Tveir menn hafa fengið réttarvernd gegn ákæru í hrunmálum þar sem upplýsingar benda til þess að þeir hafi brotið af sér, gegn því að þeir veiti saksóknara upplýsingar sem styrki málatilbúnað hans. Annar mannanna, Rósant Már Torfason, hlaut slíka réttarvernd árið 2009. Hinn, Magnús Pálmi Örnólfsson, hlaut réttarverndina með bréfi frá ríkissaksóknara í febrúar 2014. Hann hafði áður haft réttarstöðu grunaðs manns í Stím-málinu svokallaða. Ákæra var gefin út í Stím-málinu 10. febrúar 2014, strax í kjölfar þess að Magnús Pálmi hlaut réttarvernd.
Tveir uppljóstrarar samið sig frá ákæru
Í lögum um embætti sérstaks saksóknara frá árinu 2008 er að finna svokallað uppljóstraraákvæði. Þar segir að skilyrði fyrir veitingu réttarverndar séu að „talið sé líklegt að þessar upplýsingar eða gögn geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Þá er það skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar að rökstuddur grunur sé um að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti“.
Í svari Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara kemur fram að tveir einstaklingar hafi fengið réttarvernd og sleppi þar af leiðandi við ákæru í málum þar sem upplýsingar benda til að þeir hafi sjálfir brotið af sér
Ekki hefur áður verið upplýst opinberlega um hversu margir hafi fengið vernd frá saksókn á grundvelli uppljóstraraákvæðisins. Kjarninn sendi fyrirspurn um málið til embættis ríkissaksóknara og embættis sérstaks saksóknara. Í svari Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara kemur fram að tveir einstaklingar hafi fengið réttarvernd og sleppi þar af leiðandi við ákæru í málum þar sem upplýsingar benda til að þeir hafi sjálfir brotið af sér, vegna þess að þeir hafa haft frumkvæði að því að bjóða eða láta saksóknara hafa upplýsingar.
Aurum og Stím
Mennirnir tveir sem hafa fengið þessa réttarvernd heita Rósant Már Torfason og Magnús Pálmi Örnólfsson. Þeir störfuðu báðir hjá Glitni fyrir hrun. Rósant var meðal annars fjármálastjóri Glitnis síðustu mánuðina áður en bankinn fór á hausinn. Hann fékk upphaflega réttarvernd í Aurum-málinu svokallaða árið 2009 en hefur einnig tengst fleiri málum sem hafa verið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Aurum-málið snýst um sex milljarða króna lán Glitnis til félagsins FS38 ehf. sem notað var til að kaupa eignarhlut Fons í félaginu Aurum. Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson voru ákærðir í málinu í desember 2012. Þeir voru allir sýknaðir í héraðsdómi í júní síðastliðnum. Þeirri niðurstöðu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Magnús Pálmi var forstöðumaður gjaldeyrismiðlunar Glitnis fyrir bankahrun. Hann hafði stöðu grunaðs manns í rannsókn sérstaks saksóknara á Stím-málinu svokallaða, sem snýst um tugmilljarða króna lán Glitnis til eignarhaldsfélagsins Stím svo félagið gæti keypt hlutabréf í bankanum og FL Group sem bankinn hélt sjálfur á.
Lárus var forstjóri Glitnis, Jóhannes var framkvæmdastjóri markaðsvipskipta bankans og Þorvaldur Lúðvík var forstjóri Saga Capital. Áður en ákæran var gefnin út var Magnúsi Pálma veitt réttarvernd
Þann 10. febrúar 2014 var gefin út ákæra í málinu á hendur Lárusi Welding, Jóhannesi Baldurssyni og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni fyrir umboðssvik. Lárus var forstjóri Glitnis, Jóhannes var framkvæmdastjóri markaðsvipskipta bankans og Þorvaldur Lúðvík var forstjóri Saga Capital. Áður en ákæran var gefnin út var Magnúsi Pálma veitt réttarvernd.
Málefni mannanna tveggja komust í fréttirnar nýverið þegar verjendur í Stím-málinu fóru fram á að sérstakur saksóknari myndi afhenda gögn um uppljóstraranna. Þeir vildu fá afrit af bréfaskriftum sérstaks saksóknara og ríkissaksóknara um niðurfellingu á sakargiftum Rósants Más og Magnúsar Pálma. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði beiðninni í síðustu viku.