Tekjuhæsta eitt prósent landsmanna tók til sín næstum helming allra fjármagnstekna
Rúmlega þrjú þúsund Íslendingar voru með 142 milljarða króna í tekjur á árinu 2019. Af þeim tekjum voru 58 milljarðar króna fjármagnstekjur. Alls aflaði þessi hópur, tekjuhæsta eitt prósent landsmanna, 44,5 prósent allra tekna sem stöfuðu af nýtingu á fjármagni. Skattar á þær tekjur eru mun lægri en skattar á laun.
Það eitt prósent framteljenda á Íslandi sem var með hæstu tekjurnar á árinu 2019 voru samanlagt með 142 milljarða króna í tekjur. Um er að ræða 3.133 einstaklinga. Þessi hópur aflaði 7,2 prósent allra tekna sem Íslendingar öfluðu í hitteðfyrra.
Þetta eina prósent landsmanna var með 58 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2019, sem þýðir að hópurinn aflaði 44,5 prósent allra tekna sem urðu til vegna ávöxtunar á fjármagni á því ári.
Þetta kemur fram í umfjöllun um álagningu einstaklinga á árinu 2020 í Tíund, fréttablaði Skattsins, sem Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur skrifar.
Þar segir að tekjuhæsta eitt prósent landsmanna greiddi 37 milljarða króna í skatta á umræddu ári og var meðalskattbyrði hópsins 26 prósent. Skattbyrði þessa rúmlega þrjú þúsund einstaklinga var aðeins meiri en meðalskattbyrði allra Íslendinga á árinu 2019 – sem var 23 prósent – en hún var minni en t.d. næsta prósents fyrir neðan það í tekjuöflunarstiganum, sem greiddi 27,2 prósent tekna sinna í skatta og langt undir meðalskattbyrði tíu prósent ríkustu Íslendinganna, sem greiddi 35,2 prósent í skatta. Alls greiddu tekjuhæstu fimm prósentin síðan 27,9 prósent í skatt af tekjum sínum, eða hlutfallslega umtalsvert meira en ríkasta prósentið.
Í umfjöllun Páls í Tíund segir orðrétt: „Ástæða þess að skattbyrði tekjuhæsta eina prósents landsmanna er lægri en skattbyrði tekjuhæstu fimm prósentanna er sú að fjármagnstekjur vega þyngra í tekjum þeirra sem eru tekjuhærri á hverjum tíma en skattur af fjármagnstekjum var 22 prósent en staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars af launum, lífeyri og tryggingabótum yfir 11.125 þús. kr. var 46,24 prósent.“
Mikill munur á efstu tveimur prósentunum
Þeir sem voru með á bilinu 20,2 til 25,8 milljónir króna í árstekjur, sem þýðir 1,7 til 2,15 milljónir króna á mánuði að meðaltali, töldust til næst tekjuhæsta hundraðshlutans. Þessi hópur var með níu milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2019, eða 49 milljörðum króna minna en rúmlega þrjú þúsund manna hópurinn sem aflaði meira tekna en þeir á umræddu ári hafði í fjármagnstekjur.
Í umfjöllun Tíundar segir að fjármagnstekjur „voru þannig um 40,1 prósent tekna tekjuhæsta eina prósentsins og 12,4 prósent tekna þess hundraðshluta sem stóð þar fyrir neðan en ekki nema 6,6 prósent tekna landsmanna.“
Það þýðir að tvö prósent framteljenda, rúmlega sex þúsund einstaklingar, voru með ríflega helming fjármagnstekna, eða 51,3 prósent, og tekjuhæstu fimm prósentin voru með 61,3 prósent fjármagnsteknanna.
Eignir hinna ríku sem skapa fjármagnstekjurnar hafa aukist mikið
Grunnur þeirra fjármagnstekna sem ríkustu Íslendingarnir afla á ári hverju eru eignir þeirra. Í desember í fyrra svaraði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrirspurn frá Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, um skuldir og eignir landsmanna í árslok 2019.
Í því svari kom fram að ríkasta 0,1 prósent framteljenda á Íslandi áttu 282,2 milljarða króna í eigin fé á þeim tíma. Hópurinn samanstendur af alls 242 fjölskyldum. Því átti hver fjölskylda innan hópsins tæplega 1,2 milljarða króna að meðaltali í hreina eign.
Á árinu 2019 óx eigið fé 0,1 prósent ríkasta hluta þjóðarinnar um 22 milljarða króna. Alls hefur það vaxið um 120 milljarða króna frá árinu 2010, eða um 74 prósent. Hlutfallslega stendur hlutdeild þessa hóps af heildareignum þjóðarinnar í stað milli ára en fimm prósent af nýjum auði sem varð til á Íslandi í fyrra rann til hans.
Í þessum tölum kom líka fram að eitt prósent ríkustu Íslendingarnir, alls 2.420 fjölskyldur, áttu 865 milljarða króna í lok árs 2019 og juku eign sína um tæplega 63 milljarða króna milli ára. Auður þessa hóps hefur aukist um 416 milljarða króna frá árslokum 2010, eða 93 prósent.
Eignirnar vanmetnar
Eigið fé þessa hóps er reyndar stórlega vanmetið, og er mun meira en ofangreindar tölur segja til um. Hluti verðbréfaeignar, hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, er metin á nafnvirði, en ekki markaðsvirði. Þá eru fasteignir metnar á samkvæmt fasteignamati, ekki markaðsvirði, sem er í flestum tilfellum hærra.
Það þýðir að ef verðbréf í t.d. hlutafélögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum tölum. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur til að mynda hækkað um næstum 80 prósent á rúmu ári.
Þessi hópur er líka líklegastur allra til að eiga eignir utan Íslands sem koma ekki fram í ofangreindum tölum um eignir, en áætlað hefur verið að íslenskir aðilar eigi hundruð milljarða króna í aflandsfélögum sem ekki hafi verið gerð grein fyrir.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði