Fótboltaheimurinn engist um vegna lokaðrar elítudeildar stórliða
Stuðningsmenn, stjórnmálamenn, keppinautar og æðstu valdabatterí knattspyrnuheimsins hafa gagnrýnt áform 12 evrópskra fótboltaliða um stofnun ofurdeildar fyrir útvalda. Þau eru sögð ganga gegn öllu því sem fótbolti sem íþrótt eigi að standa fyrir.
Tólf af stærstu fótboltaliðum Evrópu, sex ensk, þrjú ítölsk og þrjú spænsk, tilkynntu á sunnudagskvöld að þau hefðu ákveðið að gerast stofnfélagar í nýrri evrópskri félagsliðakeppni, The Super League. Einkadeild fyrir öflugustu lið álfunnar.
Í dag taka þessi lið þátt í félagsliðakeppnum sem skipulagðar eru af evrópska knattspyrnusambandinu UEFA, en sú þátttaka myndi heyra sögunni til ef af Ofurdeildinni verður.
Þessi félög munu því ekki lengur hafa það að markmiði að vinna sér inn þátttökurétt í keppnum bestu liða Evrópu með því að standa sig vel heima fyrir.
Þau munu þess í stað stíga inn í hina nýju Ofurdeild, jafnvel strax næsta haust, með vissu um að vera þar á hverju ári og njóta þeirra miklu tekna sem fyrirsjáanlega verða af sölu sýningarréttar fyrir þessa sýningardeild stærstu liða Evrópu.
Samkvæmt yfirlýsingu liðanna er stefnt á að alls 15 lið gerist stofnfélagar í heildina – og síðan fái fimm félög til viðbótar að taka þátt á hverju tímabili, samkvæmt einhverjum óútfærðum viðmiðum. Viðbrögðin við þessu útspili, sem á sér allnokkurn aðdraganda, hafa verið nánast á eina leið – neikvæð með eindæmum.
Knattspyrnuaðdáendur víða um heim, stjórnmálamenn og knattspyrnuhreyfingin nánast eins og hún leggur sig, fyrir utan þessi tólf lið, hefur brugðist ókvæða við áformum stórliðanna. Refsiaðgerðum hefur verið hótað af hálfu bæði UEFA og Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA auk knattspyrnusambanda Englands, Spánar og Ítalíu.
Til stendur að meina leikmönnum stórliðanna tólf að spila með landsliðum sínum í keppnum á vegum UEFA og FIFA og jafnvel hefur komið til tals að liðin tólf verði svipt réttinum til þess að taka þátt í deildarkeppnunum heima fyrir.
Ljóst þykir að framundan sé hörð störukeppni um eðli fótboltans í Evrópu og að baráttan um hin ýmsu atriði muni verða leyst frammi fyrir dómstólum.
Kjarninn tók saman nokkra mola um þessar miklu sviptingar í evrópska fótboltaheiminum.
Risaklúbbarnir vilja meira fé í sína vasa
Peningar, peningar og aftur peningar virðast aðalástæðan fyrir því að stórliðin ætla að stofna sína einkadeild. Þrátt fyrir að peningarnir í fótboltanum séu gríðarlegir og bilið á milli stærstu liða Evrópu og þeirra minni sé sífellt að aukast, virðist eigendur liðanna ekki geta fengið nóg. Ekki einu sinni nóg til þess að hafa rekstur félaganna sjálfbæran.
Tekjustreymið inn í boltann hefur margfaldast vegna aukinna tekna af sjónvarpsútsendingum frá aldamótum en samt hafa mörg af stærstu og sögufrægustu liðum Evrópu, sérstaklega þau sem eru utan Englands, safnað gríðarlegum skuldum. Staðan hefur versnað í heimsfaraldrinum, þar sem félögin hafa orðið af miðasölutekjum.
Spænsku stórliðin Barcelona og Real Madrid eru bæði stórskuldug og ítölsku liðin Juventus og Inter eru sömuleiðis í kröggum. Þessi rótgrónu félög hafa að einhverju marki ekki náð að keppa við fjárstreymið sem komið hefur inn frá vellauðugum eigendum liða á borð við Chelsea, Manchester City og París St. Germain og hafa skuldsett sig mikið til að vera samkeppnishæf.
Risaklúbbar álfunnar hafa lengi haldið því fram að þeir eigi að fá stærri hluta af fénu sem rennur til UEFA frá sjónvarpsstöðvum vegna sýningaréttar, þar sem það sé vegna þeirra sem áhorfendur laðist að skjánum. Og nú hafa þeir stigið róttækt skref.
Áætlað er að hvert liðanna muni fá 200-300 milljónir evra í sinn hlut bara fyrir að hefja leik í Ofurdeildinni og að hægt verði að selja sjónvarpsréttindin fyrir stjarnfræðilegar þegar fram í sækir, jafnvel með þeim hætti að fara framhjá sjónvarpsstöðvunum og bjóða upp á beint netstreymi af Ofurdeildinni, milliliðalaust.
Bandaríski fjárfestingabankinn JP Morgan Chase kemur að fjármögnun ofurdeildarævintýrisins. Bankinn er sagður ætla að leggja um 3,5 milljarða evra inn í deildina til að byrja með.
Hlutabréfaverð liða tekur vænan kipp
Hlutabréfaverð í þeim tveimur stofnfélögum Ofurdeildarinnar sem skráð eru á markað hefur hækkað talsvert í dag. Hlutabréf í Juventus hækkuðu um tæp 18 prósent í kauphöllinni í Mílanó og markaðsvirði Manchester United, sem er skráð á hlutabréfamarkað í New York, höfðu hækkað um tæp 8 prósent þegar þetta var skrifað.
Stjórnendur þessara tveggja félaga, Andrea Agnalli stjórnarformaður Juventus og Joel Glazer annar stjórnarformanna Manchester United, verða varaformenn stjórnar Ofurdeildarinnar. Florentino Peréz, forseti Real Madrid, verður stjórnarformaður deildarinnar.
Þjóðverjar virðast samstíga um að vera á móti
Ekkert þýskt lið er á meðal stofnfélaga Ofurdeildarinnar, enn sem komið er hið minnsta. Þar er fyrirkomulagið þannig að aðdáendur eiga meirihlutann í flestum liðum og á það við um bæði Bayern München og Dortmund, sem eru tvö sterkustu og sögufrægustu lið landsins. Orðrómur var um að þau yrðu í hópi stofnfélaganna, en því hefur verið vísað á bug.
Þýska knattspyrnusambandið og efstu deildirnar í Þýskalandi sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fullum stuðningi var heitið við allar gagnaðgerðir UEFA og FIFA og knattspyrnusambanda einstaka ríkja sömuleiðis.
Í yfirlýsingunni sagði að ekki mætti láta fjárhagslega hagsmuni nokkurra toppliða á Englandi, Ítalíu og Spáni grafa undan uppbyggingu evrópsku félagsliðakeppninnar.
„Fótboltinn í Evrópu þrífst á því að það er fræðilega mögulegt fyrir öll lið að keppa við þau bestu í álfunni. Þessum draumi má ekki skipta út fyrir nær alveg lokað samfélag,“ sagði í yfirlýsingunni frá Þýskalandi.
Bresk stjórnvöld heita því að gera allt sem þau geta
Í Englandi er málið rætt á æðstu stöðum. Oliver Dowden, ráðherra menningarmála, segir að breska ríkisstjórnin sé tilbúin að gera „hvað sem er“ til þess að áætlanirnar verði kæfðar í fæðingu, að minnsta kosti hvað ensku liðin varðar.
Dowden ávarpaði þingið í Westminster vegna málsins í dag og sagði að enska knattspyrnusambandið hefði fullan stuðning ríkisstjórnar Boris Johnson til þess að beita ensku félögin sex viðurlögum fyrir að ganga inn í Ofurdeildina.
Ráðherrann segir áformin ógna allri virðiskeðjunni í kringum fótboltann í Englandi, þar sem féð flæði frá ensku úrvalsdeildinni niður fótboltapíramídann í landinu og út í nærsamfélagið. Mörg lið í neðri deildum í landinu hafa barist í bökkum undanfarin ár og staða þeirra er orðin enn verri vegna áhrifa heimsfaraldursins.
Ofurdeildaráform skyggja á breytt fyrirkomulag í keppnum UEFA
UEFA hefur undanfarið verið að vinna að breytingum á keppnisfyrirkomulaginu í Evrópukeppnum sínum, meðal annars Meistaradeild Evrópu. Þær breytingar voru kynntar í dag og hafa í ljósi aðstæðna fengið takmarkaða athygli, enda ljóst að ef Ofurdeildin verður að veruleika mun vægi keppnanna á vegum UEFA dvína verulega.
Breytingarnar segja stjórnendur UEFA einmitt hafa verið ætlaðar til þess að koma til móts við stóru liðin og saka forsvarsmenn liðanna um að hafa stungið sig í bakið.
Aðdáendahópar liðanna sjálfra hata áformin
Opinber stuðningsmannasamtök nærri allra liðanna sem ætla sér þátttöku í Ofurdeildinni leggjast alfarið gegn verkefninu og saka eigendur liða sinna um hömlulausa græðgi.
Stuðningsmannasamtök Chelsea segja ákvörðun félagsins um að taka þátt í verkefninu hreint og beint sviksamlega. Ekkert tillit hafi verið tekið til stuðningsmanna, sögu félagsins, framtíðar þess eða framtíð fótboltans í Englandi.
Samtök stuðningsmanna Manchester United taka í sama streng og segja ákvörðunina fara gegn öllu sem íþróttin og félagið sem þeir styðja eigi að standa fyrir.
Lesa meira
-
18. desember 2022Leikjafræði fótboltans útskýrð fyrir Hansi Flick
-
19. nóvember 2022„Sportþvotturinn“ í Katar sannarlega ekki sá fyrsti og eflaust ekki sá síðasti
-
19. september 2022Í maí var stefnt að því þjóðarhöll yrði risin 2025 – Í september er búið að fresta henni
-
5. september 2022Félagaskiptaglugginn í enska boltanum í íslensku samhengi
-
10. ágúst 2022Fyrrverandi bæjarstjóri Garðabæjar formaður framkvæmdanefndar um þjóðarhöll