Ungt fólk vill taka á móti fleiri flóttamönnum frá Sýrlandi en eldra fólk, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru meira á móti móttöku fleiri en 50 flóttamönnum en þeir sem styðja hana ekki, íbúar á höfuðborgarsvæðinu vilja taka á móti fleiri flóttamönnum en þeir sem búa á landsbyggðinni og launalægstu Íslendingarnir eru þeir sem eru andsnúnastir því að fleiri flóttamenn komi til Íslands. Rúmur helmingur stuðningsmanna Framsóknarflokksins vill taka við engum eða færri en 50 flóttamönnum og tveir af hverjum þremur þeirra vilja taka við færri en 150 slíkum. Annar hver kjósandi Bjartrar framtíðar vill hins vegar taka við fleiri en þúsund.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun MMR á því hversu mörgum flóttamönnum frá Sýrlandi Íslendingar telji að við eigum að taka á móti á næstu tólf mánuðum.
Líkt og greint var frá fyrr í dag voru 88,5 prósent Íslendinga þeirrar skoðunar að Ísland ætti að taka á móti einhverjum fjölda flóttamanna frá Sýrlandi. Það þýðir að 11,5 prósent landsmanna eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki að taka við neinum. Í könnuninni voru svarmöguleikar gefnir upp á ákveðnu fjöldabili. Neðsta bilið var "engum" en það efsta "meira en 2000". Um fimmti hver svarandi (19,1 prósent) sagðist vera þeirrar skoðunar að Ísland eigi að taka við "allt að 50". Flestir svarendur nefndu þann möguleika. Til samaburðar svöruðu næstflestir því til að þeir vildu taka á móti "meira en 2000" eða 14,8 prósent.
Karlar neikvæðari en konur
MMR kannaði einnig hvernig stuðningur við aukna flóttamannamóttöku frá Sýrlandi skiptist á milli aldurshópa, kyns, landssvæða, tekjuhópa og stjórnmálaskoðana.
Samkvæmt niðurstöðum fyrirtækisins eru karlar neikvæðari gagnvart því að taka við fleiri flóttamönnum en konur. Þriðji hver karlmaður vill taka á móti 50 eða færri á meðan að 28 prósent kvenna eru á þeirri skoðun. Þá vilja 23 prósent kvenna taka á móti fleirum en eitt þúsund flóttamönnum en 20 prósent karla.
Þegar skoðaður er munurinn á vilja mismunandi aldurshópa til að taka við fleiri sýrlenskum flóttamönnum kemur í ljós að hann er mikill. Því eldra sem fólk er því færri flóttamönnum vill það taka við. Það segir þó ekki alla söguna því að hlutfall þeirra sem vilja ekki taka við neinum flóttamönnum er lægst í aldurshópnum 68 ára og eldri. Flestir í þeim aldurshópi vilja hins vegar taka á móti 50 flóttamönnum eða færri , eða 35 prósent, og einungis fimm prósent hans vilja taka við fleiri en eitt þúsund flóttamönnum. Í aldurshópnum 18-29 ára vilja 21 prósent taka við 50 flóttamönnum eða færra en 35 prósent fleiri en eitt þúsund.
Tekjulægsti hópurinn mest á móti og vill taka á móti flestum
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru mun viljugri til að taka á móti flóttamönnum en þeir sem búa á landsbyggðinni. Alls segjast 27 prósent þeirra vilja taka á móti engum eða allt að 50 flóttamönnum á meðan að það hlutfall er 36 prósent hjá landsbyggðinni. Þá vilja 24 prósent höfuðborgarbúa taka við eitt þúsund eða fleiri flóttamönnum næsta árið á meðan að það hlutfall er 16 prósent hjá landsbyggðarfólki.
Það kemur kannski lítið á óvart að tekjulægsti hópurinn, þeir sem eru með undir 250 þúsund krónur í tekjur á mánuði, eru andsnúnastir því að taka á móti fleiri en 50 flóttamönnum. Alls segjast 40 prósent þeirra ekki vilja taka við fleiri en 50 og 27 prósent hópsins vilja ekki taka við neinum. Það vekur hins vegar athygli að sami tekjuhópur er viljugri en aðrir til að taka við eitt þúsund flóttamönnum eða fleiri, en 31 prósent hans segjast vera þeirrar skoðunar. Samkvæmt könnuninni eru tækjulægri (þeir sem eru með 600 þúsund á mánuði og undir) viljugri til að taka á móti þúsund flóttamönnum eða fleiri en þeir tekjuhærri (með meira en 600 þúsun krónur á mánuði).
Tveir af hverjum þremur Framsóknarmönnum vilja undir 150 flóttamenn
Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru miklu líklegri til að vera fylgjandi miklum takmörkunum á mótttöku flóttamanna en þeir sem styðja hana ekki. Þannig segjast 42 prósent stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar vilja annað hvort enga (15 prósent) eða færri en 50 flóttamenn (27 prósent) hingað til lands. Einungis tíu prósent þeirra vilja taka á móti fleiri en eitt þúsund flóttamönnum á meðan að 28 prósent þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina vilja það. Af þeim hópi vilja raunar 21 prósent taka á móti fleirum en 2000.
Stuðningsmenn Framsóknarflokksins eru langneikvæðastir í garð mótttöku flóttamanna. Alls vilja 18 prósent þeirra ekki taka við neinum, 27 prósent þeirra vilja ekki taka við fleiri en 50 og 14 prósent þeirra vilja ekki taka við fleiri en 150. Því vilja tveir af hverjum þremur stuðningsmönnum Framsóknarflokksins ekki taka við fleiri en 150 flóttamönnum frá Sýrlandi.
Þeir sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn eru einnig nokkuð neikvæðir í garð þess að taka við miklum fjölda flóttamanna frá Sýrlandi. Alls segjast 59 prósent þeirra vilja taka við færri en 150 flóttamönnum.
Stuðningsmenn Bjartrar framtíðar eru þeir sem vilja taka við sem flestum flóttamönnum. Alls vilja 36 prósent þeirra taka við meira en 2000 flóttamönnum og 17 prósent þeirra vilja taka við á milli eitt og tvö þúsund. Þó er vert að hafa í huga að Björt framtíð mælist langminnst þeirra stjórnmálaafla sem eiga fulltrúa á þingi með um fjögur prósent fylgi um þessar mundir. Því eru stuðningsmenn flokksins mun færri en annarra flokka.