Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er í átjánda sæti á lista sem Washington Post gerði yfir þjóðarleiðtoga sem lengst hafa setið á valdastóli í heiminum. Samkvæmt umfjöllun dagblaðsins hefur Ólafur Ragnar setið 6.664 daga í embætti, en Ólafur er einn þriggja þjóðarleiðtoga frá Evrópu sem komast á listann, hinir tveir eru Vladimir Pútín, forseti Rússlands, og Alexander Lukashenkó, forseti Hvíta-Rússlands.
Ólafur Ragnar staðfesti nýlega opinberlega að hann ætli að sitja út yfirstandandi kjörtímabil. Þá hefur hann ekki útilokað að hann muni bjóða sig fram í sjötta skiptið, en þegar kjörtímbilinu lýkur árið 2016, mun Ólafur Ragnar hafa gegnt embætti forseta Íslands í tuttugu ár.
Ekki öfundsverður félagsskapur
"Þegar Ólafur Ragnar Grímsson leitaði fyrst eftir því að verða forseti Íslands árið 1996 hafði hann á orði að átta ár væru hæfilegur tími í hinu háa embætti. Um leið lagði hann áherslu á að þjóðhöfðinginn gegndi sameiningarhlutverki enda væru Bessastaðir ekki átakavettvangur. En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar," þetta segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.
"Ljónheppinn hafði Ólafur Ragnar líka verið fjórum árum fyrr. Hvernig ætli honum hefði gengið að leita þá endurkjörs ef bankahrunið hefði orðið snemma árs 2008 en ekki að hausti?"
"Ólafur Ragnar hefur setið mun lengur en hann taldi æskilegt á sínum tíma og sameiningartáknið missti hann smám saman úr höndum sér. Þetta má alveg rifja upp nú þegar forsetinn er settur á lista Washington Post yfir þaulsetnustu þjóðarleiðtoga heimsins. Ekki er það endilega öfundsverður félagsskapur, að sitja við hlið harðstjóra eins og Mugabe eða einvalda á borð við Lukashenko og Pútín sem virða ekki leikreglur lýðræðisins. Á hitt er þó einkum að líta að Ólafur Ragnar Grímsson hefur setið svona lengi á forsetastóli vegna þess að hann hefur annað hvort fengið umboð sitt endurnýjað án mótframboðs eða haft betur í lýðræðislegum kosningum."
Mátti aðeins einu sinni óttast ósigur
Guðni segir Ólaf Ragnar aðeins einu sinni í forsetatíð sinni hafa mátt óttast ósigur í kosningum til endurkjörs. Það hafi verið í síðustu kosningum, sem fram fóru árið 2012. Þá hafi nokkur atriði komið honum til góða, meðal annars sú tilhneiging Íslendinga að styðja forseta sinn, vilji hann sitja áfram.
"Auk þess tókst Ólafi Ragnari að spyrða sinn helsta keppinaut, Þóru Arnórsdóttur, við afar óvinsæla ríkisstjórn og Evrópusambandið í ofanálag. Loks kom Icesave-deilan honum heldur betur til góða. Staðfesting forseta á fyrsta Icesave-samningnum hvarf alveg í skuggann á tveimur synjunum og oflæti útrásaráranna gleymdist sömuleiðis. Ljónheppinn hafði Ólafur Ragnar líka verið fjórum árum fyrr. Hvernig ætli honum hefði gengið að leita þá endurkjörs ef bankahrunið hefði orðið snemma árs 2008 en ekki að hausti? Teikn um það mætti finna í frægu eða alræmdu atriði í áramótaskaupi þegar „ríkissjónvarpið útmálaði forseta lýðveldisins sem útúrdópað svín með svallveislu á Bessastöðum“, eins og Elliði Vignisson bæjarstjóri skrifaði nýlega."
Efast um að Ólafur vilji vera lengur á Bessastöðum
Þrátt fyrir að Ólafur Ragnar hafi ekki enn gefið út hvort hann muni sækjast eftir endurkjöri eður ei, er Guðni efins um að forsetinn muni gefa kost á sér í sjötta sinn í lok kjörtímabilsins. "Að því loknu, því ég get bara ekki ímyndað mér að hann vilji vera enn lengur á Bessastöðum, fer sagan að snúast um arfleifð hans í embætti. Enginn forseti hefur breytt því eins mikið og hann hefur þegar gert. Enginn forseti hefur verið eins umdeildur. Enginn hefur setið eins lengi. Honum verður þakkað sumt en kennt um annað," segir Guðni.
"Þótt ekki megi ráða of mikið í hvikular skoðanakannanir gæti stuðningur við Jón Gnarr sem næsta forseta lýðveldisins líka sagt sitt um sess Ólafs Ragnars Grímssonar í sögunni."
"Eitt ætla ég að leyfa mér að giska á nú þegar, og það er að síðasta kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímsson verði ekki endilega metið honum til mikils vegsauka. Þetta myndi hann þá eiga sameiginlegt með Ásgeiri Ásgeirssyni og Vigdísi Finnbogadóttur; báðum fannst þeim síðasta kjörtímabilið það erfiðasta og happaminnsta á Bessastöðum. Síðustu misseri hefur norðurslóðastefna Ólafs, nýja útrásin hans, verið umdeild vegna yfirgangs Rússa á heimaslóðum. Ríkisstjórnin er auk þess óvinsæl og það gæti haft áhrif á viðhorf til forsetans. Augljós hefur verið velþóknun hans á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og einhver sagði að 2012 hefði forsetaefni Sjálfstæðisflokksins í fyrsta sinn náð kjöri á Íslandi."
Telur að fylgið við Jón Gnarr muni minnka
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, hefur verið orðaður við forsetaframboð, en 47 prósent aðspurðra í nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins vildu Jón sem næsta forseta. "Þótt ekki megi ráða of mikið í hvikular skoðanakannanir gæti stuðningur við Jón Gnarr sem næsta forseta lýðveldisins líka sagt sitt um sess Ólafs Ragnars Grímssonar í sögunni. Svo mikið virðist óþolið á stjórnmálamönnum orðið, og í þann flokk hlýtur forsetinn að falla, að margir virðast vilja eitthvað allt annað á Bessastaði, helst andófsmann, pönkara og grínista, einhverja algera andstæðu þess sem nú situr þar," segir Guðni.
"Það er eitt að vera borgarstjóri sem náði kjöri í upplausnarástandi, umvafinn traustum bandamönnum og ráðgjöfum, sitjandi eitt kjörtímabil, og annað að bjóða sig fram til forseta þar sem ábyrgðin hlýtur að hvíla á eins manns herðum og skuldbindingin er til langframa. Kannski meirihluti Íslendinga kjósi líka að leita frekar að einhverjum sem þætti líklegur til að sitja á friðarstóli í stað þess að stíga af krafti inn á hið pólitíska svið eins og Ólafur Ragnar gerði eða vera ögrandi að upplagi eins og Jón Gnarr."