Hæstiréttur, dómstólaráð og Lögmannafélag Íslands telja sig ekki bundin af jafnréttislögum þegar kemur að því að skipa fulltrúa í nefnd sem fjallar um hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Þau telja að ákvæði um nefndina í lögum um dómstóla gangi framar jafnréttislögunum og eftir bréfaskriftir ákvað dómsmálaráðuneytið árið 2010 að láta undan og skipa þá karla í nefndina sem höfðu verið tilnefndir til að byrja með.
Þetta kemur fram í bréfi dómsmálaráðuneytisins frá árinu 2010 sem Kjarninn hefur undir höndum, og lesa má neðst í fréttinni. Í fimmtándu grein jafnréttislaganna er kveðið á um að hlutfall hvors kyns fyrir sig skuli ekki vera minna en 40 prósent í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera, þegar fulltrúarnir eru fleiri en þrír.
Eins og Kastljós hefur fjallað um í gær og á vef RÚV í dag sitja aðeins karlar í þessari nefnd, sem ákvað á dögunum að Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður væri hæfastur þriggja umsækjenda til að gegna embætti hæstaréttardómara. Ingveldur Einarsdóttir og Davíð Þór Björgvinsson sóttu einnig um embættið.
Hvernig kom það til að eingöngu karlar eru í nefndinni?
Breytingar voru gerðar á lögum um dómstóla árið 2010 og kveðið á um skipan nefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara. Fimm einstaklingar skulu vera í nefndinni og skipar Hæstiréttur Íslands tvo þeirra og Lögmannafélagið og dómstólaráð einn fulltrúa hvort. Fimmti einstaklingurinn er kosinn af Alþingi. Samkvæmt breyttum lögum er ráðherra bundinn af áliti nefndarinnar þegar kemur að skipan dómara á Íslandi, og ef ráðherra vill skipa einhvern sem nefndin telur ekki hæfastan þá verður að fá samþykki Alþingis. Þessar breytingar voru gerðar til þess að efla sjálfstæði dómstóla gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins.
Þegar breytingarnar voru gerðar óskaði dómsmálaráðuneytið eftir tilnefningum frá Hæstarétti, Lögmannafélaginu og dómstólaráði. Þegar ljóst var að nefndin myndi ekki uppfylla ákvæði jafnréttislaga óskaði ráðuneytið eftir því að tilnefnt yrði á nýjan leik, og þá bæði karl og konu. Eftir talsverðar bréfaskriftir, að minnsta kosti í einhverjum tilvikum, óskaði ráðuneytið eftir því að „tilnefningaraðilar létu í ljós afstöðu sína til þess hvernig tilnefningar þeirra samrýmdust ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.“ Skýringarnar bárust frá öllum þremur „og var meginafstaða þeirra að þeir væru óbundnir af ákvæðum 15. gr. jafnréttislaga.“
Hæstiréttur taldi að vegna þess að ráðherra væri bundinn af áliti dómnefndarinnar væri ekki rétt að „tilnefna fleiri til setu í nefndinni en skipa á samkvæmt tilnefningu réttarins.“ Þar sem ráðherra sé bundinn af dómnefndinni víki lagaákvæði um nefndina lagaákvæðum um jafna stöðu karla og kvenna til hliðar.
Dómstólaráð sagðist ekki telja heimilt af ráðuneytinu „að takmarka rétt þess á tilnefningu í nefnd“ og því verði „hin almennu lög“ um jafnrétti að víkja gagnvart því. Ef jafnréttislögin hefðu forgang „kynnu tilnefningaraðilum að vera settar enn þrengri skorður við endurtilnefningar í nefndina en miðað er við ef samsetning nefndarinnar væri á þeim tíma þannig að kynjahlutfalli laga nr. 10/2008 væri hætta búin.“
Lögmannafélagið taldi einnig að ráðherra væri bundinn af „vali þeirra aðila sem tilnefna eiga fulltrúa í nefndina.“ Ákvæðið kveði skýrt á um að skyldur Lögmannafélagsins stæðu eingöngu til þess að tilnefna einn aðal- og einn varamann, en ekki hóp einstaklinga. Lagaákvæðið um nefndina séu sérlög og samkvæmt gildandi lögskýringarsjónarmiðum gangi þau framar almennum lögum, þar með talið jafnréttislögum. Það að fara eftir óskum ráðuneytisins um að skipa konu myndi ganga gegn inntaki laganna og rýri valdið sem tilnefningaraðilum sé fengið.
Ráðuneytið lét undan
Dómsmálaráðuneytið lét undan og skipaði þá fulltrúa sem Hæstiréttur, Lögmannafélagið og dómstólaráð vildu skipa til að byrja með. „Er það niðurstaða ráðuneytisins að skipa nú þegar þá fulltrúa sem tilnefndir hafa verið í nefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um dómaraembætti,“ segir í niðurlagi bréfsins frá dómsmálaráðuneytinsu.
„Þar sem fyrir liggja eindregin sjónarmið Hæstaréttar, Dómstólaráðs og Lögmannafélags Íslands svo sem að ofan greinir hefur ráðuneytið ákveðið að skoða hvort rétt sé að breyta ákværðum dómstólalaga sem kveða á um hvernig tilnefnt er í nefndina með hliðsjón af ákvæðum og markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.“
Í upphafi voru skipaðir í nefndina þeir Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari og Stefán Már Stefánsson fyrrverandi prófessor af Hæstarétti, Allan Vagn Magnússon héraðsdómari af dómstólaráði og Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður af Lögmannafélaginu. Alþingi kaus svo Pál Þórhallsson, og valdi því líka karl til setu í nefndinni. Nú hefur Símon Sigvaldason héraðsdómari tekið við af Allani Vagni.
Hins vegar völdu allir fimm aðilar konur sem varamenn í dómnefndinni. Það voru þær Ingibjörg Benediktsdóttir hæstaréttardómari, Kristín Benediktsdóttir lektor, Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi ráðherra, Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari og Guðrún Björk Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður.