„Þetta rústaði svolítið jólunum í fyrra“
Jólasýning Ásmundarsalar er nú haldin í fjórða sinn undir yfirskriftinni Svona eru jólin og segir Aðalheiður Magnúsdóttir, eigandi hússins, veggina hafa aldrei verið jafn þétt skipaða. Hún líkir jólasýningunni við myndlistarannál ársins 2021, enda var sérstaklega óskað eftir nýjum verkum fyrir sýninguna. Uppákoman á Þorláksmessu í fyrra var ein sú leiðinlegasta sem Aðalheiður hefur lent í en í ár verður farið að öllu með gát.
Jólasýningar líkt og þær sem á síðustu árum hafa sprottið upp kollinum eru langt í frá nokkurra ára gamall siður. Um miðja síðustu öld voru til að mynda nokkrar slíkar jólasýningar haldnar að Freyjugötu 41, í Ásmundarsal Í umfjöllun Þjóðviljans frá 11. desember 1949 um eina þá allra fyrstu segir að það hafi verði verið stillt svo í hóf að listaverkin á sýningunni gætu vel ratað í jólapakkana. Strax þá var rætt um að gera slíka jólasýningu að árlegum viðburði á aðventunni og nokkrar slíkar sýningar voru haldnar í húsinu þegar þar var rekinn Listvinasalurinn á sjötta áratugnum.
Þessi siður var svo endurvakinn í Ásmundarsal fyrir um þremur árum síðan þegar fyrsta jólasýningin, Le Grand Salon de Noël, leit dagsins ljós. Jólasýning Ásmundarsalar er því nú haldin í fjórða sinn, í þetta sinn undir yfirskriftinni Svona eru jólin. Eigandi hússins, Aðalheiður Magnúsdóttir, eða Heiða eins og hún er iðulega kölluð, segir veggina í Ásmundarsal aldrei hafa verið jafn þétt skipaða og nú. Um 180 listamenn eigi verk á jólasýningunni þetta árið, alls um 600 talsins. Listaverkin eru af ýmsum toga, málverk, teikningar, ljósmyndir, skúlptúrar og grafík og prentverk, svo eitthvað sé nefnt.
Opin vinnustofa í Gryfjunni allan sýningartímann
Heiða stendur ekki ein í stafni við gerð jólasýningarinnar, sýningarstjórar eru listamennirnir Leifur Ýmir Eyjólfsson og Sigurður Atli Sigurðsson. Þeir hafa á undanförnum árum starfrækt prentverkstæði og og staðið fyrir útgáfu undir nafninu Prent & vinir. Á sýningartíma halda Prent & vinir úti grafíkverkstæði í Gryfjunni í Ásmundarsal, nokkurs konar opinni vinnustofu, þar sem gestum gefst kostur að fylgjast með ólíkum listamönnum að störfum og kaupa verk þeirra nánast áður en þau þorna.
Þrátt fyrir að jólasýningin standi yfir í um þrjár vikur ár hvert þá litar hún starf Heiðu allt árið enda þarf mikinn undirbúning til að koma sýningu sem þessari á koppinn. „Við erum varla búin að taka niður jólasýninguna þegar undirbúningur fyrir næstu jólasýningu hefst,“ segir Heiða. „Þá förum við yfir hvað megi betur fara, hvernig við getum skipulagt okkur betur og annað þess háttar en þetta er að verða straumlínulagaðra með hverju árinu hjá okkur.“
Áður en uppsetning getur hafist þarf einnig að velja inn verk á sýninguna. „Við veljum listamenn sem við bjóðum að taka þátt í sýningunni. Þetta árið óskuðum við eftir að verk væru sérstaklega unnin fyrir þessa sýningu “ Þannig að þetta er mjög skipulagt þó þetta hafi á sér þennan ævintýralega, kaotíska brag. Það má segja að þetta sé mjög vel undirbúið og skipulagt kaós,“ segir Heiða.
Sú hefð hefur skapast á jólasýningum að hengja upp verk með svokölluðu salon-upphengi, þar sem veggirnir eru nýttir til hins ítrasta og öllum reglum um miðlínu og augnhæð er kastað á glæ. Það er þó ekki svo að kylfa sé látin ráða kasti við uppsetningu sýningarinnar sem tekur um viku. Heiða segir þá viku vera mjög skemmtilegan tíma. „Þá byrjum við í þessum „tetris“ að sjá hvað passar saman og hvernig litir virka og hvernig þetta flæðir allt saman, svo það er líka mikil kúnst að láta þetta allt mynda eina fallega heildar mynd.“
Sýningin og sýningarskráin annáll myndlistar hvers árs
Við uppsetninguna gefst líka tækifæri til þess að kynnast verkunum. „Það sem er líka gaman er að þegar við erum búin að vera hengja upp þessar myndir í heila viku, þá þekkir maður orðið myndirnar og listamennina og er búin að kynna sér hvað liggur að baki. Það er því ánægjulegt að miðla þeim upplýsingum áfram til gestanna.“
Er einhver rauður þráður í listaverkum íslenskra samtímalistamanna í dag eða er eitthvað sérstakt sem íslenskir samtímalistamenn fjalla um, umfram annað?
„Sigurður Atli lýsir því vel þegar hann segir að maður verði var við að listamenn leyfi efninu að taka völdin, það fær að flæða óhindrað. Myndlist á það til að búa til mótefni fyrir samfélagið sem undanfarið hefur skilgreinst af hindrunum. Það verður athyglisvert þegar fram líða stundir að leita aftur í bæklinga síðustu ára og sjá hvaða straumar voru í gangi á hverjum tíma. Það má segja að sýningin og þar af leiðandi bæklingurinn sé annáll þess sem er að gerast í list ár hvert. Hér koma saman bæði nýútskrifaðir listamenn jafnt sem eldri og reyndari.“
Í ár líkt og áður hefur verið lögð mikil vinna í þennan bækling. Hvað geturðu sagt mér um hann?
„Hann hefur, eins og sýningin sjálf, þróast frá sýningu til sýningar. Þetta árið er það Olga Elliot sem hannar bæklinginn í samstarfi við Prent og vini og í honum má finna smá „bio“ um hvern listamann fyrir sig. Bæklinginn má einnig finna á netinu á asmundarsalur.is.“
„Hellingur“ nú þegar selst
Spurð að því hvort mikið hafi selst segir Heiða að sýningin hafi farið virkilega vel af stað og greinilegt að fólk sé mjög áhugasamt. Nú þegar er búið að selja „alveg helling“.
„Við buðum fólki upp á pönnukökur þegar við opnuðum. Við vorum með tjald hérna fyrir utan þannig að fólk gæti hinkrað þar ef það væri of margt fólk í salnum, í ljósi aðstæðna. Og það var ótrúlega fallegt flæði af fólki allan daginn. Veðrið lék við okkur og það var einstakur hátíðleiki í loftinu.“
Nú hafa svona basarar verið að spretta upp og þeim fjölgað á síðustu árum. Hvað veldur því?
„Áhugi á list hefur stóraukist og kannski er yngra fólkið farið að sækja meira í að vera með alvöru list frekar heldur en í plakatamenninguna sem var mjög lengi í tísku.“
Eitt af því sem Heiðu finnst svo skemmtilegt við það að halda þessa sýningu ár eftir ár er að fá að fylgjast með þessu verða að hefð hjá fólki. „Það er orðin hefð hjá fólki að líta til okkar í bæjarferð fyrir jólin og margir sem kaupa sér alltaf verk. Hjón koma saman og kaupa sér sameiginlega jólagjöf. Ungt fólk og jafnvel unglingar eru að kaupa sér verk í jólagjöf, svona sitt fyrsta listaverk.“
Spurð að því hvort jólabasararnir séu orðnir mikilvægir fyrir listamenn, á svipaðan hátt og jólabókaflóðið fyrir rithöfunda, segir Heiða svo vera. Hægt sé að tala um listamarkaðaflóð og með því fylgi aukin fjölbreytni.
Getur íslenskur listmarkaður staðið undir því að svona margir stórir basarar séu haldnir á þessum skamma tíma ár eftir ár?
„Það hlýtur að þýða það að listamarkaðurinn hefur stækkað síðustu árin sem er mjög ánægjulegt.“
Hissa á að húsið skyldi selt á opnum markaði
Menningarstarfsemi hvers konar hefur einkennt húsið sem stendur að Freyjugötu 41 nánast allar götur síðan Ásmundur Sveinsson reisti húsið handa sér og Gunnfríði Jónsdóttur konu sinni. Þau fluttu inn á Freyjugötuna árið 1934 og iðkuðu þar list sína en þau voru bæði myndhöggvarar. Árið 1940 skildu Ásmundur og Gunnfríður og þau skiptu í kjölfarið húsinu á milli sín. Gunnfríður fékk syðri helming hússins en Ásmundur nyrðri hlutann. Gunnfríður bjó og starfaði í sínum helmingi hússins allt þar til hún lést árið 1968. Ásmundur reisti sér aftur á móti nýtt íbúðarhús og vinnustofu í Sigtúni eftir skilnaðinn, hvar Ásmundarsafn er til húsa í dag.
Í sínum helmingi Ásmundarsalar rak Ásmundur sýningarsal um tíma og þar var Listvinasalurinn starfræktur á árunum 1951 til 1954 og svo var þar Myndlistaskólinn í Reykjavík til húsa um árabil. Áður en Heiða festi kaup á húsinu ásamt manni sínum, fjárfestinum Sigurbirni Þorkelssyni, hafði Listasafn ASÍ haft þar aðsetur. Þegar Alþýðusambandið auglýsti húsið til sölu hafði sumt fólk af því áhyggjur að menningarstarfsemi gæti lagst af í húsinu og eftir að fréttir voru fluttar af því að Aðalheiður og Sigurbjörn hefðu keypt húsið sættu kaupin jafnvel ákveðinni gagnrýni.
Hvernig var það að fylgjast með þeirri umfjöllun og að lesa þessa gagnrýni?
„Þessi gagnrýni var mjög skiljanleg. Ég var í raun og veru alveg jafn hissa og allir aðrir að húsið væri selt á almennum markaði. Við lesum á sínum tíma í fasteignaauglýsingunum í Mogganum að húsið væri til sölu.“
Heiða segir því næst frá útskriftarverkefni sínu í hönnun og markaðssetningu frá Parsons háskóla í New York sem snerist um það að skapa listhús þar sem allar listir myndu sameinast undir einu þaki í bland við vinnustofu listamanna. Í húsinu átti líka að vera kaffihús þar sem fólk gæti komið saman.
„Það er orðið mjög langt síðan þessi hugmynd kviknaði en greinilega eitthvað sem að blundaði í manni. Þannig að þegar við sáum þetta auglýst þá hugsuðum við að þetta væri auðvitað fullkomið húsnæði fyrir þetta gamla útskriftarverkefni, þó við hefðum ekki verið með alveg fullmótaða sýn. Það sem er ánægjulegast er að jafnvel þeir sem að gagnrýndu þetta á sínum tíma hafa glaðst með okkur yfir því að vel hefur tekist til.“
Dagskrá hússins hugsuð „fyrir öll skilningarvitin“
Eftir að kaupin voru frágengin tóku við framkvæmdir. Parketið í sýningarsalnum á efri hæðinni var rifið upp og nú ganga gestir þar um gólf á fallegum, grænum terrazzo flísum. Á jarðhæðinni þurfti mikið átak til þess að opna rýmið þar sem nú er kaffihús en í tíð Listasafns ASÍ var sá hluti hússins hólfaður niður í smærri herbergi, líkt og minnugt myndlistaráhugafólk man ef til vill eftir.
„Við vildum setja inn kaffihús, þannig að við breyttum aðeins og færðum til veggi niðri til þess að ná þessu rými og fá svona hjarta í húsið. Gryfjan fékk svo aftur það hlutverk að vera vinnustofa listamanna. Það fer oft ekkert á milli mála hvað er um að vera í Gryfjunni. Hér hafa verið listamenn sem vinna í olíu og þá er olíumálningarlykt í húsinu og þegar Hákon Bragason og Almar Atlason voru hér með smíðaverkstæði þá angaði allt húsið af sagi.“
En hvernig er það að vinna í þessu húsi?
„Það er yndislegt. Það eru náttúrlega ótrúleg forréttindi að fá að vinna í svona skapandi umhverfi. Hér er alltaf líf, meira að segja út í garði,“ segir Aðalheiður og á þá við Matthías Rúnar Sigurðsson myndhöggvara sem hefur höggvið stórar sem smáar myndir sínar í stein um nokkra hríð í garði Ásmundarsalar. Og upptalningin á ólíkum listgreinum sem snert er á í Ásmundarsal heldur áfram:
“Eins og ég hef sagt áður þá er Ásmundarsalur hugsaður fyrir öll skilningarvitin. Hvort sem það er myndlist, dans, músík, hönnun eða matarupplifanir, við finnum því stað. Við pössum okkur líka að skilja alltaf eftir rými í dagskránni fyrir eitthvað óvænt og skemmtilegt sem gæti dottið inn. Til dæmis í fyrra vegna COVID, þá færðust til hlutir hjá okkur og þá náðum við að koma inn leiklistarsýningu. Þá máttu einungis 25 manns koma inn í einu.“
Leiklistarsýningin sem um ræðir er Haukur og Lilja - Opnun eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem sýnd var við góðan orðstír í Ásmundarsal. Hún hlaut á endanum sex tilnefningar til Grímuverðlauna og hlaut Edda Björg Eyjólfsdóttir Grímuna fyrir leik sinn.
Finnst skemmtilegast að taka á móti börnum
Aðspurð segist Heiða vera mjög stolt af því starfi sem unnið hafi verið í Ásmundarsal á nýliðnum árum. Það þakkar hún ekki síst góðu samstarfsfólki en í dag er það Ólöf Rut Stefánsdóttir upplifunarhönnuður sem sér um daglegan rekstur Ásmundarsalar.
„Ég er með frábært fólk með mér sem er líka með alla anga úti að leita að einhverju athyglisverðu og skemmtilegu. Við auglýsum á haustin eftir umsóknum um viðburði og sýningar í húsinu. Núna í haust voru 250 umsóknir sem bárust fyrir næsta ár. Það er ekki ósvipað listaannálnum á jólasýningunni, að þegar þú færð 250 umsóknir í fangið þá sérðu hvað er að gerast í dansi, hvað er að gerast í myndlist og það er bara virkilega skemmtilegt að fara í gegnum það ásamt fagráði Ásmundarsalar. Því miður getum við ekki tekið við nema brotabroti af því.“
Er eitthvað á þessum rúmu þremur árum sem hefur sérstaklega staðið upp úr fyrir þig úr starfi Ásmundarsalar?
„Það er bara svo margt. Þetta er bara eins og börnin manns, maður vill ekki velja á milli þeirra. Það sem var virkilega gaman að sjá var fyrsta sýningin sem við vorum með eftir opnunina. Á Listahátíð 2018 vorum við með Atómstjörnuna sem var samvinna á milli dansara, leikara og myndlistarfólks. Þau tóku yfir allt húsið, garðinn, svalirnar og kjallarann, og húsið fylltist af lífi sem var svo alltumlykjandi. Þessi hópur vann að verkinu inni í húsinu á meðan á framkvæmdum stóð. Þannig að þetta verk fór í gegnum allar framkvæmdirnar og endaði með okkur í frumsýningu á húsinu. Það á sérstakan stað í hjartanu af því að þetta var það fyrsta sem við sýndum og það fékk einstaklega góðar viðtökur.“
Annars heldur Heiða sérstaklega upp á það að taka á móti börnum í húsið og hefur hún tekið upp á því að bjóða upp á heimsóknir fyrir barnaheimilin og skólana í nágrenni Ásmundarsalar.
„Mér finnst alltaf ótrúlega gefandi að taka á móti ungum börnum og segja þeim frá verkunum. Leifur Ýmir er til dæmis með eitt grillað verk hér á jólasýningunni, hann bókstaflega grillar verk á grilli. Þeim finnst það alveg ótrúlega skemmtilegt. „Hvað segirðu, setur hann það bara í alvörunni á grillið?!“ spyrja börnin.“
Farin að geta brosað yfir uppákomunni á Þorláksmessu
Fjölmiðlaumfjöllun um jólasýningu þessa árs litast töluvert af síðasta kvöldi jólasýningarinnar í fyrra. Óþarfi er að rekja í löngu máli atburðarásina í Ásmundarsal á Þorláksmessu í fyrra þegar lögreglan var á ellefta tímanum á Þorláksmessukvöldi „kölluð til vegna samkvæmis í sal í útleigu í miðbæ Reykjavíkur,“ líkt og það var orðað í upplýsingapósti úr dagbók lögreglunni sem sendur var út að morgni aðfangadags. Í þessum upplýsingapósti lögreglunnar var einnig sérstaklega tekið fram að í hópnum hafi um 40-50 gestir verið samankomnir í salnum, „þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands,“ og á aðfangadag kom það í ljós að um var að ræða Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra.
Nú í byrjun desember var til að mynda sagt frá opnun jólasýningarinnar á Smartlandi Mörtu Maríu á mbl.is undir fyrirsögninni „Sölusýningin sem Bjarni gerði fræga opnar aftur“. Skömmu eftir opnun var innslag í kvöldfréttum Stöðvar 2 sent út í beinni frá Ásmundarsal þar sem tekið var viðtal við Auði Ómarsdóttur og hún spurð út í verk sitt á jólasýningunni sem nefnist B.B. Verk Auðar er 40 sinnum 50 sentímetra olíumálverk, portrettmynd af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.
Hvernig horfir þetta mál allt saman við eigendum Ásmundarsalar?
„Þetta var náttúrlega hið leiðinlegasta mál. En ég held að þessi síðasta frétt með Auði sýni það að fólk er farið að geta aðeins brosað út í annað yfir þessu.“
Svo eins og staðan er núna, þá eruð þið farin að geta hlegið að þessu?
„Við erum að komast þangað. Þetta eitt það leiðinlegasta sem ég hef lent í, þetta rústaði svolítið jólunum í fyrra, það verður bara að segjast eins og er.“
Dróguð þið einhvern lærdóm af þessu?
„Við bara erum mjög löghlýðin,“ segir Heiða kímin. „En eftir allan þennan tíma og allar þessar rannsóknir og yfirheyrslur sem fóru fram þá fáum við sekt fyrir það að við Sigurbjörn vorum ekki með grímur. Það var eina brotið. Við máttum vera með opið og hér voru ekki of margir. Fjölmiðlar voru lítið að leggja áherslu á það þegar það loksins kom í ljós að það var ekki neitt brot framið annað en það að grímunotkun var ábótavant.“
Og til hvað er opið á Þorláksmessu í ár?
„Til klukkan tíu,“ segir Heiða og brosir.