Slitastjórn Landsbankans var tilkynnt af stjórnvöldum að hún gæti búist við að fá svör hvort, og þá hvaða, breytingar þyrfti að gera á samkomulagi hennar við nýja Landsbankans um lengingu á greiðslum af skuldabréfum upp á 228 milljarða króna sem nýi bankinn skuldar þeim gamla.
Hugmyndin var að við hefðum þá fáeina daga til að fara yfir málið og taka afstöðu til þess áður en fresturinn rynni út. En við erum ekki búnir að fá nein svör.
Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnarinnar, segir að á þeim grunni hafi verið ákveðið að framlengja lokafrest á frágangi samkomulagsins um viku, en upprunalegi fresturinn rann út síðastliðinn föstudag. Sá nýji, sem var settur á föstudag, er 31. október 2014. „Hugmyndin var að við hefðum þá fáeina daga til að fara yfir málið og taka afstöðu til þess áður en fresturinn rynni út. En við erum ekki búnir að fá nein svör. Þannig að við vitum ekki hvort þau eru á leiðinni eða hvað,“ segir Páll.
Greiðsla fyrir eignir sem voru færðar
Í desember 2009 var samið um uppgjör milli þrotabús gamla Landsbankans og nýja Landsbankans vegna þeirra eigna sem færðar voru þar á milli eftir bankahrunið. Í samkomulaginu fólst meðal annars að íslenska ríkið eignaðist nýja bankann utan lítils hlutar sem myndi renna til starfsmanna hans. Á móti gaf þrotabúið út uppgjörsskuldabréf sem nýi bankinn átti að greiða vegna þeirra eigna sem hann tók yfir.
Skuldabréfin voru upp á mörg hundruð milljarða króna í erlendum gjaldmiðlum og lokagreiðsla átti að vera innt af hendi í október 2018, tíu árum eftir fall Landsbankans. Því var ljóst að nýi Landsbankinn þurfti að verða sér úti um mikið magn af gjaldeyri til að standa við greiðslurnar.
Fljótt varð ljóst að svona miklar útgreiðslur á gjaldeyri, á jafn skömmum tíma, myndu ógna greiðslujöfnuði þjóðarbúsins verulega. Því var þrýst verulega á að fyrirkomulaginu yrði breytt.
228 milljarðar í erlendum gjaldeyri
Þann 8. maí síðastliðinn var tilkynnt um að samkomulag hefði náðst milli Landsbankans og þrotabús gamla Landsbankans um breytingar á skilmálum skuldabréfanna, en eftirstöðvar eru um 228 milljarðar króna. Samkomulagið snérist um að lengt yrði í greiðslum af skuldabréfunum til ársins 2026 gegn því að vaxtakjör myndu hækka eftir árið 2018. Það var hins vegar bundið því að Seðlabanki Íslands myndi veita undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál, enda höft á fjármagnsflutninga í gildi í landinu.
Skrifað var undir nýtt samkomulag milli nýja og gamla Landsbankans í maí 2014. Það fellur úr gildi ef ekki semst um undanþágur vegna samkomulagsins í þessari viku.
Tilboðið um nýja samkomulagið gildir fram á næsta föstudag. Eftir þann tíma fellur það niður og gamla samkomulagið heldur áfram gildi sínu. Samkvæmt því þarf að ljúka greiðslur í október 2018. Verði ekki af lengingu skuldabréfa milli gamla og nýja Landsbankans þyrfti innlend eftirspurn að dragast saman og gengi krónunnar að lækka til að þjóðarbúið geti skapað meiri gjaldeyristekjur til að standa undir greiðslunum.Seðlabankinn metur að gengi krónunnar þyrfti að lækka um átta prósent til að gera þetta mögulegt.
Stál í stál hjá stjórnvöldum
Samkvæmt fjölmörgum heimildum Kjarnans er ástæða þess að Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið hafa ekki lagt fyrir þrotabú Landsbankans tillögur um skilyrði sem þrotabúið þarf að mæta til að undanþágurnar verði veittar er einföld, það er ekki eining um að semja við kröfuhafa með þessum hætti innan ríkisstjórnarinnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er sagður alfarið á móti því að semja um framlengingu á skuldabréfum milli nýja og gamla Landsbankans.
Æðstu stjórnendur Seðlabanka Íslands og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, eru sagðir vera hlynntir því að semja við þrotabúið um framlengingu á skuldabréfinu með ákveðnum breytingum á fyrirliggjandi samkomulagi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og nánustu samstarfsmenn hans eru algjörlega á móti þessari niðurstöðu.
Sigmundur Davíð lýsti yfir andstöðu við lengingu á gjalddögum skuldabréfa Landsbankans í ræðu á Alþingi í maí síðastliðnum. Þar sagði hann meðal annars: Það að lengja í þessu bréfi og það á hærri vöxtum er hins vegar ekkert augljóslega góður kostur. Þegar einhver skuldar eitthvað sem hann getur ekki borgað leysir það ekki öll mál að hækka vextina og láta þá tikka í lengri tíma.
Það sem snýr hins vegar að stjórnvöldum í þessu máli er hvort forsvaranlegt sé að veita undanþágu frá gjaldeyrishöftunum bara fyrir þessa aðila á meðan aðrir verða áfram lokaðir hér innan hafta. Það getur ekki verið forsvaranlegt að veita undanþágu fyrir einn eða tvo tiltekna aðila til þess að sleppa út með gjaldeyri, jafnvel niðurgreiddan gjaldeyri, gjaldeyri sem yrði þá niðurgreiddur af þeim sem eftir sætu í höftum og þar með talið íslenskum almenningi, hugsanlega með varanlegri skerðingu á raungengi krónunnar sem þýðir einfaldlega lakari lífskjör í landinu til framtíðar. Slík niðurstaða væri alltaf óásættanleg og þar af leiðandi gætu stjórnvöld ekki heimilað undanþágu frá höftunum sem leiddi til slíks.“