Mynd: Bára Huld Beck Fólk
Mynd: Bára Huld Beck

Tíu hlutir sem Landsbankinn hefur spáð að gerist í hagkerfinu

Í liðinni viku kom út ný hagspá Hagfræðideildar Landsbankans. Þar er spáð mesta hagvexti sem hefur orðið á Íslandi frá bankagóðærisárinu 2007 í ár, áframhaldandi verðbólgu á næsta ári, að vaxtahækkunarferlinu sé lokið en að einkaneysla dragist verulega saman á næsta ári.

Mesti hag­vöxtur sem mælst hefur frá 2007

Lands­bank­inn gerir ráð fyrir því að hag­vöxtur verði 6,5 pró­sent í ár en 2,1 pró­sent á því næsta. Í hag­spá Hag­fræði­deildar bank­ans segir að hag­vöxt­ur­inn ráð­ist að miklu leyti af upp­gangi ferða­þjón­ust­unn­ar. Það er umtals­vert jákvæð­ari spá fyrir árið 2022 en sú sem sett var fram í hag­spá Lands­bank­ans sem kynnt var í maí, en nei­kvæð­ari fyrir árið 2023. Þar var gert ráð fyrir að hag­vöxtur yrði 5,1 pró­sent í ár en 3,7 pró­sent á næsta ári. 

Það verður þó að taka inn í reikn­ing­inn að sam­­dráttur varð í þjóð­­ar­­bú­­skapnum upp á 6,8 pró­­sent árið 2020 og vöxt­­ur­inn úr þeirri lægð í fyrra var 4,4 pró­­sent, aðal­­­lega vegna mik­illar einka­­neyslu. 

Spá Lands­bank­ans er tölu­vert hóf­sam­ari en sú sem sett var fram í þjóð­hags­spá Íslands­banka í lok síð­asta mán­að­ar. Í henni var því spáð að hag­vöxtur yrði 7,3 pró­sent í ár. Ef önnur hvor spá bank­anna gengur eftir yrði um að ræða mesta hag­vöxt sem orðið hefur á Íslandi frá árinu 2007, eða í 15 ár. 

Verð­bólgan hjaðni á næsta ári en verði samt langt frá mark­miði 

Bank­inn spáir 8,1 pró­sent verð­bólgu á þessu ári, sem er nákvæm­lega sama spá og Íslands­banki setti fram í síð­asta mán­uði. Lands­bank­inn telur að hún verði 6,5 pró­sent á næsta ári á meðan að hinn bank­inn sem ríkið á hlut í spáði því að hún yrði 6,3 pró­sent á árinu 2023. Verð­bólgan er sem stendur 9,3 pró­sent. 

Í maí spáði Lands­bank­inn því að hún yrði 7,4 pró­sent að með­al­tali í ár og 5,8 pró­sent á því næsta. Því er verð­bólga í verð­bólgu­spá rík­is­bank­ans milli birtra hag­spá­a. 

Verð­bólgu­mark­mið Seðla­banka Íslands er 2,5 pró­sent. Lands­bank­inn telur að því mark­miði verði ekki náð á spá­tím­an­um, sem stendur út árið 2025. 

Kaup­máttur far­inn að drag­ast saman

Í hag­spánni er bent á þau tíma­mót sem urðu í júní á þessu ári, þegar tólf ára sam­felldri kaup­mátt­ar­aukn­ingu lauk. Verð­bólga síð­ustu mán­aða hafi étið upp kaup­mátt sem hafi alls dreg­ist saman um 4,2 pró­sent frá því í jan­ú­ar. 

Lands­bank­inn telur margt benda til þess að tekið sé að hægja á vexti hag­kerf­is­ins og eru þar verð­bólga, vaxta­hækk­anir og kaup­mátt­arrýrnun stórir áhrifa­þætt­ir. „Við gerum ráð fyrir að kaup­máttur drag­ist saman um 0,4 pró­sent milli áranna 2021 og 2022 og auk­ist aðeins um 0,5 pró­sent á næsta ári. Þetta yrði í fyrsta sinn síðan 2010 sem kaup­máttur dregst saman milli ára og er útlit fyrir að vöxtur kaup­máttar á næstu árum verði undir með­al­vexti frá alda­mót­u­m.“

Þetta er nokkuð önnur staða en Lands­bank­inn spáði í maí, þegar hann reikn­aði með 0,1 pró­sent kaup­mátt­ar­aukn­ingu í ár og 0,9 pró­sent á næsta ári. 

Fjöldi ferða­manna fari í 2,5 millj­ónir 2025

Spá Lands­bank­ans um veru­lega auk­inn hag­vöxt á þessu ári skýrist einna helst af því að Hag­fræði­deild bank­ans spáir nú að fleiri erlendir ferða­menn komi hingað á þessu ári en gert var ráð fyrir í maí. 

Landsbankinn spáir því að nýtt met verði sett í fjölda ferðamanna sem heimsækja Ísland heim árið 2025. Gildandi met er 2,3 milljónir.
Mynd: Bára Huld Beck

Nú er gert ráð fyrir að fjöld­inn í ár verði 1,7 millj­ón­ir, eða 200 þús­und fleiri en spáð var í maí. Á móti hafa spár fyrir kom­andi ár lækk­að. Lands­bank­inn reiknar með 1,9 milljón ferða­manna á næsta ári og 2,3 millj­ónum á árinu 2024. Fjöld­inn nær síðan sögu­legu hámarki, sam­kvæmt spá bank­ans, á árinu 2025 þegar ferða­menn­irnir verða 2,5 millj­ón­ir. 

Íslands­banki spáði líka að fjöld­inn í ár yrði 1,7 millj­ónir en að hann myndi skríða yfir tvær millj­ónir á næsta ári.

Stýri­vextir hafa náð hámarki

Lands­bank­inn telur að stýri­vextir hafi nú náð hámarki og að þeir verði óbreyttir fram á haust 2023. Stýri­vextir eru nú 5,75 pró­sent og hafa hækkað um þrjú pró­sentu­stig frá því í maí síð­ast­liðn­um. Þessi mikla hækkun hefur haft gríð­ar­leg áhrif á greiðslu­byrði óverð­tryggðra íbúða­lána með breyti­lega vexti sem eru 27-28 pró­sent allra slíkra lána. 

Nú eru lægstu óver­­tryggðu vextir sem íslenskir bankar, stærstu lán­veit­end­­urnir á mark­aðn­­um, bjóða upp á 7,25 til 7,59 pró­­sent. Lands­bank­inn er sá banki sem býður upp á lægstu vext­ina, þótt nokkrir líf­eyr­is­sjóðir séu að bjóða upp á betri kjör. Slíkir vextir hafa ekki verið hærri frá árinu 2010, eða í skömmu eftir banka­hrunið þegar enn var verið að end­­ur­reisa föllnu bank­ana og íslenskt atvinn­u­líf. 

Kjarn­inn fjall­aði í vik­unni um nýja mán­að­­ar­­skýrslu Hús­næð­is- og mann­­virkja­­stofn­unar (HMS), þar sem greint var frá þeim áhrifum sem þessar vaxta­hækk­­­anir hafa haft á greiðslu­­byrði óverð­­tryggðra lána. Á fyrri hluta 2021, þegar stýri­vextir voru 0,75 pró­­sent, var sá sem var með 50 milljón króna hús­næð­is­lán á breyt­i­­legum vöxtum að borga 188.500 krónur af því á mán­uði. Nú, einu og hálfu ári síðar er sú afborgun komin í 311.500 krón­­ur. Því borgar þessi lán­taki 123 þús­und krónur meira á mán­uði í afborg­­anir af íbúða­lán­inu sínu nú en hann gerði í maí 2021. Það er hækkun upp á 65 pró­­sent. 

Íbúða­mark­aður í kyrr­stöðu næstu mán­uði

Þjóð­­skrá birti tölur í gær sem sýndu að íbúða­verð á höf­uð­­borg­­ar­­svæð­inu hækk­­aði um 0,8 pró­­sent í sept­­em­ber, eftir að hafa lækkað um 0,4 pró­­sent mán­uð­inn áður. Það var í fyrsta sinn síðan 2019 sem verðið lækk­­aði milli mán­aða. Þriggja mán­aða hækkun íbúða­verðs hefur hins vegar tekið stakka­­skipt­­um. Það var 9,1 pró­­sent í maí en er nú 1,5 pró­­sent. 

Lands­bank­inn spáir því að kyrr­staða verði á mark­aðnum næstu mán­uði og telur að íbúða­verð muni hækka um fimm pró­sent á árinu 2023, sem er undir með­al­breyt­ingu frá alda­mót­um. Það er líka mikil breyt­ing frá 22 pró­sent verð­hækkun þessa árs, gangi spá Lands­bank­ans eft­ir.

Miklar hækkanir hafa verið á íbúðaverði á undanförnum árum. Það tímabil er nú á enda runnið.
Mynd: Pexels

Í maí gerði Lands­bank­inn ráð fyrir að verðið myndi hækka um 20 pró­sent í ár en um átta pró­sent á næsta ári. 

Einka­neysla dregst skarp saman á næsta ári

Þegar kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­inn skall á dróst einka­­neysla sam­an, nánar til­­­tekið um þrjú pró­­sent milli áranna 2019 og 2020. Í fyrra stórjókst hún hins vegar að nýju, enda mikil kaup­mátt­­ar­aukn­ing að eiga sér stað vegna launa­hækk­­ana, minni vaxt­ar­kostn­aðar og ýmissa ann­­arra hag­­felldra breyta.

Sú neyslu­aukn­ing hefur haldið áfram af miklum krafti á árinu 2022, og hefur meðal ann­ars verið drifin áfram af stór­auknum ferða­lögum Íslend­inga erlend­is. 

Lands­bank­inn gerir ráð fyrir því að aukn­ingin á einka­neyslu verði 6,7 pró­sent í ár en að það hægi veru­lega á henni á næsta ári og að hún verði þá um tvö pró­sent.

Í síð­asta Pen­inga­mála­riti Seðla­banka Íslands, sem birt var í lok ágúst, kom fram að heim­ili lands­ins hafi dregið hraðar úr sparn­aði en gert var ráð fyr­ir, en sparn­aður jókst gríð­­ar­­lega á meðan að kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­inn stóð yfir þar sem fólk gat ekki eytt með í sömu hluti og áður. Nú eru margir að klára þann sparnað og munu ekki geta eytt jafn miklu í ferða­lög, mat­sölu­staði og nýja bíla.

Krónan leitar til styrk­ingar

Þegar kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­inn skall á veikt­ist gengi íslensku krón­unnar umtals­vert og Seðla­­bank­inn réðst í umfangs­­mikil gjald­eyr­is­við­­skipti til að draga úr sveiflum á gengi henn­­ar. Í fyrra styrkt­ist gengið svo um tæp­­lega þrjú pró­­sent. 

Hún styrkt­ist umtals­vert, alls um sjö pró­­sent, frá byrjun árs 2022 og út maí­mán­uð. Frá þeim tíma og fram að lokum ágúst­mán­aðar veikt­ist hún hins vegar um fimm pró­­sent. Stór ástæða fyrir veik­ing­unni í sumar var aukið gjald­eyr­is­út­­flæði vegna fjár­­­fest­inga, aðal­­­lega íslenskra líf­eyr­is­­sjóða. 

Mynd: Pexels

Lands­bank­inn býst við því að krónan leiti til styrk­ingar fram að kom­andi ára­mótum og á næstu árum. „Á næsta ári gerum við ráð fyrir að evran endi árið í 138 krónum en að tölu­verður við­skipta­af­gangur árið 2024 leiði til meiri styrk­ingar og að evran endi árið í 132 krónum og 130 krónum í lok spá­tíma­bils­ins.“

Atvinnu­leysi getur varla orðið minna

Hjöðnun atvinn­u­­leysis hér­­­lendis hefur verið mjög hröð síðan að heild­­ar­at­vinn­u­­leysi mæld­ist 12,8 pró­­sent í jan­úar í fyrra. Í lok sept­em­ber var það komið niður í 2,8 pró­­sent og hafði ekki verið lægra síðan í des­em­ber 2018. 

Nú er staðan sú að skortur er á starfs­­fólki og þau störf sem verða til í hag­­kerf­inu eru að stórum hluta fyllt af erlendu starfs­­fólki, sem er nú um 20 pró­­sent af öllu vinn­u­afli hér­­­lend­­is.  

Í spá Lands­bank­ans er gert ráð fyrir að atvinnu­leysi verði áfram lágt, eða að jafn­aði 3,2 pró­sent á næsta ári. Ólík­legt sé að það geti dreg­ist mikið meira saman til lengri tíma, enda er óhjá­kvæmi­legt að ein­hver hluti vinnu­aflsins sé atvinnu­laus á hverjum tíma. Óvissan í spánni snýr einna helst að vinnu­mark­aði í aðdrag­anda kjara­samn­inga. „Vinnu­mark­aður hefur verið sterk­ur, launa­skrið tals­vert og fyr­ir­tæki fundið fyrir skorti á starfs­fólki. Við gerum ráð fyrir að laun hækki um 7,6 pró­sent á þessu ári og svo 7,1 pró­sent á næsta ári, sem er nokkuð í takt við breyt­ingar síð­ustu ára.“

Nei­kvæður við­skipta­jöfn­uður í ár

Í níu ár sam­­fellt, fram að árinu 2021, var við­­skipta­af­­gangur af utan­­­rík­­is­við­­skiptum Íslands. Það þýðir að við seldum vörur og þjón­­ustu fyrir hærri upp­­hæð en við keyptum slíkt. Halli skap­að­ist hins vegar í fyrra upp á 65 millj­­arða króna, vegna þess að inn­­­lend eft­ir­­spurn jókst mun fyrr en útflutn­ingur eftir þann sam­­drátt sem varð á fyrra ári kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­s­ins, 2020. 

Lands­bank­inn segir að horfur séu á að inn­flutn­ingur auk­ist mjög mikið í ár, sem skýrist meðal ann­ars af ferða­gleði Íslend­inga. Bank­inn býst við 18,6 pró­sent vexti inn­flutn­ings í ár en að það hægi veru­lega á honum 2023-2025 þegar hann liggi á bil­inu 2,2 til 3,5 pró­sent. Í ár verður við­skipta­jöfn­uður við útlönd nei­kvæður um 2,2 pró­sent af lands­fram­leiðslu, gangi spá Lands­bank­ans eft­ir. „Þegar líður á spá­tíma­bilið munu utan­rík­is­við­skipti fær­ast úr halla í afgang sem við spáum að verði mestur árið 2025, 1,9 pró­sent af lands­fram­leiðslu.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar