Lík eftir lík eftir lík. Mörg hundruð lík liggja á víð og dreif um götuna. Lík ungra karlmanna. Lík barna og jafnvel lík þungaðra kvenna. Þessi sjón mun fylgja Destu Gebreananya, fimm barna móður, það sem eftir er. Hún hefði getað verið drepin enda sömu þjóðar og þeir sem hlutu þau örlög. En henni tókst að fela sig í heila viku – hjá nágranna sem tilheyrir annarri þjóð, þjóð sem hermennirnir eru ekki að reyna að útrýma líkt og hennar.
Desta er af Tigray-þjóðinni sem kennd er við samnefnt svæði í Eþíópíu. Þegar hún sá líkin í hrönnum á götunni bjó hún enn í heimabæ sínum Abala í Afar-héraði sem liggur að Tigray. Þetta var 24. desember og vopnaðir hópar hliðhollir eþíópískum stjórnvöldum fóru um þorp og bæi í Afar dagana á undan og leituðu uppi Tigray-fólkið. Og drápu það.
Í stríðinu sem geisað hefur í að verða eitt og hálft ár í Eþíópíu er hvorug fylkingin með hreina samvisku enda hafa ýmsir vopnaðir hópar, hliðhollir annarri hvorri þeirra, blandað sér í átökin. Það eru engin ný tíðindi þegar átök brjótast út – hvar sem er í veröldinni. Hroðaverk gegn almennum borgurum, venjulegu fólki, hafa verið framin á báða bóga og átökin sem hófust í Tigray en hafa síðustu mánuði breiðst út til nálægra héraða, hafa kostað þúsundir mannslífa og hrakið milljónir fólks á flótta. Og hvert flýr fólkið? Til nágrannaríkjanna Súdan og Erítreu. Flest er það þó á vergangi innan landamæra Eþíópíu.
Desta greiddi smyglurum fyrir að koma sér og börnum sínum til Tigray þar sem hún taldi fjölskyldu sína þrátt fyrir það sem þar gengur á öruggari.
„Hermennirnir vörðu almenna borgara af öðru þjóðerni en þurrkuðu út Tigray-fólkið,“ segir Desta við fréttastofu Al Jazeera. Hún heldur til í flóttamannabúðum rétt utan við höfuðborg Tigray, Meklle. „Þeir drápu, hópnauðguðu, rændu og handtóku Tigray-fólkið sem þeir fundu í bænum. Aðeins ef þú þekktir einhverja af Afar-þjóðinni og gast falið þig hjá þeim áttir þú möguleika á að lifa af.“
Hún veit ekki enn hvað varð um eiginmanninn. Hann hvarf í innrás hermannanna í Abala og ekkert hefur spurst til hans síðan. „Enginn af Tigray-þjóðinni er eftir í bænum. Þeir frömdu þjóðarmorð,“ segir Desta.
Í nóvember árið 2020 sendi Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, vopnað herlið inn í Tigray-hérað í norðurhluta landsins. Tilgangurinn var að koma stjórnmálaflokknum sem þar fór með völd, Frelsisflokk Tigray-fólksins (TPLF), frá völdum. Abiy sakaði þá um að hafa ráðist á herstöð og réttlætti með þeim hætti innrásina sem hann nýtur liðsinnis hers Erítreu við. Óstaðfestar fregnir herma að hópar frá Sómalíu og vopn frá Sádi-Arabíu séu einnig notuð í hernaðinum.
Allt fór á annan endann á stuttum tíma. Ekki bara í Tigray heldur víða í hinu viðfeðma og fjölmenna landi. Átökin hafa borist til héraðanna Amhara og Afar en fólk af Tigray-þjóðinni hefur einnig orðið fyrir ofsóknum og árásum víðar í landinu.
En hvað varð til þess að allt fór í bál og brand? Líkt og í öllu stríði eru það völd sem barist er um. Og rótin felst m.a. í stjórnarkerfi Eþíópíu sem komið var á árið 1994. Síðan þá hefur landinu verið skipt í tíu héruð sem ólíkir þjóðernishópar fara með völdin í.
Frelsisflokkur Tigray-fólksins var sá sem átti mestan þátt í að koma héraðsstjórnakerfinu á og er umhugað um að það verði áfram við lýði. Fulltrúar hans leiddu fjögurra flokka stjórn sem ríkti í Eþíópíu frá árinu 1991 er herforingjastjórn var komið frá völdum.
Óánægja fór að krauma
Hagsæld Eþíópíu jókst undir samsteypustjórninni og allt var, eða virtist að minnsta kosti á yfirborðinu, með kyrrum kjörum um hríð. Reglulega komu þó upp áhyggjur og ásakanir um alvarleg mannréttindabrot og veikt lýðræði og að lokum fór það svo að óánægjan jókst verulega og mörgum fannst nóg komið.
Breytingar voru gerðar á ríkisstjórninni og Abiy var skipaður nýr forsætisráðherra. Hann stofnaði nýjan flokk, Velmegunarflokkinn (Prosperity Party) og rak nokkra lykilmenn af Tigray-þjóðinni úr stjórn sinni, menn sem sakaðir höfðu verið um spillingu og grófa valdníðslu.
Abiy hefur notið aðdáunar utan landsteinanna, ekki síst fyrir þátt sinn í að binda enda á langvarandi deilur um Erítreu, svæði sem tilheyrði Eþíópíu en varð að sjálfstæðu ríki á tíunda áratug síðustu aldar. Abiy hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 2019.
Sleit sambandi við Tigray
En vinsældir hans voru ekki jafnmiklar alls staðar heima fyrir enda hafði hann reitt leiðtoga Frelsisflokks Tigray-fólksins til reiði. Þeir litu svo á að Abiy væri að reyna að miðstýra landinu og eyðileggja héraðsstjórnarkerfið sem þeir vildu í lengstu lög standa vörð um.
Deilurnar hörðnuðu sífellt og í september er leiðtogar Tigray-héraðs vildu halda sínar eigin kosningar, sem stjórnvöld á landsvísu telja ólöglegt, komst allt á suðupunkt. Stjórn Abiy ákvað að slíta sambandi við Frelsisflokkinn og stöðva fjárframlög til héraðsins. Leiðtogar Frelsisflokksins, sem fundið höfðu völd sín dvína í lengri tíma, sögðu aðgerðirnar „jafnast á við stríðsyfirlýsingu“.
Ólgan jókst, Frelsisflokkurinn var sakaður um að ráðast að herstöð og stela þaðan vopnum og þá sagði Abiy að þeir hefðu „farið yfir línuna“. Átök brutust út og nú, einu og hálfu ári síðar, hafa þúsundir látist og milljónir þurfa nauðsynlega á mannúðaraðstoð að halda.
Hermenn eþíópískra stjórnvalda og vopnaðir hópar hliðhollir þeim hafa verið sakaðir um að beita kynferðisofbeldi í stríðinu, að hafa handtekið yfirgengilegan fjölda fólks og um aftökur. Hermenn Tigray hafa einnig verið sakaðir um ítrekað ofbeldi gegn almennum borgurum. Al Jazeera hefur eftir Norðmanninum og prófessornum Kjetil Tronvoll, sem þekkir vel til átakanna vegna ráðgjafastarfa sinna í Eþíópíu, að stríðið hafi orðið til þess að nágrannar berjast við hvern annan. Rof hefur orðið í samstöðu fólks með skelfilegum afleiðingum.
Stjórn Abiy Ahmeds hefur nú lýst yfir „ótímabundnu vopnahléi af mannúðarástæðum“. Forsætisráðherrann vonast til þess að loksins verði hægt að koma neyðaraðstoð til fólksins í Tigray þar sem hungursneyð blasir við hundruðum þúsunda manna. Hann kallaði á fimmtudag eftir því að herir Tigray-héraðs leggi einnig niður vopn og dragi sig frá öðrum héruðum. „Ríkisstjórn Eþíópíu vonast til þess að vopnahléið muni bæta aðstöðu fólksins og vísa veginn í átt að lausn á átökunum svo ekki þurfi að koma til frekari blóðsúthellinga.“
Vopnahlé?
Sameinuðu þjóðirnar segja að Tigray-hérað hafi verið svo einangrað vegna stríðsátakanna að ekki hafi verið hægt að koma þangað neyðaraðstoð frá því í desember. Stríðandi fylkingar benda hvor á aðra. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa sakað stjórn Abiy um að einangra Tigray-fólkið og koma í veg fyrir aðstoð til þeirra. En stjórnvöld benda hins vegar á uppreisnarmennina og segja ábyrgðina liggja hjá þeim. Frelsisflokkurinn hefur verið ásakaður um hafa viljandi búið til neyðarástand, nota hungur sem vopn í sinni valdabaráttu.
Um 40 prósent fólksins í Tigray, svæðis sem á búa um sex milljónir manna, eru í brýnni þörf á mat að sögn Sameinuðu þjóðanna.
Á föstudag samþykktu uppreisnarhóparnir í Tigray að leggja niður vopn, svo lengi sem neyðaraðstoðin berist til héraðsins fljótt og örugglega.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, er frá Tigray-héraði. Hann segir hörmungar hafa fylgt stríðinu og hvetur til þess að almennum borgurum verði hlíft við frekari átökum.
Hvernig sem fer er talið að mannúðaraðstoðar, lyfja, matvæla og annars stuðnings, gerist þörf að minnsta kosti allt þetta ár.