Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill fá að vita hvers vegna fjölmiðlanefnd ætlaði ekki að kalla eftir frekari upplýsingum um eignarhald 365 miðla eftir sameiningu fyrirtækisins við fjarskiptafyrirtækið Tal. Þetta kemur fram í fyrirspurn sem Willum Þór hefur beint til mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi um hlutverk fjölmiðlanefndar og endurskoðun laga um fjölmiðla.
Kjarninn greindi frá því í desember 2014 að fjölmiðlanefnd ætlaði ekki að kalla eftir frekari upplýsingum um eignarhald 365 miðla eftir sameiningu fyrirtækisins við Tal þrátt fyrir að endanlegir eigendur 18,6 prósent hlutar væru ekki sýnilegir á eigendalista fjölmiðlafyrirtækisins. Í kjölfarið af umfjöllun Kjarnans ákvað fjölmiðlanefnd að óska eftir frekari upplýsingum um eignarhaldið en nefndin hefur ekki gefið skýringar hvað olli þeim sinnaskiptum.
Fjölmiðlanefnd hafa ekki borist upplýsingar um endanlegt eignarhald tveggja stórra fjölmiðlafyrirtækja, 365 miðla og DV ehf.. Þetta kom fram í svari Elfu Ýrar Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar, við fyrirspurn á Pressukvöldi Blaðamannafélags Íslands og Félags fréttamanna um sviptingar á fjölmiðlamarkaði í gærkvöldi. Elfa Ýr sagði hins vegar að upplýsingarnar væru að berast og yrðu birtar á heimasíðu nefndarinnar þegar þær væru komnar í hús.
Fullnægjandi svör hafa ekki borist
Ljóst er að eignarhald á fjölmiðlum og þær sviptingar sem hafa orðið á fjölmiðlamarkaði hafa náð athygli þingheims. Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði í gær fram fyrirspurn á Alþingi um störf og hlutverk fjölmiðlanefndar og endurskoðun laga um fjölmiðla til Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra. Hún er í tíu liðum.
Willum Þór vill meðal annars fá að vita hvers vegna fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að kalla eftir upplýsingum frá 365 miðlum um breytingar á eignarhaldi þess fyrirtækis um leið og breytingar lágu fyrir og hvers vegna nefndinni hafi síðar snúist hugur og kallað eftir frekari upplýsingum.
Þann 16. desember greindi Kjarninn frá því að fjölmiðlanefnd yrði ekki upplýst um hverjir endanlegir eigendur 18,6 prósent hlutar í fjölmiðlafyrirtækinu 365 miðlum væru og að hún myndi ekki fara fram á frekari upplýsingar um þá. Í kjölfarið af umfjöllun Kjarnans snérist hugur fjölmiðlanefndar og hún ákvað að óska eftir frekari upplýsingum um eignarhaldið. Frestur var gefinn til 5. janúar 2015 til að skila inn réttum upplýsingum og varð fyrirtækið við því. Upplýsingarnar voru hins vegar ekki fullnægjandi og fjölmiðlanefnd hefur farið fram á frekari upplýsingar.
Kjarninn greindi frá því 29. desember að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna og Almenni lífeyrissjóðurinn séu á meðal ellefu lífeyrissjóða sem eru nú óbeinir eigendur að hlut í fjölmiðlafyrirtækinu 365 miðlum í gegnum Auði 1 fagfjárfestingasjóð. Alls eru eigendur sjóðsins 26 talsins.
Einn þeirra, AC eignarhald hf., á meira en tíu prósent hlut í sjóðnum. Það er félag í eigu margra stærstu hluthafa og stjórnenda Virðingar, fjármálafyrirtækinu sem stýrir Auði 1 sjóðnum. Þetta kemur fram í ársreikningi Auðar 1 fyrir árið 2013 sem Kjarninn hefur undir höndum.
Nýjar upplýsingar um eignarhald DV
Á pressukvöldi sem haldið var í gærkvöldi á vegum Blaðamannafélags Íslands og Félags fréttamanna, um sviptingar á fjölmiðlamarkaði, var Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, á meðal frummælenda. Aðspurð sagði hún að réttar upplýsingar um eignarhald 365 miðla hefðu enn ekki borist. Þegar þær hefðu gert það yrðu þær upplýsingar birtar á heimasíðu nefndarinnar.
Ein spurninganna sem Willum Þór vill fá svör við er hvort að fjölmiðlanefnd hafi kallað eftir upplýsingum um viðskipti og breytingar á eignarhaldi DV og greint möguleg áhrif á ritstjórnarlegt frelsi fjölmiðilsins?
Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi DV, á pressukvöldinu í gær.
Breytingarnar sem hann spyr um snúast um kaup sem Björn Ingi Hrafnsson leiddi á um 70 prósent hlut í DV sem gengu í gegn í desember. Upplýsingar um eignarhald DV hafa hins vegar ekki verið uppfærðar á heimasíðu fjölmiðlanefndar síðan að yfirtakan gekk í gegn. Björn Ingi var líka á meðal frummælenda á pressukvöldinu í gær. Í máli hans kom fram að aðrir í eigendahópnum væru meðal annars lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson (tíu prósent hlutur), Jón Óttar Ragnarsson (ellefu prósent hlutur) og Steinn Kári Ragnarsson, framkvæmdastjóri DV (tíu prósent hlutur). Auk þess sagði Björn Ingi að til stæði að selja 30 prósent hlut til viðbótar á næstu mánuðum. Áður hafði Björn Ingi staðfest að stór hluti kaupverðsins á DV hefði verið fjármagnaður með láni frá seljendum hlutarins. Sá hópur er leiddur af Þorsteini Guðnasyni og tók yfir DV í haust eftir harðvítug átök við Reyni Traustason, fyrrum ritstjóra DV og minnihlutaeiganda, og hóp sem honum tengist.
Átökin enduðu með að Þorsteinn og viðskiptafélagar hans tóku yfir DV og sögðu Reyni upp störfum. Þeir seldu síðan Birni Inga sinn hlut.
Vill upplýsingar um afskipti hjá 365
Í fyrirspurn Willums Þórs er einnig að finna spurningar um viðbrögð fjölmiðlanefndar við því þegar Kristín Þorsteinsdóttir, þá útgefandi 365 miðla sem starfar í umboði eigenda miðilsins, hafði afskipti af fréttaflutningi á Vísi.is sem þáverandi ritstjórar 365 miðla sögðu að hafi brotið í bága við ritstjórnarreglur miðilsins og lög um fjölmiðla. Willum Þór spyr um hvort fjölmiðlanefnd hafi óskað eftir upplýsingum um málið og ef ekki, af hverju ekki?
Ólafur Stephensen, fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði leiðara sem opinberaði óeðlileg afskipti eigenda að fréttaflutningi.
Annar ritstjórinn, Ólafur Stephensen, sagði í bréfi sem hann skrifaði til starfsmanna 365 miðla þegar hann hætti störfum að þrengt hefði verið að ritstjórnarlegu sjálfstæði sínu. Ólafur hafði skömmu áður ritað leiðara í Fréttablaðið þar sem sagði meðal annars: „Það eru ýmsar aðferðir til að hola hið ritstjórnarlega sjálfstæði að innan. Ein getur verið að gera sífelldar athugasemdir við fréttaflutning sem tengist eigendunum og vona að það síist inn hjá stjórnendum ritstjórnarinnar að það sé betra að sleppa slíkri umfjöllun en að styggja eigendurna. Önnur getur verið að gera ekki beinar athugasemdir við umfjöllun sem snýr að eigendunum, heldur skrúfa upp þrýstinginn vegna annarra mála sem snúa að ritstjórninni þannig að stjórnendurnir skilji samhengið. Það getur þurft sterk bein til að þola slíkan þrýsting. Sú þriðja getur svo verið að ráða til stjórnunarstarfa á ritstjórnum fólk sem er nægilega náið og handgengið eigendunum til að láta prinsipp um ritstjórnarlegt sjálfstæði ekki þvælast fyrir sér“.
Fyrirspurn Willums Þórs í heild sinni:
1. Hvers vegna taldi fjölmiðlanefnd ekki ástæðu til að kalla eftir upplýsingum frá 365 miðlum um breytingar á eignarhaldi um leið og breytingarnar lágu fyrir og hvers vegna snerist nefndinni síðar meir hugur og kallaði eftir upplýsingum?
2. Hversu oft kallaði fjölmiðlanefnd árin 2011–2014 eftir upplýsingum og gögnum um starfsemi fjölmiðla og eftir hvaða upplýsingum var þá kallað?
3. Hvernig vinnur nefndin að því að sinna starfsskyldum sínum, sem skv. 10. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, eru að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum og að standa vörð um tjáningarfrelsið?
4. Hvernig túlkar nefndin rétt almennings til upplýsinga og hvernig sinnir nefndin varðstöðu sinni um þann rétt?
5. Starfar fjölmiðlanefnd að því að kortleggja fjölmiðlamarkaðinn, fylgjast með stöðu og þróun og safna upplýsingum þar að lútandi? Safnar fjölmiðlanefnd og vinnur úr upplýsingum um aldursdreifingu, kynjahlutföll, menntunardreifingu og menntunarstig notenda fjölmiðlanna, eða öðrum viðeigandi upplýsingum?
6. Óskaði nefndin eftir upplýsingum um meint afskipti útgefanda 365 miðla, starfandi í umboði eigenda, af fréttaflutningi á fjölmiðlaveitunni Vísi sem ritstjórar töldu brjóta í bága við ritstjórnarreglur miðilsins og lög um fjölmiðla? Ef ekki, hvers vegna ekki? Ef upplýsinga var óskað hjá fjölmiðlaveitunni, hvers vegna heyrðist ekkert opinberlega frá nefndinni um málið?
7. Hefur fjölmiðlanefnd kallað eftir upplýsingum um viðskipti og breytingar á eignarhaldi DV og greint möguleg áhrif á ritstjórnarlegt frelsi fjölmiðilsins?
8. Hvernig tryggir fjölmiðlanefnd jafnræði og gagnsæi gagnvart aðilum sem leita réttar síns hjá nefndinni vegna ágreinings við Blaðamannfélag Íslands þar sem félagið á fulltrúa í nefndinni?
9. Hversu margar kvartanir hafa borist fjölmiðlanefnd skv. 11. gr. laga um fjölmiðla og hversu margar hafa verið afgreiddar með áliti?
10. Hver er staðan á endurskoðun á lögum um fjölmiðla sem er kveðið er á um í lögunum að skuli fara fram innan þriggja ára frá setningu þeirra? Stendur til að fara í þá vinnu ef hún er ekki þegar hafin?