Mynd: Golli Vanda Sigurgeirsdóttir Mynd: Golli
Mynd: Golli

„Það er hægt að bölsótast en það er líka hægt að sjá allt þetta jákvæða“

Ástríða fyrir jafnréttismálum og vilji til að láta gott af sér leiða sannfærðu Vöndu Sigurgeirsdóttur um að bjóða sig fram til formanns KSÍ. Fyrsta rúma árið í embætti hefur verið vandasamt að vissu leyti en Vanda segist vera að venjast gagnrýninni. „Mér finnst erfiðast þegar hún er ósanngjörn og óvægin og stundum ekki sönn. En svo er þetta líka bara svona, þetta er partur af starfinu.“ Vanda er fyrsta konan sem er formaður knattspyrnusambands í Evrópu og segist vera rétt að byrja.

Hall­dóra Vanda Sig­ur­geirs­dóttir skellir upp úr þegar blaða­maður spyr hana hvað standi upp úr á hennar fyrsta rúma ári í starfi sem for­maður Knatt­spyrnu­sam­bands Íslands.

„Þetta er bæði mjög fjöl­breytt og skemmti­legt, og gaman að vera að vinna við áhuga­málið sitt, sem er fót­bolt­i,“ segir hún eftir smá umhugs­un. „En þetta er líka mjög krefj­andi. Það er engin spurn­ing. Þannig þetta er líka heil­mikið álag og innra álag, innri óró­leiki sem fylgir þessu lík­a.“

Vanda var kjörin for­maður KSÍ á auka­þingi sam­bands­ins í októ­ber á síð­asta ári í kjöl­far afsagnar Guðna Bergs­sonar eftir að frá­­sagnir af kyn­­­ferð­is­of­beldi og áreitni lands­liðs­­­manna í knatt­­­spyrnu komu upp á yfir­­­­­borð­ið. Guðni neit­aði ítrekað að slík mál hefðu „komið á þeirra borð“ en eftir mikla fjöl­miðlaum­fjöllun ákvað hann, og stjórnin öll, að segja af sér emb­ætti.

Nafn Vöndu fór fljót­lega að bera á góma, ekki síst á sam­fé­lags­miðl­um, en hún fékk einnig fjöl­margar áskor­an­ir, meðal ann­ars frá fyrr­ver­andi nem­end­um.

„Ég flakk­aði fram og til baka um að vilja gera þetta og ekki. Ég fór af og á alveg margar umferðir í raun­inni. En end­aði svo á að þetta er eitt­hvað sem ég vildi ger­a,“ segir Vanda.

Erf­ið­ast var að segja skilið við störf sín en Vanda er í leyfi sem lektor í tóm­stunda- og félags­mála­fræði við mennta­vís­inda­svið Háskóla Íslands. Auk þess er hún einn stofn­enda og eig­enda fyr­ir­tæk­is­ins KVAN sem býður m.a. upp á fyr­ir­lestra og nám­skeið fyrir ungt fólk, full­orðna og fyr­ir­tæki sem vilja auka hæfni, líðan og vel­gengni. „Ég sakna einnig skóla- og frí­stunda­fólks út um allt land, sem ég hef átt í góðu sam­starfi við gegnum árin.“

Vilji til að láta gott af sér leiða

„Ég var mjög ánægð í mínum störfum og það sem gerði þessa ákvörðun mjög erf­iða var að þurfa að skilja við það. En þetta var kannski vilji til að láta gott af mér leiða, þetta er hreyf­ingin mín, ég er búin að vera partur af henni síðan ég var pínu­lít­il. Það voru nátt­úru­lega vanda­mál og ég taldi ein­hvern veg­inn að margt í því sem ég hef gert í lífi mínu fram að þeim tíma hefði búið mig mjög vel undir að takast á við það sem þurfti að ger­ast hér,“ segir Vanda.

Margt sem Vanda hefur gert á líf­leið­inni teng­ist einmitt knatt­spyrnu. Hún lék bæði með lands­lið­inu í knatt­spyrnu og körfu­bolta en valdi á end­anum knatt­spyrn­una.

„Þó að mér hafi alltaf fund­ist körfu­bolti mjög skemmti­leg­ur, þá hefur fót­bolt­inn alltaf verið aðeins skemmti­legri. Og svo líka, þá lang­aði mig að verða fót­bolta­þjálf­ari. Ég fann það strax á mennta­skóla­aldri að mig lang­aði að verða fót­bolta­þjálf­ari.“

Vanda spil­aði 37 leiki með kvenna­lands­lið­inu í knatt­spyrnu á árunum 1985-1996 og var síð­ustu fimm árin fyr­ir­liði lands­liðs­ins. Hún er eina konan á Íslandi sem hefur þjálfað meist­ara­flokk karla í fót­bolta og er fyrsta konan sem þjálf­aði kvenna­lands­liðið í fót­bolta. Hún er fyrsta konan sem er kjör­inn for­maður KSÍ og jafn­framt fyrsta konan sem tekur við for­mennsku í aðild­ar­sam­bandi Knatt­spyrnu­sam­bands Evr­ópu (UEFA).

Kom inn í KSÍ á „mjög erf­iðum tíma“

„Ég kom inn á mjög erf­iðum tíma,“ segir Vanda. Erf­iðu tím­arnir sem hún vísar í ná lengra aftur en þær vikur sem Guðni, þáver­andi for­mað­ur, og stjórn KSÍ höfðu þurft að svara fyrir í lok sum­ars 2021.

KSÍ fékk upp­lýs­ingar um meinta hópnauðgun tveggja lands­liðs­manna fyrir tólf árum í byrjun júní 2021. Eftir til­kynn­ingu þar um frá starfs­manni sam­bands­ins, tengda­móður þol­and­ans, var meðal ann­ars rætt við annan ger­and­ann. KSÍ ákvað samt sem áður að hlíta ráð­legg­ingu almanna­tengsla­fyr­ir­tækis og svara fyr­ir­spurnum fjöl­miðla um málið með vill­andi hætti. Nið­ur­staðan var sú að for­maður KSÍ missti starf­ið, stjórn KSÍ sagði af sér, tengda­móðir þol­and­ans hætti eftir 25 ára starf og fram­kvæmda­stjóri KSÍ fékk fjöl­margar hót­an­ir.

Lands­liðs­menn­irnir tveir eru Aron Einar Gunn­ars­son, fyr­ir­liði íslenska karla­lands­liðs­ins um margra ára skeið, og Egg­ert Gunn­þór Jóns­son, leik­maður FH. Þeir stað­festu með opin­berum yfir­lýs­ingum að þeir eru menn­irnir sem grun­aðir eru um verkn­að­inn. Þeir neit­uðu báðir sök. Hér­aðs­sak­sókn­ari felldi niður málið í maí síð­ast­liðn­um, um níu mán­uðum eftir að lög­regla tók rann­sókn máls­ins upp að nýju.

Vanda hefur verið í sam­bandi við nokkra brota­þola í þeim kyn­ferð­is­málum sem tengj­ast KSÍ en vill ekki tjá sig um það að öðru leyti.

Viss von­brigði að ÍSÍ tókst ekki að sam­ræma verk­lag

Íþrótta­sam­band Íslands (ÍSÍ) skip­aði starfs­hóp í októ­ber í fyrra, um svipað leyti og Vanda tók við for­mennsku í KSÍ, sem var falið að fjalla um verk­ferla, vinnu­brögð og við­mið í íþrótta­hreyf­ing­unni. Hóp­ur­inn hafði til 1. mars á þessu ári til að skila af sér en þrátt fyrir margra mán­aða vinnu tókst þeim ekki að búa til sam­eig­in­legt verk­lag fyrir íþrótta­hreyf­ing­una.

Vanda segir það hafa verið von­brigði. „Það voru von­brigði fyrir mig og okk­ur, eðli­lega, af því að við vorum búin að vera í þessum ólgu­sjó. Og við vorum nátt­úru­lega að von­ast til þess að út úr þessu kæmi eitt­hvað. En ÍSÍ náði þessu ekki, við virðum það. Þau töl­uðu um að þetta er mjög flók­ið, sem þetta nátt­úru­lega er, við vissum það alveg.“

KSÍ ákvað í kjöl­farið að inn­leiða þá reglu að ef mál ein­stak­lings er til með­ferðar hjá rann­sókn­ar- eða ákæru­valdi og/eða sam­skipta­ráð­gjafa skuli hann stíga til hliðar á meðan með­ferð máls stendur yfir. En ef ekk­ert mál er í gangi mega lands­liðs­þjálf­arar velja við­kom­andi. Aron Einar tók ekki þátt í lands­liðs­verk­efnum í sumar en sneri aftur í lands­liðið í haust eftir rúm­lega árs hlé, þegar hér­aðs­sak­sókn­ari hafði látið mál hans falla nið­ur.

Vanda seg­ist sátt við þá reglu sem sett var, þó að hún sé ekki full­kom­in. „Við erum búin að liggja yfir þessu og við erum í raun­inni að bregð­ast við eins og kemur svo í ljós að við eigum að gera sam­kvæmt nýrri við­bragðs­á­ætlun fyrir íþrótta- og æsku­lýðs­starf, það er að við­kom­andi stigi til hlið­ar,“ segir Vanda og vísar í við­bragðs­á­ætlun sam­skipta­ráð­gjafa við úrlausn mála sem m.a. tengj­ast áreitni, ofbeldi, ein­elti og sam­skipta­vanda. Stjórn KSÍ sam­þykkti á síð­asta stjórn­ar­fundi, 8. des­em­ber, að inn­leiða áætl­un­ina.

Við­bragðs­á­ætl­unin var búin að vera lengi í vinnslu en kom loks út í nóv­em­ber. Um er að ræða sam­eig­in­lega við­bragðs­á­ætlun sem unnin var af sam­skipta­ráð­gjafa íþrótta- og æsku­lýðs­starfs, Banda­lagi íslenskra skáta (BÍS), Íþrótta­banda­lagi Reykja­víkur (ÍBR), Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­bandi Íslands (ÍSÍ), Kristi­legu félagi ungra manna og kvenna (KFUM og KFUK), Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg, Ung­menna­fé­lagi Íslands (UM­FÍ) og Æsku­lýðs­vett­vangnum (ÆV). Mark­mið áætl­un­ar­innar er að færa aðilum innan íþrótta- og æsku­lýðs­fé­laga og sam­taka um land allt áætlun vegna atvika og áfalla sem upp geta komið í slíku starfi.

„Markmiðið er að búa til betri heim þar sem allir eru öruggir og enginn verður misnotaður.“
Mynd: Golli

Vanda von­ast til að við­bragðs­á­ætl­unin muni koma til með að nýt­ast vel og með henni sé tryggt að mál fái úrlausn hjá fag­að­ilum en ekki sjálf­boða­liðum á vegum sér­sam­banda eða félaga. „Það stendur mjög skýrum stöfum í áætl­un­inni: Úrvinnsla ofbeld­is­mála skal ekki fara fram innan félags.“

„Ég er sér­fræð­ingur í ein­elt­is­málum og ég veit alveg að ef þú veist ekki hvað þú ert að gera getur þú svo sann­ar­lega gert illt verra, skemmt fyrir og alls konar þannig.“

Mark­miðið að búa til betri heim þar sem allir eru öruggir og eng­inn beittur ofbeldi

Þegar kemur að umræðu um kyn­ferð­is­brot innan íþrótta­hreyf­ing­ar­innar segir Vanda að mik­il­vægt sé að halda þeirri umræðu gang­andi þó búið sé að inn­leiða verk­ferla. „Mark­miðið er að búa til betri heim þar sem allir eru öruggir og eng­inn beittur ofbeldi. Það á að vera mark­mið­ið, bæði innan íþrótta­hreyf­ing­ar­innar og í sam­fé­lag­inu í heild.“

Vanda seg­ist stundum eiga erfitt með að skilja þau sem segj­ast vera orðin þreytt á umræð­unni um kyn­ferð­is­brot í sam­fé­lag­inu. Sjálf sé hún óend­an­lega þakk­lát þeim sem standa í bar­átt­unni. „Við verðum að breyta þessu í sam­fé­lag­inu, að það geti verið partur af menn­ing­unni að beita ofbeldi. Það á ekki að vera í boði og þetta fólk er að berj­ast gegn því, fyrir betri heimi, örugg­ari heimi fyrir okkur öll og börnin okkar og við getum aldrei orðið leið á því. Við þurfum ekki endi­lega að vera sam­mála, við þurfum ekki að vera sam­mála aðferð­unum en við megum samt ekki gleyma hvað mark­miðið er. “

Jákvæð skref þó munur á greiðslum til karla- og kvenn­liða sé mik­ill

Jafn­rétt­is­mál eru Vöndu ofar­lega í huga og í raun hennar hjart­ans mál og ein af ástæðum þess að hún ákvað að taka slag­inn sem for­maður KSÍ.

Kjarn­inn greindi nýverið frá skipt­ingu rétt­inda­greiðslna milli karla- og kvenna­liða í Bestu deild­inni, efstu deild í knatt­spyrnu. Skipt­ingin virð­ast ekki ráð­ast af jafn­rétt­is­sjón­ar­miðum þar sem karlar fengu átta sinnum hærri greiðslur en kvenna­lið frá Íslenskum Topp­fót­bolta fyrir síð­asta keppn­is­tíma­bil.

Karla­lið fengu 20 millj­ónir króna en kvenna­lið 2,5 millj­ónir króna. Um er að ræða rétt­inda­greiðslur sem snúa að sjón­­varps­rétti, gagna­rétti og streym­is­rétti sem til­­heyra liðum í Bestu deildum karla og kvenna. Fram­kvæmda­stjóri Íslensks Topp­fót­bolta segir mark­aðs­legar ástæður fyrir mun­inum en að það sé alfarið undir félög­unum sjálfum komið hvernig greiðsl­unni er skipt.

Klara Bjart­marz, fram­kvæmda­stjóri KSÍ, sagði í skrif­legu svari til Kjarn­ans í nóv­em­ber að KSÍ hafi ekki haft vit­neskju um skipt­ingu þeirra fjár­­muna sem tryggðir eru með samn­ings­­gerð Íslensks Topp­­fót­­bolta til aðild­­ar­­fé­lag­anna. Klara sagði KSÍ með­vitað um samn­ings­um­boðið sem Íslenskur Topp­fót­bolti hefur fyrir hönd þeirra félaga sem eru innan hags­muna­sam­tak­anna en ekki komið að ákvarð­ana­tök­unni. Ábyrgðin á skipt­ingu greiðsln­anna sé alfarið hjá Íslenskum Topp­fót­bolta.

Vanda segir KSÍ í raun lítið hafa um skipt­ing greiðsln­anna að segja. „Þetta er ekki okk­ar. Íslenskur Topp­fót­bolti ræður þessu, þar sem þeir fara með hag­nýt­ingu rétt­ind­anna. Ég veit að þeir byggja skipt­ing­una á því sem þeir fengu frá samn­ings­að­ilum sín­um, varð­andi virð­i.”

Aðspurð hvort til­efni sé til að end­ur­skoða samn­ings­um­boðið sem Íslenskur Topp­fót­bolti hefur segir Vanda að ákveðið hafi verið á árs­þingi KSÍ fyrir nokkrum árum að Íslenskur Topp­fót­bolti fengi hag­nýt­ingu mark­aðs­rétt­inda. „Þetta var sett inn í lög KSÍ og þannig er það bara.“

Þó mun­ur­inn sé mik­ill segir Vanda að hægt sé að greina jákvæð skref í þró­un­inni, þetta sé til að mynda í fyrsta sinn sem kvenna­lið frá greiðslu fyrir sjón­varps­rétt­indi.

„Ég bara vona og trúi að þetta verði meira næst. Í stað­inn fyrir að mála skratt­ann á vegg­inn og vera alltaf ein­hvern veg­inn nei­kvæð þá er líka hægt að hugsa það þannig að það er frá­bært að fara frá núlli í tvær og hálfa millj­ón. Jú, þetta gæti verið meira en þetta er byrj­un­in.“

Þró­unin sé einnig á réttri leið í Evr­ópu þar sem UEFA greiðir kvenna­liðum fyrir þátt­töku í Evr­ópu­keppni sem hefur ekki verið gert áður. Félögin í Bestu deild kvenna eru því að fá mun meiri fjár­muni en áður hefur þekkst. „Ég reyni alltaf að sjá tæki­færin og björtu hlið­arn­ar, og þetta er á leið­inni. Ég ætla að vera von­góð og trúa því að þetta sé það sem koma skal og að þessar tölur muni bara hækk­a.“

Vanda bendir einnig á að KSÍ sjái um skipt­ingu greiðslna í aðal­keppni Mjólk­ur­bik­ars­ins og þar fá karla- og kvenna­liðin jafn háar greiðslur út frá árangri í keppn­inni, bæði hvað varðar verða­launafé og sjón­varps­greiðsl­ur, sam­tals um 27 millj­ónir króna. Reyndar er heild­ar­upp­hæðin sem rennur til allra kalla­lið­anna hærri en það stafar af því að mun fleiri karla­lið taka þátt.

„Ég vil að það sé kvart­að“

Anna Þor­steins­dótt­ir, for­maður Hags­muna­sam­taka knatt­spyrnu­kvenna, gefur lítið fyrir mark­aðs­legar ástæður fyrir ójafn­rétti innan knatt­spyrnu­hreyf­ing­ar­innar og sagði í sam­tali við Kjarn­ann í kjöl­far umfjöll­unar um skipt­ingu greiðslna í efstu deildum að knatt­spyrnu­konur séu orðnar þreyttar á þeirri skýr­ingu. Vanda sýnir við­horfi Önnu fullan skiln­ing en segir málið snú­ast um ákvarð­an­ir, ákvarð­anir sem munu von­andi breyt­ast í náinni fram­tíð.

„Ég vona það og ætla að trúa því. Það er hægt að bölsót­ast en það er líka hægt að sjá allt þetta jákvæða. Það er allt í lagi, ég er ekki að segja að það megi ekki kvarta og ég er sjálf búin að gera það í gegnum árin, oft. En við megum samt ekki gleyma skref­unum sem hafa verið tek­in,“ segir Vanda.

Rými til bæt­inga er samt sem áður til stað­ar. „Það er bara partur af því sem ég vil sann­ar­lega gera, að laga allt sem þarf að laga. Og það er stefn­an. Það er svo mik­ill með­byr,“ segir Vanda og nefnir EM á Englandi síð­asta sumar þar sem hvert áhorf­enda­metið var slegið á fætur öðru, rétt eins og í meist­ara­deild­inni í vor þar sem mættu yfir 90 þús­und manns á völl­inn, bæði á und­an­úr­slita­leik og úrslita­leik­inn.

„Allt tal um að kvennafótbolti sé ekki áhugaverður og að enginn hafi áhuga á honum, ég vísa því til föðurhúsanna.“
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, í leik gegn Ítalíu á EM á Englandi í sumar.
Mynd: EPA

Of stórar treyjur og engir læknar á kvenna­leikjum

Vanda hefur barist ötul­lega fyrir jafn­rétti innan knatt­spyrnu­hreyf­ing­ar­innar allt frá því að hún hóf knatt­spyrnu­fer­il­inn með strákaliði Tinda­stóls á Sauð­ár­króki 9 ára göm­ul.

Sjálf hefur hún upp­lifað mót­læti á knatt­spyrnu­ferl­in­um. „Ég er sjálf búin að fara í gegnum þetta allt sam­an. Fyrst sem leik­mað­ur, ég var á hátindi míns fer­ils þegar kvenna­liðið var lagt nið­ur, í mörg ár, og enda­laust svona. Kvenna­lands­leikir voru ekki aug­lýst­ir, bara karla­lands­leik­irn­ir, og við fengum alltof stórar treyj­ur, það voru ekki læknar á okkar leikjum og alls konar svona. Ég er búin að fara í gegnum þetta allt sam­an.“

Vanda þjálfaði kvennalandslið 16 ára og yngri árið 1992 auk þess að vera fyrirliði A-landsliðsins.
Skjáskot: Tímarit.is

Jafn­rétt­is­bar­áttan hófst svo af fullum krafti þegar knatt­spyrnu­ferl­inum lauk og þjálf­ara­fer­ill­inn tók við ásamt stjórn­ar­setu hjá Tinda­stóli þar sem hún tók við emb­ætti for­manns.

Margt hefur breyst til hins betra frá því að Vanda var sjálf leik­mað­ur. „Hlut­irnir hafa lag­ast mjög, mjög mik­ið. Og ekki bara lagast, þetta eru bylt­ing­ar­kenndar fram­far­ir, í raun­inni, frá því sem var.“

KSÍ vinnur jafnt og þétt að jafn­rétt­is­málum og gott skipu­lag er þar lyk­il­at­riði að sögn Vöndu. „Núna erum við bara með Excel-skjal, karla og kvenna hlið við hlið, sem við erum að skoða, og passa okk­ur. Við erum alltaf að passa okk­ur. Getum við gert mis­tök? Já, alveg pott­þétt, örugg­lega. Og höfum við gert mis­tök? Já, já. En það eru allir að vinna að þessu.“

„Við erum að gera okkar allra, allra besta“

„Treyju­mál­ið“ svo­kall­aða er dæmi um mis­tök af þessu tagi, eða öllu heldur mis­skiln­ingi eins og Vanda bendir á og tók hún umræð­una um það mál nærri sér. Lands­liðs­konan Dagný Brynjars­dóttir vakti athygli á því í haust að hún og Gló­­dís Perla Vigg­ós­dóttir biðu enn eftir sér­­­merktri treyju eftir að hafa leikið sinn 100. lands­­leik í apr­íl.

Aron Einar Gunn­­ar­s­­son fékk slíka treyju í vin­átt­u­lands­­leik við Sádi-­­Ar­a­bíu í byrjun nóv­­em­ber, líkt og Birkir Bjarna­­son og Birkir Már Sæv­­ar­s­­son fengu þegar þeir léku sína hund­ruð­­ustu leiki á síð­­asta ári.

Vanda segir málið byggt á mis­skiln­ingi. Fyrstu treyj­urnar komu til vegna ann­arra til­efna og af frum­kvæði starfs­manna A-lands­liðs karla. Til­efnin voru að Birkir Már var búinn að til­kynna að hann ætl­aði að hætta með lands­lið­inu og Birkir Bjarna­son var að slá leikja­met Rún­ars Krist­ins­sonar sem leikja­hæsti lands­liðs­maður A-lands­liðs karla. Á treyjum þeirra stóð því ekki 100 heldur 103 ann­ars vegar og 105 hins veg­ar. Aron Einar fékk fyrstu hund­rað leikja treyj­una. Allt var þetta af frum­kvæði starfs­manna KSÍ og er ekki hluti af reglu­gerð sam­bands­ins en þar kemur fram að þeir leik­menn sem náð hafa að leika 100 A-lands­leiki skal veita sér­hannað lista­verk.

„Mér finnst þetta með hund­rað leikja treyj­una aftur á móti frá­bær hug­mynd og þetta er eitt­hvað sem við munum gera héðan í frá. En það var ekki verið að mis­muna. Allir sem vilja koma og skoða hvað við erum að gera, bara vel­kom­ið, varð­andi jafn­rétt­is­mál­in. Við erum að gera okkar allra, allra besta til þess að passa þetta. Þetta er okkur öllum hérna inn­an­húss mjög mik­il­vægt,“ segir Vanda.

Gagn­rýni á störf KSÍ sem snýr að jafn­rétt­is­málum stingur Vöndu í hjartað og það síð­asta sem hún vill gera er að senda þau skila­boð að konur skipti síður máli innan knatt­spyrn­unn­ar.

Gagn­rýni á störf KSÍ sem snýr að jafn­rétt­is­málum stingur Vöndu í hjartað og það síð­asta sem hún vill gera er að senda þau skila­boð að konur skipti síður máli innan knatt­spyrn­unn­ar. „Mér þykir leitt ef lands­liðs­konur upp­lifa þessi vondu skila­boð og vil gera mitt besta til að það ger­ist ekki. Ég bað bæði Dag­nýju og Gló­dísi afsök­un­ar, því þó málið væri á mis­skiln­ingi byggt þá er upp­lifun alltaf sönn.“

„Svo kemur allt í einu kona frá Krókn­um“

Vanda er fyrsta konan sem gegnir starfi for­manns KSÍ í 75 ára sögu sam­bands­ins og er hún tíundi for­mað­ur­inn. „Allir á undan mér hafa verið karl­ar, annað hvort úr KR eða Val held ég. Svo kemur allt í einu kona frá Krókn­um.“

Vanda er auk þess fyrsta konan í Evr­ópu sem tekur við for­mennsku í aðild­ar­sam­bandi UEFA. Frá kjöri hennar hafa tvær bæst í hóp­inn, Debbie Hewitt, for­maður knatt­spyrnu­sam­bands Eng­lands, og Lisa Klaveness, for­maður knatt­spyrnu­sam­bands Nor­egs.

Vanda er fyrsta konan sem gegnir starfi for­manns KSÍ og fyrsta konan í Evrópu sem tekur við formennsku í aðildarsambandi UEFA.
Mynd: Golli

Lítur þú á þig sem frum­kvöðul?

„Já ég geri það. Ég kem þessu alls staðar að: „Ég heiti Vanda, ég er for­maður Knatt­spyrnu­sam­bands Íslands.“ Ég var næstum því búin að segja þetta við fólk sem ég hitti í strætó­skýli í Stokk­hólmi,“ segir Vanda og skellir upp úr.

„Mér finnst svo mik­il­vægt að fólk fari að sjá það sem eðli­legan hlut að kona sé for­maður í knatt­spyrnu­sam­bandi. Að það sé ekk­ert skrýt­ið, þannig ég er alltaf að koma þessu að. Mig langar að nota tæki­færið á að þakka öllum þeim sem hafa komið að máli við mig, núna síð­ast í gær var ég stoppuð í nokkur skipti af fólki sem ég þekki ekki, til að segja mér hvað það væri mik­il­vægt að ég væri í þess­ari stöðu og hvað ég væri að standa mig vel. Ég er óend­an­lega þakk­lát öllu þessu fólki.“

Vanda seg­ist ekki hafa áttað sig almenni­lega á því hversu mik­ill merk­is­at­burður kjör hennar til for­manns væri fyrr en Emily Shaw, full­trúi UEFA, hélt ræðu á auka­þingi KSÍ í októ­ber í fyrra þegar Vanda var kjör­in. „Þetta er risa­stórt, þetta er risa, risa­stórt. Og ég hef tekið þessu alvar­lega.“

Ætlar að fjölga konum þar sem ákvarð­anir eru teknar

Vanda hefur nýtt vett­vang UEFA til að vekja athygli á jafn­rétt­is­málum og á fundi for­manna og fram­kvæmda­stjóra knatt­spyrnu­sam­banda innan UEFA í októ­ber flutti hún erindi þar sem við­fangs­efnið var fjölgun kvenna í nefndum og stjórn UEFA.

Í 19 nefndum á vegum UEFA eru sam­tals 394 nefnd­ar­menn og aðeins 52 þeirra, eða 14 pró­sent, eru kon­ur, og þar af sitja 18 af þessum 52 í sér­stakri nefnd UEFA um kvennaknatt­spyrnu.

Í sam­an­burði við FIFA og Alþjóða ólymp­íu­sam­bandið stendur UEFA verr að vígi þegar kemur að fjölda kvenna í nefndum og stjórn. Í nefndum hjá UEFA eru 14 pró­sent með­lima kon­ur, hjá FIFA eru þær 19 pró­sent og hjá Alþjóða ólymp­íu­sam­band­inu er helm­ingur nefnd­ar­með­lima kon­ur. Hjá KSÍ er hlut­fallið mun hærra þar sem 47 pró­sent nefnd­ar­með­lima kon­ur.

„Ég hélt þessa ræðu og henni var bara mjög vel tek­ið,“ segir Vanda. Í kjöl­farið stofn­aði UEFA vinnu­hóp til að finna leiðir til að fjölga konum í æðstu stöðum í stjórnum og nefndum UEFA. „Þar sem ákvarð­anir eru tekn­ar,“ segir Vanda, sem á sæti í hópnum sem sam­anstendur af þremur konum og fimm körl­um.

„Í fram­hald­inu var mér boðið að taka þátt í ráð­stefnu um fram­tíð­ar­stefnu­mótun UEFA. Þetta eru fyrstu skrefin og mér finnst það mik­ill heiður fyrir okkur hjá KSÍ. Út úr þessu kemur von­andi eitt­hvað magnað sem gerir það að verkum að konum muni fjölga. Raddir kvenna verða að heyr­ast þar sem ákvarð­anir eru tekn­ar.“

Eng­inn afgangur eftir leik­inn við Sádi-­Ar­abíu

Gagn­rýni í garð KSÍ og Vöndu á árinu hefur beinst að öðru en við­brögðum við kyn­ferð­is­of­beldi og kynja­jafn­rétti. Nýleg­asta dæmið er lands­leikur A-lands­liðs karla við Sádi-­Ar­abíu í byrjun nóv­em­ber, sem KSÍ fékk greiðslu fyrir að spila.

Yfir­völd í Sádi-­Ar­abíu hafa verið gagn­rýnd fyrir ítrekuð mann­rétt­inda­brot og sögð stunda „sport­þvott“ (e. sportswas­hing), það er að reynt að bæta ímynd sína með því að tengj­­ast íþrótta­við­­burðum eða íþrótta­liðum og beisla það mjúka vald sem íþrótt­­irnar hafa í dæg­­ur­­menn­ingu nútím­ans. Sveigja almenn­ings­á­litið sér í vil.

Í frétt Stund­ar­innar í lok nóv­em­ber kemur fram að KSÍ hafi fengið tugi millj­óna króna greidda fyrir vin­áttu­lands­leik­inn.

Ísland mætti Sádi-Arabíu í vináttulandsleik í Abu Dhabi 6. nóvember.
Mynd: KSÍ

Vanda segir ekki rétt að tala um tugi millj­óna en vill ekki upp­lýsa um upp­hæð­ina, meðal ann­ars vegna trún­aðar sem ríki milli KSÍ og við­kom­andi sér­sam­banda og einnig umboðs­manna sem sjá um að semja um greiðsl­urn­ar.

Vanda gefur þó upp að greiðslan hafi aðeins staðið undir kostn­aði við ferð lands­liðs­ins til Abu Dhabi þar sem leik­ur­inn fór fram. „Það var ekk­ert eft­ir. Jú, auð­vitað fengum við pen­ing­inn fyrir kostn­að­in­um, ég hef allan tím­ann sagt það en meira var það ekki.“

Í sama lands­liðs­glugga spil­aði liðið gegn Suð­ur­-Kóreu, sem einnig fékkst greiðsla fyr­ir. Og þar var afgang­ur. Hversu mik­ill vill KSÍ ekki gefa upp.

Snið­ganga er ekki svarið

Vin­áttu­leikur við Sádi-­Ar­abíu kom fyrst upp í umræð­una fljót­lega eftir að Vanda tók við for­mennsku í KSÍ. Í fyrstu var um stærri samn­ing að ræða en KSÍ ákvað að ganga ekki að hon­um.

Í vor kom önnur beiðni um að spila vin­áttu­leik og við henni varð KSÍ. Vanda segir að ákvörð­unin hafi verið erfið en nið­ur­staðan var sú að taka boð­inu og nýta það til að eiga sam­tal og nýta fót­bolt­ann til sam­tals í stað þess að snið­ganga.

„Ég skil fólkið sem er hund­fúlt út í okk­ur. Ég skil gagn­rýn­ina og þetta er mjög flók­ið. En, allan tím­ann fer ég alltaf til baka í að hugsa: Af hverju erum við að gera þetta? Ég er ekki að segja þetta sé full­kom­ið, ég veit um brot­in, en það hafa orðið breyt­ing­ar. Það hafa orðið jákvæðar breyt­ingar í Sádi-­Ar­abíu í átt að betri mann­rétt­ind­um. Eru þau full­kom­in? Nei. Eiga þau eftir að vinna í mörg ár í við­bót? Já, engin spuning.“

Vanda sleit lið­þófa svo hún komst ekki á leik­inn við Sádi-­Ar­abíu eftir allt sam­an. Hún óskaði þess í stað eftir fundi með knatt­spyrnu­sam­bandi Sádi-­Ar­abíu í Katar í upp­hafi heims­meist­ara­móts­ins í nóv­em­ber.

„Ég fund­aði með for­mann­inum og fram­kvæmda­stjór­anum og þá kemur í ljós að for­mað­ur­inn kemur til starfa 2019 og setti það mjög ofar­lega hjá sér að hann vill stofna kvenna­lands­lið og koma deild­ar­keppni af stað. Hann hafði þetta í gegn. Núna er komin deild og það er komið lands­lið.“

Þetta eru dæmi um breyt­ingar sem KSÍ vill styðja við. „Fólk þarf ekki að vera sam­mála en staða kvenna og mann­rétt­indi fara hönd í hönd. Ég trúi því, og ekki bara ég, að ef þú bætir stöðu kvenna þá getur þú bætt mann­rétt­indi. Og hvað er það sem við getum gert? Snið­ganga er ekki svar­ið,“ segir Vanda og vísar í finnskan kollega sinn. „Líkt og hann sagði, fyrir lönd sem eru svona lít­il, ef við ætlum að hafa ein­hver áhrif þá verðum við að nota rödd­ina okk­ar, að nota þrýst­ing, nota sam­tal. Það er eina leiðin sem við höfum til að ná fram ein­hverjum breyt­ing­um.“

Það eigi einnig við um ríki eins og Sádi-­Ar­abíu þar sem mann­rétt­inda­brot eru stað­reynd. „Ég skil gagn­rýn­ina. Algjör­lega,“ ítrekar Vanda. „En, þetta var leiðin fyrir okkur inn.“

Fund­ur­inn með for­manni og fram­kvæmda­stjóra knatt­spyrnu­sam­bands Sádi-­Ar­abíu í Katar í lok nóv­em­ber stóðst vænt­ingar að sögn Vöndu, einna helst vegna frá­sagna um kvenna­lands­lið­ið.

„Ef það hefðu ekki verið neinar fram­farir hefði ég ekki viljað gera þetta. En af því að ég veit að það hafa verið fram­far­ir, það er komið kvenna­lands­lið, þeir eru lagðir af stað í ein­hverja veg­ferð og það var það sem ég vildi að við myndum styðja við.“

„Það er mín bjarg­fasta trú að þetta sé rétta leið­in.“

Að sýna til­finn­ingar gerir mann að betri leið­toga

Vanda hefur verið for­maður KSÍ í tæpa 15 mán­uði. Hún var fyrst kjörin for­maður á auka­þingi KSÍ í októ­ber í fyrra. Á árs­þingi sam­bands­ins í febr­úar var Vanda end­ur­kjörin með yfir­burð­um. Vanda fékk alls 105 atkvæði, eða rúm­­lega 70 pró­­sent greiddra atkvæða, en mót­fram­bjóð­andi henn­ar, Sævar Pét­urs­son, fram­kvæmda­stjóri KA, fékk 44 atkvæði, eða tæp­­lega 30 pró­­sent greiddra atkvæða.

Næsta for­manns­kjör verður í febr­úar 2024 en Vanda segir að allt of snemmt sé að segja til um hvort hún muni áfram gefa kost á sér. En hún er rétt að byrja.

„Ég gerði svona 100 daga áætl­un. Það var mesta bjart­sýniskast allra tíma. Það er reyndar margt sem er búið að ger­ast og líka margt sem er í ferli. En þetta ætti að vera 1000 daga áætl­un.“

Vöndu líður vel í starfi for­manns og segir það ákveðin for­rétt­indi að fá að vinna við hennar hjart­ans mál. „En þetta tekur mis mikið á, það fer aðeins eftir efn­inu. Því ofar í hjart­anu, því erf­ið­ara er það. Eins og þegar ég er gagn­rýnd fyrir að stuðla ekki að jafn­rétt­i.“

Gagn­rýni er hluti af starf­inu, Vanda er búin að átta sig á því. Í við­tali við RÚV í Katar í lok nóv­em­ber ræddi Vanda meðal ann­ars gagn­rýn­ina og komst við þegar talið barst að jafn­rétt­is­mál­um.

„Allt tal um það að ég sé ekki rétta mann­eskjan af því að ég hafi fellt tár, mér finnst það bara ekki rétt og það er heldur ekki góð þróun fyrir okkur sem sam­fé­lag, ef við ætlum þang­að. Ég segi að ég sé ekki verri og jafn­vel bara betri leið­togi, ég er með mikla sam­kennd, finn til með öðrum, tek hluti nærri mér og fæ auð­veld­lega tár í aug­un.“

„Og það er bara allt í lag­i.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnErla María Markúsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal