Tíu hlutir sem Landsbankinn hefur spáð að gerist í hagkerfinu
Í liðinni viku kom út ný hagspá Hagfræðideildar Landsbankans. Þar er spáð mesta hagvexti sem hefur orðið á Íslandi frá bankagóðærisárinu 2007 í ár, áframhaldandi verðbólgu á næsta ári, að vaxtahækkunarferlinu sé lokið en að einkaneysla dragist verulega saman á næsta ári.
Mesti hagvöxtur sem mælst hefur frá 2007
Landsbankinn gerir ráð fyrir því að hagvöxtur verði 6,5 prósent í ár en 2,1 prósent á því næsta. Í hagspá Hagfræðideildar bankans segir að hagvöxturinn ráðist að miklu leyti af uppgangi ferðaþjónustunnar. Það er umtalsvert jákvæðari spá fyrir árið 2022 en sú sem sett var fram í hagspá Landsbankans sem kynnt var í maí, en neikvæðari fyrir árið 2023. Þar var gert ráð fyrir að hagvöxtur yrði 5,1 prósent í ár en 3,7 prósent á næsta ári.
Það verður þó að taka inn í reikninginn að samdráttur varð í þjóðarbúskapnum upp á 6,8 prósent árið 2020 og vöxturinn úr þeirri lægð í fyrra var 4,4 prósent, aðallega vegna mikillar einkaneyslu.
Spá Landsbankans er töluvert hófsamari en sú sem sett var fram í þjóðhagsspá Íslandsbanka í lok síðasta mánaðar. Í henni var því spáð að hagvöxtur yrði 7,3 prósent í ár. Ef önnur hvor spá bankanna gengur eftir yrði um að ræða mesta hagvöxt sem orðið hefur á Íslandi frá árinu 2007, eða í 15 ár.
Verðbólgan hjaðni á næsta ári en verði samt langt frá markmiði
Bankinn spáir 8,1 prósent verðbólgu á þessu ári, sem er nákvæmlega sama spá og Íslandsbanki setti fram í síðasta mánuði. Landsbankinn telur að hún verði 6,5 prósent á næsta ári á meðan að hinn bankinn sem ríkið á hlut í spáði því að hún yrði 6,3 prósent á árinu 2023. Verðbólgan er sem stendur 9,3 prósent.
Í maí spáði Landsbankinn því að hún yrði 7,4 prósent að meðaltali í ár og 5,8 prósent á því næsta. Því er verðbólga í verðbólguspá ríkisbankans milli birtra hagspáa.
Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent. Landsbankinn telur að því markmiði verði ekki náð á spátímanum, sem stendur út árið 2025.
Kaupmáttur farinn að dragast saman
Í hagspánni er bent á þau tímamót sem urðu í júní á þessu ári, þegar tólf ára samfelldri kaupmáttaraukningu lauk. Verðbólga síðustu mánaða hafi étið upp kaupmátt sem hafi alls dregist saman um 4,2 prósent frá því í janúar.
Landsbankinn telur margt benda til þess að tekið sé að hægja á vexti hagkerfisins og eru þar verðbólga, vaxtahækkanir og kaupmáttarrýrnun stórir áhrifaþættir. „Við gerum ráð fyrir að kaupmáttur dragist saman um 0,4 prósent milli áranna 2021 og 2022 og aukist aðeins um 0,5 prósent á næsta ári. Þetta yrði í fyrsta sinn síðan 2010 sem kaupmáttur dregst saman milli ára og er útlit fyrir að vöxtur kaupmáttar á næstu árum verði undir meðalvexti frá aldamótum.“
Þetta er nokkuð önnur staða en Landsbankinn spáði í maí, þegar hann reiknaði með 0,1 prósent kaupmáttaraukningu í ár og 0,9 prósent á næsta ári.
Fjöldi ferðamanna fari í 2,5 milljónir 2025
Spá Landsbankans um verulega aukinn hagvöxt á þessu ári skýrist einna helst af því að Hagfræðideild bankans spáir nú að fleiri erlendir ferðamenn komi hingað á þessu ári en gert var ráð fyrir í maí.
Nú er gert ráð fyrir að fjöldinn í ár verði 1,7 milljónir, eða 200 þúsund fleiri en spáð var í maí. Á móti hafa spár fyrir komandi ár lækkað. Landsbankinn reiknar með 1,9 milljón ferðamanna á næsta ári og 2,3 milljónum á árinu 2024. Fjöldinn nær síðan sögulegu hámarki, samkvæmt spá bankans, á árinu 2025 þegar ferðamennirnir verða 2,5 milljónir.
Íslandsbanki spáði líka að fjöldinn í ár yrði 1,7 milljónir en að hann myndi skríða yfir tvær milljónir á næsta ári.
Stýrivextir hafa náð hámarki
Landsbankinn telur að stýrivextir hafi nú náð hámarki og að þeir verði óbreyttir fram á haust 2023. Stýrivextir eru nú 5,75 prósent og hafa hækkað um þrjú prósentustig frá því í maí síðastliðnum. Þessi mikla hækkun hefur haft gríðarleg áhrif á greiðslubyrði óverðtryggðra íbúðalána með breytilega vexti sem eru 27-28 prósent allra slíkra lána.
Nú eru lægstu óvertryggðu vextir sem íslenskir bankar, stærstu lánveitendurnir á markaðnum, bjóða upp á 7,25 til 7,59 prósent. Landsbankinn er sá banki sem býður upp á lægstu vextina, þótt nokkrir lífeyrissjóðir séu að bjóða upp á betri kjör. Slíkir vextir hafa ekki verið hærri frá árinu 2010, eða í skömmu eftir bankahrunið þegar enn var verið að endurreisa föllnu bankana og íslenskt atvinnulíf.
Kjarninn fjallaði í vikunni um nýja mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), þar sem greint var frá þeim áhrifum sem þessar vaxtahækkanir hafa haft á greiðslubyrði óverðtryggðra lána. Á fyrri hluta 2021, þegar stýrivextir voru 0,75 prósent, var sá sem var með 50 milljón króna húsnæðislán á breytilegum vöxtum að borga 188.500 krónur af því á mánuði. Nú, einu og hálfu ári síðar er sú afborgun komin í 311.500 krónur. Því borgar þessi lántaki 123 þúsund krónur meira á mánuði í afborganir af íbúðaláninu sínu nú en hann gerði í maí 2021. Það er hækkun upp á 65 prósent.
Íbúðamarkaður í kyrrstöðu næstu mánuði
Þjóðskrá birti tölur í gær sem sýndu að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8 prósent í september, eftir að hafa lækkað um 0,4 prósent mánuðinn áður. Það var í fyrsta sinn síðan 2019 sem verðið lækkaði milli mánaða. Þriggja mánaða hækkun íbúðaverðs hefur hins vegar tekið stakkaskiptum. Það var 9,1 prósent í maí en er nú 1,5 prósent.
Landsbankinn spáir því að kyrrstaða verði á markaðnum næstu mánuði og telur að íbúðaverð muni hækka um fimm prósent á árinu 2023, sem er undir meðalbreytingu frá aldamótum. Það er líka mikil breyting frá 22 prósent verðhækkun þessa árs, gangi spá Landsbankans eftir.
Í maí gerði Landsbankinn ráð fyrir að verðið myndi hækka um 20 prósent í ár en um átta prósent á næsta ári.
Einkaneysla dregst skarp saman á næsta ári
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á dróst einkaneysla saman, nánar tiltekið um þrjú prósent milli áranna 2019 og 2020. Í fyrra stórjókst hún hins vegar að nýju, enda mikil kaupmáttaraukning að eiga sér stað vegna launahækkana, minni vaxtarkostnaðar og ýmissa annarra hagfelldra breyta.
Sú neysluaukning hefur haldið áfram af miklum krafti á árinu 2022, og hefur meðal annars verið drifin áfram af stórauknum ferðalögum Íslendinga erlendis.
Landsbankinn gerir ráð fyrir því að aukningin á einkaneyslu verði 6,7 prósent í ár en að það hægi verulega á henni á næsta ári og að hún verði þá um tvö prósent.
Í síðasta Peningamálariti Seðlabanka Íslands, sem birt var í lok ágúst, kom fram að heimili landsins hafi dregið hraðar úr sparnaði en gert var ráð fyrir, en sparnaður jókst gríðarlega á meðan að kórónuveirufaraldurinn stóð yfir þar sem fólk gat ekki eytt með í sömu hluti og áður. Nú eru margir að klára þann sparnað og munu ekki geta eytt jafn miklu í ferðalög, matsölustaði og nýja bíla.
Krónan leitar til styrkingar
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á veiktist gengi íslensku krónunnar umtalsvert og Seðlabankinn réðst í umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti til að draga úr sveiflum á gengi hennar. Í fyrra styrktist gengið svo um tæplega þrjú prósent.
Hún styrktist umtalsvert, alls um sjö prósent, frá byrjun árs 2022 og út maímánuð. Frá þeim tíma og fram að lokum ágústmánaðar veiktist hún hins vegar um fimm prósent. Stór ástæða fyrir veikingunni í sumar var aukið gjaldeyrisútflæði vegna fjárfestinga, aðallega íslenskra lífeyrissjóða.
Landsbankinn býst við því að krónan leiti til styrkingar fram að komandi áramótum og á næstu árum. „Á næsta ári gerum við ráð fyrir að evran endi árið í 138 krónum en að töluverður viðskiptaafgangur árið 2024 leiði til meiri styrkingar og að evran endi árið í 132 krónum og 130 krónum í lok spátímabilsins.“
Atvinnuleysi getur varla orðið minna
Hjöðnun atvinnuleysis hérlendis hefur verið mjög hröð síðan að heildaratvinnuleysi mældist 12,8 prósent í janúar í fyrra. Í lok september var það komið niður í 2,8 prósent og hafði ekki verið lægra síðan í desember 2018.
Nú er staðan sú að skortur er á starfsfólki og þau störf sem verða til í hagkerfinu eru að stórum hluta fyllt af erlendu starfsfólki, sem er nú um 20 prósent af öllu vinnuafli hérlendis.
Í spá Landsbankans er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði áfram lágt, eða að jafnaði 3,2 prósent á næsta ári. Ólíklegt sé að það geti dregist mikið meira saman til lengri tíma, enda er óhjákvæmilegt að einhver hluti vinnuaflsins sé atvinnulaus á hverjum tíma. Óvissan í spánni snýr einna helst að vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga. „Vinnumarkaður hefur verið sterkur, launaskrið talsvert og fyrirtæki fundið fyrir skorti á starfsfólki. Við gerum ráð fyrir að laun hækki um 7,6 prósent á þessu ári og svo 7,1 prósent á næsta ári, sem er nokkuð í takt við breytingar síðustu ára.“
Neikvæður viðskiptajöfnuður í ár
Í níu ár samfellt, fram að árinu 2021, var viðskiptaafgangur af utanríkisviðskiptum Íslands. Það þýðir að við seldum vörur og þjónustu fyrir hærri upphæð en við keyptum slíkt. Halli skapaðist hins vegar í fyrra upp á 65 milljarða króna, vegna þess að innlend eftirspurn jókst mun fyrr en útflutningur eftir þann samdrátt sem varð á fyrra ári kórónuveirufaraldursins, 2020.
Landsbankinn segir að horfur séu á að innflutningur aukist mjög mikið í ár, sem skýrist meðal annars af ferðagleði Íslendinga. Bankinn býst við 18,6 prósent vexti innflutnings í ár en að það hægi verulega á honum 2023-2025 þegar hann liggi á bilinu 2,2 til 3,5 prósent. Í ár verður viðskiptajöfnuður við útlönd neikvæður um 2,2 prósent af landsframleiðslu, gangi spá Landsbankans eftir. „Þegar líður á spátímabilið munu utanríkisviðskipti færast úr halla í afgang sem við spáum að verði mestur árið 2025, 1,9 prósent af landsframleiðslu.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði