Mynd: Samsett storu_taeknifyrirtaekin_big_tech_stjorar.png
Mynd: Samsett

Framboðsskortur bítur risana ekki fast

Þrátt fyrir framboðstruflanir og vöruskort hefur rekstur fimm stærstu tæknifyrirtækja heimsins haldist stöðugur og arðbær. Fyrirtækin fengu samanlagt svipaðar tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins og öll spænska þjóðin.

Face­book, Amazon, App­le, Alp­habet og Microsoft hafa öll skilað miklum hagn­aði á þessu ári, en sam­an­lagður hagn­aður þeirra frá jan­úar til októ­ber var 66 pró­sentum meiri en hann var á sama í fyrra. Sam­an­lagðar tekjur þeirra námu rúmri billjón Banda­ríkja­dala á síð­ustu níu mán­uð­um, sem var litlu minna en lands­fram­leiðsla Spán­ar.

Síð­ustu árs­fjórð­ungs­upp­gjör fyr­ir­tækj­anna, sem gjarnan eru kölluð „Tæknirisarn­ir“ (e. Big Tech), birt­ust öll í síð­ustu viku. Sam­kvæmt þeim hafa tekjur þeirra á fyrstu níu mán­uðum árs­ins auk­ist um þriðj­ung, eða úr rúm­lega 736 millj­örðum dala í 933 millj­arða. Á sama tíma jókst sam­an­lagður hagn­aður þeirra úr 128 millj­örðum dala í 222 millj­arða.

Millj­arða­tap vegna fram­boðs­trufl­ana

Þrátt fyrir mikla aukn­ingu í tekjum og hagn­aði fengu upp­gjörin blendnar við­tökur á hluta­bréfa­mark­aði vest­an­hafs. Hagn­aður net­söluris­ans Amazon dróst til dæmis saman á nýliðnum árs­fjórð­ungi ef miðað er við sama tíma í fyrra, en sam­kvæmt frétt Reuters um upp­gjörið hafa alþjóð­legar fram­boðs­trufl­an­ir, vöru­skortur og vöntun á starfs­mönnum sett strik í reikn­ing­inn hjá fyr­ir­tæk­inu.

Sömu­leiðis var nýbirt árs­fjórð­ungs­upp­gjör Apple undir vænt­ingum fjár­festa, þrátt fyrir að fyr­ir­tækið hafi bæði aukið tekjur sínar og hagnað tölu­vert. Tim Cook, for­stjóri App­le, sagði í við­tali við Reuters að fyr­ir­tækið hafi fundið meira fyrir fram­boðs­trufl­unum en búist hafði verið við og að skortur á hálf­leið­ar­aflögum á heims­vísu hafi leitt til tekju­taps sem nam rúm­lega sex millj­örðum Banda­ríkja­dala.

Bæði Apple og Amazon vör­uðu við því að fram­boðs­trufl­an­irnar myndu hafa enn verri áhrif á rekstur fyr­ir­tækj­anna á næstu mán­uð­um, þar sem búist er við miklu álagi á alþjóð­legu virð­is­keðj­unni þegar nær dregur jól­um. Í kjöl­far þess­ara frétta lækk­aði hluta­bréfa­verð þeirra um 3-4 pró­sent á banda­rískum mörk­uð­um.

Microsoft verð­mæt­ast í heimi

Á hinn bóg­inn var nýjasta upp­gjöri Microsoft vel tekið, en tekjur fyr­ir­tæk­is­ins á nýliðnum árs­fjórð­ungi voru um fimmt­ungi meiri en þær voru á sama tíma í fyrra. Hagn­aður fyr­ir­tæk­is­ins nam rúm­lega 50 millj­örðum Banda­ríkja­dala og hefur hann aldrei verið meiri.

Fjár­festar eru einnig bjart­sýnir á rekstur Microsoft, en fyr­ir­tækið tók við af Apple sem verð­mætasta fyr­ir­tæki heims­ins á hluta­bréfa­mark­aði í vik­unni.

Fyr­ir­tækið Alp­habet, sem á Goog­le, skil­aði einnig góðu upp­gjöri í síð­ustu viku. Á fyrstu níu mán­uðum árs­ins hefur hagn­aður fyr­ir­tæk­is­ins numið 55 millj­örðum Banda­ríkja­dala, en það er rúm­lega tvö­faldur hagn­aður fyr­ir­tæk­is­ins á sama tíma­bili í fyrra.

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, kynnti nafnaskipti samfélagsmiðilsins yfir í Meta í síðustu viku.
Mynd: Skjáskot

Face­book verður Meta

Sömu­leiðis voru hagn­að­ar­tölur sam­fé­lags­mið­ils­ins Face­book jákvæðar og í sam­ræmi við vænt­ingar á mark­aði. Fyr­ir­tækið hefur hins vegar legið undir harðri gagn­rýni á síð­ustu vikum eftir að upp­ljóstr­ar­inn Frances Haugen sýndi fram að það hefði hylmt yfir sönn­un­ar­gögn um dreif­ingu fals­frétta og áróð­urs í gróða­skyni, auk þess sem það hafi reynt að ná til ung­menna með umdeildum leið­um.

Í kjöl­far þess­ara frétta hefur mið­ill­inn ákveðið að breyta nafn­inu sínu og vöru­merki og kallar hann sig nú Meta. Þá mun fyr­ir­tækið einnig bjóða upp á sýnd­ar­veru­leika­heim sem ber heitið „Meta-heim­ur­inn“ (e. Meta­ver­se), en sam­kvæmt fram­kvæmda­stjór­anum Mark Zucker­berg mun sá heimur taka við af net­þjón­ustu fyrir far­síma.

Við­brögð hlut­hafa sam­fé­lags­mið­ils­ins hafa verið blend­in. Hluta­bréfa­verð Face­book lækk­aði um tæpan fimmt­ung frá sept­em­ber­byrjun til októ­ber­loka, á meðan upp komst um vafa­sama starfs­hætti þess. Hins vegar hefur verðið byrjað að hækka á nýju á síð­ustu dögum í kjöl­far frétta um ný áform Meta og árs­fjórð­ungs­upp­gjörs­ins.

Heimild: Ársreikningar Facebook, Alphabet, Amazon, Microsoft og Apple.
Mynd: Kjarninn

Myndin hér að ofan sýnir hagn­að­ar­tölur tæknirisanna fimm á fyrstu níu mán­uðum árs­ins, miðað við sama tíma­bil í fyrra. Eins og sést er hagn­að­ur­inn meiri í ár heldur en hann var í fyrra hjá öllum fyr­ir­tækj­un­um, þó hann sé mis­mik­ill. Hann er minnstur hjá Amazon, þar sem hann náði tæp­lega 20 millj­örðum króna, en stærstur hjá App­le, þar sem hann nam um 65 millj­örðum króna.

Ef litið er til tekna fyr­ir­tæk­is­ins blasir hins vegar önnur mynd við, en þar er Amazon atkvæða­mest með um 332 millj­arða Banda­ríkja­dala í tekj­ur. Þar á eftir koma Apple og Alp­habet, sem hvor um sig hafa um 200 millj­arða dala í tekj­ur, en tekjur Microsoft nema um 130 millj­örðum dala. Tekjur Face­book eru svo minnstar, en þær nema um 84 millj­örðum dala.

Sam­an­lagðar tekjur fyr­ir­tækj­anna nema 933 millj­örðum Banda­ríkja­dala, eða um 121 billjón íslenskra króna. Til sam­an­burðar var lands­fram­leiðsla Spán­ar, þar sem 47 millj­ónir manna búa, á sama tíma rúm billjón Banda­ríkja­dala, eða aðeins 13 pró­sentum meiri.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiErlent