„Það er hægt að bölsótast en það er líka hægt að sjá allt þetta jákvæða“
Ástríða fyrir jafnréttismálum og vilji til að láta gott af sér leiða sannfærðu Vöndu Sigurgeirsdóttur um að bjóða sig fram til formanns KSÍ. Fyrsta rúma árið í embætti hefur verið vandasamt að vissu leyti en Vanda segist vera að venjast gagnrýninni. „Mér finnst erfiðast þegar hún er ósanngjörn og óvægin og stundum ekki sönn. En svo er þetta líka bara svona, þetta er partur af starfinu.“ Vanda er fyrsta konan sem er formaður knattspyrnusambands í Evrópu og segist vera rétt að byrja.
Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir skellir upp úr þegar blaðamaður spyr hana hvað standi upp úr á hennar fyrsta rúma ári í starfi sem formaður Knattspyrnusambands Íslands.
„Þetta er bæði mjög fjölbreytt og skemmtilegt, og gaman að vera að vinna við áhugamálið sitt, sem er fótbolti,“ segir hún eftir smá umhugsun. „En þetta er líka mjög krefjandi. Það er engin spurning. Þannig þetta er líka heilmikið álag og innra álag, innri óróleiki sem fylgir þessu líka.“
Vanda var kjörin formaður KSÍ á aukaþingi sambandsins í október á síðasta ári í kjölfar afsagnar Guðna Bergssonar eftir að frásagnir af kynferðisofbeldi og áreitni landsliðsmanna í knattspyrnu komu upp á yfirborðið. Guðni neitaði ítrekað að slík mál hefðu „komið á þeirra borð“ en eftir mikla fjölmiðlaumfjöllun ákvað hann, og stjórnin öll, að segja af sér embætti.
Nafn Vöndu fór fljótlega að bera á góma, ekki síst á samfélagsmiðlum, en hún fékk einnig fjölmargar áskoranir, meðal annars frá fyrrverandi nemendum.
„Ég flakkaði fram og til baka um að vilja gera þetta og ekki. Ég fór af og á alveg margar umferðir í rauninni. En endaði svo á að þetta er eitthvað sem ég vildi gera,“ segir Vanda.
Erfiðast var að segja skilið við störf sín en Vanda er í leyfi sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Auk þess er hún einn stofnenda og eigenda fyrirtækisins KVAN sem býður m.a. upp á fyrirlestra og námskeið fyrir ungt fólk, fullorðna og fyrirtæki sem vilja auka hæfni, líðan og velgengni. „Ég sakna einnig skóla- og frístundafólks út um allt land, sem ég hef átt í góðu samstarfi við gegnum árin.“
Vilji til að láta gott af sér leiða
„Ég var mjög ánægð í mínum störfum og það sem gerði þessa ákvörðun mjög erfiða var að þurfa að skilja við það. En þetta var kannski vilji til að láta gott af mér leiða, þetta er hreyfingin mín, ég er búin að vera partur af henni síðan ég var pínulítil. Það voru náttúrulega vandamál og ég taldi einhvern veginn að margt í því sem ég hef gert í lífi mínu fram að þeim tíma hefði búið mig mjög vel undir að takast á við það sem þurfti að gerast hér,“ segir Vanda.
Margt sem Vanda hefur gert á lífleiðinni tengist einmitt knattspyrnu. Hún lék bæði með landsliðinu í knattspyrnu og körfubolta en valdi á endanum knattspyrnuna.
„Þó að mér hafi alltaf fundist körfubolti mjög skemmtilegur, þá hefur fótboltinn alltaf verið aðeins skemmtilegri. Og svo líka, þá langaði mig að verða fótboltaþjálfari. Ég fann það strax á menntaskólaaldri að mig langaði að verða fótboltaþjálfari.“
Vanda spilaði 37 leiki með kvennalandsliðinu í knattspyrnu á árunum 1985-1996 og var síðustu fimm árin fyrirliði landsliðsins. Hún er eina konan á Íslandi sem hefur þjálfað meistaraflokk karla í fótbolta og er fyrsta konan sem þjálfaði kvennalandsliðið í fótbolta. Hún er fyrsta konan sem er kjörinn formaður KSÍ og jafnframt fyrsta konan sem tekur við formennsku í aðildarsambandi Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA).
Kom inn í KSÍ á „mjög erfiðum tíma“
„Ég kom inn á mjög erfiðum tíma,“ segir Vanda. Erfiðu tímarnir sem hún vísar í ná lengra aftur en þær vikur sem Guðni, þáverandi formaður, og stjórn KSÍ höfðu þurft að svara fyrir í lok sumars 2021.
KSÍ fékk upplýsingar um meinta hópnauðgun tveggja landsliðsmanna fyrir tólf árum í byrjun júní 2021. Eftir tilkynningu þar um frá starfsmanni sambandsins, tengdamóður þolandans, var meðal annars rætt við annan gerandann. KSÍ ákvað samt sem áður að hlíta ráðleggingu almannatengslafyrirtækis og svara fyrirspurnum fjölmiðla um málið með villandi hætti. Niðurstaðan var sú að formaður KSÍ missti starfið, stjórn KSÍ sagði af sér, tengdamóðir þolandans hætti eftir 25 ára starf og framkvæmdastjóri KSÍ fékk fjölmargar hótanir.
Landsliðsmennirnir tveir eru Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins um margra ára skeið, og Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður FH. Þeir staðfestu með opinberum yfirlýsingum að þeir eru mennirnir sem grunaðir eru um verknaðinn. Þeir neituðu báðir sök. Héraðssaksóknari felldi niður málið í maí síðastliðnum, um níu mánuðum eftir að lögregla tók rannsókn málsins upp að nýju.
Vanda hefur verið í sambandi við nokkra brotaþola í þeim kynferðismálum sem tengjast KSÍ en vill ekki tjá sig um það að öðru leyti.
Viss vonbrigði að ÍSÍ tókst ekki að samræma verklag
Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) skipaði starfshóp í október í fyrra, um svipað leyti og Vanda tók við formennsku í KSÍ, sem var falið að fjalla um verkferla, vinnubrögð og viðmið í íþróttahreyfingunni. Hópurinn hafði til 1. mars á þessu ári til að skila af sér en þrátt fyrir margra mánaða vinnu tókst þeim ekki að búa til sameiginlegt verklag fyrir íþróttahreyfinguna.
Vanda segir það hafa verið vonbrigði. „Það voru vonbrigði fyrir mig og okkur, eðlilega, af því að við vorum búin að vera í þessum ólgusjó. Og við vorum náttúrulega að vonast til þess að út úr þessu kæmi eitthvað. En ÍSÍ náði þessu ekki, við virðum það. Þau töluðu um að þetta er mjög flókið, sem þetta náttúrulega er, við vissum það alveg.“
KSÍ ákvað í kjölfarið að innleiða þá reglu að ef mál einstaklings er til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða samskiptaráðgjafa skuli hann stíga til hliðar á meðan meðferð máls stendur yfir. En ef ekkert mál er í gangi mega landsliðsþjálfarar velja viðkomandi. Aron Einar tók ekki þátt í landsliðsverkefnum í sumar en sneri aftur í landsliðið í haust eftir rúmlega árs hlé, þegar héraðssaksóknari hafði látið mál hans falla niður.
Vanda segist sátt við þá reglu sem sett var, þó að hún sé ekki fullkomin. „Við erum búin að liggja yfir þessu og við erum í rauninni að bregðast við eins og kemur svo í ljós að við eigum að gera samkvæmt nýrri viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf, það er að viðkomandi stigi til hliðar,“ segir Vanda og vísar í viðbragðsáætlun samskiptaráðgjafa við úrlausn mála sem m.a. tengjast áreitni, ofbeldi, einelti og samskiptavanda. Stjórn KSÍ samþykkti á síðasta stjórnarfundi, 8. desember, að innleiða áætlunina.
Viðbragðsáætlunin var búin að vera lengi í vinnslu en kom loks út í nóvember. Um er að ræða sameiginlega viðbragðsáætlun sem unnin var af samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, Bandalagi íslenskra skáta (BÍS), Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR), Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ), Kristilegu félagi ungra manna og kvenna (KFUM og KFUK), Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og Æskulýðsvettvangnum (ÆV). Markmið áætlunarinnar er að færa aðilum innan íþrótta- og æskulýðsfélaga og samtaka um land allt áætlun vegna atvika og áfalla sem upp geta komið í slíku starfi.
Vanda vonast til að viðbragðsáætlunin muni koma til með að nýtast vel og með henni sé tryggt að mál fái úrlausn hjá fagaðilum en ekki sjálfboðaliðum á vegum sérsambanda eða félaga. „Það stendur mjög skýrum stöfum í áætluninni: Úrvinnsla ofbeldismála skal ekki fara fram innan félags.“
„Ég er sérfræðingur í eineltismálum og ég veit alveg að ef þú veist ekki hvað þú ert að gera getur þú svo sannarlega gert illt verra, skemmt fyrir og alls konar þannig.“
Markmiðið að búa til betri heim þar sem allir eru öruggir og enginn beittur ofbeldi
Þegar kemur að umræðu um kynferðisbrot innan íþróttahreyfingarinnar segir Vanda að mikilvægt sé að halda þeirri umræðu gangandi þó búið sé að innleiða verkferla. „Markmiðið er að búa til betri heim þar sem allir eru öruggir og enginn beittur ofbeldi. Það á að vera markmiðið, bæði innan íþróttahreyfingarinnar og í samfélaginu í heild.“
Vanda segist stundum eiga erfitt með að skilja þau sem segjast vera orðin þreytt á umræðunni um kynferðisbrot í samfélaginu. Sjálf sé hún óendanlega þakklát þeim sem standa í baráttunni. „Við verðum að breyta þessu í samfélaginu, að það geti verið partur af menningunni að beita ofbeldi. Það á ekki að vera í boði og þetta fólk er að berjast gegn því, fyrir betri heimi, öruggari heimi fyrir okkur öll og börnin okkar og við getum aldrei orðið leið á því. Við þurfum ekki endilega að vera sammála, við þurfum ekki að vera sammála aðferðunum en við megum samt ekki gleyma hvað markmiðið er. “
Jákvæð skref þó munur á greiðslum til karla- og kvennliða sé mikill
Jafnréttismál eru Vöndu ofarlega í huga og í raun hennar hjartans mál og ein af ástæðum þess að hún ákvað að taka slaginn sem formaður KSÍ.
Kjarninn greindi nýverið frá skiptingu réttindagreiðslna milli karla- og kvennaliða í Bestu deildinni, efstu deild í knattspyrnu. Skiptingin virðast ekki ráðast af jafnréttissjónarmiðum þar sem karlar fengu átta sinnum hærri greiðslur en kvennalið frá Íslenskum Toppfótbolta fyrir síðasta keppnistímabil.
Karlalið fengu 20 milljónir króna en kvennalið 2,5 milljónir króna. Um er að ræða réttindagreiðslur sem snúa að sjónvarpsrétti, gagnarétti og streymisrétti sem tilheyra liðum í Bestu deildum karla og kvenna. Framkvæmdastjóri Íslensks Toppfótbolta segir markaðslegar ástæður fyrir muninum en að það sé alfarið undir félögunum sjálfum komið hvernig greiðslunni er skipt.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í skriflegu svari til Kjarnans í nóvember að KSÍ hafi ekki haft vitneskju um skiptingu þeirra fjármuna sem tryggðir eru með samningsgerð Íslensks Toppfótbolta til aðildarfélaganna. Klara sagði KSÍ meðvitað um samningsumboðið sem Íslenskur Toppfótbolti hefur fyrir hönd þeirra félaga sem eru innan hagsmunasamtakanna en ekki komið að ákvarðanatökunni. Ábyrgðin á skiptingu greiðslnanna sé alfarið hjá Íslenskum Toppfótbolta.
Vanda segir KSÍ í raun lítið hafa um skipting greiðslnanna að segja. „Þetta er ekki okkar. Íslenskur Toppfótbolti ræður þessu, þar sem þeir fara með hagnýtingu réttindanna. Ég veit að þeir byggja skiptinguna á því sem þeir fengu frá samningsaðilum sínum, varðandi virði.”
Aðspurð hvort tilefni sé til að endurskoða samningsumboðið sem Íslenskur Toppfótbolti hefur segir Vanda að ákveðið hafi verið á ársþingi KSÍ fyrir nokkrum árum að Íslenskur Toppfótbolti fengi hagnýtingu markaðsréttinda. „Þetta var sett inn í lög KSÍ og þannig er það bara.“
Þó munurinn sé mikill segir Vanda að hægt sé að greina jákvæð skref í þróuninni, þetta sé til að mynda í fyrsta sinn sem kvennalið frá greiðslu fyrir sjónvarpsréttindi.
„Ég bara vona og trúi að þetta verði meira næst. Í staðinn fyrir að mála skrattann á vegginn og vera alltaf einhvern veginn neikvæð þá er líka hægt að hugsa það þannig að það er frábært að fara frá núlli í tvær og hálfa milljón. Jú, þetta gæti verið meira en þetta er byrjunin.“
Þróunin sé einnig á réttri leið í Evrópu þar sem UEFA greiðir kvennaliðum fyrir þátttöku í Evrópukeppni sem hefur ekki verið gert áður. Félögin í Bestu deild kvenna eru því að fá mun meiri fjármuni en áður hefur þekkst. „Ég reyni alltaf að sjá tækifærin og björtu hliðarnar, og þetta er á leiðinni. Ég ætla að vera vongóð og trúa því að þetta sé það sem koma skal og að þessar tölur muni bara hækka.“
Vanda bendir einnig á að KSÍ sjái um skiptingu greiðslna í aðalkeppni Mjólkurbikarsins og þar fá karla- og kvennaliðin jafn háar greiðslur út frá árangri í keppninni, bæði hvað varðar verðalaunafé og sjónvarpsgreiðslur, samtals um 27 milljónir króna. Reyndar er heildarupphæðin sem rennur til allra kallaliðanna hærri en það stafar af því að mun fleiri karlalið taka þátt.
„Ég vil að það sé kvartað“
Anna Þorsteinsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna, gefur lítið fyrir markaðslegar ástæður fyrir ójafnrétti innan knattspyrnuhreyfingarinnar og sagði í samtali við Kjarnann í kjölfar umfjöllunar um skiptingu greiðslna í efstu deildum að knattspyrnukonur séu orðnar þreyttar á þeirri skýringu. Vanda sýnir viðhorfi Önnu fullan skilning en segir málið snúast um ákvarðanir, ákvarðanir sem munu vonandi breytast í náinni framtíð.
„Ég vona það og ætla að trúa því. Það er hægt að bölsótast en það er líka hægt að sjá allt þetta jákvæða. Það er allt í lagi, ég er ekki að segja að það megi ekki kvarta og ég er sjálf búin að gera það í gegnum árin, oft. En við megum samt ekki gleyma skrefunum sem hafa verið tekin,“ segir Vanda.
Rými til bætinga er samt sem áður til staðar. „Það er bara partur af því sem ég vil sannarlega gera, að laga allt sem þarf að laga. Og það er stefnan. Það er svo mikill meðbyr,“ segir Vanda og nefnir EM á Englandi síðasta sumar þar sem hvert áhorfendametið var slegið á fætur öðru, rétt eins og í meistaradeildinni í vor þar sem mættu yfir 90 þúsund manns á völlinn, bæði á undanúrslitaleik og úrslitaleikinn.
„Allt tal um að kvennafótbolti sé ekki áhugaverður og að enginn hafi áhuga á honum, ég vísa því til föðurhúsanna.“
Of stórar treyjur og engir læknar á kvennaleikjum
Vanda hefur barist ötullega fyrir jafnrétti innan knattspyrnuhreyfingarinnar allt frá því að hún hóf knattspyrnuferilinn með strákaliði Tindastóls á Sauðárkróki 9 ára gömul.
Sjálf hefur hún upplifað mótlæti á knattspyrnuferlinum. „Ég er sjálf búin að fara í gegnum þetta allt saman. Fyrst sem leikmaður, ég var á hátindi míns ferils þegar kvennaliðið var lagt niður, í mörg ár, og endalaust svona. Kvennalandsleikir voru ekki auglýstir, bara karlalandsleikirnir, og við fengum alltof stórar treyjur, það voru ekki læknar á okkar leikjum og alls konar svona. Ég er búin að fara í gegnum þetta allt saman.“
Jafnréttisbaráttan hófst svo af fullum krafti þegar knattspyrnuferlinum lauk og þjálfaraferillinn tók við ásamt stjórnarsetu hjá Tindastóli þar sem hún tók við embætti formanns.
Margt hefur breyst til hins betra frá því að Vanda var sjálf leikmaður. „Hlutirnir hafa lagast mjög, mjög mikið. Og ekki bara lagast, þetta eru byltingarkenndar framfarir, í rauninni, frá því sem var.“
KSÍ vinnur jafnt og þétt að jafnréttismálum og gott skipulag er þar lykilatriði að sögn Vöndu. „Núna erum við bara með Excel-skjal, karla og kvenna hlið við hlið, sem við erum að skoða, og passa okkur. Við erum alltaf að passa okkur. Getum við gert mistök? Já, alveg pottþétt, örugglega. Og höfum við gert mistök? Já, já. En það eru allir að vinna að þessu.“
„Við erum að gera okkar allra, allra besta“
„Treyjumálið“ svokallaða er dæmi um mistök af þessu tagi, eða öllu heldur misskilningi eins og Vanda bendir á og tók hún umræðuna um það mál nærri sér. Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir vakti athygli á því í haust að hún og Glódís Perla Viggósdóttir biðu enn eftir sérmerktri treyju eftir að hafa leikið sinn 100. landsleik í apríl.
Aron Einar Gunnarsson fékk slíka treyju í vináttulandsleik við Sádi-Arabíu í byrjun nóvember, líkt og Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson fengu þegar þeir léku sína hundruðustu leiki á síðasta ári.
Vanda segir málið byggt á misskilningi. Fyrstu treyjurnar komu til vegna annarra tilefna og af frumkvæði starfsmanna A-landsliðs karla. Tilefnin voru að Birkir Már var búinn að tilkynna að hann ætlaði að hætta með landsliðinu og Birkir Bjarnason var að slá leikjamet Rúnars Kristinssonar sem leikjahæsti landsliðsmaður A-landsliðs karla. Á treyjum þeirra stóð því ekki 100 heldur 103 annars vegar og 105 hins vegar. Aron Einar fékk fyrstu hundrað leikja treyjuna. Allt var þetta af frumkvæði starfsmanna KSÍ og er ekki hluti af reglugerð sambandsins en þar kemur fram að þeir leikmenn sem náð hafa að leika 100 A-landsleiki skal veita sérhannað listaverk.
„Mér finnst þetta með hundrað leikja treyjuna aftur á móti frábær hugmynd og þetta er eitthvað sem við munum gera héðan í frá. En það var ekki verið að mismuna. Allir sem vilja koma og skoða hvað við erum að gera, bara velkomið, varðandi jafnréttismálin. Við erum að gera okkar allra, allra besta til þess að passa þetta. Þetta er okkur öllum hérna innanhúss mjög mikilvægt,“ segir Vanda.
Gagnrýni á störf KSÍ sem snýr að jafnréttismálum stingur Vöndu í hjartað og það síðasta sem hún vill gera er að senda þau skilaboð að konur skipti síður máli innan knattspyrnunnar.
Gagnrýni á störf KSÍ sem snýr að jafnréttismálum stingur Vöndu í hjartað og það síðasta sem hún vill gera er að senda þau skilaboð að konur skipti síður máli innan knattspyrnunnar. „Mér þykir leitt ef landsliðskonur upplifa þessi vondu skilaboð og vil gera mitt besta til að það gerist ekki. Ég bað bæði Dagnýju og Glódísi afsökunar, því þó málið væri á misskilningi byggt þá er upplifun alltaf sönn.“
„Svo kemur allt í einu kona frá Króknum“
Vanda er fyrsta konan sem gegnir starfi formanns KSÍ í 75 ára sögu sambandsins og er hún tíundi formaðurinn. „Allir á undan mér hafa verið karlar, annað hvort úr KR eða Val held ég. Svo kemur allt í einu kona frá Króknum.“
Vanda er auk þess fyrsta konan í Evrópu sem tekur við formennsku í aðildarsambandi UEFA. Frá kjöri hennar hafa tvær bæst í hópinn, Debbie Hewitt, formaður knattspyrnusambands Englands, og Lisa Klaveness, formaður knattspyrnusambands Noregs.
Lítur þú á þig sem frumkvöðul?
„Já ég geri það. Ég kem þessu alls staðar að: „Ég heiti Vanda, ég er formaður Knattspyrnusambands Íslands.“ Ég var næstum því búin að segja þetta við fólk sem ég hitti í strætóskýli í Stokkhólmi,“ segir Vanda og skellir upp úr.
„Mér finnst svo mikilvægt að fólk fari að sjá það sem eðlilegan hlut að kona sé formaður í knattspyrnusambandi. Að það sé ekkert skrýtið, þannig ég er alltaf að koma þessu að. Mig langar að nota tækifærið á að þakka öllum þeim sem hafa komið að máli við mig, núna síðast í gær var ég stoppuð í nokkur skipti af fólki sem ég þekki ekki, til að segja mér hvað það væri mikilvægt að ég væri í þessari stöðu og hvað ég væri að standa mig vel. Ég er óendanlega þakklát öllu þessu fólki.“
Vanda segist ekki hafa áttað sig almennilega á því hversu mikill merkisatburður kjör hennar til formanns væri fyrr en Emily Shaw, fulltrúi UEFA, hélt ræðu á aukaþingi KSÍ í október í fyrra þegar Vanda var kjörin. „Þetta er risastórt, þetta er risa, risastórt. Og ég hef tekið þessu alvarlega.“
Ætlar að fjölga konum þar sem ákvarðanir eru teknar
Vanda hefur nýtt vettvang UEFA til að vekja athygli á jafnréttismálum og á fundi formanna og framkvæmdastjóra knattspyrnusambanda innan UEFA í október flutti hún erindi þar sem viðfangsefnið var fjölgun kvenna í nefndum og stjórn UEFA.
Í 19 nefndum á vegum UEFA eru samtals 394 nefndarmenn og aðeins 52 þeirra, eða 14 prósent, eru konur, og þar af sitja 18 af þessum 52 í sérstakri nefnd UEFA um kvennaknattspyrnu.
Í samanburði við FIFA og Alþjóða ólympíusambandið stendur UEFA verr að vígi þegar kemur að fjölda kvenna í nefndum og stjórn. Í nefndum hjá UEFA eru 14 prósent meðlima konur, hjá FIFA eru þær 19 prósent og hjá Alþjóða ólympíusambandinu er helmingur nefndarmeðlima konur. Hjá KSÍ er hlutfallið mun hærra þar sem 47 prósent nefndarmeðlima konur.
„Ég hélt þessa ræðu og henni var bara mjög vel tekið,“ segir Vanda. Í kjölfarið stofnaði UEFA vinnuhóp til að finna leiðir til að fjölga konum í æðstu stöðum í stjórnum og nefndum UEFA. „Þar sem ákvarðanir eru teknar,“ segir Vanda, sem á sæti í hópnum sem samanstendur af þremur konum og fimm körlum.
„Í framhaldinu var mér boðið að taka þátt í ráðstefnu um framtíðarstefnumótun UEFA. Þetta eru fyrstu skrefin og mér finnst það mikill heiður fyrir okkur hjá KSÍ. Út úr þessu kemur vonandi eitthvað magnað sem gerir það að verkum að konum muni fjölga. Raddir kvenna verða að heyrast þar sem ákvarðanir eru teknar.“
Enginn afgangur eftir leikinn við Sádi-Arabíu
Gagnrýni í garð KSÍ og Vöndu á árinu hefur beinst að öðru en viðbrögðum við kynferðisofbeldi og kynjajafnrétti. Nýlegasta dæmið er landsleikur A-landsliðs karla við Sádi-Arabíu í byrjun nóvember, sem KSÍ fékk greiðslu fyrir að spila.
Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa verið gagnrýnd fyrir ítrekuð mannréttindabrot og sögð stunda „sportþvott“ (e. sportswashing), það er að reynt að bæta ímynd sína með því að tengjast íþróttaviðburðum eða íþróttaliðum og beisla það mjúka vald sem íþróttirnar hafa í dægurmenningu nútímans. Sveigja almenningsálitið sér í vil.
Í frétt Stundarinnar í lok nóvember kemur fram að KSÍ hafi fengið tugi milljóna króna greidda fyrir vináttulandsleikinn.
Vanda segir ekki rétt að tala um tugi milljóna en vill ekki upplýsa um upphæðina, meðal annars vegna trúnaðar sem ríki milli KSÍ og viðkomandi sérsambanda og einnig umboðsmanna sem sjá um að semja um greiðslurnar.
Vanda gefur þó upp að greiðslan hafi aðeins staðið undir kostnaði við ferð landsliðsins til Abu Dhabi þar sem leikurinn fór fram. „Það var ekkert eftir. Jú, auðvitað fengum við peninginn fyrir kostnaðinum, ég hef allan tímann sagt það en meira var það ekki.“
Í sama landsliðsglugga spilaði liðið gegn Suður-Kóreu, sem einnig fékkst greiðsla fyrir. Og þar var afgangur. Hversu mikill vill KSÍ ekki gefa upp.
Sniðganga er ekki svarið
Vináttuleikur við Sádi-Arabíu kom fyrst upp í umræðuna fljótlega eftir að Vanda tók við formennsku í KSÍ. Í fyrstu var um stærri samning að ræða en KSÍ ákvað að ganga ekki að honum.
Í vor kom önnur beiðni um að spila vináttuleik og við henni varð KSÍ. Vanda segir að ákvörðunin hafi verið erfið en niðurstaðan var sú að taka boðinu og nýta það til að eiga samtal og nýta fótboltann til samtals í stað þess að sniðganga.
„Ég skil fólkið sem er hundfúlt út í okkur. Ég skil gagnrýnina og þetta er mjög flókið. En, allan tímann fer ég alltaf til baka í að hugsa: Af hverju erum við að gera þetta? Ég er ekki að segja þetta sé fullkomið, ég veit um brotin, en það hafa orðið breytingar. Það hafa orðið jákvæðar breytingar í Sádi-Arabíu í átt að betri mannréttindum. Eru þau fullkomin? Nei. Eiga þau eftir að vinna í mörg ár í viðbót? Já, engin spuning.“
Vanda sleit liðþófa svo hún komst ekki á leikinn við Sádi-Arabíu eftir allt saman. Hún óskaði þess í stað eftir fundi með knattspyrnusambandi Sádi-Arabíu í Katar í upphafi heimsmeistaramótsins í nóvember.
„Ég fundaði með formanninum og framkvæmdastjóranum og þá kemur í ljós að formaðurinn kemur til starfa 2019 og setti það mjög ofarlega hjá sér að hann vill stofna kvennalandslið og koma deildarkeppni af stað. Hann hafði þetta í gegn. Núna er komin deild og það er komið landslið.“
Þetta eru dæmi um breytingar sem KSÍ vill styðja við. „Fólk þarf ekki að vera sammála en staða kvenna og mannréttindi fara hönd í hönd. Ég trúi því, og ekki bara ég, að ef þú bætir stöðu kvenna þá getur þú bætt mannréttindi. Og hvað er það sem við getum gert? Sniðganga er ekki svarið,“ segir Vanda og vísar í finnskan kollega sinn. „Líkt og hann sagði, fyrir lönd sem eru svona lítil, ef við ætlum að hafa einhver áhrif þá verðum við að nota röddina okkar, að nota þrýsting, nota samtal. Það er eina leiðin sem við höfum til að ná fram einhverjum breytingum.“
Það eigi einnig við um ríki eins og Sádi-Arabíu þar sem mannréttindabrot eru staðreynd. „Ég skil gagnrýnina. Algjörlega,“ ítrekar Vanda. „En, þetta var leiðin fyrir okkur inn.“
Fundurinn með formanni og framkvæmdastjóra knattspyrnusambands Sádi-Arabíu í Katar í lok nóvember stóðst væntingar að sögn Vöndu, einna helst vegna frásagna um kvennalandsliðið.
„Ef það hefðu ekki verið neinar framfarir hefði ég ekki viljað gera þetta. En af því að ég veit að það hafa verið framfarir, það er komið kvennalandslið, þeir eru lagðir af stað í einhverja vegferð og það var það sem ég vildi að við myndum styðja við.“
„Það er mín bjargfasta trú að þetta sé rétta leiðin.“
Að sýna tilfinningar gerir mann að betri leiðtoga
Vanda hefur verið formaður KSÍ í tæpa 15 mánuði. Hún var fyrst kjörin formaður á aukaþingi KSÍ í október í fyrra. Á ársþingi sambandsins í febrúar var Vanda endurkjörin með yfirburðum. Vanda fékk alls 105 atkvæði, eða rúmlega 70 prósent greiddra atkvæða, en mótframbjóðandi hennar, Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, fékk 44 atkvæði, eða tæplega 30 prósent greiddra atkvæða.
Næsta formannskjör verður í febrúar 2024 en Vanda segir að allt of snemmt sé að segja til um hvort hún muni áfram gefa kost á sér. En hún er rétt að byrja.
„Ég gerði svona 100 daga áætlun. Það var mesta bjartsýniskast allra tíma. Það er reyndar margt sem er búið að gerast og líka margt sem er í ferli. En þetta ætti að vera 1000 daga áætlun.“
Vöndu líður vel í starfi formanns og segir það ákveðin forréttindi að fá að vinna við hennar hjartans mál. „En þetta tekur mis mikið á, það fer aðeins eftir efninu. Því ofar í hjartanu, því erfiðara er það. Eins og þegar ég er gagnrýnd fyrir að stuðla ekki að jafnrétti.“
Gagnrýni er hluti af starfinu, Vanda er búin að átta sig á því. Í viðtali við RÚV í Katar í lok nóvember ræddi Vanda meðal annars gagnrýnina og komst við þegar talið barst að jafnréttismálum.
„Allt tal um það að ég sé ekki rétta manneskjan af því að ég hafi fellt tár, mér finnst það bara ekki rétt og það er heldur ekki góð þróun fyrir okkur sem samfélag, ef við ætlum þangað. Ég segi að ég sé ekki verri og jafnvel bara betri leiðtogi, ég er með mikla samkennd, finn til með öðrum, tek hluti nærri mér og fæ auðveldlega tár í augun.“
„Og það er bara allt í lagi.“