Hagnaður: 81,2 milljarðar króna
Allir stóru bankarnir þrír; Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, hafa nú birt ársreikninga sína vegna ársins 2021. Samanlagður hagnaður þeirra á því ári var 81,2 milljarðar króna. Það er um 170 prósent meiri hagnaður en þeir skiluðu árið 2020. Bankarnir þrír urðu allir til á grundvelli neyðarlaga sem sett voru haustið 2008, í kjölfar bankahrunsins. Þá voru eignir fallinna banka fluttar með handafli yfir á nýjar kennitölur. Samanlagður hagnaður stóru bankanna frá hruni er 750,2 milljarðar króna. Mestur var hann árið 2015, en þá litaði umfangsmikil eignasala uppgjörið.
Virði útlánasafns jókst og íbúðarlánum fjölgaði
Hinn mikli hagnaður bankanna er að stóru leyti tilkominn vegna þess að virðismat á útlánasafni þeirra hefur aukist. Þeir færðu þau söfn niður um 25,8 milljarða króna árið 2020 en sömu söfn voru færð aftur upp um 13,2 milljarða króna í fyrra. Það þýðir að líkur á því að útlán, aðallega til fyrirtækja, innheimtist hafa aukist verulega.
Þá hafa útlánasöfn allra bankanna þriggja stækkað mikið, aðallega vegna þess að þeir hafa aukið við lánveitingar til íbúðarkaupa. Hlutdeild banka í útistandandi íbúðalánum er nú um 70 prósent en var 55 prósent í byrjun árs 2020.
Vaxtamunur enn umtalsverður
Vaxtamunur bankanna þriggja var á bilinu 2,3-2,8 prósent á síðasta ári, sem er mjög svipað og hann var á árinu 2020, þegar hann var 2,7 prósent að meðaltali. Mestur var hann hjá Arion banka en minnstur hjá Landsbankanum. Til samanburðar þá var vaxtamunur norræna banka sem eru svipaðir að stærð og þeir íslensku 1,68 prósent í fyrra. Hjá stórum norrænum bönkum er hann undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kemur í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja.
Vaxtamunurinn myndar hreinar vaxtatekjur. Á árinu 2021 var hann samanlagt 105 milljarðar króna hjá kerfislega mikilvægu bönkunum þremur og jókst um 2,3 prósent milli ára.
Hreinar þóknanatekjur miklu hærri en 2020
Annar stór póstur í tekjumódeli banka eru þóknanatekjur, stundum líka kallaðar þjónustutekjur. Þar er um að ræða þóknanir fyrir t.d. eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf. Þessar tekjur uxu gríðarlega á síðasta ári. Hjá Landsbankanum fóru þær úr 7,6 í 9,5 milljarða króna og jukust því um 25 prósent milli ára. Þar skipti meðal annars máli að samningum um eignastýringu fjölgaði um fjórðung milli ára. Þóknanatekjur Íslandsbanka hækkuðu um 22,1 prósent og voru samtals 12,9 milljarðar króna. Hreinar þóknanatekjur Arion jukust um 26,7 prósent og voru 14,7 milljarðar króna. Samtals voru því hreinar þóknanatekjur bankanna þriggja 37,1 milljarður króna.
Arðsemi eiginfjár rauk upp milli ára ...
Bankar halda á miklu magni af eigin fé. Það magn sem þeir þurfa að halda á, til að geta til dæmis tekist á við áföll og virðisrýrnun lána, var aukið verulega eftir bankahrunið til að koma í veg fyrir að sama staða kæmi upp á ný. Eigið fé viðskiptabankanna þriggja var samanlagt 681 milljarðar króna um síðustu áramót.
... enn kostnaðarhlutfallið hélt áfram að lækka
Önnur leið til að auka hagnað er að spara í kostnaði. Þar snýst allt um að ná niður hinu svokallaða kostnaðarhlutfalli, sem mælir hvað kostnaðurinn er stórt hlutfall af tekjum. Yfirlýst markmið íslensku bankanna er að ná því hlutfalli niður fyrir 45-50 prósent og þeir eru að ná þeim markmiðum. Einfaldasta leiðin til að ná kostnaðarhlutfalli niður er að fækka starfsfólki. Kostnaðarhlutfall Landsbankans var 43,2 prósent á árinu 2021 og lækkaði myndarlega mill ára, en það var 47,4 prósent árið 2020. Kostnaðarhlutfall Arion banka var 44,4 prósent og lækkaði úr 48,1 prósent milli ára. Kostnaðarhlutfall Íslandsbanka lækkaði úr 54,3 prósent í 46,2 prósent milli ára.
Á annað hundrað milljörðum skilað til hluthafa á nokkrum árum
Ein skilvirkasta leiðin til að auka arðsemi eigin fjár er að minnka einfaldlega eigið féð með því að greiða það eigið fé sem þeir halda á umfram kröfur eftirlitsaðila út til hluthafa. Bæði Arion banki og Íslandsbanki hafa það sem yfirlýst markmið að gera það, í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á bréfum. Minna eigið fé þýðir að hlutfallsleg arðsemi eiginfjár í annars óbreyttum rekstri eykst.
Arion banki, eini stóri bankinn sem er ekki að neinu leyti í opinberri eigu, hefur verið allra banka duglegastur í þessari vegferð. Til stendur að greiða 79 prósent af hagnaði ársins út sem arð, alls 22,5 milljarða króna, og kaupa eigin bréf fyrir að minnsta kosti 4,3 milljarða króna á komandi ári. Gangi þessi áform eftir mun Arion banki vera búinn að skila hluthöfum sínum 58,3 milljörðum króna frá byrjun síðasta árs. Bankinn hefur áform um að greiða um 30 milljarða króna ofan á það til hluthafa í nánustu framtíð þannig að heildar útgreiðslur nemi allt að 88 milljörðum króna.
Bankaráð Landsbankans ætlar að leggja til við aðalfund að greiddur verði út 14,4 milljarðar króna í arð vegna ársins 2021. Bankaráð er jafnframt með til skoðunar að leggja til að greiddur verði út sérstakur arður á árinu 2022. Ekki er tilgreint hversu há sú greiðsla gæti orðið. Þessi upphæð fer nær öll í ríkissjóð.
Bónusarnir snúa aftur
Allir bankastjórar stóru bankanna fengu hærri greiðslur frá atvinnurekanda sínum í fyrra en á árinu 2020. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, var með 69,8 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóð í fyrra, eða 5,8 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Arion banki hefur einn stóru bankanna innleitt kaupauka- og kaupréttarkerfi sem umbunar starfsfólki umtalsvert.
Kaupaukakerfið gengur meðal annars þannig fyrir sig að ef bankinn nær því markmiði að vera með meiri arðsemi en helstu samkeppnisaðilar sínar þá fá stjórnendur og það starfsfólk sem hefur hvað mest áhrif á tekjur og kostnað bankans allt að 25 prósent af föstum árslaunum í kaupaukagreiðslu, en í formi hlutabréfa í bankanum sem verða ekki laus til ráðstöfunar fyrr en að þremur árum liðnum. Í tilfelli Benedikts þýðir það kaupauka upp á 17,5 milljónir króna en hann var með 69,8 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóð á síðasta ári. Samkvæmt kaupréttaráætlun Arion banka geta allir fastráðnir starfsmenn keypt hlutabréf í bankanum fyrir 1,5 milljón króna einu sinni ári í fimm ár. Þau kaup fara fram á genginu 95,5 krónur, en markaðsvirði Arion banka er 98 prósent yfir því gengi í dag. Það þýðir að bréfin sem starfsmaður kaupir á 1,5 milljónir króna eru þriggja milljón króna virði.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, fékk samtals 68,6 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóð í fyrra, eða 5,7 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Á árinu 2020 fékk hún 60,3 milljónir króna í laun eða um fimm milljónir króna á mánuði. Munurinn á launum milli ára skýrist af sérstakri 10,9 milljón króna greiðslu vegna yfirvinnu sem Birna fékk í tengslum við undirbúning hlutafjárútboðs og skráningar Íslandsbanka á markað í fyrrasumar.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, fékk 54,4 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóðs á síðasta ári, eða rúmlega 4,5 milljónir króna á mánuði.
Fjölgar hjá Arion en fækkar hjá Íslandsbanka
Landsbankinn er að nánast öllu leyti í eigu íslenska ríkisins þótt nokkur fjöldi starfsmanna eigi lítinn hlut. Arion banki hefur verið skráður á markað frá sumrinu 2018. Fjöldi hluthafa hans óx úr 7.400 í 11.300 í fyrra, eða um 53 prósent. Hlutabréfaverð í bankanum tvöfaldaðist í fyrra.
Framundan er frekari einkavæðing á bankakerfinu
Ríkisstjórnin ætlar að selja eftirstandandi 65 prósent eignarhlut sinn í Íslandsbanka að fullu á næstu tveimur árum. Til stendur að selja um helming útistandandi hlutar ríkisins í sumar og ríkið reiknar með að fá um 75 milljarða króna fyrir hann, samkvæmt því sem fram kom í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs. Það sem eftir stæði yrði svo selt 2023 ef markaðsaðstæður yrðu ákjósanlegar.
Í greinargerð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um frekari sölu á Íslandsbanka sem birtist á vef stjórnarráðsins í gær kom fram að hann Bankasýsla ríkisins teldi skynsamlegast að næsta skref í sölu Íslandsbanka væri með útboði á hlutabréfamarkaði, þar sem hæfir fagfjárfestar fengju möguleika á að kaupa hluti í bankanum á afslætti. Bjarni hefur samþykkt tillöguna.
Samkvæmt lögum verða fjárfestar sem hyggjast fara með virkan eignarhlut í banka að standast hæfismat sem byggist á ítarlegri greiningu og gagnaöflun. Þeir þurfa að hafa gott orðspor og búa við sterka fjárhagsstöðu, en auk þess ætti eignarhaldið ekki að torvelda eftirliti eða leiða til peningaþvættis eða aðra ólöglega starfsemi.
Heimild er til staðar í fjárlögum til að selja allt að 30 prósent í Landsbankanum líka. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar náð saman um að ekki verið hafist handa við þá sölu fyrr en að búið verður að selja Íslandsbanka.