„Svona getur íslensk gata litið út, svona getur íslenskt hverfi litið út“
Borgarhönnuður hjá Reykjavíkurborg segir að það sé heiður að fá að kynna Nýja-Skerjafjörð á arkitektúrþríæringnum í Ósló og að áherslur úr hönnunarleiðbeiningum hverfisins verði notaðar víðar í borginni, við hönnun hverfa og endurgerð eldri gatna.
Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður í deild borgarhönnunar hjá Reykjavíkurborg, segir að deiliskipulag nýrrar byggðar í svokölluðum Nýja-Skerjafirði og hönnunarleiðbeiningar hverfisins, sem eru nú til sýnist á arkitektúrþríæringnum í Ósló, gefi raunsanna mynd af því hvernig borgarhverfi á Íslandi geti litið út út framtíðinni.
Líkt og Kjarninn fjallaði um á föstudag var afrakstur vinnu borgarinnar og sænsku arkitektúrstofunnar Mandaworks, um hönnunarleiðbeiningar gatna og almannarýma í fyrirhuguðu hverfi, valinn til þátttöku í aðalsýningu þríæringsins í Ósló, sem hófst formlega með setningu í ráðhúsi borgarinnar á fimmtudagskvöld.
Blaðamaður Kjarnans er í Ósló og ræddi þar við Rebekku, sem segir að það sé upphefð fólgin í því að fá að taka þátt í sýningu þríæringsins þetta árið, en einungis sex verk af alls 383 sem sóttust eftir þáttöku fengu að setja upp sýningar á verkum sínum í gamla Munch-safninu í Ósló, sem er aðalvettvangur þríæringsins.
„Þetta er heiður, og sjúklega flottur vettvangur fyrir svona verkefni,“ segir Rebekka aðspurð og bætir því við að ekki síst sé gaman að fá viðurkenningu sem þessa „því við erum í rauninni að breyta svolítið okkar hugsun um hvernig við viljum hverfin okkar, hvernig við viljum borgina okkar og hvernig við viljum göturnar okkar.“
„Ég held að þetta sé að koma Reykjavík á kortið, og Íslandi líka, að við séum að hugsa um þetta mannlega líka í umhverfinu okkar. Það er það skemmtilegasta við þetta, eða mér finnst það,“ segir Rebekka.
Almannarými með fólk í forgrunni
Skipulag nýja hverfisins í Skerjafirði, sem er á svæðinu umhverfis suðurenda hinnar aflögðu „neyðarbrautar“ Reykjavíkurflugvallar og þær hönnunarleiðbeiningar gatna og almannarýmis sem lagt er upp með, gefur til kynna að hverfið verði afar frábrugðið öðrum á höfuðborgarsvæðinu.
Bílaumferð er víkjandi á götunum og bílastæðin á milli húsanna nær engin, heldur stendur til að byggja miðlægt nokkurra hæða bílastæðahús fyrir hverfið. Þá skapast pláss til þess að hafa göturnar á milli húsanna gróðursælar, með opnum svæðum fyrir íbúa, nágranna, til þess að dvelja í sameiningu.
Aðspurð segir Rebekka að hún búist við því að hugsun og hönnun nýrra hverfa verði með svipuðum hætti til framtíðar litið, og að að áherslurnar sem sjást í skipulagi Nýja-Skerjafjarðar verði tvinnaðar inn í verkefni við skipulag og umbreyingu eldri gatna víðar í borginni.
Hún segir að deild borgarhönnunar hafi fengið tækifæri til þess að hafa áhrif á deiliskipulagsvinnuna undir lok skipulagsferlisins og borgarhönnuðir og ráðgjafar hafi þannig náð að setja sína þekkingu inn í þær áætlanir sem nú eru til staðar.
Þetta vinnulag segir hún að sé eitthvað sem hún vonist eftir að hægt verði að innleiða í öll framtíðarverkefni hjá borginni. „Þetta verkefni var svona fyrsta showcase verkefnið í Reykjavík með þessa hugsun og þetta er hugsunin sem er í gangi hjá öllum,“ sagði Rebekka við blaðamann eftir að setið fundi og kynningar með norrænum kollegum og fleirum hér í Ósló.
„Þetta er allt sem við vorum að tala um, öll þessi verkefni sem voru kynnt hafa sömu hugsunina, að skapa sjálfbærara umhverfi, skapa fjölbreytileika, skapa vistvæni, láta fólki líða vel og allt það. Alls staðar þar sem við erum að koma við og hanna götur, þar er verið að hugsa um þetta. Og þetta erum við að innleiða í allar okkar uppbyggingu og hannanir sem við erum með í borginni,“ segir Rebekka.
Geta ekki haft nein áhrif á pólitískar deilur
Deilur hafa staðið á milli flugmálayfirvalda, innviðaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í Skerjafirðinum og ekki hefur enn fengist leyfi til að hefja framkvæmdir, en starfshópur sem er að skoða hvort uppbyggingin rýri gæði og öryggi Reykjavíkurflugvallar á að skila niðurstöðu í upphafi næsta mánaðar.
Blaðamaður gat enganveginn sleppt því að spyrja Rebekku hvort það væri ekki ögn skrítið að vera í Ósló að kynna verkefni sem óvissa ríkti um hvort yrði að veruleika.
„Ég veit það ekki. Við náttúrlega bara fáum svona verkefni í hendurnar og getum ekki haft áhrif á neinar pólitískar ákvarðanir. En verkefnið er tilbúið, og ef það verður ekki að veruleika þá verður það bara að veruleika einhversstaðar annarsstaðar. En ég hef fulla trú á því að þetta gangi upp á þessu svæði, einhverntímann, þó það gerist kannski ekki eftir tvö ár,“ segir Rebekka.
Borgargötur í öllum hverfum
Eitt verkefnanna sem borgarhönnuðir í Reykjavík hafa á sinni könnu er endurhönnun svokallaðra borgargatna, lykilgatna innan hverfa borgarinnar sem eiga að fá umtalsverða andlitslyftingu á næstu árum.
Dæmi um slíkt verkefni sem komið er á rekspöl er endurhönnun Rofabæjar og Bæjarbrautar í Árbæ, en svæðið er skilgreint sem borgargata í hverfisskipulagi Árbæjarins.
Til stendur að verja umtalsverðu fé í að fegra göturnar, en kostnaðaráætlun vegna umbreytingar borgargötunnar í Árbænum, hljóðar upp á tæplega einn og hálfan milljarð króna.
Rebekka segir að borgargöturnar verði gagngert endurgerðar til þess að skapa mannlíf og ákveðna miðpunkta innan hverfa, þar sem verslun og þjónusta geti þrifist, auk þess að bæta umferðaröryggi. Við göturnar á einnig að verða gott aðgengi að almenningssamgöngum.
Þurftu að tóna niður trjávöxt á tölvuteikningum
Sænsku ráðgjafarnir hjá Mandaworks komu að gerð hönnunarleiðbeininga fyrir Nýja-Skerjafjörð í kjölfar þess að arkitektúrstofan var lægstbjóðandi í verðfyrirspurn sem Reykjavíkurborg setti fram til þriggja innlendra og tveggja erlendra arkitektúrstofa.
Rebekka segir að sænska stofan hafi uppfyllt óskir og þarfir deildar borgarhönnunar í borginni, og stýrt verkefninu til enda. Hún segist hins vegar hafa haldið utan um það verkið passaði við íslenskar aðstæður.
„Við erum að skapa rými í íslenskum aðstæðum, í íslenskri dagsbirtu, veðri og öllu þessu. Og gróðurfari, sem er kannski erfiðara fyrir erlenda ráðgjafa að átta sig á,“ segir Rebekka og nefnir að fyrstu tölvuteikningar, „renderingar“, af Nýja-Skerjafirðinum hafi þurft á endurskoðun að halda.
„Við vorum með teiknaðar myndir frá þeim, og trén voru rosa gróskumikil, við sjáum kannski ekki trén okkar hér svona fyrr en eftir 50, 60, 70 ár. Við gátum temprað þetta niður, þannig að svona getur íslensk gata litið út, svona getur íslenskt hverfi litið út,“ segir Rebekka.
Eftir 10 ár kannski frekar?
„Já, eða bara korteri eftir að við byggjum það, í rauninni,“ segir Rebekka og bætir við að hverfið hafi fengið mikla jákvæða athygli frá Íslendingum þegar hún hefur verið með kynningar á áformunum.
„Mér finnst geggjað að það eru margir Íslendingar sem vilja þetta og segja, ég ætla að búa þarna,“ segir Rebekka.
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný