Tíu hlutir sem Íslandsbanki hefur spáð að gerist í íslenska hagkerfinu
Í gærmorgun var ný þjóðhagsspá Íslandsbanka birt. Frá því að spá bankans kom út í upphafi árs hefur öllum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldurs verið aflétt og stríð skollið á í Úkraínu. Fyrir vikið hefur sá efnahagslegi veruleiki sem bankinn spáir fyrir um að mörgu leyti tekið stakkaskiptum.
Hagvöxtur verður sá mesti síðan 2007
Íslandsbanki spáir því að hagvöxtur verði kröftugur í ár, eða 7,3 prósent. Gangi sú spá eftir mun það verða mesti hagvöxtur á Íslandi í 15 ár, eða frá hápunkti bankagóðærisins 2007 þegar hagvöxtur mældist 8,5 prósent.
Það verður þó að taka inn í reikninginn að samdráttur varð í þjóðarbúskapnum upp á 6,8 prósent árið 2020 og vöxturinn úr þeirri lægð í fyrra var 4,4 prósent, aðallega vegna mikillar einkaneyslu. Íslandsbanki spáir því að útflutningsvöxtur muni vera helsta rót hagvaxtar á síðari hluta yfirstandandi árs.
Í janúar spáði bankinn því að hagvöxtur í ár yrði 4,7 prósent, að hann yrði 3,2 prósent á næsta ári og 2,6 prósent árið 2024. Nú gerir bankinn ráð fyrir að hagvöxturinn verði mun meiri í ár, en minni á næsta ári (2,2 prósent í stað 3,2 prósent) og þarnæsta (2,4 prósent í stað 2,6 prósent).
Verðbólgan miklu meiri en fyrri spár gerðu ráð fyrir
Bankinn spáir því nú að ársverðbólgan í ár verði 8,1 prósent, en hún mælist sem stendur 9,7 prósent. Í þjóðhagsspánni er sagt að það sé enn „langur vegur framundan og talsvert í það að verðbólga verði við 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabankans.“ Greining Íslandsbanka telur að verðbólgan verði 6,3 prósent á næsta ári og 3,9 prósent árið 2024. Því muni hún ekki ná að verða við verðbólgumarkmið Seðlabankans á spátímanum.
Í janúar spáði bankinn því að verðbólga myndi hjaðna jafnt og þétt út þetta ár og yrði að jafnaði 4,3 prósent á árinu 2022. Íslandsbanki gerði þá ráð fyrir að verðbólgan yrði að jafnaði 2,5 prósent á næsta ári og 2,7 prósent árið 2024.
Stýrivextir áttu að verða 3,25 prósent en verða sennilega sex prósent
Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa hækkað skarpt undanfarna mánuði. Frá því í maí í fyrra hafa þeir farið úr 0,75 í 5,5 prósent. Á árinu 2022 einu saman hafa þeir hækkað um 3,5 prósentustig. Í þjóðhagsspá bankans sem birt var í janúar 2022 var sannarlega ekki búist við þessari þróun, en þá spáði greining Íslandsbanka því að stýrivextir Seðlabanka Íslands yrðu komnir upp í 3,25 prósent í lok þessa árs og myndu toppa í fjórum prósentum í ársbyrjun 2024.
Nú er annað hljóð í strokknum. Bankinn telur að stýrivextir verði „í námunda við“ sex prósent í árslok og haldist óbreyttir inn á mitt ár 2023, þegar vextirnir taki að lækka á seinni hluta þess árs. Við taki „hægfara lækkunarferli“ sem gætu skilað stýrivöxtum í grennd við 4,5 prósent undir lok árs 2024.
Gangi sú spá eftir er ansi langt þangað til að það fólk sem hefur séð greiðslubyrði íbúðalána sína hækka um rúmlega hundrað þúsund krónur á mánuði á rúmu ári fari að sjá þá greiðslubyrði minnka.
Fjöldi erlendra ferðamanna miklu meiri en gert var ráð fyrir
Íslandsbanki spáir því að 1,7 milljónir ferðamanna muni heimsækja Íslands heim á þessu ári. Það er svipaður fjöldi og kom til landsins fyrir sex árum síðan. Á næsta ári náist það svo að ferðamennirnir verði á ný yfir tvær milljónir talsins og árið 2024 verði þeir 2,2 milljónir. Þetta er bara sá fjöldi sem kemur í gegnum Keflavíkurflugvöll. Þá á eftir að telja þá sem koma til Íslands í gegnum Akureyrarflugvöll og með skemmtiferðaskipum.
Í janúar var Íslandsbanki töluvert svartsýnni á það hvernig ferðaþjónustan myndi taka við sér en raun bar vitni. Þá spáði greining bankans því að ferðamenn sem myndu heimsækja Íslands yrðu 1,1 til 1,2 milljónir á árinu 2022, að þeir yrðu 1,5 milljónir á næsta ári og 1,7 milljónir á árinu 2024.
Nú er vandamálið ekki skortur á störfum, heldur skortur á starfsfólki
Hjöðnun atvinnuleysis hérlendis hefur verið mjög hröð síðan að heildaratvinnuleysi mældist 12,8 prósent í janúar í fyrra. Í ágúst síðastliðnum var það komið niður í 3,1 prósent og er nú á svipuðum slóðum og í byrjun árs 2019, áður en WOW air fór á hausinn.
Nú er staðan sú að skortur er á starfsfólki og þau störf sem verða til í hagkerfinu eru að stórum hluta fyllt af erlendu starfsfólki, sem er nú um 20 prósent af öllu vinnuafli hérlendis. Íslandsbanki spáir því að atvinnuleysi verði á svipuðum slóðum á næstu tveimur árum, eða á bilinu 3,2 til 3,6 prósent.
Í janúar spáði bankinn því að meðalatvinnuleysi á Íslandi yrði 4,5 prósent á þessu ári og á bilinu 3,6 til 3,7 prósent á árunum 2023 og 2024. Þá töldu um 40 prósent stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins að skortur væri á vinnuafli en nú er það hlutfall 54 prósent.
Viðsnúningur á íbúðamarkaði framundan
Í byrjun árs spáði greining Íslandsbanka því að íbúðaverð myndi hækka að nafnvirði um átta prósent á árinu 2022, og að hækkunartakturinn sem sleginn var árið áður með 15 prósent hækkun á höfuðborgarsvæðinu myndi taka að hægjast. Bankinn spáði því einnig að íbúðaverð myndi hækka um 3,5 prósent á næsta ári og 2,9 prósent árið 2024 samhliða því að jafnvægi myndi myndast á íbúðamarkaði.
Í nýju þjóðhagsspánni eru þessar tölur verulega endurskoðaðar. Þar er bent á að íbúðamarkaðir hafi kólnað talsvert hraðar í öðrum löndum en á Íslandi þrátt fyrir að stýrivextir hafi verið hækkaðir mun hraðar hér og skilyrði fyrir lántöku hert verulega. Þar skipti mestu að eftirspurn er enn langt frá framboði vegna uppsafnaðrar þarfar og að lýðfræðileg þróun ýki eftirspurnina. Nú spáir bankinn því að raunverð íbúa muni hækka um 11,6 prósent í ár og að sú hækkun sé nú þegar að mestu komin fram. Á næsta ári verði raunhækkunin einungis 0,8 prósent og á árinu 2024 muni verðið nánast standa í stað samhliða því að aukin fjöldi íbúða komi inn á markaðinn sem skapi nýtt jafnvægi.
Kaupmáttur launa farinn að dragast saman
Íslandsbanki spáði því í janúar að kaupmáttur myndi halda áfram að aukast á þessu ári, alls um 2,5 prósent. Sá vöxtur myndi halda áfram inn á næstu tvö ár.
Þessi spá hefur ekki gengið eftir. Kaupmáttur launa er nefnilega farinn að rýrna, alls um 4,2 prósent á þessu ári. Nú spáir bankinn því að þessi þróun haldi áfram, eða þar til að verðbólgan hjaðni verulega. Alls spáir greining Íslandsbanka því að kaupmátturinn rýrni um 0,6 prósent á þessu ári en vaxi um 0,8 prósent strax á næsta ári.
Einkaneysla hægir á sér þegar fólk klárar sparnaðinn
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á dróst einkaneysla saman, nánar tiltekið um þrjú prósent milli áranna 2019 og 2020. Í fyrra stórjókst hún hins vegar að nýju, enda mikil kaupmáttaraukning að eiga sér stað vegna launahækkana, minni vaxtarkostnaðar og ýmissa annarra hagfelldra breyta.
Fyrir vikið taldi bankinn að einkaneysla myndi halda áfram að vaxa og verða 4,2 prósent árið 2022 og 3,2 til 3,5 prósent á næstu tveimur árum eftir það.
Vöxtur í einkaneyslu hefur verið miklu meiri en spár gerðu ráð fyrir, og er gert ráð fyrir að hann verði 8,8 prósent á þessu ári. Íslandsbanki spáir því einnig að einkaneyslan aukist um 1,8 prósent á næsta ári þegar heimili landsins hafi gengið umtalsvert á sparnað sinn í neyslu og kaupmáttarvöxturinn verður frekar lítill. Árið 2024 muni einkaneyslan svo aukast um 2,7 prósent samhliða því að verðbólga hjaðni.
Krónan styrkist
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á veiktist gengi íslensku krónunnar umtalsvert og Seðlabankinn réðst í umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti til að draga úr sveiflum á gengi hennar. Í fyrra styrktist gengið svo um tæplega þrjú prósent. Þegar greining Íslandsbanka spáði í spilin í upphafi árs varð niðurstaða þeirra bollalegginga sú að krónan yrði átta til níu prósent sterkari í lok árs 2024 en hún var í ársbyrjun 2024. Raungengi miðað við hlutfallslegt verðlag yrði þá svipað og árið 2018.
Krónan hefur hins vegar sveiflast meira en búist var við. Hún styrktist umtalsvert, alls um sjö prósent, frá byrjun árs og út maímánuð. Frá þeim tíma og fram að síðustu mánaðamótum hefur hún hins vegar veikst um fimm prósent. Stæor ástæða fyrir veikingunni í sumar er aukið gjaldeyrisútflæði vegna fjárfestinga, aðallega íslenskra lífeyrissjóða.
Greining Íslandsbanka spáir því nú að krónan verði um það bil sex prósent sterkari í lok árs 2024 en hún var í lok ágúst 2022. Raungengið miðað við hlutfallslegt verðlag verður á svipað og árin 2018 og 2019.
Spá því að halli verði afgangur
Í níu ár samfellt, fram að árinu 2021, var viðskiptaafgangur af utanríkisviðskiptum Íslands. Það þýðir að við seldum vörur og þjónustu fyrir hærri upphæð en við keyptum slíkt. Halli skapaðist hins vegar í fyrra upp á 65 milljarða króna, vegna þess að innlend eftirspurn jókst mun fyrr en útflutningur eftir þann samdrátt sem varð á fyrra ári kórónuveirufaraldursins, 2020.
Í janúar spáði Íslandsbanki því að hallinn myndi verða skammvinnur og strax árið 2022 myndi viðskiptaafgangur verða 1,8 prósent. Hann myndi svo verða enn myndarlegri á næstu tveimur árum, eða 3,1 prósent á hvoru ári fyrir sig.
Í nýju þjóðhagsspánni er annað upp á teningnum. Nú spáir greining Íslandsbanka því að það verði 1,5 prósent viðskiptahalli í ár. Það náist þó að snúa þeirri stöðu hóflega við strax á næsta ári með eins prósent afgangi og að hann verði svo 2,4 prósent árið 2024. Þó er sérstaklega tiltekið að það velti „ekki síst á þróun raungengis og viðskiptakjara þegar frá líður hvort viðskiptajöfnuðurinn verður áfram hagfelldur.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði