og umsvif þeirra úti í hinum stóra heimi, útrásin, jukust á ógnvænlegum hraða. Með fylgdu allskyns fylgihnettir sem byggðu starfsemi sína fyrst og síðast á ótæmandi aðgangi að lánsfjármagni frá bönkunum.
Opinbera skýringin á þessari velgengni var sú að Íslendingarnir væru að nýta sérkenni sín sem stolt og harðgerð örþjóð til að ná forskoti á aðrar sem höfðu þó stundað fjármálastarfsemi öldum saman, á meðan að Íslendingar höfðu haft frjálst og opið bankakerfi í um fjögur ár á þessum tíma. Kjarkur, þor, áhættusækni og stuttar boðleiðir voru kostirnir sem áttu að hafa veitt Íslendingunum samkeppnisforskotið og þar af leiðandi velgengnina. Raunveruleikinn var hins vegar sá, sem við vitum auðvitað núna, að ástæða þess að peningar streymdu inn í íslensku bankanna, og út úr þeim aftur til misgáfulegra viðskiptajöfra, voru háir vextir. Þ.e. fjárfestar gátu tekið lán í lágvaxtarmyntum eins og frönkum og jenum og keypt íslensk skuldabréf þar sem vextir, og þar af leiðandi ávöxtun, voru miklu hærri. Vegna þessa varð gríðarleg eftirspurn eftir skuldabréfum útgefnum í íslenskum krónum. Þúsundir milljarða króna streymdu til landsins og bankarnir lögðu þeim peningastafla víðsvegar um þjóðfélagið.
Síðan kom auðvitað að skuldadögum haustið 2008 og ljóst var að eina snilli útrásarvíkinganna lá í því að tryggja sér yfirráð og/eða áhrif yfir bönkum sem lánuðu þeim ótrúlegar upphæðir til að kaupa eignir út um allan heim á yfirverði.
Framtíðarhópur skipaður forystumönnum úr viðskiptalífinu
En sá veruleiki hafði ekki runnið upp árið 2006. Þá var partýið í fullum gangi og „stemmning“ fyrir þeirri menningu sem síðar fór nærri með að setja landið á hausinn enn gríðarlega mikil. Í því tómi lét Viðskiptaráð Íslands gera skýrslu um hvernig Ísland ætti að vera árið 2015, eða í ár.
Skýrslan byggði á afrakstri funda sem framtíðarhópur Viðskiptaráðs Íslands hafði setið og fóru fram undir forystu Þórs Sigfússonar, þáverandi forstjóra Sjóvá, og Guðfinnu Bjarnadóttur, þáverandi rektor Háskólans í Reykjavík.
Hreiðar Már Sigurðsson, á forstjóri stærsta banka landsins, sat í framtíðarhópnum.
Í framtíðarhópnum sátu fjölmargir þáverandi forystumenn úr íslensku viðskiptalífi. Á meðal þeirra voru Ágúst Guðmundsson (kenndur við Bakkavör og Exista), Baldur Guðnason (þá forstjóri Eimskipafélags Íslands), Bjarni Ármannsson (þá forstjóri Glitnis/Íslandsbanka), Brynjólfur Bjarnason (þá forstjóri Símans), Erlendur Hjaltason (þá forstjóri Exista), Finnur Ingólfsson (fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins og þá forstjóri VÍS), Gunnar Páll Pálsson (þá stjórnarmaður í Kaupþingi og formaður VR), Kristín Jóhannesdóttir (þá forstjóri Gaums), Róbert Wessman (þá forstjóri Actavis Group), Magnús Scheving (kenndur við Latabæ), Hörður Arnarson (þá forstjóri Marel hf.), Þórður Már Jóhannesson (þá forstjóri Straums-Burðarás fjárfestingabanka) og Hreiðar Már Sigurðsson (þá forstjóri Kaupþings). Einnig voru fulltrúar listamanna og fleiri fulltrúar háskólasamfélagsins í hópnum.
Í kynningu á skýrslunni stendur að henni sé „engan veginn ætlað að vera tæmandi um það hvernig þjóðfélagið á að vera. Fyrst og fremst er ætlunin að tæpa á þeim sviðum sem mikilvægust eru viðskiptalífinu“.
Það er því mjög áhugavert í dag, þegar árið 2015 er loks runnið upp, að máta þessa framtíðarsýn Viðskiptaráðs við raunverulega stöðu árið 2015.
Hættum að bera okkur saman við Norðurlönd, við erum betri
„Íslensku fyrirtækin sem leitt hafa útrásina á undanförnum árum byggja öll meira eða minna á þeim kostum og einkennum sem við teljum okkur hafa sem þjóð í augum útlendinga. Við erum lítil, vel tengd innbyrðis, erum fljót að átta okkur á stöðu mála, erum hugmyndarík, tökum ákvarðanir strax og lærum fljótt og örugglega af reynslunni.“ Svona er komist að orði í fyrsta kafla skýrslunnar, en sá kafli ber heitið „Hvernig á Ísland að vera 2015?“
Í lok kaflans er lögð fram aðgerðaráætlun til ársins 2015 sem hefur það markmið að gera Ísland að samkeppnishæfasta landi í heimi. Skýrsluhöfundar leggja til að íþyngjandi regluverki sem hvíldi á viðskiptalífinu ætti að létta og að Íslendingar ættu að "láta vinda viðskiptafrelsis leika um sem flest svip hagkerfisins“. Því meira frelsi sem væri því meira svigrúm hefði viðskiptalífið til að vaxa og dafna.
Þá hafna skýrsluhöfundar samanburði við hin Norðurlöndin þegar gæði landa eru borin saman. Þeir segja að slíkur samanburður sé oftar en ekki dreginn upp þegar „til stendur að færa rök fyrir frekari ríkisafskiptum, meiri ríkisútgjöldum eða hærri sköttum. Skattar á Norðurlöndunum er miklu hærri en hér og þeir búa við ofvaxin velferðarkerfi sem framleiða bókstaflega vandamál á ýmsum sviðum.“
Skýrsluhöfundar vildu að Íslendingar hættu að bera sig saman við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Við værum betri en þær. Hér sést miðborg Kaupmannahafnar.
Því sé oft ekki um gæfulegan samanburð eða háleit viðmið að ræða. „Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum. Ísland ætti þess í stað að bera sig saman við þau ríki sem standa hvað fremst á hverju sviði fyrir sig.“
Þess má geta að Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland eru oftar en ekki á meðal þeirra landa sem raða sér í mörg af efstu sætunum í samantektum um þau lönd sem best er að búa í í heiminum, að teknu tilliti til ýmissa mismunandi þátta.
Þess í stað ætti að nýta þann mikla meðbyr sem væri til staðar gagnvart íslensku viðskiptalífi „og leita allra leiða til að markaðssetja Ísland sem alþjóðlega miðstöð fjármála og þjónustu“. Samhliða ætti að leyfa útlendingum að kaupa í íslenskum sjávarútvegs- og orkufyrirtækjum. Næstu skref íslenskrar útrásar yrðu ekki tekin fyrr en að opnar yrði fyrir það. „Ástæðan er sú að útrás fyrirtækja gengur ekki aðeins út á að íslensk fyrirtæki kaupi erlend, heldur þurfa útlendingar að geta orðið hluthafar í íslenskum fyrirtækjum í gegnum samruna.“
Í aðgerðaráætlun sem lögð var fram til að ná þessum háleitu markmiðum Viðskiptaráðs árið 2015 var auk ofangreinds m.a. lagt til að:
— Stórauka enskukennslu á fyrstu skólaárum svo Íslendingar verði jafnvígir á bæði málin.
— Styrkja í sessi gott siðferði í viðskiptalífinu.
— Gera hagkerfið skapandi.
— Fjölga tvísköttunarsamningum, fjárfestingasamningum og loftferðasamningum.
— Leggjast á eitt að gera Ísland einfaldara.
— Ganga aldrei skemur en samkeppnisþjóðirnar í umbótum á skattkerfinu.
Ríkið átti að hætta samkeppni, í öllu
Það voru ekki bara umbætur á viðskiptalífinu, efnahagslífinu og skattkerfinu sem Viðskiptaráð vildi sjá að yrðu orðnar að veruleika árið 2015. Það vildi einnig taka vel til í skólamálum, meðal annars með því að minnka miðstýringu í skólakerfinu, auka eina kostnaðarþátttöku foreldra og nemenda og tryggja rekstrargrundvöll „sjálfstæðra“ grunnskóla, sem væru þá einkareknir, með upptöku svokallaðs ávísunarkerfis þar sem það fjármagn sem ríkið greiðir vegna hvers nemanda fylgir honum til skóla að eigin vali.
Í atvinnumálum vildi Viðskiptaráð fjölga þeim sem sækja sér menntun erlendis og að gefa starfsfólki meuiri kost á sveigjanlegri vinnustað, vinnutíma og starfslokum þannig að vinnulag Íslendinga hentaði betur þeim alþjóðaheimi fjármála sem landið átti að vera miðpunkturinn í árið 2015.
Lagt var til að ríkið drægi saman seglin á nánast öllum sviðum og leyfði einkaframtakinu að sjá um samkeppnisrekstur, líka í heilbrigðismálum, menntamálum og samgöngumálum.
Viðskiptaráð hafði síðan sterkar skoðanir á því hvert hlutverk ríkisins ætti að vera í íslensku fjármálamiðstöðinni. Lagt var til að Íbúðalánasjóður hætti að lána í samkeppni við banka, að ríkið léti einkaaðila fjármagna, byggja og reka allar nýjar heilbrigðisstofnanir (meðal annars hátæknisjúkrahús), að einkaaðilar myndu taka við fleiri þáttum almannatryggingakerfisins, að einkaaðilar myndu byggja, fjármagna og reka fleiri samgöngumarnnvirki, að tollar á landbúnaðarvörur yrðu afnumdir og styrkir til þá sem stunda þá atvinnugrein lagðir af. Þá átti líka að fækka ráðuneytunum og stofnunum.
Samandregið átti ríkið að draga mjög úr umfangi sínu, leyfa frelsisvindunum að blása um sem flest svið samfélagsins og hætta allri samkeppni við einkaaðila, sama á hvaða sviði það væri.
Átti að rugga bátnum, sem valt næstum því fyrir vikið
Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að tilgangur hennar sé að rugga bátnum og hvetja til umræðu. Þar segir að meginverkefni Viðskiptaráðs sé að starfa sem þankatankur í íslensku samfélagi og láta ekkert afskipt. „Góðar hugmyndir hljóta þannig brautargengi hvaðan sem þær koma enda skiptir engu máli hvaðan gott kemur. Við stöndum til reiðu að rugga bátnum. Við hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama.“
Í dag, þegar árið 2015 er loks runnið upp, og síðustu ár þróuðust á allt annan veg en Viðskiptaráð gerði ráð fyrir, er áhugavert að lesa tillögurnar. Margt af því sem Viðskiptaráð fór fram á varð nefnilega að veruleika á þeim tveimur árum sem liðu frá útkomu skýrslunnar og þar til að íslenskt efnahagslíf hrundi haustið 2008. Frelsið sem viðskiptalífinu var gefið var til að mynda gjörnýtt, með þeim afleiðingum að Kaupþing, Landsbanki og Glitnir hrundu á þremur dögum með gjaldþrotahvelli sem var einn sá hæsti sem heyrst hefur í heimssögunni. Sumir nýttu frelsið og eftirlitsleysið til að fremja stórtæk efnahagsbrot, og sitja fyrir vikið í áralöngu fangelsi. Aðrir fóru bara ævintýralega skarpt á hausinn með fyrirtækin sem þeir stýrðu þegar kom að því að greiða upp öll himinháu lánin sem þeir höfðu tekið. Þá voru ekki til neinir peningar til að borga þau. Fyrir vikið töpuðu erlendir kröfuhafar íslenskra fjármálafyrirtækja og útrásarfélaga um sjö þúsund milljörðum króna á Íslandsaðkomu sinni, þótt eitthvað fáist til baka við uppgjör slitabúa bankanna sem framundan eru. Það má segja að bátnum hafi sannarlega verið ruggað. Raunar svo mikið að honum nærri hvolfdi.
Sýn framtíðarhóps Viðskiptaráðs á það hvernig Ísland ætti að verða hefur ekki orðið að veruleika. Þess í stað upplifði Íslands efnahagshrun, allsherjar endurskipulagningu efnahagskerfisins, fjármagnshöft, mikil samfélagsleg átök um það hvernig land við ættum að vera og ýmislegt fleira sem blasti ekki við árið 2006. Það ber heldur ekki mikið á mörgum þeirra sem skipuðu framtíðarhópinn þessi dægrin. Þetta þá áhrifamesta fólk samfélagsins lætur flest allt mun minna fyrir sér fara nú en þá.
En eftir situr spurning sem vert er að velta fyrir sér. Ef allar forsendur Viðskiptaráðs hefðu gengið upp, og samfélagið tekið ráðleggingum framtíðarhópsins, væri Ísland þá betra land árið 2015 en það er í dag?