Tæknifyrirtæki hafa verið að spretta upp víð í Afríku að undanförnu, einkum og sér í lagi á stöðum þar sem yfirvöld á hverju svæði hafa komið upp nýsköpunarmiðstöðvum fyrir tæknifyrirtæki (Tech Hubs). Í þeim geta frumkvöðlar fengið vinnuaðstöðu og tekið fyrstu skrefin við stofnun fyrirtækja sinna, einkum hugbúnaðar- og tæknifyrirtækja ýmis konar.
Leiguverðið hátt, en launin lág
Í umfjöllun um þetta í The Economist, kemur fram að mörg þessara fyrirtækja þyki vera spennandi fjárfestingakostir. Munar ekki síst um það, að grunnrekstrarkostnaður fyrirtækjanna er lítill, í alþjóðlegum samanburði, og tækifæri til vaxtar til staðar. Hins vegar eru sumir þættir erfiðir, eins og húsaleiga og slæmar internettengingar. Húsaleiga tæknifyrirtækja í Nígeríu, fjölmennasta ríki Afríku, er á bilinu 40 til 70 Bandaríkjadalir á fermetrann, eða sem nemur um 5.600 krónum. Þetta gerir mörgum fyrirtækjum erfitt um vik. Húsaleiga í Úganda er mun lægri, 15 til 16 Bandaríkjadalir á fermetrann, eða sem nemur 2.100 til 2.240 krónum. Á móti eru laun mun lægri en víða annars staðar í heiminum þar sem tæknifyrirtæki hefja oft starfsemi, eins og í Sílikondalnum í Kaliforníu.
Ryður sér til rúms
Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðabankanum (World Bank) eru um 90 nýsköpunarmiðstöðvar fyrir tæknifyrirtæki víða í Afríku, í umfjöllun The Economist kemur fram að í reynd séu þær mun fleiri, oft innan um aðra starfsemi í skrifstofurýmum víða í álfunni. Þannig sé nýsköpun á sviði tækni að ryðja sér til rúms á svæðum þar sem hún hefur ekki verið áður.
Herds of new tech start-ups and small businesses are being birthed across Africa http://t.co/Rbrgp7lEo1 pic.twitter.com/klXVGXsDNs
— The Economist (@TheEconomist) March 14, 2015
Afríka að breytast í stórveldi?
Afríka er í hugum margra táknmynd fátæktar í heiminum, og erfiðleika. En hlutirnir eru að breytast hratt víðs vegar í álfunni, þó hörmungar fátæktar séu aldrei langt undan. Íbúar álfunnar eru 1,2 milljarðar, eða sem nemur rúmlega tvöföldum íbúafjölda Evrópu. Fjölmennasta ríkið álfunnar, Nígeríu, er með íbúafjölda upp á 177 milljónir, sem er meira en sem nemur öllum íbúafjölda Suður-Evrópu, það er Spánar, Ítalíu, Portúgal og Grikklands. Hagvöxtur er mikill víða í álfunni, einkum í þróuðustu ríkjum, eins og Nígeríu og Suður-Afríku. Í Nígeríu, stærsta hagkerfi Afríku, var hagvöxtur 6,2 prósent í fyrra, en 4,1 prósent í Suður-Afríku.
Einn þeirra sem talað hefur fyrir því að nýsköpun og tæknileg framþróun geti verið lykillinn að því að útrýma eða vinna gegn fátækt í Afríku er Bill Gates, stofnandi Microsoft. Í viðtali við tæknivefinn The Verge, þar sem hann var gestaritstjóri í febrúar, sagði hann meðal annars að með bankaþjónustu í gegnum snjallsíma ætti að vera hægt að stórefla fjárfestingar í Afríku á tiltölulega skömmum tíma.
https://www.youtube.com/watch?v=i0FYkGpVpdQ