Íslandsbanki tekur nú saman lista yfir hluthafa í bankanum fyrir og eftir sölu á 22,5 prósent hlut í bankanum í síðustu viku með rúmlega fjögurra prósent afslætti af markaðsvirði. Sá listi verður aðgengilegur öllum hluthöfum. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í munnlegri skýrslu um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór í þinginu á miðvikudag.
Bjarni sagði enn fremur að þar verði hægt „að bera saman hluthafalistann eins og hann stóð fyrir söluna og eins og hann stendur núna eftir söluna.“ Auk þess sé von á ítarlegri samantekt frá Bankasýslu ríkisins um söluna sem yrði kynnt ráðherranefnd um ríkisfjármál á fundi sem fór fram í gær. „Ég hef enn fremur sent Bankasýslunni bréf í því skyni að fá endanlegan lista yfir úthlutun Bankasýslunnar. Í anda gagnsæis á öllum stigum málsins standa væntingar mínar til þess að þessi gögn öll verði hægt að gera opinber nema lög standi því í vegi.“
Ástæða þess að Bjarni var að ræða þetta voru spurningar stjórnarandstöðunnar um hvaða litlu fagfjárfestar fengu að kaupa í ríkisbanka með afslætti, en fyrir liggur að stór hluti þeirra 430 bjóðenda sem var valinn til að kaupa í Íslandsbanka í síðustu viku voru einkafjárfestar sem keyptu litla hluti.
Kjarninn sendi fyrirspurn á Bankasýslu ríkisins í gærmorgun og kallaði eftir því að fá lista yfir þá sem fengu að kaupa í Íslandsbanka í síðustu viku, en hún fer með 45 prósent hlut í bankanum fyrir hönd almennings í landinu og sá um söluna. Í svari forstjóra hennar, Jóns Gunnars Jónssonar, sagði að hann gæti ekki veitt þær upplýsingar „á þessari stundu“. Kjarninn sendi sömuleiðis fyrirspurn á Íslandsbanka og bað um hluthafalista bankans. Ekki hefur borist svar við þeirri fyrirspurn.
Hluthafar Íslandsbanka voru 15.600 um síðustu áramót og eru því sennilega um 16 þúsund í dag. Til að finna út hvaða litlu fjárfestar fengu að kaupa í Íslandsbanka þarf að bera saman þá lista. Miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið geta fjölmiðlar ekki fengið aðgang að listanum nema að blaðamennirnir sem um biðja séu beinir hluthafar í bankanum.
Ráðgjafar völdu minni aðila til að taka þátt
Alls 430 bjóðendur fengu að kaupa hlut í bankanum í lokuðu tilboðsútboði sem fram fór á þriðjudag í síðustu viku. Þeir greiddu alls 52,65 milljarða króna fyrir hlutinn, sem var 2,25 milljarða króna afsláttur af markaðsvirði. Fyrir liggur að stórir stofnanafjárfestar á borð við lífeyrissjóði og verðbréfasjóði keyptu mest. En fjölmörgum minni aðilum var líka hleypt að.
Til að þessir einstaklingar geti talist fagfjárfestar þurfa þeir að uppfylla að minnsta kosti tvö af þremur skilyrðum: í fyrsta lagi að hafa átt umtalsverð viðskipti á viðeigandi síðastliðið ár, eða að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi, í öðru lagi að fjármálagerningar þeirra og innistæður séu samanlagt virði 500 þúsund evra (71 milljón króna) eða meira eða í þriðja lagi að fjárfestir hafi gegnt eða gegni, í að minnsta eitt ár, stöðu í fjármálageiranum sem krefst þekkingar á fyrirhuguðum viðskiptum eða þjónustu.
Innan fjármálageirans er mikið rætt um að það hverjir hafi verið valdir til þátttöku í þessu ferli af ráðgjöfum Bankasýslunnar og á Alþingi í miðvikudag voru lagðar fram spurningar um það. Auk þess var kallað eftir skýringum á nauðsyn þess að einstaklingar sem versla hlutabréf fyrir nokkrar milljónir króna í hverjum viðskiptum hafi verið hleypt inn í þessi afsláttarviðskipti þegar þeir hefðu alveg getað átt slík viðskipti á eftirmarkaði ef þeir vildu eignast hlut í Íslandsbanka.
„Fáum við að sjá þessi nöfn?“
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði fjármála- og efnahagsráðherra út þann hóp lítilla fjárfesta sem fékk að kaupa í Íslandsbanka í þinginu á miðvikudag. Hún benti á að hugmyndin á bakvið tilboðsferli, sem er sú sölutegund sem ráðist var í, væri að það væri réttlætanlegt að veita afslátt frá markaðsvirði vegna þess að inn væru að koma stórir aðilar, sem væru að kaupa stóran bita og taka með því mikla markaðsáhættu. Upplýst hefði verið í gegnum innherjalista að aðilar hafi fengið að kaupa 55 milljóna króna hlut, 27 milljóna króna hlut, 11 milljóna króna hlut. Þar er um að ræða Ara Daníelsson, stjórnarmann í Íslandsbanka, sem keypti fyrir 55 milljónir króna, Ríkharð Daðason, sambýlismann Eddu Hermannsdóttur markaðs- og samskiptastjóra bankans, sem keypti fyrir tæpar 27 milljónir króna og Ásmund Tryggvason, framkvæmdastjóra fyrirtækja og fjárfestingasviðs, sem keypti fyrir rúmar 11 milljónir króna en viðskipti þeirra voru tilkynnt til Kauphallar Íslands vegna tengsla þeirra.
Í ræðu sinni sagði Kristrún að þessir aðilar hefðu hæglega getað keypt á eftirmarkaði. „Þetta eru ekki stórir, umfangsmiklir langtímafjárfestar sem voru að taka á sig mikla markaðsáhættu. Hver er tilgangurinn með því að hleypa svona aðilum að í afslátt? Verða þessir aðilar, þessir litlu aðilar sem fljóta svona með til hliðar, á þessum lista sem verður birtur eða er þetta bara þessi klassíski listi sem kemur fram yfir þá sem eru með langstærstu hlutina?“
Bjarni útskýrði tilganginn í svari sínu en svaraði ekki hvort listinn yfir litlu aðilanna yrði birtur. Kristrún ítrekaði því seinni spurninguna og sagði það ekki „gott í ferli sem á að vera gagnsætt og yfir alla gagnrýni hafin að það berist slúður, gróusögur, upplýsingar um að sumir hafi fengið símtal frá sínum verðbréfamiðlara og aðrir ekki. Hugmyndin á bak við tilboðsverð af þessu tagi þar sem verið er að grípa inn í markaðsverð – í almenna útboðinu á sínum tíma var bankinn ekki kominn á markað – er að það séu góð og gild rök fyrir slíku. Ég get ekki séð, þegar var svona mikil umframeftirspurn hjá stórum aðilum sem vildu fá inn, að það hefði átt að hleypa svona litlum fjárfestum að. Fáum við að sjá þessi nöfn? Munu þau vera á þessum lista og hvenær kemur hann?“
Bjarni endurtók að Íslandsbanki myndi gera aðgengilegan allan hluthafalistann eins og hann var fyrir útboðið og eins og hann líti út eftir útboðið. „Ég hef sömuleiðis kallað eftir en ekki enn fengið niðurstöðu úthlutunarinnar og vil gera hana aðgengilega og mun gera það, nema mér séu einhverjar hömlur settar með lögum til þess að gera það, sem ég vona og trúi ekki að sé.“
Bjarkey vonar að kerfið stoppi ekki birtingu
Kristrún spurði Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmann Vinstri grænna og formann fjárlaganefndar, líka út í sama mál og hvernig framkvæmdin með litlu fjárfestanna slægi hana.
Bjarkey svaraði því til að aðkoma minni fjárfesta hefði einfaldlega ekki verið rædd í fjárlaganefnd þegar verklagið á útboðinu var kynnt fyrir henni. Það hafi mögulega verið vegna þess að nefndarmenn hafi hugsað stórt. „Við veltum alltaf fyrir okkur hverjir það væru sem gætu keypt og hugsuðum fyrst og fremst kannski um lífeyrissjóðina og einhverja almenna stóra fjárfesta sem við sæjum fyrir okkur sem langtímafjárfesta. Ég ætla ekki að halda því fram fyrr en ég er búin að fá einhver svör hvernig það bar til, aðkoma þessara minni fjárfesta. Hvernig þeir voru valdir. Ég ætla ekki að fella neinar stórar skoðanir um hvort það sé heppilegt eða ekki heppilegt.“
Bjarkey tók þó undir með Kristrúnu um að það væri óheppilegt að um fyrirkomulagið ríki óskýrleiki og að það treysti ekki stoðir undir því að bankakerfið standi undir því trausti sem vilji er til að það hafi. „Það er kannski anginn sem ég hef áhyggjur af í þessu samhengi.“
Hún bætti svo við að það yrði að ýta af fullum þunga eftir því að listinn yfir alla sem fengu að kaupa yrði birtur. „Ég vona svo sannarlega að það sé ekkert innan kerfisins sem stoppar okkur.“