Framboðsskortur bítur risana ekki fast
Þrátt fyrir framboðstruflanir og vöruskort hefur rekstur fimm stærstu tæknifyrirtækja heimsins haldist stöðugur og arðbær. Fyrirtækin fengu samanlagt svipaðar tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins og öll spænska þjóðin.
Facebook, Amazon, Apple, Alphabet og Microsoft hafa öll skilað miklum hagnaði á þessu ári, en samanlagður hagnaður þeirra frá janúar til október var 66 prósentum meiri en hann var á sama í fyrra. Samanlagðar tekjur þeirra námu rúmri billjón Bandaríkjadala á síðustu níu mánuðum, sem var litlu minna en landsframleiðsla Spánar.
Síðustu ársfjórðungsuppgjör fyrirtækjanna, sem gjarnan eru kölluð „Tæknirisarnir“ (e. Big Tech), birtust öll í síðustu viku. Samkvæmt þeim hafa tekjur þeirra á fyrstu níu mánuðum ársins aukist um þriðjung, eða úr rúmlega 736 milljörðum dala í 933 milljarða. Á sama tíma jókst samanlagður hagnaður þeirra úr 128 milljörðum dala í 222 milljarða.
Milljarðatap vegna framboðstruflana
Þrátt fyrir mikla aukningu í tekjum og hagnaði fengu uppgjörin blendnar viðtökur á hlutabréfamarkaði vestanhafs. Hagnaður netsölurisans Amazon dróst til dæmis saman á nýliðnum ársfjórðungi ef miðað er við sama tíma í fyrra, en samkvæmt frétt Reuters um uppgjörið hafa alþjóðlegar framboðstruflanir, vöruskortur og vöntun á starfsmönnum sett strik í reikninginn hjá fyrirtækinu.
Sömuleiðis var nýbirt ársfjórðungsuppgjör Apple undir væntingum fjárfesta, þrátt fyrir að fyrirtækið hafi bæði aukið tekjur sínar og hagnað töluvert. Tim Cook, forstjóri Apple, sagði í viðtali við Reuters að fyrirtækið hafi fundið meira fyrir framboðstruflunum en búist hafði verið við og að skortur á hálfleiðaraflögum á heimsvísu hafi leitt til tekjutaps sem nam rúmlega sex milljörðum Bandaríkjadala.
Bæði Apple og Amazon vöruðu við því að framboðstruflanirnar myndu hafa enn verri áhrif á rekstur fyrirtækjanna á næstu mánuðum, þar sem búist er við miklu álagi á alþjóðlegu virðiskeðjunni þegar nær dregur jólum. Í kjölfar þessara frétta lækkaði hlutabréfaverð þeirra um 3-4 prósent á bandarískum mörkuðum.
Microsoft verðmætast í heimi
Á hinn bóginn var nýjasta uppgjöri Microsoft vel tekið, en tekjur fyrirtækisins á nýliðnum ársfjórðungi voru um fimmtungi meiri en þær voru á sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins nam rúmlega 50 milljörðum Bandaríkjadala og hefur hann aldrei verið meiri.
Fjárfestar eru einnig bjartsýnir á rekstur Microsoft, en fyrirtækið tók við af Apple sem verðmætasta fyrirtæki heimsins á hlutabréfamarkaði í vikunni.
Fyrirtækið Alphabet, sem á Google, skilaði einnig góðu uppgjöri í síðustu viku. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur hagnaður fyrirtækisins numið 55 milljörðum Bandaríkjadala, en það er rúmlega tvöfaldur hagnaður fyrirtækisins á sama tímabili í fyrra.
Facebook verður Meta
Sömuleiðis voru hagnaðartölur samfélagsmiðilsins Facebook jákvæðar og í samræmi við væntingar á markaði. Fyrirtækið hefur hins vegar legið undir harðri gagnrýni á síðustu vikum eftir að uppljóstrarinn Frances Haugen sýndi fram að það hefði hylmt yfir sönnunargögn um dreifingu falsfrétta og áróðurs í gróðaskyni, auk þess sem það hafi reynt að ná til ungmenna með umdeildum leiðum.
Í kjölfar þessara frétta hefur miðillinn ákveðið að breyta nafninu sínu og vörumerki og kallar hann sig nú Meta. Þá mun fyrirtækið einnig bjóða upp á sýndarveruleikaheim sem ber heitið „Meta-heimurinn“ (e. Metaverse), en samkvæmt framkvæmdastjóranum Mark Zuckerberg mun sá heimur taka við af netþjónustu fyrir farsíma.
Viðbrögð hluthafa samfélagsmiðilsins hafa verið blendin. Hlutabréfaverð Facebook lækkaði um tæpan fimmtung frá septemberbyrjun til októberloka, á meðan upp komst um vafasama starfshætti þess. Hins vegar hefur verðið byrjað að hækka á nýju á síðustu dögum í kjölfar frétta um ný áform Meta og ársfjórðungsuppgjörsins.
Myndin hér að ofan sýnir hagnaðartölur tæknirisanna fimm á fyrstu níu mánuðum ársins, miðað við sama tímabil í fyrra. Eins og sést er hagnaðurinn meiri í ár heldur en hann var í fyrra hjá öllum fyrirtækjunum, þó hann sé mismikill. Hann er minnstur hjá Amazon, þar sem hann náði tæplega 20 milljörðum króna, en stærstur hjá Apple, þar sem hann nam um 65 milljörðum króna.
Ef litið er til tekna fyrirtækisins blasir hins vegar önnur mynd við, en þar er Amazon atkvæðamest með um 332 milljarða Bandaríkjadala í tekjur. Þar á eftir koma Apple og Alphabet, sem hvor um sig hafa um 200 milljarða dala í tekjur, en tekjur Microsoft nema um 130 milljörðum dala. Tekjur Facebook eru svo minnstar, en þær nema um 84 milljörðum dala.
Samanlagðar tekjur fyrirtækjanna nema 933 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 121 billjón íslenskra króna. Til samanburðar var landsframleiðsla Spánar, þar sem 47 milljónir manna búa, á sama tíma rúm billjón Bandaríkjadala, eða aðeins 13 prósentum meiri.