Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Sýn tapaði 117 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi og tapaði alls 348 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2021. Fyrirtækið hefur nú skilað tapi í átta af síðustu níu ársfjórðungum og alls tapað rúmlega 2,6 milljörðum króna á því tímabili.
Eina skiptið sem það hefur skilað hagnaði frá byrjun apríl 2019 er á þriðja ársfjórðungi í fyrra, þegar hagnaðurinn var átta milljónir króna.
Í nýjasta árshlutareikningi Sýnar, sem var birtur á miðvikudag, kemur fram að afkoma fyrirtækisins fyrir fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) var neikvæð um 58 milljónir króna á síðasta ársfjórðungi og alls neikvæð um 16 milljónir króna það sem af er ári. Rekstrartekjur dragast lítillega saman á milli ára, alls um 129 milljónir króna, og framlegð á fyrstu sex mánuðum ársins 2021 var 3,8 prósent minni en á sama tíma í fyrra.
Fjármagnsgjöld, það sem Sýn þarf að borga af þeim 14,1 milljarði króna af vaxtaberandi lánum sem fyrirtækið skuldar, eru neikvæð um 210 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
Þá jukust tekjur af farsímaþjónustu um 15 prósent á sama tímabili en vöxtur var í fjarskiptatekjum í heild í fyrsta sinn frá árinu 2018.
Tekjur dótturfélags Sýnar, Endor, sem sérhæfir sig í hýsingar- og rekstrarlausnum drógust hins vegar saman um 650 milljónir króna milli árshelminga. Í fjárfestakynningu er sagt að lækkunin sé tilkomin vegna „minni búnaðarsölu vegna heimsfaraldursins og þróunar á gengi evrunnar gagnvart íslensku krónunni.“
Selja eignir til að greiða niður skuldir og kaupa eigin bréf
Sýn seldi 49,9 prósent hlut sinn í færeysku hlutdeildarfélagi sem áður hét Hey þann 31. mars síðastliðinn. Kaupverðið var greitt 21. apríl og reyndist 179 milljónum krónum lægra en bókfært virði hlutarins. Það sölutap var bókfært á síðasta ársfjórðungi. Hluta af söluandvirðinu, um 500 milljónum króna, var ráðstafað inn á lán félagsins og hluta inn á lánalínu félagsins.
Þá skrifaði Sýn undir samninga um sölu á því sem fyrirtækið kallar óvirka farsímainnviði í eigu þess. Með óvirkum innviðum er átt við t.d. rafkerfi og sendaturna í farsímakerfi fjarskiptafyrirtækja. Virki búnaðurinn er svo falinn í því sem sendarnir á turnunum bjóða upp á. Gangi kaupin eftir mun Sýn svo leigja hina óvirku innviði til baka.
Væntur söluhagnaður er 6,5 milljarðar króna og Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands að andvirðið verði „að hluta notað til að greiða niður skuldir en einnig til endurkaupa hlutabréfa og nýfjárfestinga.“
Í tilkynningunni segir Heiðar einnig að grunnrekstur Sýnar sé að batna og bendir í því tilliti á að svokallað frjálst fjárflæði hafi aukist. Það sé að hans „dómi besti mælikvarðinn á rekstur.“ Frjálst fjárflæði samanstendur af handbæru fé frá rekstri fyrir vexti og tekjuskatt að frádregnum fjárfestingahreyfingum.
Frjálst fjárflæði Sýnar hefur hækkað úr 1.597 milljónum króna á fyrri hluta árs 2020 í 1.611 milljónir króna á fyrri hluta yfirstandandi árs. Handbært fé frá rekstri lækkaði hins vegar um 429 milljónir króna það sem af er ári, eða um 52 prósent. Það var 402 milljónir króna í lok júní síðastliðins.
Eigið fé Sýnar hefur lækkað um 465 milljónir króna á árinu.
Stærstu eigendur Sýnar eru Gildi lífeyrissjóður með 12,39 prósent hlut, Lífeyrissjóður vezlunarmanna með 10,73 prósent hlut og Kvika banki sem er skráður fyrir 9,25 prósent hlut, en þar er að öllum líkindum um framvirka samninga að ræða og raunverulegir eigendur þeirra aðrir. Lífeyrissjóðir eiga að minnsta kosti um helming hlutafjár Sýnar samanlagt. Félagið Ursus ehf., í eigu Heiðars forstjóra Sýnar, á 9,16 prósent hlut. Hlutabréf í Sýn hafa hækkað um 54 prósent undanfarið ár.
Greiddi út 8,5 milljarða til hluthafa
Helsti samkeppnisaðili Sýnar, Síminn sem rekur einnig fjarskipta- og fjölmiðlaþjónustu, skilaði sínum árshlutareikningi í byrjun viku. Hagnaður þess var 618 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og rúmlega 3,5 milljarðar króna á fyrri hluta árs. Inni í þeirri tölu er þó sala á dótturfélaginu Sensa sem skilað rúmlega tveggja milljarða króna söluhagnaði. Frá byrjun aprílmánaðar 2019 hefur Síminn hagnast alls um 8,9 milljarða króna. Síminn greiddi alls 8,5 milljarða króna til hluthafa sinna í formi arðs og endurkaupa á síðasta ársfjórðungi.
Afkoma fyrirtækisins fyrir fjármagnsgjöld og skatta (EBIT) var jákvæð um 1.126 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi yfirstandandi árs og alls jákvæð um 2.248 milljónir króna það sem af er ári. Rekstrartekjur jukust á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra, alls um 237 milljónir króna, og framlegð á fyrstu sex mánuðum árs 2021 var tæpu einu prósent meiri en á sama tíma í fyrra.
Skuldir Símans hafa hækkað umtalsvert það sem af er ári. Um síðustu áramót voru langtímaskuldir fyrirtækisins 20 milljarðar króna en í lok júní var sú upphæð komin upp í 30 milljarða króna. Samstæðan tók sex milljarða króna lán hjá Arion banka á síðasta ársfjórðungi og Míla, dótturfélags Símans, tók langtímalán upp á 20 milljarða króna frá Íslandsbanka auk þess sem því samkomulagi fylgdi eins milljarðs króna lánalína. Þá gaf Síminn út skammtímavíxla upp á 1,5 milljarða króna í lok júní.
Náðu að halda enska boltanum
Tekjur Símans af sjónvarpsþjónustu jukust um 95 milljónir króna á fyrri hluta ársins 2021, eða um 3,5 prósent. Vöxturinn er drifinn áfram af sölu á Síminn Premium áskriftinni, og fyrirtækisins segir að vel hafi gengið að halda á „áskrifendum þrátt fyrir minna framboð af efni frá erlendum framleiðendum vegna COVID og áherslubreytinga margra þeirra.“ Sú áherslubreyting snýst um að efnisframleiðendur eru í auknum mæli að setja upp efnisveitur og selja framleiðslu sína beint til notenda, í stað þess að selja til sjónvarpsstöðva.
Í fjárfestakynningu kemur fram að haustið sé besti sölutíminn fyrir Símann og að nýjungar í sjónvarpsþjónustu, sala hennar yfir net Gagnaveitu Reykjavíkur og „stöðugleiki til næstu ára í sýningarrétti enska boltans“ myndi gott undirlag fyrir söluaðgerðir haustsins. Siminn náði samkomulagi um áframhaldandi sýningarrétt á enska boltanum, verðmætustu sjónvarpsvöru sinni, til ársins 2025 fyrr á þessu ári. Ekki hefur verið greint frá því hvað sá samningur kostar.
Þá jukust tekjur af farsímaþjónustu um 3,5 prósent á fyrri hluta árs miðað við sama tímabili í fyrra og tekjur af gagnaflutningi jukust um 1,7 prósent.
Míla, dótturfélag Símans, keypti farsímadreifikerfis og IP nets af móðurfélaginu um síðustu áramót. Kjarninn greindi frá því í september í fyrra að fjárfestar hefðu lagt fram óformlegar fyrirspurnir til Símans um möguleg kaup á Mílu en að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um söluna. Ljóst er að ef Míla yrði seld væri hægt að skila enn meiri fjármunum úr rekstri Símans til hluthafa félagsins.
Í fjárfestakynningu Símans segir að framtíðarmöguleikar Mílu séu áfram til skoðunar. „Eins og tilkynnt var um í apríl síðastliðnum koma eigendabreytingar á félaginu til greina, en ekkert hefur enn verið ákveðið í þeim efnum. Erlendir og innlendir fjárfestingarsjóðir hafa sýnt félaginu áhuga og verður rætt nánar við hluta þeirra í framhaldinu. Veturinn verður nýttur til að ljúka stefnumörkun um félagið.
Stærsti einstaki hluthafi Símans er fjárfestingafélagið Stoðir, sem á 15,41 prósent hlut í félaginu. Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, er einnig stjórnarformaður Símans. Aðrir helstu eigendur Símans eru íslenskir lífeyrissjóðir. Hlutabréf í Símanum hafa hækkað um 65 prósent síðastliðið ár.